Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fermingarfræðsla á fölskum forsendum

Mynd af fermingu

Fyrir skömmu var ríkiskirkjupresturinn Hildur Eir Bolladóttir í útvarpinu og ræddi meðal annars um fermingarfræðslu. Um hana sagði Hildur:

Við erum bara að kenna lífsleikni og siðfræði.

Hlutlaus fræðsla?

Kirkjunnar menn tala oft um fermingarfræðslu sem hlutlausa fræðslu um lífið og tilveruna. Væntanlega er ástæðan sú að þau vita að fólk lítur fræðslu jákvæðari augum en trúarinnrætingu. Kannski má rekja þá þróun til borgaralegra ferminga sem verða sífellt vinsælli valkostur við trúarlegar fermingar. Kennsla sem þar fer fram er nefnilega með þeim hætti sem Hildur lýsti í útvarpinu.

Rauði þráðurinn

Sama Hildur var spurð í fermingarblaði Morgunblaðsins hver rauði þráðurinn væri í fermingarfræðslunni hennar:

Rauði þráðurinn er sá að börnin viti að Jesús elskar þau eins og þau eru frá skaparans hendi, en ekki fyrir það sem þau fá áorkað í lífinu. Og, að hann þekkir allar mannlegar tilfinningar, þannig að það er ekkert sem getur skilið þau frá honum, hann mun aldrei afneita þeim.

Þetta er ansi merkilegt í ljósi fyrri ummæla hennar.

Innræting

Það að innræta börnum að Jesús elski þau og muni aldrei afneita er hvorki lífsleikni né siðfræði heldur trúboð.

Fermingarfræðsla ríkiskirkjunnar er nefnilega meira og minna trúboð. Það er yfirlýstur tilgangur fermingarinnar eins og segir í “Fræðslustefnu" ríkiskirkjunnar:

Fermingarstarfinu er ætlað að styrkja trúarvitund barnanna, kenna þeim grundvallaratriði kristinnar trúar, virkja þau í starfi kirkjunnar og vekja með þeim áhuga og jákvæða sýn á starf og tilvist kirkjunnar.

Að láta eins og þetta sé hlutlaus fræðsla til að fjölga fermingarbörnum er óheiðarlegt.

Ritstjórn 16.03.2016
Flokkað undir: ( Fermingar )

Viðbrögð


Adda Guðrún - 16/03/16 12:28 #

Ágætt að þetta kemur fram! Kirkjunnar menn eru orðnir dauðhræddir við úrsagnir fólks og vilja einmitt nota svona "siðfræðsluhugtak" um fermingarfræðsluna af því að trúboð hljómar svo illa! En þetta heitir að koma fram undir fölskum formerkjum - nokkuð týpískt hjá kirkjunni!


Jón Valur Jensson - 16/03/16 16:26 #

Þetta er vitaskuld kristin "lífsleikni" (þótt lífið sé reyndar enginn dans á rósum) og kristin siðfræði, ef vel á að vera.

Það getur enginn kvartað yfir kristnu trúboði í fermingarfræðslu, og slettirekuháttur ykkar er kominn á alvarlegt stig, ef þið teljið ykkur þess umkomna að amast við kristnu trúboði á vegum kristinnar kirkju!

Hvað þessi ofurlíberalprestur kann að hafa látið út úr sér, getur svo aldrei skuldbundið alla Þjóðkirkjuna, eins og augljóst er af ýmsum fráleitum ummælum og gjörðum hennar á síðustu misserum.

PS. En aumir eruð þið að halda uppi ykkar vansæmandi árásum á Móður Teresu á Moggabloggi ykkar og hvorki hægt að svara þeim þar né í tilvísaðri grein þar! Því skrifaði ég þessa grein í nótt: Móðir Teresa starfaði með Guði í þágu mannkyns - en Vantrú á Íslandi heldur í þriðja sinn uppi níðákærum á hana!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/03/16 16:56 #

ef þið teljið ykkur þess umkomna að amast við kristnu trúboði á vegum kristinnar kirkju!

Þú ert að misskilja. Við búumst ekki við öðru en að kristin kirkja stundi kristið trúboð í kirkjum sínum og erum ekki að amast við því.

Þessi grein fjallar ekki um það heldur hvernig kirkjan sjálf er farin að dylja þetta trúboð sitt með því að afneita því og tala um lífsleikni og siðfræði. Það er óheiðarleg framganga og sjálfsagt að vekja athygli á því.

Ef þú vilt gagnrýna okkur, Jón Valur, hvernig væri þá að gagnrýna það sem við raunverulega höldum fram, í stað þess að reisa fuglahræður?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/03/16 23:28 #

aumir eruð þið að halda uppi ykkar vansæmandi árásum á Móður Teresu á Moggabloggi ykkar og hvorki hægt að svara þeim

Fyrirgefðu Jón Valur, ekki vera svona mikill hræsnari. Ég get t.d. hvorki gert athugasemdir á bloggsíðu þinni né hjá kristilega stjórnmálaflokknum sem þú ert í forsvari fyrir. Sjálfur tjáðir þú þig miklu meira en nóg um Teresu hér á Vantrú fyrir ekki svo löngu, þarft ekkert að segja meira enda hefur ekkert gáfulegt um málið fram að færa.


Jón Valur Jensson - 17/03/16 21:05 #

[ athugasemd færð á spjallborð ]

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?