Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Opið bréf frá þögla meirihlutanum til háværa minnihlutans

Landslagsmynd

Kæri háværi minnihluti.

Ég veit að ykkur gengur gott eitt til en þessi krossferð ykkar gegn fræðslu í skólum er komin út fyrir allan þjófabálk.

Árhundruðum saman höfum við þurft að sæta ofríki af ykkar hálfu. Þið berjið okkur niður í jörðina með bloggfærslum ætluðum þess að rífa niður samfélagið. Hvernig eigum við að geta varist því?

Eina sem við höfum er sagan, menningin, meirihlutann, Alþingismenn, lög, stjórnarskrá og útþembt sjálfsálit.

Við viljum bara fá að gera hvað svo sem við viljum með opinbera skóla en þið níðist á okkur með svæsnum bréfaskrifum. Við ætlum ekki að faraofan í smáatriði þessara ógeðfelldu skrifa, en meðal annars er þar að finna vinsamlegar ábendingar, fyrirspurnir, beiðnir um hlutleysi og annað álíka smekklaust skrapað upp af botni samfélagsins.

Hvers vegna? Hvers vegna þurfið þið að eyðileggja fyrir bókstaflega öllum? Eina rökrétta ástæðan sem við kristni þögli meirihlutinn gátum fundið var sú að háværi minnihlutinn er bitur því hann fékk minna í skóinn í æsku heldur en þögli meirihlutinn.

Það var það eina sem við gátum mögulega fundið til að útskýra þessa mannvonsku.

Sorglegt að fólk sé að krefjast jafnréttis í skólum út af jafn óþroskuðum biturleika.

Það er heldur ekki eins og þetta skaði börnin. Ísland er jú og hefur ávallt verið kristin þjóð. Siður Jesú og Frón hafa alltaf farið saman eins og Malt og Appelsín. Trúboð drap engan þá og það drepur engan í dag.

Farið nú að skilja að við erum í meirihluta. Þið eruð bara hávær minnihluti á meðan við erum í þöglum meirihluta. Meirihluta sem aldrei kemur minnsta músarmúkk frá.Farið nú að skilja að við búum við lýðræði. Þið vitið hvað lýðræði er, er það ekki?

Lýðræði er að við fáum að gera hvað svo sem okkur þóknast við hvern svo sem okkur þóknast bara af því að við erum fleiri.

Þessi frekja ykkar að krefjast jafnréttis í trúmálum er bókstaflega fasismi.

Þetta var ekki einu sinni vandamál fyrr en þið fóruð að tjá ykkur. Foreldrar með, hvernig orðar maður það, annars flokks trúarskoðanir, voru bara hljóð og jafnvel vissu ekkert af þessari fræðslu. Afhverju að eyðileggja það fína fyrirkomulag?

Nú ætliði ykkur að gera meirihluta barnanna útundan með því að ætlast til þess að kirkjuheimsóknir fari fram utan skóla! Hvernig haldiði að slíkt fyrirkomulag geti mögulega virkað? Að foreldrar fari sjálfir með börn í messu? Komið aftur inn í raunveruleikann, vinsamlegast.

Nei, einfaldast er að tína burt börn óþægilegu foreldranna og geyma þau einhvers staðar annars staðar, fjarri hinum menningarlega kristna meirihluta. Slíkt er sanngjarnast og þægilegast fyrir alla.

Þið verðið að fara að sýna óumburðarlyndinu okkar umburðarlyndi. Nú er stærsta hátíð ljóss, friðar og kærleika gengin í garð og við biðjum ykkur um að gera hið kristilega og bjóða hinn vangann.

Því guð veit að ekki erum við að fara að gera það.

Kær kveðja,
Hinn þögli, kúgaði meirihluti

Halldór Logi Sigurðarson 17.12.2014
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Skólinn )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?