Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hugrænt misræmi og fermingar

Mynd af fermingu

Hugrænt misræmi er nafn sálfræðinnar yfir þá tilhneigingu manna að meðtaka ekki mótrök ef þeir hafa á tilfinningunni að þau stríði gegn hagsmunum þeirra. Það geta verið efnislegir hagsmunir –- eins og prestur sem skilur mótrökin gegn „fagnaðarerindinu“ en fylgir þeim ekki því þá þyrfti hann annað hvort að hætta að vera prestur og lækka í tekjum eða vera hræsnari með því að boða eitthvað sem hann tryði ekki í alvörunni. Hagsmunirnir geta líka verið félagslegir, eins og þegar maður meðtekur ekki mótrökin vegna þess að þá þyrfti maður að snúa baki við vinahópnum sínum, til dæmis vegna þess að maður lifi og hrærist í trúfélagi. Svo geta hagsmunirnir verið tilfinningalegir, eins og þegar amma manns er svo trúuð og manni þykir svo vænt um hana að maður meðtekur ekki mótrökin því manni þykir svo vænt um ömmu gömlu. Og hagsmunirnir geta verið af ýmsu fleira tæi.

Hugrænt misræmi á sér þá þróunarsálfræðilegu skýringu að við leitumst við að gæta hagsmuna okkar, eins og öryggis, vellíðunar eða hópsins sem við tilheyrum. Og sem slík er hún eðlilegt fyrirbæri. En eins og fleiri eðlileg fyrirbæri, er hægt að misnota hana. Næg dæmi eru til um slíkt, og til eru hreyfingar sem misnota hana grimmt og kerfisbundið. Hér er ég ekki bara að tala um trúfélög, heldur líka íþróttafélög, stjórnmálahreyfingar og fleiri og fleiri. (Lesið meira um hugrænt misræmi hér.)

Ég varð fyrir hugrænu misræmi þegar ég var á fjórtánda ári. Allir (held ég) í bekknum mínum fóru í fermingarfræðslu og mér datt ekki annað í hug en að gera eins. Nálægt miðjum vetri fór ég þó að fá bakþanka. Ég sagði prestinum, Jakobi Hjálmarssyni í Dómkirkjunni, frá vangaveltum mínum, að ég væri ekki viss um að ég gæti gefið fermingarheiti með góðri samvisku. Það þarf að koma fram að hann hvatti mig hvorki né latti, sagði bara að ég yrði að ráða því sjálfur hvort ég vildi fermast eða ekki.

Á útleið, á tröppum safnaðarheimilisins, kyngdi ég bakþönkunum og efasemdunum og ákvað að ég skyldi kýla á þetta og láta fermast. Forsendan var að vera kristinn, og vegna þess að ég vildi ekki vera hræsnari ákvað ég bara að vera kristinn. Vék efasemdunum bara til hliðar og fór út í djúp andleg hjólför sem ég var fastur í næstu árin.

Ég sá löngu seinna að hugrænt misræmi var farvegurinn sem þessi ákvörðun hafði farið um. Innst inni langaði mig auðvitað í fermingargjafir, auk þess sem ég hélt að það hefði neikvæðar félagslegar afleiðingar að gera öðruvísi en hinir. Þannig að ég lét bara freistast.

Ég held að allir sem hafa verið unglingar skilji hvað ég er að tala um. Ég tel mig hvorki vera betri né verri en annað fólk. En ég er mennskur, og unglingar eru mennskir. Og þeir láta freistast. Og þótt erfitt sé að mæla það, þá vitum við öll að löngunin í fermingargjafir er drifkraftur sem lætur stóran hluta fermingarbarna fermast. Fyrir það þýðir ekki að þræta.

Í Námsskrá fermingarstarfanna (María Ágústsdóttir, Reykjavík 1999) stendur skrifað (s. 20):

Félagshópurinn hefur æ meira áhrifavald, en foreldrar minna, þegar ungmennin verða óháðari foreldrum sínum tilfinningalega. Áhrif félagshópsins eru hvað sterkust í 8. og 9. bekk. Þá staðreynd er mikilvægt að nýta sér í fermingarstörfunum.

Ætli ég sé einn um að draga augað í pung yfir því sem skín í þarna?

Ég hef stundum sagt við presta að mér finnist rangt að ferma börn sem eru bara 13 ára. Þá hef ég stundum vitnað í landslög, sem kveða skýrt á um að það sé bannað. Prestarnir hafa stundum sagt að það séu nú úrelt lög, unglingar nú til dags séu nú svo þroskaðir og maður ætti nú ekki að vanmeta unglinga. Þeir séu svo skýrir og flottir og fínir. Já, unglingar eru vissulega skýrir og flottir og fínir -– en þeir eru engu að síður unglingar. Og allir sem hafa verið unglingar (t.d. María Ágústsdóttir) vita hvað hópþrýstingur er og hvað freistingar eru. Og það sjá líka flestir að það er ljótt að nota freistingar og hugrænt misræmi til þess að ginna börn til trúarathafna.


Upphafleg mynd frá Pål Berge og birt með cc-leyfi

Vésteinn Valgarðsson 22.03.2016
Flokkað undir: ( Fermingar )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?