Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hugsanleg fráleit hækkun sóknargjalda

Mynd af frétt um fjármál kirkjunnar

Í síðustu viku var sagt frá því að nefnd á vegum innanríkisráðuneytisins sem átti að skoða sóknargjaldafyrirkomulagið, hafi komist að þeirri niðurstöðu að hækka eigi framlög í formi sóknargjalda um litlar 663 milljónir á þriggja ára tímabili. Sú niðurstaða kemur ekki beint á óvart þegar helmingur nefndarmanna var skipaður af ríkiskirkjunni og einn í viðbót með sterk tengsl við kirkjuna. Það er margt fleira undarlegt í skýrslu nefndarinnar.

Aðrar ríkisstofnanir?

Til að byrja með er niðurskurður kirkjunnar ítrekað borinn saman við niðurskurð á framlögum til stofnana innanríkisráðuneytisins. Þjóðkirkjan er borin saman við "aðrar stofnanir sem undir innanríkisráðuneytið heyra" (bls 3 og 4) og “aðra ríkisaðila" (bls 20).

Af hverju er verið að bera hina meintu sjálfstæðu Þjóðkirkju saman við ríkisstofnanir? Þjóðkirkjan er vissulega ríkisstofnun, en hingað til hafa starfsmenn ríkiskirkjunnar harðneitað því að svo sé. Eflaust eru þeir sáttir við að viðurkenna að Þjóðkirkjan sé ríkisstofnun í þessu tilviki af því að þá geta þeir reynt að fá meiri peninga úr ríkissjóði.

“Heppilegt” ártal

Ártalið sem nefndin miðar við sem einhvers konar núll-punkt sóknargjalda, árið 2008, er líka vægast sagt heppilegt fyrir ríkiskirkjuna. Eins og sést á þessu línuriti sem sýnir raungildi sóknargjalda (og byggir á tölum frá fjármálaráðuneytinu), voru sóknargjöldin árið 2008 með því hæsta sem gerðist. Það eru undarleg vinnubrögð hjá nefndinni að velja þennan viðmiðunarpunkt.

Súlurit sem sýnir þróun sóknargjalda

Á þessu tímabili hefur svo skjólstæðingum kirkjunnar fækkað, en það sama gildir ekki endilega um aðrar stofnanir ráðuneytisins.

Sóknargjöld ekki félagsgjöld

Í skýrslunni er sú rangfærsla margendurtekin að sóknargjöld séu félagsgjöld, en það er bull og vitleysa.

Ef sóknargjöld væru í alvöru félagsgjöld væri auðvitað stórundarlegt að þeir sem eru ekki í trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi þyrftu samt að borga þau. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur einmitt skammað Ísland fyrir þetta og ætla mætti að innanríkisráðuneytið, sem sér um mannréttindamálaflokkinn, myndi vita af því og legði til að farið væri eftir þessum ábendingum.

Er ekki komið nóg?

Ríkiskirkjan á ekki rétt á neinni ákveðinni upphæð frá ríkinu og þess vegna þarf ekkert að "leiðrétta” neitt.

Það er hreint ótrúlegt að það skuli vera lagt til í fullri alvöru nú á tímum að auka útgjöld ríkisins til trúfélaga þegar ríkið hefur ekki mikið á milli handanna.

Ef ríkiskirkjan þarf meiri pening er til einföld lausn. Hún getur fylgt í fótspor flestra frjálsra félagasamtaka og innheimt félagsgjöld af meðlimum sínum.

Ritstjórn 04.09.2014
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú , Sóknargjöld )

Viðbrögð


Magnus S. Magnusson - 04/09/14 15:40 #

Það löngu kominn tími á að skoða starfsemi ríkis kirkjunnar vandlega. Sú spilling sem hér kemur fram er aðeins efsti toppur á starfsemi sem byggir á makalausum hindurvitna og forheimskunar kerfum kolsvartrar fornaldar. Að slík starfsemi sem í raun er hrikalegasta dæmi um andlegt barnaníð sem m getur sé á nokkurn hátt tengd við uppeldi og siðferði frekar en grófa glæpastarfsemi er með ólíkindum og óþolandi fyrir upplýst og heiðarlegt fólk að horfa upp á. Að starfsemi sem ríkisvaldið ætti að vara við og hemja sé beinlínis studd af ríkisvaldinu er hreinlega nær ómögulegt að trúa, en ekki dugir á Íslandi 2014 að klípa sig i handlegginn. Þetta er en íslenskur raunverleiki.


