Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Tíu vandræðalegustu ummæli Jesú

Mynd úr Jesú

Flestir kannast við sum ummæli Jesú. Allir þekkja söguna um miskunnsama Samverjann, gullnu regluna og tvöfalda kærleiksboðorðið. Af einhverjum ástæðum eru ýmis önnur ummæli Jesú það óvinsæl að kristið fólk minnist nær aldrei á þau. Hér verður reynt að bæta úr því með því að kynna þau tíu ummæli Jesú sem ólíklegast er að prestar segi fermingarbörnum frá:

10. Skilnaður bannaður (Lk 16:18)

Hver sem skilur við konu sína og gengur að eiga aðra, drýgir hór, og hver sem gengur að eiga konu, sem skilin er við mann, drýgir hór.

Skiljanlega eru þessi ummæli ekki vinsæl þar sem skilnaðir og giftingar aðskildra eru ekki talin siðferðislega ámælisverð á Íslandi.

Prestar reyna að afsaka þessi ummæli með því að segja að fráskildar konur hafi haft það slæmt og að þarna hafi Jesús bara verið að koma í veg fyrir það að konur lentu í slíkri stöðu. Það gengur þó ekki upp því Jesús fordæmir þetta á þeim forsendum að verið sé að drýgja hór og svo bannar hann körlum að giftast fráskildum konum (og þar með bæta stöðu kvennanna)!

9. Dæmisögur eru til þess að rugla (Mk 4:11-12)

Yður er gefinn leyndardómur Guðs ríkis. Hinir, sem fyrir utan eru, fá allt í dæmisögum, að sjáandi sjái þeir og skynji ekki, heyrandi heyri þeir og skilji ekki, svo þeir snúi sér eigi og verði fyrirgefið.

Því er oft haldið fram að Jesús hafi talað í dæmisögum svo að fólk myndi skilja boðskapinn hans betur. Fólk vitnar aldrei í ummælin þar sem Jesús útskýrir hvers vegna hann talaði í dæmisögum, líklega af því að þau eru í mótsögn við fullyrðingar þeirra.

Í þessum versum segir Jesús að hann tali í dæmisögum til þess að fólk skilji hann ekki af því að ef það myndi skilja hann myndi það iðrast og fá fyrirgefningu. Við viljum það ekki!

8. Eilíf synd (Mk 3:29)

...en sá sem lastmælir gegn heilögum anda, fær eigi fyrirgefningu um aldur, hann er sekur um eilífa synd.

Í hvert sinn sem prestur segir að guð eða Jesús fyrirgefi allar syndir, ímyndaðu þér að það fylgi smátt letur þeirri fullyrðingu: “nema þú lastmælir gegn heilögum anda”. Ef þú lastmælir gegn heilögum anda þá er ekki hægt að fyrirgefa þér og þú ferð beinustu leið til helvítis.

En hvað er að lastmæla gegn heilögum anda? Þeir prestar sem tjá sig um þetta vers reyna að koma með alls konar útskýringar sem allar virðast eiga sameiginlegt að það er ómögulegt að fremja þessa synd.

7. Lögmál Móses eru í gildi (Mt 5:17-19)

Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki.

Það mætti halda að prestar væru alltaf að vitna í þessi ummæl þar sem þau eru úr sjálfri fjallræðunni. Óvinsældir ummælanna eru til komin af því að prestar eru fullkomlega ósammála þeim.

Prestar borða svínakjöt, vinna á laugardögum og brjóta lögmál Móse á mjög marga vegu. Þeir segja að það sé allt í lagi, Jesú afnam nefnilega lögmálið. Nema hvað, hér segir Jesús að hann hafi alls ekki gert það heldur mun ekki "stafkrókur falla úr lögmálinu” og það má ekki "brjóta eitt af þessu minnstu boðum”.

6. Seljið eigur ykkar (Lk 12:33)

Seljið eigur yðar og gefið ölmusu, fáið yður pyngjur, er fyrnast ekki, fjársjóð á himnum, er þrýtur ekki, þar sem þjófur fær eigi í nánd komist né mölur spillt.

Það er nokkuð augljóst hvers vegna þetta eru ekki vinsæl ummæli. Það fer enginn eftir þessu nema helst munkar og nunnur. Nei, Jesús gat ekki meint þetta. Þetta hlýtur að hafa verið myndlíking eða hann vildi að fólkið sem heyrði þetta akkúrat þegar hann sagði þetta seldi eigur sínar - eða bara eitthvað!

