Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Stofnfrumur og svikahrappar

Mynd af stofnfrumum

Stofnfrumurannsóknir hafa leitt í ljós að hægt er að endurnýja skemmda eða ónýta líkamsvefi. Frá vísindalegu sjónarmiði veita þessar rannsóknir von um að í framtíðinni verði stofnfrumumeðferðir notaðar til að meðhöndla ýmsa kvilla og sjúkdóma sem í dag eru ólæknanlegir. Rannsóknir eru ekki langt komnar og þessar stofnfrumumeðferðir ekki komnar á það stig að þær séu nothæfar nema í afmörkuðum tilvikum. Það hindrar þó ekki svikahrappa, því notagildi stofnfrumumeðferða fyrir fjárplógsstarfsemi er gríðarlegt.

Að þessu sögðu eru stofnfrumumeðferðir í sjálfu sér ekki húmbúkk. Það er hugsanlegt að hægt sé að nota stofnfrumur til að endurbyggja mænu lamaðra einstaklinga þannig að þeir fái kraft til að hreyfa sig. Það verður kannski hægt að nota þessa aðferð til að laga heilaskaða, hindra vöðvarýrnun, stöðva alzheimer, svo fátt eitt sé nefnt. Þetta eru möguleikar en er ekki orðið að veruleika.

Svikahrappar og svindlarar

Einn umfangsmesti stofnfrumusvikahrappurinn er doktor Geeta Shroff sem rekur stofnfrumumeðferðarheimili í Nýju-Delí í Indlandi.

Hún segir að meira en 90% af sjúklingum sem hafa leitað til hennar hafi náð bata. Vandamálið er að engin gögn styðja fullyrðingar hennar, einungis jákvæður vitnisburður frá aðilanum sem selur meðferðina.

Doktor Shroff er ekki eini stofnfrumumeðferðaraðilinn sem svindlar á fólki og stólar á vísindalegt ólæsi almennings. Það eru stofnfrumumeðferðarheimili út um allan heim.

Svindlararnir stóla á örvæntingu sjúklinga, lofa lækningu eða einhverskonar bata við öllum alvarlegum meinum og krefjast auðvitað himinhárra upphæða í þóknun fyrir meðferð sem mun að öllum líkindum ekki virka. Enda eru dæmin um slíkt, hérlendis sem erlendis, þónokkur þar sem aðilar hafa greitt fúlgu fjár, í sumum tilfellum fleiri milljónir, fyrir meðferðir sem gerðu ekkert gagn. Þar spilar ábyrgðarleysi fjölmiðla inní, því þetta eru fréttirnir sem við fáum sjaldnast að heyra.

Skammarlega óábyrgir blaða- og fréttamenn

Umfjöllun sumra fjölmiðla er oft á köflum forkastanleg vegna þess að í flest öllum tilfellum er einungis látið duga að tilkynna að aðili með alvarlegan sjúkdóm sé á leiðinni til Indlands eða Kína í stofnfrumumeðferð. Í sumum tilvikum er röð af fréttum um sjúklinginn og mikið talað um hvað þetta mun breyta lífinu fyrir viðkomandi. Mikið er spilað með óhóflega bjartsýni, beinlínis óskhyggju, um hverju meðferðin muni áorka.

Það er skiljanlegt að fársjúkt fólk vilji prófa hvað sem er til að ná bata en raunveruleikinn getur verið grimmur, jafnvel þó sumir virðist taka þessu með léttúð. Þó stofnfrumumeðferðir byggi á hugmyndum sem geta orðið að veruleika eru rannsóknirnar einfaldlega of stutt komnar til að selja þetta sem lausn.

Það er ekkert talað um hina hliðina. Frétta- og lífstílsmiðlar fylgja þessum einstaklingum nánast uppí flugvél en hafa ekki fyrir því að taka á móti þeim þegar heim er komið. Aldrei hafa sjúklingar náð bata. Ekki einn. Það er stóra fréttin sem ekki er sögð og í þögninni um það liggur ábyrgð fjölmiðla. Fjölmiðlar spila með líf og fjárhag örvæntingafulls fólks með því að láta í veðri vaka að þessar meðferðir virki.

Ritstjórn 28.04.2015
Flokkað undir: ( Kjaftæðisvaktin )