Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Textarnir hans Gunna

Dr. Gunni

Ég hef, gegnum starf mitt sem tónlistarmaður, verið þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa með ýmsum talentum og hugsuðum. Verk sumra þeirra hafa kannski ekki farið sérstaklega hátt og smíðar annarra eru held ég stórlega vanmetnar, þótt þjóðþekktir séu fyrir annað framtak.

Einn þessara listamanna er Gunnar Lárus Hjálmarsson, betur þekktur sem Dr. Gunni. Hann kemur reglulega fyrir sjónir okkar á formi fjölmiðlamanns og skríbents, en þegar tónlistarmaðurinn Gunnar er til umræðu er hin breiða fylking helst á því að hann hafi vonda söngrödd. Jú, lagið um prumpufólkið sló í gegn og seinna var það glaður hundur, en fáir nenna að tékka á mestu gersemunum sem liggja eftir kauða.

Ástæða þess að ég ætla að beina sjónum okkar að textagerð Gunnars Lárusar í Vantrúargrein er sú ein að yrkisefni hans eru oftar en ekki í takt við viðhorf okkar sem hér skrifa. Helst er það argandi tómhyggjan sem einkennt hefur skáldskap Gunnars, eiginlega svo mjög að stinga mætti upp á honum sem einhvers konar hirðskáldi/þjóðskáldi okkar atheista á Íslandi. Hvergi annars staðar í ljóðagerð og popptextum íslenskum hef ég rekist á jafnafgerandi níhíl, en samt er einhvern veginn aldrei talað um það.

Ég ætla að bæta úr því hér.

Það fór strax að örla á þessu á "Draums"-árunum, þegar hljómsveitin S.H. Draumur var og hét. Síðasta erindi lagsins "Glæpur gegn ríkinu" er á þessa leið (greinarmerki, úrfellingar og önnur framsetning á textum Gunnars eru á mína ábyrgð, man ekki hvernig hann sjálfur hafði þetta):

Fimmtíu stunda vinnuvika
á bakinu í hálfa öld.
Vakna snemma alla morgna,
sturtan er alltaf köld.
Þett'er'ekki djók og ef þetta væri djók,
þá vær'etta ekkert fyndið djók,
fimmtíu stunda vinnuvika,
milljón stunda vinnulíf.

Svona kveðskapur fær mann til að hugsa til þess hvort veruleikaflótti á borð við trúarástundun sé ekki einmitt óttinn við að horfast í augu við napran og kaldan raunveruleika eins og þennan - kalt og tilbreytingalaust líf meðalljónsins. Sá sem sér hlutina í þessu ljósi er eins og aðalpersónan í Matrix sem tók bláu pilluna í staðinn fyrir þá rauðu (eða var það öfugt?). Menn flýja þetta, því þeir hafa ekki kjarkinn til að sjá hvort lífið geti verið bærilegt án haldreipisi að ofan og loforð um eilífa sælu. Kannski er þar kominn einhver helsti samfélagsvandinn sem að okkur hefur á öllum tímum steðjað. Það er hluterk skáldskaparins að hreyfa við okkur og í þessum texta hefur skáldinu í S.H. Draumi tekist að láta okkur hrökkva upp af dvalanum.

Á Ununarplötunni "Ótta" er þessi sýn eins og leiðarstef. Dauðþreytt stúlka er búin að pikka upp sætan strák á skemmtistað og langar ekki eina heim í morgunsárið. Hún horfist í augu við piltinn, en í stað þess að trúa á ást við fyrstu sýn og æsa upp í sér rómantíska drauma kemst hún yfirvegað að því að þetta sé ekki ást - "Ég mynd'ekki kall'etta ást, en þetta er alla vega eitthvað". Og lagið Geimryk er nokkurs konar tómhyggjuhápunktur:

Allt og allir eru bara gamalt geimryk,
við erum það sem við þykjumst.

Komin til að fara.

En tómhyggjunni er þó hvergi nærri lokið þegar þessu lagi sleppir, því einsemd með Ísfólki uppi í sófa og áfengisdauði á míníbar marka tilgangsleysi tilvistarinnar. Samræður fólks eru orðin tóm. Og svo birtist ógn milljón stunda vinnulífsins okkur á ný í textanum um fullu unglingana:

Látum sem við eigum heiminn
alein.
Þjótum, en erum samt alltaf
of sein.

[...]

Svo verðum við gömul, svo verðum við sljó.
Þraukum í skuldum, og þá er loks nóg,
en nú erum við bara fullir unglingar.

[...]

Svo verðum við gömul, svo verðum við grá.
Og svo bara steindauð, áttu landa hei vá!
Verum bara fullir unglingar.