5. Eilífur eldur (Mt 25:41,46)

Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ,Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. … Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs."

Helvíti er ekki vinsælt umræðuefni hjá trúmönnum en í guðspjöllunum minnist Jesú oft á helvíti. Það sem gerir þessi ummæli sérstaklega óvinsæl er talið um "eilífa refsingu” og "eilífan eld”. Að Jesús skuli hafa talað um að brenna fólk að eilífu er ekki mjög vinsælt umræðuefni hjá prestum.

4. Heimsendirinn sem aldrei kom (Mt 16:27-28)

Mannssonurinn mun koma í dýrð föður síns með englum sínum, og þá mun hann gjalda sérhverjum eftir breytni hans. Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu."

Þarna segir Jesús að heimsendir muni eiga sér stað áður en einhverjir áheyrenda hans muni deyja. Tvö þúsund árum seinna er frekar augljóst að þeir eru allir dánir og því hafði Jesús augljóslega rangt fyrir sér. Hann var misheppnaður heimsendaspámaður.

Útskýringar kristinna manna á þessu eru margar og mis-”frumlegar”. Allar eiga þær sameiginlegt að samkvæmt þeim er "koma Mannssonarins” í upphafi ummælanna allt annað en "koma Mannssonarins” í lok þeirra. Fyrra skiptið er vissulega heimsendir en í síðara skiptið á Jesús við: umbreytinguna, krossfestinguna, upprisuna, uppstigninguna, hvítasunnu eða bara eitthvað annað en heimsendi.

Jafnvel er stungið upp á því að tæknilega séð hafi lærisveinninn Jóhannes verið viðstaddur þegar Jesús sagði þetta og hann "” heimsendi í sýnum samkvæmt Opinberunarbókinni.

3. Snáfiði! (Mt 7:21-23)

Ekki mun hver sá, sem við mig segir: "Herra, herra" ganga inn í himnaríki, heldur sá einn, er gjörir vilja föður míns, sem er á himnum. Margir munu segja við mig á þeim degi: "Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?" Þá mun ég votta þetta: ,Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.

Jesús vill að allir komist í himnaríki, er það ekki? Ekki alveg. Í þessum ummælum birtir Jesú mynd af fólki sem játar trú á Jesú og telur sig jafnvel hafa framið kraftaverk með hjálp Jesú, en hvað mun Jesú segja við það? "Farið frá mér!” Jesús á jafnvel eftir að reka trúfólk sem vill komast til himnaríkis í helvíti. Af skiljanlegum ástæðum vill trúfólk ekki vera minnt á það.

2. Helvíti ljótt (Mt 13:40-42)

Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.

Í þessum ummælum er Jesús enn einu sinni að tala um heimsendi og helvíti. Jesús segir að við heimsendi muni hann senda engla til þess að kasta fólki í "eldsofninn”. Fyrir utan allt heimsenda- og helvítistalið þá er eitthvað afskaplega óhugnalegt við það að Jesús tali um að henda fólki í "eldsofn”.

1. Skilgreindu “kynslóð” (Mk 13:30/Mt 24:34)

Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.

Þessi ummæli eru ekki vandræðaleg fyrr en maður sér hvað "allt þetta” er sem Jesús talar um: Jesús er nýbúinn að tala um heimsendi, hann talar um að "sólin muni sortna”, "tunglið hætta að skína”, "stjörnurnar hrapa af himni” og "Mannssonurinn koma í skýjum” og englar munu safna hinum útvöldu (og þá líklega henda öllum hinum í "eldsofninn”).

Kynslóðin sem heyrði þetta er auðvitað löngu dauð og stjörnurnar hafa enn ekki hrapað af himni. Prestar eru ekki gjarnir á að vekja athygli á því að Jesús hafi spáð ranglega fyrir um heimsendi.

Kristið fólk hefur reynt að útskýra þessi mistök Jesú á marga vegu. Annars vegar með því að neita því að "þessi kynslóð” vísi til samtímamanna Jesú heldur einhvers eins og "gyðinga” eða "sú kynslóð sem verður á lífi þegar heimsendir kemur”. Hins vegar með því að neita því að tal Jesú um sortnun sólarinnar og stjörnuhrap eigi raunverulega við um heimsendi heldur eigi Jesú bara við stríð gyðinga við Rómverja á 1. öld.

