Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Jólaguðstaglið

Mynd af fallegum norðurljósum

Árstíðarbundna umræðan um ásókn kirkjunnar í skólabörn er hafin. Borgarfulltrúi og foreldri skólabarns í Reykjavík vakti athygli á því að þvert á reglur borgarinnar væri enn verið að senda börn í kirkjur til að hlusta á presta. Í ljósi þess að sömu frasarnir heyrast ár eftir ár langar okkur að svara þeim stuttlega.

"Við erum kristin þjóð."

Kannanir sem gerðar hafa verið á trúarskoðunum Íslendinga undanfarin ár sýna að u.þ.b. helmingur landsmanna játar mis útvatnaða útgáfu af kristni.

Vissulega eru tæplega 87,5% þjóðarinnar skráð í kristin trúfélög en vert er að benda á að langflestir eru skráðir í Þjóðkirkjuna við fæðingu og sumir hafa meira að segja verið skráðir í hana gegn eigin vilja. Ísland er ekki kristin þjóð, ekki frekar en hún er hvít þjóð eða gagnkynhneigð þjóð, þó meirihluti landsmanna séu hvítir, gagnkynhneigðir og meðlimir í ríkiskirkjunni.

Þó að meirihluti Íslendinga væru sannfærðir trúmenn myndi það samt ekki réttlæta trúboð í opinberum skólum.

"Þetta skaðar engan! Hvað er svona hættulegt?"

Gagnrýni á trúboð og ágang trúfélaga í opinberum skólum snýst ekki um að þetta sé skaðlegt eða hættulegt.

Ýmislegt er ekki stundað í skólum þrátt fyrir að vera hvorki skaðlegt né hættulegt; auglýsingar fyrirtækja, vikulegir fyrirlestrar frá fulltrúa Vantrúar um skaðsemi trúarbragða eða heimsóknir til Valhallar þar sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins reynir að sannfæra börnin um að kjósa flokkinn þegar það fær kosningarétt í skiptum fyrir pizzu og kók.

Rökin gegn ágangi trúfélaga eru önnur. Meðal annars þau að opinberir skólar eiga að vera hlutlausir í trúmálum og að forðast eigi uppákomur þar sem börn eru aðgreind út frá trúarskoðunum foreldra.

"Þessi háværi minnihlutahópur er óþolandi!"

Trúleysi er ekki jaðarskoðun á Íslandi. Trúleysingjar á Íslandi eru fleiri en meðlimir Vantrúar og Siðmenntar. Í þessum félögum eru þó einstaklingar sem tjá sig hvað mest um þessi mál.

Það eru ekki eingöngu trúleysingjar sem telja að trúboð eða trúarinnræting eigi ekki heima innan veggja opinbera menntastofnana. Sumir trúmenn eru sammála okkur þar.

Það er enginn "hávær minnihlutahópur" að eyðileggja jólin fyrir öllum. Nema vera skyldi að trúfólkið sem ekki nennir með eigin börn í kirkju og telur sig ofsótt af yfirvöldum sé hinn raunverulegi háværi minnihlutahópur?

"Á að banna piparkökur?"

Oft er rætt um eins og það sé ætlunin að banna, eða jafnvel að það sé búið að banna, eitthvað sem tengist alls ekki umræðuefninu. Það er ekki búið að banna piparkökur og jólaskraut, það á ekki að útrýma kristni eða banna að það sé minnst á jólasveininn eða Jesúbarnið í jötunni í skólum.

Það er hins vegar búið að banna heimsóknir á helgi- og samkomustaði trúfélaga sem eru ekki liður í fræðslu, og þær heimsóknir eiga ekki að vera vettvangur fyrir innrætingu trúarskoðana.

Þetta á ekki að vera neitt mál

Gagnrýni á reglur Reykjavíkurborgar varðandi trúboðsferðir um jólin hjá grunnskólum borgarinnar hefur svarað áður og betur. Satt best að segja er þetta óskaplega þreytt umræða, algjört stagl. Endurtekið þras á hverju ári þegar jólin nálgast, stjórnmálamenn stökkva á Jesúvagninn í jólaösinni til að upphefja sig, æstir í athugasemdum slá sig til riddara með frösunum sem hér hefur verið svarað og öðrum verri.

Samt finnast lausnir, reglurnar eru eðlilegar og í sumum sveitarfélögum eru dæmi um að kirkjuheimsókn með helgileik sé haldin utan skólatíma á forsendum kirkjunnar. Enginn gerir athugasemd við það og við bendum þeim sem hafa mikla þörf fyrir að börn heimsæki kirkjur á að þeir geta slökkt á tölvunni, slakað á í athugasemdakerfum og drifið sig með gemlingana í musterið. Kirkjurnar eru opnar hverja helgi og að sögn er ágætt 3G samband í þeim flestum ef fólki skyldi leiðast á þriðja korterinu.

