Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fiskroðið og fundamentalistarnir

Mynd af steiktum fisk

Stundum þegar trúað fólk langar að vera svolítið leiðinlegt við trúleysingja gerir það sér að leik að eigna trúleysingjum einhverja eiginleika trúaðra. Ég hugsa að flestir sem fylgst hafa með trúmálaumræðunni á Íslandi undanfarin ár hafi séð algengustu útgáfuna af þessu, sem er sú að fullyrða að trúleysingjar séu trúaðir. Önnur útfærsla er sú að segja trúleysingja aðhyllast bókstafstúlkun á Biblíunni:

En það eru ekki allir sem vilja gera þetta. Tveir hópar andæfa þessari nálgun. Báðir hafa bókstafstrúarnálgun við Biblíuna:

fundamentalískir vantrúarmenn fundamentalískir trúmenn Það einkennir slíka nálgun við Biblíuna að vilja líta svo á að það sé bara til ein rétt túlkun á textum. Og að hún sé augljós. Það einkennir þessa nálgun að vilja velja og hafna, snyrta burt óheppilegu textana (eða kannski þá heppilegu eftir því hvernig á það er litið) en vilja halda öðrum á lofti. Slíta þá úr samhengi og hafa uppi stóra yfirlýsingar: „Svona segir Biblían.“ #

Þetta er úr predikun eftir vefdól... vefprest ríkiskirkjunnar, Árna Svan Daníelsson. En vantrúarfólk hefur auðvitað ekki bókstafstrúarnálgun við Biblíuna.

Vantrúarfólk veit nefnilega að Biblían er bara eins og hver önnur skáldsaga og að hún hefur þann eiginleika að nánast hver sem er getur rökstutt sínar skoðanir og sína fordóma með því að vísa í rétta staði úr Biblíunni. Þess vegna er Biblían svo lélegur siðagrunnur fyrir samfélög.

Árni Svanur hlýtur að vita þetta, maðurinn er með meistarapróf í guðfræði og hefur tekið virkan þátt í eintali ríkiskirkjunnar um trúmál á undanförnum árum. En Árni Svanur virðist vera að fiska í gruggugu vatni með roðdregnu Biblíunni sinni:

Vegna þess að hér er gefið í skyn að samhengið skipti ekki máli. Vegna þess að hér er ekki tekið tillit til þess hvað Biblían er og hvernig hún varð til. Vegna þess að hér verður til hætta á misnotkun Biblíunnar. Til dæmis til að berja á fólki sem á undir högg að sækja í samfélaginu.

Fólkið sem „misnotar“ Biblíuna til að berja á fólki er sömu trúar og Árni Svanur. Það stendur við hlið hans í baráttunni fyrir barnatrúboði í opinberum leik- og grunnskólum. Það berst með Árna Svani gegn aðskilnaði ríkis og kirkju. Sumt af þessu fólki eru kollegar hans í prestastétt og þar til fyrir stuttu var einn úr þessum hópi yfirmaður kirkjunnar hans.

Það er hinsvegar mjög sjaldgæft að trúleysingjar noti Biblíuna til þess að berjast gegn mannréttindum.

Það er jákvætt að Árni Svanur skuli vera tilbúinn til þess að láta fordómapúka innan kirkjunnar heyra það. Næst þegar hann lætur vaða væri samt æskilegra að hann léti vera að sparka í hópa sem koma innanríkispólitík ríkiskirkjunnar lítið við.


Mynd frá Allan Reys

Egill Óskarsson 11.06.2015
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Siðferði og trú )

Viðbrögð


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 11/06/15 11:27 #

Og ekki gleyma þeim sem nota biblíuna til að berja á samkynhneigðum..


caramba - 03/07/15 14:52 #

Trúleysinginn Noam Chomsky var leiðinlegur við Hitchens og Sam Harris á ráðstefnu í Toronto nýlega, kallaði þá "religious fanatics". Ekki að þeir gefi mikið fyrir Guð biblíunnar heldur hafa þeir komið sér upp öðrum guði, ríkinu. Það er misjafnt sem mennirnir trúa á en allir virðast þeir þó trúa á eitthvað.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?