Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Sautjándu aldar guðfræðingur?

Mynd af málverki af umbreytingu Jesú

Í lok síðasta árs kvartaði guðfræðiprófessorinn Pétur Pétursson undan því að Illugi Jökulsson hafi ekki fjallað á réttan hátt um biblíuna í tveimur þáttum á Rás1[1]. Samkvæmt Pétri fólst “lævís illkvittni” Illuga annars vegar í vali hans á textum biblíunnar og hins vegar “17. aldar ritskýringaraðferð". Það var lítið til í þeim ásökunum en auk þess vill svo heppilega til að Pétur predikaði nýlega og stundaði þar ritskýringu sem myndi sóma sér vel á 17. öld.

Textar þóknanlegir kirkjunni

Í þáttunum sem um ræðir fór Illugi yfir texta biblíunnar sem honum þykir áhugaverðir vegna þess að þeir eru undarlegir. Sem dæmi tók hann sögu af því þegar Jahve reynir (að því virðist upp úr þurru) að drepa Móses, en hann hættir eftir að kona Móse umsker son þeirra og snertir “fætur" (*hóst*) Móse með forhúð sonar þeirra.

Skiljanlega vilja þeir sem starfa hjá stofnunum sem byggjast á því að oflofa og dásama biblíuna ekki að vakin sé athygli á undarlegu og ljótu hlutum biblíunnar.

Þess vegna er ekki skrítið að Pétur vilji þagga niður í þessum röddum með þeim rökum að ríkinu sé samkæmt stjórnarskrá skylt að “styðja og vernda" Þjóðkirkjuna og því eigi svona textar ekki að vera lesnir í útvarpinu heldur eigi val á textum bara að vera í samræmi við “hefðir og akademísk vinnubrögð". Hefðin er væntanlega sú að velja ekki þá texta sem birta skuggahliðar biblíunnar.

Túlkun á textum

Ef túlkun Illuga er skoðuð, þá er erfitt að sjá að hann stundi mikla “17. aldar ritskýringu". Hann fylgir til dæmis hugmyndum fræðimanna varðandi höfunda rita biblíunnar (að höfundarnir séu ekki endilega þeir sem ritin eru eignuð) og trúir ekki þessum sögum í blindni, eins og tíðkaðist gjarnan á 17. öld.

Enda upplýsti Illugi að samantektir hans voru unnar “upp úr virðulegum fræðiritum eftir sprenglærða sagnfræðinga og stundum guðfræðinga, og flestallar bækur sem ég hef unnið upp úr hef ég fengið í Bóksölu stúdenta, og þær eru því vísast kenndar við guðfræðideild Háskóla Íslands”.

Dæmi um undarlega sögu

Ein af undarlegum sögum Nýja testamentisins er sagan af ummyndun Jesú. Í stuttu máli er sagan þannig að Jesús fer upp á fjall með lærisveinum sínum Pétri, Jóhannesi og Jakobi. Á fjallinu umbreytist Jesú, klæði hans verða skjannahvít og Móses og Elía birtast og byrja að rabba við Jesús. Því næst ávarpar guð hópinn og tilkynnir áheyrendum að Jesús sé vissulega sonur hans.

Þetta er helgisaga. Ef maður les þessa sögu “á forsendum gagnrýninna nútíma biblíurannsókna með sama hætti og tíðkast í bókmenntafræði og sagnfræði", eins og Pétur Pétursson segist vilja gera, er augljóst að þetta gerðist ekki. Þetta er ævintýraleg saga sem er bara til í riti sem er fullt af skáldskap og er eftir óþekktan höfund.

Í síðara Pétursbréfi minnist höfundurinn, sem segist vera Pétur, frá þessari sögu sinni:

Ekki fylgdum vér uppspunnum skröksögum, er vér kunngjörðum yður mátt og komu Drottins vors Jesú Krists, heldur vorum vér sjónarvottar að hátign hans. Því að hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð, þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á." Þessa raust heyrðum vér sjálfir, koma frá himni, þá er vér vorum með honum á fjallinu helga.

