Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Trúleysi er ekki jaðarskoðun

Það kemur reglulega fyrir að ég rekst á trúleysingja sem telja að trúleysið sé ekkert sem þeir eiga að halda á lofti. Þeir telja að þetta sé bara einkamál þeirra og komi í raun engum við. Í fullkomnum heimi þá væri það vissulega góð og gild skoðun. Allir gætu bara haft sínar trúarskoðanir fyrir sig. Við búum því miður ekki í fullkomnum heimi.

Í Bandaríkjunum eru trúleysingjar sá þjóðfélagshópur sem almenningur treystir síst. Þetta er augljóslega stórfurðuleg skoðun þar sem trúleysingjar gera yfirleitt ekki neinum neitt vegna trúarafstöðu sinnar. Það að hinir margrómuðu stofnendur Bandaríkjanna hafi upp til hópa verið mjög skeptískir á tilvist guðs virðist ekkert gera til að sannfæra þjóðina um ágæti trúleysingja. Trúmönnum hefur tekist að gera trúleysingja að jaðarhóp í Bandaríkjunum. Er hætta á að það sama gerist eða sé að gerast á Íslandi?

Það er ljóst að ákveðnir trúmenn á Íslandi reyna að vekja upp vantraust á trúleysingjum. Karl Sigurbjörnsson hefur farið þar fremstur í flokki. Hann hefur sagt okkur ógna mannlegu samfélagi og stillt trúleysi upp sem siðleysi. Þetta er hræðilegur málflutningur sem á ekki við rök að styðjast. Oft virðist þetta vera byggt á þeirri rökleysu að án guðs sé allt leyfilegt. Ég hef það fyrir reglu að spyrja alla sem koma með þessa staðhæfingu að því hvað það myndi gera ef það kæmist að því að guð væri ekki til. Myndu trúmenn upp til hópa fara að ljúga, stela og myrða ef enginn guð væri til? Augljóslega ekki. Sama gildir um trúleysingja, þó enginn guð sé til þá reynum við að halda okkur við góðu verkin.

Hvað eru trúleysingjar stór hluti Íslendinga? Miðað við kannanir þá erum við á bilinu 20-30% (í raun eftir því hvaða skilgreining er notuð). Í samanburði má benda á að rétt rúmur helmingur þjóðarinnar játar kristna trú (skv. könnuninni Trúarlíf Íslendinga 2004). Við erum augljóslega svo stór hluti þjóðarinnar að við ættum ekki að þurfa að vera jaðarhópur en við virðumst oft vera það. Stjórnmálamenn ættu að þurfa að taka tillit til okkar þegar þeir setja lög er varða okkur en þeir gera það ekki.

Við erum hunsuð sem þjóðfélagshópur. Hvers vegna? Af því að við erum ekki nægilega áberandi. Við erum að gera okkur sjálf að jaðarhóp með þögninni. Trúleysingjar þurfa að vakna og taka á sínum málum. Við erum hluti af þessu fjölmenningarsamfélagi, samt fer mikið meira fyrir mun smærri minnihlutahópum heldur en okkur.

Staðreyndin er sú að við höfum ekki sömu stöðu og trúmenn. Trúleysingjar þurfa ekki kirkjur en við þurfum félög sem geta séð um þær athafnir sem flestir ganga í gegnum á ævinni. Siðmennt hefur séð um slíkar athafnir en félagið hefur bara ekki sömu réttarstöðu og trúfélög. Trúleysi er einfaldlega annars flokks í augum ráðamanna.

Trúleysingjar þurfa líka að hafa áhyggjur af því hvernig okkur er lýst í kristinfræði- og trúarbragðakennslu. Þeir sem skoða kristinfræðibækur sjá að þær eru flestar einfaldlega áróður fyrir kristni. Þar sem fjallað er um kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði í aðalnámskrá er ekki minnst einu orði á trúleysi. Við virðumst ekki vera til. Múslímar, Búddistar, Gyðingar og Hindúar fá allir sinn sess þar en þó við séum mun stærri hópur á Íslandi þá er ekki minnst á okkur. Þarna erum við jaðarhópur.

Við erum til og við erum stór hluti þjóðarinnar. Við höfum ekki verið áberandi en við ættum að vera það þó það sé ekki nema til þess að minna á okkur. Stjórnmálamenn þurfa að hugsa til okkar þegar þeir setja lög er varða okkur sem hóp.

Ég er stoltur af trúleysi mínu, ég er glaður að ég er trúleysingi. Það er ekki neikvætt að vera trúlaus heldur jákvætt. Ég hef stundum sagt að kjarninn í málflutningi okkar sé lifðu lífinu lifandi. Við eigum okkur líf fyrir dauðann og við viljum nota það, njóta þess.

Þetta er örlítið breytt útgáfa af grein sem var send Morgunblaðinu þann 18. júní síðastliðinn og birtist í gær, þann 2. ágúst.

Óli Gneisti Sóleyjarson 03.08.2006
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Svanur Sigurbjörnsson - 03/08/06 08:40 #

Stórfín grein um stöðu mála - Takk.


Þorsteinn - 03/08/06 11:05 #

Þeir eru fljótir að birta þetta hjá mogganum ;)


Asta - 31/10/06 01:36 #

Flott grein og alveg sammála. Hef stundum heyrt þau rök hjá trúleysingjum að það hafi verið reynt að vekja athygli á hinu og þessu, en það hafi ekki haft áhrif og þar af leiðandi sé það vonlaust. Eg er alveg ósammála, held einmitt að ef við erum dugleg að vekja athygli á því óréttlæti sem við erum beitt, munum við ná árangri einhvern tímann. hvað varðar siðgæði trúaðra, þá sagði einhver að gott fólk gerði góða hluti og vont fólk gerði vonda hluti, en til að gott fólk geri vonda hluti, þarf trúarbrögð til.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.