Á sólóplötunni "Inniheldur" birtist sama jarðbundna og samúðarfulla sýnin á tilveruna þegar doktorinn hvetur okkur til að vera góð við hnakkana. Ég þekki tilurð þessa texta:

Þegar Gunni var frekar nýkominn með bilpróf (sem hann tók seint á lífsleiðinni) ók fram úr honum sportleg glæsikerra einhverju sinni. Undir stýri var þessi dæmigerði Selfosshnakki, eins og þeir voru í þá daga, sleiktur ofurtöffari, fullur af narsíssískri sjálfkynhneigð. Undir venjulegum kringumstæðum lætur Gunni falla húmorískt "road rage"-rant í garð þeirra sem trufla hann við aksturinn, en þarna varð viðhorfsbreyting á nóinu.

Það rann upp fyrir honum að svona fólki ætti frekar að finna til samkenndar með en hitt. Þessi sportkerra yrði að áratug liðnum komin í Vökuportið og eigandinn örfáum áratugum síðar sjálfur undir græna torfu. Af hverju ekki að þykja bara vænt um það að einhverjir í samfélaginu leyfðu sér eitthvað aðeins umfram það að vera fullkomin vinnuþrælandi vélmenni? Þessi skyndilega væntumþykja finnst mér í senn húmanísk og fagurlega þroskuð. Mér finnst hún ná kjarnanum í því lífsviðhorfi sem ég hef reynt að tileinka mér, hvað sem líður fullyrðingum presta og annarra trúmanna um að trúleysi og tómhyggja leiði til siðleysis og mannhaturs. Öðru nær, prestar, öðru nær.

Viðlagið í "Verum góð við hnakkana" er svona:

Verum góð, verum góð.
Við höfum öll elst jafnmikið á morgun og síðan verðum við lík.
Verum góð, verum góð.
Við höfum öll elst jafnmikið á morgun og síðan verðum við
bráðhugguleg lík.

Þessi sjónarhóll, þetta lífsviðhorf - þetta er aðdáunarvert. Í senn nær hugsunin, á sinn tómhyggjulega máta, svo vel utan um sjálfan veruleikann, draumóralaust, en um leið býr hann yfir svo mikilli hlýju og þroskaðri mennsku að allt Jesúhjal prestanna verður að innihaldslausri sjálfselsku. Það fellur dautt niður.

Annað slagið í meira ein áratug hef ég reynt á þessum vettvangi að leiða fólki það fyrir sjónir hve trúalaust lífsviðhorf er ólíkt því sem prestarnir lýsa, hversu heilsteypt og jarðbundið það er, um leið og það nær að fanga fegurðina og mennskuna. Mér hefur lítið gengið með þann boðskap, því áfram halda prestarnir að úthúða okkur trúleysingjunum og gera upp allt illt. Það er ekki síst þess vegna sem ég kem auga á verðmætin sem liggja í góðum níhílískum skáldskap og textagerð eins og þeirri sem Dr. Gunni ástundar.

Á forsendum listarinnar verður allt svo miklu augljósara, kjarninn blasir við í fáum vel völdum orðum. Hafðu kærar þakkir, Gunni, fyrir þetta mikilsverða framlag. Saman náum við kannski með tímanum að benda jafnvel hörðustu prestum á alla þá andlegu sjóði sem liggja í lífsviðhorfi tómhyggju og trúleysis.


Mynd fengið hjá The Reykjavík Grapevine og birt með leyfi ljósmyndara.

Birgir Baldursson 10.12.2014
Flokkað undir: ( Hugvekja )

Viðbrögð


Davíð - 10/12/14 23:38 #

Það má ekki gleyma laginu Homo Sapiens með doktornum í þessu samhengi!


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 11/12/14 15:23 #

Einmitt. Tómhyggjubrunnur Gunnars er hvergi nærri tæmdur með þessu greinarkorni mínu.


Benni - 15/12/14 23:48 #

Að dásama tómleysið er fyrir mér eitthvað í líkingu við að segja að manni líði dásamlega í ömurleika sínum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/12/14 00:55 #

Tómleysið?


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 16/12/14 01:00 #

Benni, ert þú Finnur sem kommentar hér?


Benni - 17/12/14 15:17 #

Tómhyggjuna átti það að vera


Jóhann - 18/12/14 01:18 #

það er ekkert minna en stórkostlegt að þér skuli takast að smætta tilvist mannkyns í annað tveggja: þvaður presta gegn speki doktorsins.

Djöfulsins bull.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/12/14 16:51 #

Með einhverjum hætti hlýtur raunveruleg tilvist mannskepnunar að vera. Prestar og Gunni eru dæmi um tvær ólíkar skoðanir á því hvernig hlutunum er háttað.