Gallinn við þessa frásögn er, eins og nánast allir fræðimenn fallast á, að höfundur síðara Pétursbréfs var ekki Pétur lærisveinn Jesú. Þetta er með öðrum orðum fölsun. Höfundurinn var að ljúga.

Viðurkenning á þessari fræðilegu niðurstöðu er svo útbreidd, að jafnvel í innganginum að bréfinu í nýjustu íslensku biblíuþýðingunni er það viðurkennt.

21. aldar túlkun?

Svona er ritskýring Péturs guðfræðiprófessors á öllu þessu:

Þetta endurtekur sig einnig þegar Jesús fer upp á fjallið til að biðjast fyrir og tekur með sér lærisveinana Pétur, Jakob og Jóhannes. Þeir sjá inn í himininn sem opnast og Jesús ummyndast þannig að himneskt ljós lýsir af honum og við hlið hans eru Móse og Elía. Þessi sýn fær svo mikið á lærisveinana að þeir gleyma henni aldrei. Pétur lýsir þessum atburði í bréfi sínu því til sönnunar að Jesús hafi ekki bara verið merkilegur lærifaðir og meistari heldur sonur Guðs, Messías, sá sem spámennirnir höfðu boðað að mundi koma í heiminn til að frelsa hann.

Guðfræðiprófessorinn virðist sem sagt halda að atburðurinn hafi verið raunverulegur að því leytingu til að lærisveinarnir sáu Móses og Elía í sýn (sáu allir þrír sömu sýnina?) og talar Pétur um að lærisveinarnir hafi aldrei gleymt þessari sýn og bendir á fölsunina í síðara Pétursbréfi sem dæmi um það hversu eftirminnileg sýnin var.

Pétur er ekkert einsdæmi innan ríkiskirkjunnar, sjálfur biskupinn, Agnes Sigurðardóttir, er einnig föst í svona 17. aldar túlkun:

Sennilega hefur einhver efast um sannleiksgildi sögunnar þegar Pétur postuli sagði frá reynslu sinni og tveggja lærisveina annarra þegar þeir fóru með Jesú upp á fjall. Því hann segir, eins og við heyrðum lesið áðan, í öðru bréfi sínu að hann hafi ekki notað uppspunnar skröksögur þegar hann kunngjörði fólki mátt Drottins, því hann hafi sjálfur verið sjónarvottur að hátign hans eins og hann orðar það.

Og að hverju varð Pétur sjónarvottur? Samkvæmt því sem við heyrðum einnig lesið áðan úr Matteusarguðspjalli þá tók Jesús þrjá lærisveina sína með sér upp á fjall. Sennilega hefur hann viljað komast í kyrrð til að ræða við þá eða kannski vissi hann að kraftaverk var í nánd. Og þegar þeir voru komnir upp á fjallið ummyndaðist Jesús fyrir augum þeirra og allt varð mjög bjart. Og þar birtust líka spámennirnir Móse og Elía, en Móse talaði í fyrri ritningarlestri dagsins.

Ástæða óþolsins

Guðfræðiprófessorinn er ekki óhress vegna þess að Illugi stundar ófræðileg vinnubrögð. Umfjöllun Illuga var miklu fræðilegri heldur en umfjallarnir um biblína eru venjulega og umfjallanir presta og guðfræðiprófessora um biblíuna eruoft allt annað en fræðilegar.

Ástæðan fyrir hneykslun guðfræðiprófessorsins var að hann þolir ekki að það sé talað á hreinskilinn hátt um ljótu hliðar biblíunnar.


[1] Hér eru upptökur af þessum þáttum Illuga.

Hjalti Rúnar Ómarsson 10.02.2015
Flokkað undir: ( Biblían )

Viðbrögð


Joi - 10/02/15 10:51 #

Ef lærisveinarnir sáu þessa sýn, og gleymdu henni ekki, og væntanlega sögðu hinum lærisveinunum, þá mætti nokkuð örugglega ætla að þeir væru sanfærðir um að jesu var sonur guðs, og reyndar líka virðast þeir hafa þekkt mose og eli lika þrátt fyrir að þeir höðu lifað (ef þeir voru þá til) nokkrum þúsund árum áður, ég fatta ekki hvernig þeir gátu vitað hverjir þeir voru því vara voru til myndir af þeim. og ef lærisveinarnir voru svona vissir um að jesu væri sonur guðs, af hverju er svona mikill efi sem kemur frá þeim í lokin á sögunum.

annað varðandi vafa, ef maría fékk engil í heimsokn sem sagði henni að hún bæri son guðs, af hverju er hún stöðugt svona undrandi á því sem jesu gerir, það er einsog hún hafi steingleymt heimsokn engilssinna og að hún hafði aldrei legið með manni áður en hún egnaðist þennan óþekka dreng.


