Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvernig Gídeonfélagið fékk mig til að trúa vísvitandi lygum og blekkingum þegar ég var barn

Mynd af barni með gjöf frá Gídeon-félaginu

Titill þessarar greinar kann að vera nokkuð langur, en stundum þarf að segja hlutina nákvæmlega eins og þeir eru. Þegar ég var 11 ára gamall í Flataskóla í Garðabæ kom Gídeonfélagið með Nýja testamentið til mín í skólann og gaf mér. Einnig var mér sagt að Nýja testamentið væri orð Guðs. Með bókinni fylgdu líka eftirfarandi leiðbeiningar um bókina:

„Kenning hennar er heilög, boðorð hennar bindandi, frásagnir hennar sannar og úrskurður hennar óbreytanlegur. Lestu hana svo að þú verðir vitur, trúðu henni þér til sáluhjálpar“

Ég var ekki sérlega trúað barn, en tveimur árum síðar, rétt eftir fermingu, las ég þetta Nýja testamenti Gídeonmanna, og leiðbeiningarnar sem með því fylgdu, og varð mjög trúaður í kjölfarið. Við tók meira en áratuga langt trúarlíf og síðar starf mitt með kristnum söfnuðum. Óhætt er að segja að ég sjái eftir því starfi.

Nýja testamentið er fullt af vísvitandi lygum og blekkingum. Það er mikill munur á því að segja eitthvað sem ekki er satt, vegna þess að maður veit ekki betur, og því að beinlínis ljúga og blekkja. En í Nýja testamentinu er einmitt að finna lygar og blekkingar, sem ég fer nánar út í síðar.

Hvað sagði Jesús?

Virtustu Guðfræðingar telja alls ekki að flest meint ummæli Jesú sem höfð eru eftir honum í Nýja testamentinu séu í raun frá honum. Vinna frægs hóps virtra sérfræðinga í biblíufræðum frá helstu háskólum ber þetta t.d. með sér. Hópurinn vann undir regnhlíf rannsóknarstofnunar sem á ensku kallaðist Jesus Seminar. Þeir töldu að um 18% af því sem eignað er Jesú sé líklega frá honum komið.

Að auki er sumt sem eignað er Jesú ekki einu sinni að finna yfir höfuð í elstu og bestu handritunum af Guðspjöllunum. Þetta eru því ummæli sem upprunalegir höfundar Guðspjallanna hafa ekki einu sinni eignað honum, en hafa þó ratað í Guðspjöllin eins og þau blasa við okkur í dag. Hér má nefna frásögn Jóhannesarguðspjalls af konunni sem staðin var að verki fyrir að drýgja hór, þar sem Jesús segir „sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum“. Um Jóh 7:53-8:11 Ummæli sem höfð eru eftir Jesú í guðspjöllunum, sem eru einvörðungu skáldskapur, eru þó ekki það sem ég á aðallega við með lygum og blekkingum. Heldur fölsuðu bréfin í Nýja testamentinu.

Fölsuðu bréfin

Ég geri fastlega ráð fyrir því að nemar í Guðfræðideild læri t.a.m. að Efesusbréf, Títusarbréf og 1. og 2. Tímótesuarbréf eru einfaldlega fölsuð upp frá rótum, þar sem höfundar þeirra ljúga því að Páll postuli sé að skrifa bréfin til að fá viðtakandann til að trúa guðfræðikenningum hinna ljúgandi höfunda. Þetta er nánast alveg samhljóða álit akademískra Nýja testamentisfræðinga.[1]

Ég reikna með að nám í Nýja testamentisfræði við Guðfræðideild Háskóla Íslands endurspegli samhljóða álit helstu bibliúfræðinga. Hluti af því sem Gídeonfélagið er að kenna börnum að trúa á, er ekki bara ósatt, heldur hreinlega vísvitandi lygar og blekkingar, og það má læra í æðstu menntastofnun landsins. Guðfræðideildin myndi ekki orða hlutina eins tæpitungulaust og ég geri hér. En lygar og blekkingar eru þetta engu að síður.

Hvernig afhenda ætti Nýja testamentið

Ég væri hlynntur því að Gídeonfélagið myndi gefa börnum Nýja testamentið í grunnskólum landsins ef með því myndi fylgja límmiði þar sem Guðfræðideild Háskóla Íslands myndi staðfesta, það sem hún veit vel, að í henni er að finna bréf og ummæli sem eru lygar. Hvað eru áðurnefnd bréf annað en lygar? Því er logið að höfundur bréfanna sé Páll postuli, til þess að plata lesandur til að trúa kenningum hinna raunverulegu höfunda.

Auðtrúa kirkja

Á þessari bók, þar sem finna má m.a. hreinar lygar, byggir svo kristindómurinn. Þetta er hans aðal helgirit. Bækur Nýja testamentisins eru eina heimildin um upprisu Krists. Það segir mikið um trúgirni frumkirkjunnar að hægt var að beita fölsunum til að sannfæra hana. Hún trúði í einlægni á fölsuð bréf, líkt og hún trúði í einlægni á sögusagnir um upprisu Krists. Á hennar trúgjörnu herðum stendur kirkjan enn í dag.


[1]The Blackwell Companion to The New Testament eftir David E. Aune ISBN 1405108258 bls. 9 "While seven of the letters attributed to Paul are almost universally accepted as authentic (Romans, 1 and 2 Corinthians, Galatians, Philippians, 1 Thessalonians, Philemon), four are just as widely judged to be pseudepigraphical, i.e. written by unknown authors under Paul's name: Ephesians and the Pastorals (1 and 2 Timothy and Titus)."