Þorsteinn - 24/10/14 00:20 #

Hver var upphæð sóknargjaldsins 1986 og hvað er það framreiknað til dagsins í dag ?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 24/10/14 00:48 #

Þorsteinn, ég er ekki með tölurnar fyrir 1986, en á blaðsíðu 2 í þessu svari fjármálaráðherra er tafla með tölur allt aftur að 1988. (sem súluritið í þessari grein byggir á)

Árið 1988 var upphæðin 2.510 kr á mann á ári og í dag væru það 10.252 kr.


Þorsteinn - 24/10/14 13:56 #

Samkvæmt vísitölu neysluverðs til verðtryggingar fyrir 1.11.2014 væru það þá kr. 13.117 sem sóknargjaldið ætti að vera samkvæmt lögunum miðað við að halda í við verðlag eins og lögin kveða á um.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 24/10/14 16:17 #

Þorsteinn, nú er víst talað um meðaltekjuskattstofn þarna (nú er ég ekki góður í hagfræði, en það breytist væntanlega ekki eins og vísitala neysluverðs), í svarinu sem ég benti á sérðu hvernig sóknargjöldin ættu að vera núna ef aðferðin í 2. grein væri beitt (12.804 kr).

En samkvæmt lögunum eins og þau eru núna er sú upphæð auðvitað ekki rétt ;)


Þorsteinn - 27/10/14 09:19 #

Já lögin voru upphaflega samin með öðrum forsendum - um sóknargjald sem hafði verið innheimt sjálfstætt ogvíða af sýslumönnum og gjaldheimtunni í Reykjavík með samningum um innheimtuna og fengu sýslumenn og gjaldheimtan innheimtuþóknun. Um þetta varð samkomulag, sem ríkið kallaði eftir vegna breytinga á skattkerfinu yfir í staðgreiðslu. Með lögunum var ákveðið að bæta sóknargjaldaupphæðinni eins og hún var á hvern einstakling inn í tekjuskattsinnheimtuna mog skyldi samkvæmt samkomulaginu í nefndinni sem ráðherrann setti upp, sóknargjaldið uppfærast með verðlagi á hverju ári og fjársýsla ríkisins sá uym þá útreikninga á hverju ári. Þetta sóknargjald var ekki framlag ríkisins heldur innheimt af hverju sóknarbarni 16 ára og eldra. Því er ekki hægt að segja að það sé löglegt af ríkinu að ganga á bak þess samnings þó það sé með lögum. Ekki var kallað eftir samningafundum með trúfélögum eða lífsskoðunarfélögum við þetta til að leita eftir samkomulagi um breytingu á sóknargjöldum sem eru eign þeirra.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 27/10/14 09:26 #

Þetta sóknargjald var ekki framlag ríkisins heldur innheimt af hverju sóknarbarni 16 ára og eldra.

Ef þú ert að tala um kerfið eins og það er núna, þá er þetta ekki rétt hjá þér. Sóknargjald er ekki innheimt af neinum. Sóknargjald er nafn á framlagi ríkisins.

Því er ekki hægt að segja að það sé löglegt af ríkinu að ganga á bak þess samnings þó það sé með lögum.

Það er ekki til neinn samningur um sóknargjöld.

Ekki var kallað eftir samningafundum með trúfélögum eða lífsskoðunarfélögum við þetta til að leita eftir samkomulagi um breytingu á sóknargjöldum sem eru eign þeirra.

Sóknargjöld sem búið er að láta trúfélög fá eru vissulega eign þeirra, en trúfélög eiga engan rétt á neinni sérstakri upphæð sóknargjalda. Ef Alþingi myndi ákveða að sóknargjöldin fyrir 2015 yrðu 1 kr. á mánuði fyrir hvern meðlim, þá gæti Alþingi það.


Þorsteinn - 28/10/14 00:30 #

Kannt þú ekki að lesa Hjalti ? Þetta er einhver mesti útúrsnúningur sem ég hef séð lengi á staðreyndum ! Lestu lögin um sóknargjöld, umræðuna sem og greinargerðina. Þá er ekki séns, nema þú sért ólæs og með lesblindu, að setja svona fram eins og þú gerir.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 28/10/14 01:45 #

Þorsteinn, ég er greinilega jafn ólæs og starfsmenn fjármálaráðuneytisins ;)

Ég hef lesið þetta allt sem þú vísar á, hefurðu eitthvað efnislegt sem hrekur það sem ég sagði?


Þorsteinn - 03/11/14 22:25 #

Hjalti Rúnar.