Sindri Geir - 10/02/15 14:32 #

"Gallinn við þessa frásögn er, eins og nánast allir fræðimenn fallast á, að höfundur síðara Pétursbréfs var ekki Pétur lærisveinn Jesú. Þetta er með öðrum orðum fölsun. Höfundurinn var að ljúga."

Það er vafasamt að segja að höfundurinn hafi verið að ljúga, það er ykkar skilningur. Það er þekkt í hellenískri menningu að bréf voru skrifuð í nafni annarra ef höfundur bréfsins taldi sig vera að setja fram eitthvað sem félli að skoðunum og kenningum þess sem bréfið er eignað. Því er í raun ekki hægt að tala um fölsun þegar við viðurkennum að hluti Pálsbréfanna séu ekki skrifuð af Páli því að þeir sem skrifuðu þau töldu sig standa innan hefðar Páls og hafa heimild og tilefni til að eigna honum bréfin. Þó að í dag valdi það okkur töluverðum vandræðum. Þú getur ekki yfirfært þínar hugmyndir yfir á annað samfélag og menningarheim.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 10/02/15 16:53 #

Sindri Geir:

Alveg óháð notkun orða eins og "lygi" og "fölsun", þá er alveg morgunljóst að lærisveinninn Pétur var ekki höfundur síðara Pétursbréfs.

Þetta tal um að falsanir hafi bara verið viðurkenndar er svo að mínu mati alls ekki rétt, þó svo að maður sjái þessu oft haldið fram. Bart Ehrman hefur skoðað þetta sérstaklega (ég las bókina Forged, en síðan þá hefur hann birt ítarlegri fræðibók um þetta Forgery Counterforgery og hann telur rétt að tala um "falsanir". Raunin virðist vera sú að þetta tal um ágæti falsana er tilraun kristinna manna til að afsaka þá vandræðulegu staðreynd að það eru falsanir í helgiritinu þeirra.

En aðalatriðið er að 2. Pétursbréf er augljóslega ekki skrifað af Pétri postula og nánast allir Nýjatestamentisfræðingar viðurkenna það ("bókstafstrúarmenn" gera það ekki).

Er ekki ótrúlegt, að maður sem kvartaði undan ófræðimennsku Illuga, skuli svo sjálfur láta eins Pétur postuli hafi skrifað þetta?


Sindri Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 12/02/15 10:09 #

Sindri Geir, það er í öllu falli ljóst að þó að það hefði talist í lagi í hellenískri menningu að falsa bréf og ljúga því hver höfundurinn sé - þá er það talið rangt í dag. Sem betur fer. Til að segja hlutina bara beint út eins og þeir eru: Þessi bréf, sem innihalda meint orð Guðs, innihalda beinlínis vísvitandi lygar og blekkingar.


Sindri G (meðlimur í Vantrú) - 12/02/15 10:11 #

Ég vil annars taka það fram að ég tek alveg undir með Hjalta og Bart Ehrman: "Raunin virðist vera sú að þetta tal um ágæti falsana er tilraun kristinna manna til að afsaka þá vandræðulegu staðreynd að það eru falsanir í helgiritinu þeirra". Það er langsótt að þetta hafi bara verið í lagi og viðurkennt skv. hellenískri menningu.


Þórir Björn - 12/02/15 20:18 #

"Þú getur ekki yfirfært þínar hugmyndir yfir á annað samfélag og menningarheim."

Þetta hlýtur þá einnig að eiga við það að yfirfæra biblíuna eins og hún leggur sig upp á nútímann. Það gengur einfaldlega ekki upp.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?