Ritstjórn 12.12.2014
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/12/14 10:19 #

Viðbót:

Þetta er svo mikil hystería hjá trúleysingum.

Á hverju ári er þetta eins. Einhver (oftast trúleysingi) bendir á, í mestu rólegheitum, að reglur séu brotnar. Fjölmiðlar grípa það á lofti og trúmenn fríka út. Svo mæta aðrir með möntruna um að þeim sé nú alveg sama, allar öfgar séu slæmar og það sé oftstæki að banna jólasöngva og jólaskraut!

Þetta sama fólk á það svo jafnvel til að verða "hysterískt" útaf allskonar öðrum málum. Það virðist bara ekki mega þegar málið snýst um kristni á Íslandi.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 12/12/14 10:44 #

Annað sem má bæta á listann:

Haldið þið jól?

Og svarið er auðvitað, já, við höldum jól án Jesú.

Það eru fjölmargar jólagreinar á Vantrú.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 12/12/14 11:10 #

Það er líka ágætt að hafa í huga að þessi "gamli siður" er ekkert svo gamall, þetta er tiltölulega ný tilkomið.


Rán - 12/12/14 14:15 #

Ég er alin upp í trúleysi og varð fyrir aðkasti þegar við settumst niður fyrir jólin og báðum bænir í skólanum. Þegar þessar kirkju ferðir voru farnar fékk ég athugasemdir frá bekkjarfélögum mínum. Íslenskukennarinn minn sagði mér að ég ætti ekki að halda jól og gangavörður skólans sagði að ég gæti þá bara skúrað mötuneytið fyrst ég vildi ekki fara í kirkju. Umsjónakennarinn minn sagði mér einu sinni að við værum kristin þjóð og því ættum við að fara í kirkjuna. Ég man hvað mér fannst þetta óþægilegt, var ég þá ekki hluti af þessari íslensku þjóð? Svona gæti ég lengi haldið áfram.

Ég er hinsvegar komin með leið á þessari umræðu. Afhverju þarf ég að rökstyðja það að mér hafi liðið illa í þessum kirkjuheimsóknum þar sem prestur predikaði yfir okkur?

Af hverju þrufa þeir sem vilja fara með börnin í þessar heimsóknir ekki að segja af hverju það sé réttlætanlegt að senda öll grunn og leikskólabörn í trúarlegar heimsóknir. Eina sem fólk heldur fram í þessu samhengi er að þetta sé falleg hefð og góður siður sem ekki megi skemma. Fyrir utan það að þessi staðhæfig sé ósönn þá eru það engin rök fyrir kirkjuferðum útaf fyrir sig.

Mér finnst að umræðan eigi að snúast við. Hvern skaðar það að fara EKKI í kirkjuna. Hver er fórnarlambið þar (hverjum líður illa og hver verður fyrir aðkasti) ef skólarnir láta þessar heimsóknir vera og foreldrarnir sjái sjálfir um trúarlegt uppeldi barnasinna.

Mér finnst að þeir sem vilja senda öll leik og grunnskólabörn í kirkju að hlusta á prest fyrir jólin þurfi að færa rök fyrir því afhverju kirkjuferðir eigi rétt á sér. m.ö.o Sönnunarbyrðin á að snúast við.


Esra - 13/12/14 14:05 #

Ég vinn á fjölmennum vinnustað og af hverju má ekki hafa beikon í súpunni og skinku með morgunverðinum eins og lengi hefur verið? Það eru tveir sem "heimta" að þetta verði fjarlægt út mötuneytinu. Eiga þeir að stjórna fjöldanum?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/12/14 15:08 #

Esra, höfum endilega beikon í súpunni og skinku með morgunverðinum en bjóðum líka upp á grænmetissúpu og annað álegg. Hvaða fjölmenni vinnustaður er þetta? Mig langar að kynna mér málið og staðfesta frásögn þína.

Veit a.m.k. að á fjölmennasta vinnustað landsins er bæði beikon og skinka reglulega í boði.


Esra - 13/12/14 15:46 #

Jú það er ekki búið að taka þetta af matseðlinum en tveir sem vinna þarna "heimta" það og finnst á réttindum sínum brotið. Svo er annað af hverju er ekki bannað að innræta jólasveinahindurvitnið úr skólum landsins?


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 13/12/14 16:47 #

En Esra, burtséð frá beikoni/skinku vegna trúarkenninga, hvað ef þetta væru grænmetisætur? Væri ekkert í boði fyrir þá vegna þess að það hefur lengi verið kjöt í boði og þú vilt ekki láta tvo stjórna fjöldanum?

Er ekki nálgunin að taka tillit til þess að fólki er ólikt? Jafnvel þó okkur finnist áæstæðurnar fáránlegar - þar sem ég get alveg verið sammála þér, mér finnst á hinn bóginn allt í lagi að sýna tillitssemi þó viðkomandi sé í minnihluta og bjóða upp á valkosti.. eins og Matti nefnir.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?