Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Veiðisögur um kirkjusókn

Mynd af tómri kirkju

Fyrir nokkrum árum fór ég öðru hvoru í messur, oftast í Dómkirkjunni eða Hallgrímskirkju, til þess að sjá með eigin augum hvernig kirkjusóknin liti út. Í fámennustu messunni voru tólf manns* (það var í Dómkirkjunni) en stundum var ég, satt að segja, hissa á því hvað voru margir. Oft skipti fólk tugum, stundum voru meira en hundrað. Sem lítur reyndar ekki út eins og mikill fjöldi inni í gímaldinu Hallgrímskirkju. Og lítur ennþá minni út skoðaður sem hlutfall af þeim þúsundum sem búa í sókninni.

Allir Íslendingar vita að kirkjusókn er hverfandi lítil. Þess vegna er það hlægilegt þegar prestar reyna að halda öðru fram -- og eina ástæðan fyrir því að þeir geta haldið því fram er auðvitað að það eru svo fáir í kirkju að fáir geta mótmælt með því að vísa í eigin reynslu. Einu sinni sá ég því haldið fram að yfir 50.000 kirkjugestir hefðu komið í Hallgrímskirkju á einu ári. Það er lygi. Lóðrétt lygi. Gefur í skyn að tugþúsundir komi í messu, þegar sannleikurinn er sá að fjöldi manns mætir í jarðarfarir, brúðkaup, skírnir og fermingar vegna tenglsa við þá sem er verið að jarða, gifta, skíra og ferma en ekki af sínum eigin trúarlegu ástæðum. Fjöldi mætir á tónleika til að hlusta á tónlist. Já, og svo mætir fjöldi ferðamanna til þess að sjá útsýnið í turninum. Það er vísvituð blekking að kalla þetta allt "kirkjusókn".

Svo var presturinn sem messaði í lítilli kirkju úti á landi fyrir nokkrum árum, í einni minnstu sókn landsins. Þar bjuggu, ef ég man rétt, tíu manns í sókninni, en í messuna mættu um hundrað. Presturinn spurði hlæjandi hvort það mætti ekki kalla það þúsund prósent kirkjusókn. Ég spyr á móti hlæjandi hvort þúsund prósent hafi þá ekki örugglega verið færð inn í töflureikniforrit til að reikna út meðaltalskirkjusókn á Íslandi.

Svo þekki ég konu sem sá sýnir einu sinni í gamalli kirkju úti á landi. Hún ætlaði að skoða kirkjuna en fannst hún vera krökk af fólki, hreinlega troðfull út úr dyrum. Aðrir sáu engan. Nú ætla ég ekkert að fara að velta fyrir mér hvort þetta hafi verið álfar, draugar, hugarburður eða eitthvað annað -- en getur verið að prestar eða kirkjuverðir sjái svona fólk, sem enginn annar sér, og telji það með í kirkjusókn? Ég bara spyr. Því aðrir sjá það ekki.

Það er alla vega ástæða til að taka því með miklum fyrirvara þegar sálnaveiðarar segja stórkarlalegar veiðisögur af sjálfum sér og einhverjum kirkjusóknarlegum stórlúðum sem þeir þykjast hafa landað. Við vitum betur.


* Rétt er að taka fram að hér eru bara kirkjugestir taldir, ekki prestur, kór, meðhjálpari eða organisti.

Upprunaleg mynd fengin hjá Jack Torcello og birt með cc-leyfi.

Vésteinn Valgarðsson 13.01.2016
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Freyr - 13/01/16 13:57 #

Þessi pistill er engu skárri en pistlarnir sem prestarnir koma með, bara með öfug formerki. Ég vil fá markvissar tölur fengnar frá hlutlausum aðila með aðferðafræði sem tryggir tölur sem ekki er búið að eiga við á einn eða annan hátt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/01/16 14:04 #

Ég vil fá markvissar tölur fengnar frá hlutlausum aðila með aðferðafræði sem tryggir tölur sem ekki er búið að eiga við á einn eða annan hátt.

Uh, ok. Það væri frábært. Ætlar þú að redda þeim?

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?