Sindri G. 08.09.2014
Flokkað undir: ( Biblían , Gídeon , Klassík , Kristindómurinn )

Viðbrögð


Valur Arnarson - 12/09/14 18:44 #

Ég var trúlaus fram yfir fermingu. (ég trúði ekki á Guð þegar ég fermdist, en fermdist samt - hræsni)
Ég var alin upp á heimili þar sem "efnishyggjan" réð ríkjum í trúmálum. Trúin var fremur menningarleg arfleið, sem hefur einhvern jákvæðan boðskap, heldur en "raunveruleg".
Ég taldi biblíuna bara mannasögur, eiginlega ævintýri. Ég byrjaði að lesa Guðsspjöllin þegar ég var 14 ára, til þess að geta sofnað. (gott að lesa sig í svefn.)
Af einhverjum ástæðum varð ég húkt. Ég trúði alls ekki að Guðsspjöllin væru "sönn", en mér leið einkennilega vel þegar ég las þau. Það gerði það að verkum að ég las í þeim kvöld eftir kvöld eftir kvöld, stundum langt fram eftir nóttu. (ég fór einnig að hlusta talsvert á kristilega útvarpsstöð - Stjörnuna, sem var og hét)
Trúin kviknaði smám saman í mér. Það kom mér á óvart fyrst, og ég held að ég hafi hálfpartinn barist gegn því. Ég hafði alltaf litið á trúfólk sem öfgafulla vitleysinga, og ég var ekki viss um að ég vildi verða þannig.
Biblían segir að Guð vaki yfir orði sínu. Hún segir einnig að trúin KEMUR að boðuninni, og boðunin byggist á orði Krists. Hún segir að Guð sjálfur sannfæri menn um tilvist sína, án hjálpar frá öðrum, og það gerðist fyrir mig.
Síðla sumars eða haust, þegar ég var á 14ára var ég orðinn sannfærður. Ég var mjög hissa á því að ég tryði nú allt í einu á Guð. Ég bað í fyrsti skipti og meinti það, og bjóst við því að Guð, sem væri til, myndi svara mér, og ég fann fyrir nærveru hans í fyrsta skiptið.
Ég lét það allveg eiga sig að fara á samkomur, messur eða trúarfundi til að byrja með, því ég var viss um að það væri leiðinlegt, og ekki fyrir mig, auk þess sem trúað fólk var, að ég hélt, almennt leiðinlegt fólk.
Ég fór í fyrsta skiptið á samkomu á endanum, í fríkirkju(sértrúarsöfnuð) sem ekki er starfandi lengur, og það var svo frábært, að ég vildi helst vera þar inni, í hvert skiptið sem húsið var opið.
Í dag eru liðin tæp 11 ár síðan, og Guð er enn sá sami.
Ég er lifandi dæmi um kraft biblíunar. Hún breytti mér að eilífu.

Sæll Sindri,

Einhvernvegin finnst mér þessi vitnisburður frá þér fyrir um 10 árum ekki passa við það sem þú segir í þessari grein. Í vitnisburðinum er ekki að finna stakt orð um Gídeonfélagið en skilja mætti greinina þannig að Gídeonfélagið hafi verið megin orsök þess að þú varðst trúaður. Ég gæti verið að misskilja eitthvað hér.

Hún segir að Guð sjálfur sannfæri menn um tilvist sína, án hjálpar frá öðrum, og það gerðist fyrir mig.

Það er eiginlega sérstaklega þessi setning sem passar engan vegin við þá skoðun að þú hafir orðið trúaður vegna áhrifa frá Gídeonmönnum.


Sindri G (meðlimur í Vantrú) - 16/09/14 17:58 #

Sæll. Gaman að þú skyldir finna vitnisburðinn. Ég nefndi ekki Gídeonfélagið, en Nýja testamentið sem ég las (sbr. "Ég byrjaði að lesa Guðsspjöllin þegar ég var 14 ára, til þess að geta sofnað") var einmitt bláa Gídeon Nýja testamentið sem ég fékk í Flataskóla. Ég las bæði það og leiðbeiningarnar sem með fylgdu. Trúin kviknaði smám saman í mér við lesturinn á Gídeon Nýja testamenntinu. Ég trúði því sjálfur að Guð hefði sannfært mig í gegnum Nýja testamentið og heilagan anda um tilvist sína.


Sverrir Ármannsson - 27/01/15 00:45 #

Sæll Sindri, Ég lét bláu bók Gídionmanna ekkert trufla mig fyrstu tíu árin eftir að ég fékk hana afhenta. En rúmlega tvítugur fátækur hið innra sagði ég eitt kvöldið sí svona".ef þú ert til Guð gef ég þér frjálsar hendur að koma inn í líf mitt" Það gerðist, þó ekki þannig að lífsbraut mín yrði neonljósum prýdd, þverrt á móti, þar má finna blad í poka. Það sem ég er að reyna að segja hefur ekki hvarlað að þér að biðja Guð að kíkja á stöðuna og athuga hvort þér hafi yfirsést eitthvað. Sbr. sálm 139: 23-24


Sindri G (meðlimur í Vantrú) - 13/06/15 18:56 #

Sverrir skrifar: "hefur ekki hvarlað að þér að biðja Guð að kíkja á stöðuna". Ég gerði það daglega meðan ég hafði enn einhvern snefil af trú á því að Guð kynni yfir höfuð að vera til "Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upplokið verða" (Matt 7:7) - virkaði ekki fyrir mig.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.