Ég sé að stjórnarráðið er mér sammála - þrátt fyrir orð þín á annan veg :

„Í skrif­legu svari inn­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins er vísað í ný­leg­ar skýrsl­ur á veg­um ráðuneyt­is­ins þar sem fjallað er um sókn­ar­gjöld sem fé­lags­gjöld og að „eng­in sér­stök and­mæli hafa verið við því“

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/11/03/telur_soknargjold_vera_felagsgjold/


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 04/11/14 16:33 #

Þorsteinn, ég veit að starfsmenn fjármálaráðuneytisins telja þetta ekki vera félagsgjöld.

Hér kemur spurning: Ef ríkið myndi á morgun taka þá ákvörðun að gefa Vantrú 10.000 krónur á ári fyrir hvern félagsmann Vantrúar, væru það þá félagsgjöld? Því að nákæmlega þannig eru sóknargjöld.


Þorsteinn - 05/11/14 05:17 #

Fjármálaráðuneytinu var send skrifleg fyrirspurn af morgunblaðinu um

„hvort það liti á sókn­ar­gjöld sem fé­lags­gjöld eða ekki“

Þú, Hjalti Rúnar, segir að þeir séu með skilning á, hvað sóknargjald sé. Skriflegt svar fjármálaráðuneytisins var þó á annan veg en þú hefur fullyrt :

„ Í skrif­legu svari frá ráðuneyt­inu kom fram að það tæki ekki af­stöðu til þess og vísaði þess í stað á inn­an­rík­is­ráðuneytið.“

Svar innanríkisráðuneytisins er skírt um þetta efni eins og menn hafa þekkt um verulega langan tíma, enda er sóknargjaldið elsta félagsgjald í þessu landi.

10.000 kr til vantrúar eins og þú nefnir er ódýr smjörklípa af þinni hálfu og hreinræktaður útúrsnúningur. Það veistu sem hugsandi einstaklingur með vit í kollinum. Ekki bjóða uoo á sandkassaleik í þessu. Það hlýtur að vera fyrir neðan virðingu þína.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 05/11/14 09:30 #

Þorsteinn, sóknargjöld eru ekki félagsgjöld. Þau eiga næstum ekkert sameiginlegt með félagsgjöldum. Þú ert sá eini sem rótar í sandkassanum hér.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 05/11/14 09:46 #

Þorsteinn, ég byggi fullyrðingu mína á ummælum kirkjuþingsmanna um það að þeir væru alltaf að deila við fjármálaráðuneytið um þetta.

...enda er sóknargjaldið elsta félagsgjald í þessu landi.

Sóknargjöld eru ekki félagsgjöld af því að þetta er ekki innheimt af fólki. Sóknargjöld eru bara til sem útgjöld ríkisins.

10.000 kr til vantrúar eins og þú nefnir er ódýr smjörklípa af þinni hálfu og hreinræktaður útúrsnúningur.

Þetta er ekki útúrsnúningur, af því að lýsingin sem ég gaf (Vantrú fær X upphæð frá ríkinu fyrir hvern meðlim) er nákvæmlega eins og núverandi fyrirkomulag sóknargjalda.

Væru það félagsgjöld ef ríkið gæfi okkur í Vantrú 10.000 krónur á ári fyrir hvern skráðan meðlim?


EgillO (meðlimur í Vantrú) - 11/11/14 05:07 #

Þetta er í raun voðalega einfalt. Þorsteinn talar um lög um sóknargjöld. Í fyrstu grein þeirra, og reyndar fyrstu setningu, er talað um hlutdeild í tekjuskatti. Það eru engin félagsgjöld rukkuð í gegnum tekjuskatt á Íslandi.

Fjármálaráðuneytið sjálft hefur þetta að segja um sóknargjöld:

[E]ngin sérgreind sóknargjöld eru innheimt af ríkinu, hvorki af þeim sem greiða tekjuskatt né þeim sem eru undir skattleysismörkum, heldur eru framlög vegna sóknargjalda greidd úr ríkissjóði af almennu skattfé og öðrum tekjum ríkisins óháð innheimtu tekjuskatts. Þetta kemur m.a. fram í því að framlögin eru greidd úr ríkissjóði þrátt fyrir að um þriðjungur framteljenda greiði engan tekjuskatt til ríkisins.

Þetta kemur fram hér: http://www.althingi.is/altext/143/s/0793.html

Hér hafa menn ruglað saman fjármálaráðuneyti og innanríkisráðuneyti, sem er í dag auðvitað gamla kirkjumálaráðuneytið. Það er í raun alveg sama hvaða túlkun menn hafa þar. Fjármálaráðuneytið hefur yfirsýn yfir hvað fer út úr ríkissjóði og hvað er innheimt sérstaklega. Og ríkiskirkjusinninn Bjarni Ben gaf skýrt svar.

Það er ennfremur ekki til neinn samningur um sóknargjöld.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?