Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Þjóðkirkjan er ríkisstofnun

Merki ríkiskirkjunnar

Starfsmenn ríkiskirkjunnar eru í gífurlegri afneitun varðandi eðli ríkiskirkjunnar. Þeir vilja ekki viðurkenna að rétt sé að kalla Þjóðkirkjuna ríkiskirkju og flokka það jafnvel sem uppnefningar og dónaskap að kalla hana ríkiskirkju. Maður fær sömu viðbrögð þegar maður kallar Þjóðkirkjuna ríkisstofnun.

Afneitanirnar

Það er hægt að benda á ýmis dæmi þess að menn í æðstu stöðum ríkiskirkjunnar mótmæli því harðlega og kalli það vanþekkingu og dónaskap að tala um Þjóðkirkjuna sem “ríkisstofnun” en ég læt duga að koma með þrjú dæmi:

  1. Ríkiskirkjupresturinn (og þar af leiðandi ríkisstarfsmaðurinn!) og formaður Prestafélags Íslands, Guðbjörg Jóhannesdóttir, sagði þetta í viðtali í fyrra:

Það fyrsta sem mætti nefna er að hún talar um kirkjuna sem ríkisstofnun og það kemur manni mjög spánskt fyrir sjónir að heyra svona misskilning hjá þingmanni,... #

  1. Tíu kirkjuþingsmenn rituðu undir tillögu sem innihélt þessa setningnu í greinargerð:

Margs konar hleypidómar eru á ferð sem telja m.a. að kirkjan sé ríkisstofnun og lúti stjórn þess. #

  1. Á kirkjuþingi fyrir tveimur árum síðan virtist einn þingmaðurinn halda að Þjóðkirkjan væri stofnun og lagði til örlitla orðalagsbreytingu:

Eins og má heyra þá voru hinir kirkjuþingsmennirnir alls ekki á því að Þjóðkirkjan væri ríkisstofnun.

Hvers vegna hún er ríkisstofnun

Þó svo að Þjóðkirkjan sé auðvitað að miklu leyti sjálfstæð stofnun, þá eru samt góðar ástæður fyrir því að flokka Þjóðkirkjuna sem ríkissstofnun:

  1. Alþingi hefur sett ítarleg lög um “stöðu, stjórn og starfshætti” Þjóðkirkjunnar. Kirkjan má til dæmis ekki einu sinni flytja aðsetur vígslubiskupana eða ákveða hvenær söfnuðir hennar halda aðalfundi, það er allt ákveðið af Alþingi.

  2. Þjóðkirkjan er að miklu leyti fjármögnuð með framlögum frá ríkinu.

  3. Biskup Íslands, vígslubiskupar, prófastar og prestar þjóðkirkjunnar” eru allir starfsmenn ríkisins.

  4. Kirkjan vísar kærumálum til ráðherra. Í lögunum um Þjóðkirkjuna er til dæmis minnst á að kærur vegna kirkjumála enda í áfrýjunarnefnd sem er skipuð af innanríkisráðherra (13. grein laganna).

Af þessu virðist vera nokkuð eðlilegt að telja Þjóðkirkjuna vera ríkisstofnun.

Þjóðkirkjan er almennt talin vera ríkisstofnun

Þjóðkirkjan er líka almennt álitin vera ríkisstofnun hjá hinum ýmsu sérfræðingum og stofnunum:

  1. Ríkisskattstjórinn flokkar rekstrarform Biskupsstofu sem “ríkisstofnun”:

Skjáskot af heimasíðu RSK

  1. Innanríkisráðuneytið telur Biskupsstofu upp sem stofnun ráðuneytisins:

Skjáskot af heimasíðu innanríkisráðuneytisins

  1. Þegar ríkiskirkjulögunum var breytt árið 1997 fékk Þjóðkirkjan tvo sérfræðinga, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson, til þess að skrifa álitsgerð um réttarstöðu Þjóðkirkjunnar og þeir töldu að hún væri stofnun ríkisins1.

  2. Nýlega var frétt um það að ríkiskirkjan væri að innheimta gjald án lagastoðar og umboðsmaður Alþingis taldi að það væri ekki heimilt. Frjáls félagasamtök mega setja á gjöld eftir smekk, ekki ríkisstofnanir.

Klárlega ríkisstofnun

Það eru því góð rök fyrir því að kalla Þjóðkirkjuna ríkisstofnun og sú skoðun virðist vera ríkjandi hjá stofnunum sem ættu að vita hvort að svo sé (þá sérstaklega innanríkisráðuneytið og umboðsmaður Alþingis).

Það er því frekar sorglegt að viðbrögð kirkjunnar manna við því að fólk noti þetta orð séu hneykslun og ásakanir um vanþekkingu viðkomandi. Ef þeim líkar svona illa við það að vera ríkisstofnun eru réttu viðbrögðin sú að aðskilja ríki og kirkju en ekki að væla og kvarta yfir dónaskap.


[1] Sjá til dæmis þessi ummæli: “Það, sem einkennir þjóðkirkjuna og greinir hana frá öðrum stofnunum ríkisins, er að hún hefur sérstöku hlutverki að gegna. “(http://www2.kirkjan.is/node/8046 )

Ritstjórn 25.08.2014
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


G2 (meðlimur í Vantrú) - 25/08/14 11:23 #

Að sjálfsögðu er þjóðkirkjan ríkisstofnun - ríkiskirkja - eins og er berlega tíundað í þessum pistli.

Eitt af því sem nefna má til viðbótar og er að mínu mati ein sterkasta röksemdin er stjórnarskráratkvæðið (62. gr.) um að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi. Það að mælt skuli vera fyrir um að sérstök kirkjudeild sé þjóðkirkja í grundvallarlögum ríkisins er þó ekki aðal röksemdin fyrir ríkiskirkjueðli þjóðkirkjunnar, heldur hitt að mælt er fyrir um tiltekna 'gerð' kristni. Kirkjunni er m.ö.o. óheimilt að breyta kenningagrundvelli sínum nema með leyfi ríkisisins. Kirkjan er því bundin af hálfu ríkisins og ræður engu um hvað hún kennir og hverju prelátarnir trúa. Undarlegt sjálfstæði það.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 10/01/15 20:06 #

Kannski rétt að bæta því við hérn að þegar spurt er hverjar ríkisstofnanir landsins eru á Alþingi, þá er "Þjóðkirkjan" talin upp í svarinu.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?