Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Smættun 3: Krúttleiki

Hann er ansi góður listinn yfir rúmlega þrjúhundruð sannanir fyrir tilvist Guðs sem menn voru að hampa í bloggum sínum nýlega. Sönnun númer 177 er gott dæmi um að ýmislegt hefur verið reynt:

ARGUMENT FROM FUZZY ANIMALS, aka TELEOLOGICAL ARGUMENT (III)
(1) Bunnies are cute.
(2) Cuteness is not an evolutionary advantage.
(3) Therefore, cuteness must have been designed.
(4) Therefore, God exists.

Eða á ylhýra: Rökleiðsla byggð á loðnum dýrum: Kanínur eru krúttlegar og krúttleiki hefur enga kosti í þróunarlegu tilliti. Því hlýtur þessi eiginleiki að hafa verið hannaður og Guð því til.

En er þetta rétt? Ef atriði tvö er rétt gæti þessi rökleiðsla staðist, en hún strandar því miður á því að logið er til um þennan eiginleika.

Krúttleiki á sér nefnilega þróunarlegar forsendur.

En það eru ekki kanínur sem hafa þróað hann með sér sem slíkan, svo mönnum fari að þykja vænt um þær, heldur er það samsvörun útlits þeirra við krúttleika mannlegs ungviðis sem veldur þessu tilfinningaróti hið innra hjá okkur mönnunum.

Ungviði flestra spendýra hefur þetta kjút-element, stóran haus miðað við búk, stór augu og klunnalegar ómótstæðilegar hreyfingar. Þessi signöl öll kveikja í okkur umhyggju og því komast þeir ungar sem mest hafa af þessum eiginleikum helst á legg.

Þetta er líka ástæðan fyrir því að við mennirnir löðumst að ákveðnum dýrategundum, höldum gæludýr. Dýrin sem veljast til fósturs eru oftar en ekki barnsleg í útliti, stærð og þyngd. Kettir eru fyrirtaks staðgengill fyrir ungabörn og hafa þróað með sér blíðu sem þeir sýna mönnum. Og þetta gerir þeim auðvelt fyrir í lífsbaráttunni.

Sama gildir um kanínur. Og talandi um þær, þegar Tex Avery teiknaði Bugs Bunny dró hann fram alla hina barnslegu eiginleika, stór augu og ungviðislegt andlit.

Hann vildi að okkur líkaði vel við Kalla kanínu.

Krúttviðkvæmni okkar á sér þróunarlegar rætur og finnst að öllum líkindum í mun fleiri dýrategundum en okkur. Beljur sjá eitthvað krúttlegt við kálfa, endur sjá væntanlega það sama í gulum ungum sínum, Krúttnæmni er frumstæð tilfinning og hefur úrslitaþýðingu í viðkomu fjölmargra dýrategunda. Ungviðið þarf að vernda og ekki er til betri leið en að kveikja þessa frumstæðu tegund ástar í heilabúi fullorðinna dýra.

Birgir Baldursson 25.03.2004
Flokkað undir: ( Vísindi og trú )

Viðbrögð


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 25/03/04 01:33 #

Áðan sá ég grein í DV um konu á Indlandi sem fann bjarndýrshún úti í skógi. Pínulítinn og ægilega krúttlegan. Hann virtist vera munaðarlaus og hún gat ekki fengið það af sér að skilja hann eftir, auk þess sem hún gæti kannski haft eitthvað gagn af honum síðar meira. Hvað gerði hún? Jú, hún tók hann upp á sína arma og HAFÐI HANN Á BRJÓSTI!


ÓKÁ - 25/03/04 12:27 #

Hmmmm, best að koma með smá kverúlantakomment. Karl nokkur Þórsson (aka Cartoon Charlie eða Charles Thorson) bjó nefnilega til Bugs Bunny og fleiri krúttlegar teiknimyndapersónur, litla indjánann Hiavatha, Mjallhvíti o.fl. En vissulega teiknaði Tex Avery Bugs líka síðar meir. Meira um Cartoon Charlie á http://www.umanitoba.ca/faculties/arts/icelandic/IceCan/charlie.htm.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/03/04 13:06 #

Takk fyrir þetta. Mig minnti einmitt að einhver Íslendingur hefði verið orðaður við sköpun Kalla kanínu, en hélt satt að segja að það væri bara eitthvað blaður. Nennti svo ekki í rannsóknarvinnuna fyrir þessa grein. Sloppí blaðamaður.


Úlfurinn - 29/03/04 13:28 #

Þessi indverska kona hefur verið brjóstgóð-ekki spurning


Sævar G. - 30/03/04 09:28 #

" Ef atriði tvö er rétt gæti þessi rökleiðsla staðist, "

Rangt. Jafnvel þó að krúttleiki væri ekki hluti þróunar þá þarf það enganvegin að þýða að krúttleikinn hafi verið hannaður. Og jafnvel þó að krúttleikinn hafi verið hannaður þarf það ekki að þýða að "Guð" eða aðrar töfraverur hafi hannað hann.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 30/03/04 12:07 #

Góður punktur!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.