Öll rök hníga að því að heimsmynd okkar Gunnars negli nokkurn veginn þessa tilvistarspurningu, en költískar fullyrðingar kristindómsins eru einfaldlega víðsfjarri því að svara henni af einhverju viti.

Svo finnst mér alltaf fyndið þegar menn nota hugtakið smættun sem skammaryrði. Ég er smættarhyggjumaður og hef ekki farið leynt með það. Í raun gengur hún út á að fara sem næst eðlis- og efnafræðilegum útskýringum allra hluta, taka t.d. hugtök eins og ást, fegurð og samhygð og beita á þau líffræðilegum skýringum sem aftur hafa á bak við sig eðlis- og efnafræðilegar forsendur.

Það er nákvæmlega ekkert neikvætt eða vont við að fara þessa leið, heldur er hún bráðgóð til að skilja veröldina betur. Ég hef þó ekki farið þessa leið smættunar við skrif mín hér að ofan, er einungis að benda á gildi þess sjónarhóls sem Gunni horfir af í þessum textum sínum.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 19/12/14 16:54 #

Að dásama [tómhyggju] er fyrir mér eitthvað í líkingu við að segja að manni líði dásamlega í ömurleika sínum.

Af hverju gengurðu út frá því að í tómhyggju felist ömurleiki?


Jóhann - 19/12/14 19:24 #

"Öll rök hníga að því að heimsmynd okkar Gunnars negli nokkurn veginn þessa tilvistarspurningu,"

Nei, því fer fjarri.

"...költískar fullyrðingar kristindómsins eru einfaldlega víðsfjarri því að svara henni af einhverju viti."

Það er hinsvegar laukrétt.

Smættun sem þekkingarfræðilegt tól er gagnslaust nema að ákveðnu marki innan tiltekinna fræðigreina og það er fyrir löngu búið að sýna það með órækum hætti.

Það fyrirfinnast ótal dæmi um hvernig heild getur ekki verið smættuð í einstaka þætti, en jafnframt haldið eiginleikum sínum.

Valkostirnir á túlkun tilverunnar eru sem betur fer langtum fleiri en prestar og doktorinn búa yfir.

Þessi smættun þín missir því eðlilega marks...


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/12/14 14:49 #

Hvernig fer því víðsfjarri að heimsmynd okkar Gunnars fari nálægt tilvistarspurningunni stóru? Ég aðhyllist einmitt þá niðurstöðu af því að öll rök hníga til hennar. Ef þú átt betri rök sem benda í aðrar átti þætti mér gaman að heyra þau.

Svo þætti mér gaman að fá að glíma við dæmi um heild sem "getur ekki verið smættuð í einstaka þætti, en jafnframt haldið eiginleikum sínum", svona sem jólagestaþraut.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 26/12/14 14:53 #

"Allt og allir eru bara gamalt geimryk", er ein af fullyrðingum doktorsins og hluti af "speki" hans (sem þér finnst gaman að kalla svo til að geta lítilsvirt hugmyndir hans). Er eitthvað sem hrekur þetta?

Í kjölfarið kemur "við erum það sem við þykjumst - komin til að fara". Það bendir einfaldlega allt til að svo sé. Ég væri til í að sjá haldbær rök sem lúta að hinu gagnstæða.


Jóhann - 27/12/14 20:54 #

"Öll rök hníga að því að heimsmynd okkar Gunnars negli nokkurn veginn þessa tilvistarspurningu,"

er nú dálítið annað en:

"heimsmynd okkar Gunnars fari nálægt tilvistarspurningunni stóru"

en ég skal sætta mig við skýringar ykkar doktorsins, þegar vísindamenn hafa sýnt okkur hvað vitund er, og hvernig hún tengist upplifun ykkar Gunnars.

"Svo þætti mér gaman að fá að glíma við dæmi um heild sem "getur ekki verið smættuð í einstaka þætti, en jafnframt haldið eiginleikum sínum", svona sem jólagestaþraut."

Gjörðu svo vel:

Bítlarnir

"We are stardust, we are golden," samdi Joni Mitchell í laginu "Woodstock".

Og hvergi "lítilsvirði" ég hugmyndir doktorsins.

Mér þykir hins vegar lítið til koma í greiningu þinni á mikilvægi þeirra.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 12/01/15 15:40 #

Ertu að meina að ekki sé hægt að smætta tónlist Bítlanna?


Jóhann - 13/01/15 22:12 #

Já, er það ekki auðsætt?

Fyrsta skref fælist í að smætta Bítlana niður í einstaka meðlimi og framlag þeirra til heildarinnar.

Sem skýrir ekki neitt.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.