Ritstjórn 14.08.2014
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Sögulegi Jesús )

Viðbrögð


Adda Guðrún Sigurjónsdóttir - 14/08/14 14:59 #

Ótrúlega skemmtilegt að grafa ofan í þetta og skoða frá mörgum hliðum. Vel hægt að hrekja margt sem fólk hefur verið heilaþvegið með í gegnum aldirnar!


Valur Arnarson - 14/08/14 18:11 #

Sæl Ritsjórn :)

Áhugaverð grein hjá ykkur. Ég væri til í að taka þetta fyrir á blogginu mínu - geri það kannski um helgina. Sýnist þetta í fljótu bragði vera of langt til að svara því hér. En ég gerði færslu um lögmálið og spámennina (liður 7) og fékk Hjalta Rúnar til að spjalla aðeins við mig um það, sjá hér:

http://valur-arnarson.blog.is/blog/valur-arnarson/entry/1407041/


Jens Einars. - 14/08/14 20:58 #

Ósköp er þetta aumkunnarverð grein hjá höfundi. Opinberar heimsku sína og fáfræði á kristindómi.Ég myndi í hans sporum reyna að kynna mér aðeins betur kristinfræðina. Svona grein skrifar bara einfeldningur.


Árni Jensson - 15/08/14 13:03 #

[Athugasemd sem tengdist ekki efni greinarinnar færð á spjallið - Hjalti]


Valur Arnarson - 16/08/14 21:42 #

Var að svara greininni ykkar sjá hér:

Óvinsæl ummæli Jesú - fyrri hluti

Svara fyrstu 5 síðar.


Snorri - 16/08/14 23:25 #

Takk fyrir þessa grein því hún sýnir ekki veikleika kristninnar heldur samtímans. Það er vantrúin sem hefur aflagað hugarfar þjóðarinnar en "Orð Drottins varir að eilífu" segir Pétur. Þessi grein er því ákæra á þann sem ritaði sem og hina sem eru sekir við þessi Orð Drottins. Kynsóð Jesú leið t.d ekki undir lok fyrr en hún var búin að sjá "sólina myrkvast", björgin klofna, fjármuni og eignir verðlaus og borgina hrunda. Það sem við eigum eftir að sjá er einmitt borgina umkringda óvinaherjum, Guðleysi magnast, Antikrist ná völdum yfir ykkur sem og endurkomu Jesú. Heimsendir þýðir ekki tortímingu heldur endalok yfirráða eins og dauðinn verður fjarlægður og Satan kippt úr áhrifavaldi og innilokaður, amen. það er þá bjart framundan fyrir þá sem Viðurkenna að Jesús Kristur er Sonur Guðs, Frelsarinn upprisni. k.kv Snorri í Betel


Valur Arnarson - 17/08/14 17:32 #

Búin að svara fyrstu 5, sjá hér:

Óvinsæl ummæli Jesú - síðari hluti


Matti (meðlimur í Vantrú) - 17/08/14 19:54 #

Skilningsleysi Vantrúar er frekar vísbending um að þeir þurfi á Jesú að halda í sínu lífi, í bænum og verki, svo að þeir hætti að beina fólki í eldsofnin og hætti að rangtúlka orð Guðs öðrum til óheilla. #

Hahaha.

Dæs.

Ég verð að segja Valur, að svör þín byggjast flest á því að réttlæta viðbjóðinn sem við bendum á - ekki að afneita honum eða að sýna að við höfum farið rangt með. Til dæmis er hugmyndin um helvíti viðbjóðsleg og það er það sem við bendum á.

Ég held samt að misskilningurinn sé samt fyrst og fremst að þú heldur að við séum að höfða til trúmanna eins og þín með svona skrifum. Það erum við ekki að gera. Við erum að reyna að höfða til fólks sem er ósköp lítið trúað en heldur að Jesús hafi verið "rosa góður gæi". Þetta fólk hefur ekkert lesið Biblína, bara heyrt stöku frasa frá ríkiskirkjuprestum. Þessu fólki hugnast ekki hugmyndin um helvíti, þó þér finnist hún bara fín. Þetta fólk heldur að þú sért rosalegur öfgatrúmaður þegar raunin er bara að þú vitnar í Biblíuna og Jesús. Þú hræðist ekki textana sem ríkiskirkjuprestarnir eru löngu búnir að klippa úr sínum biblíum.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 17/08/14 20:12 #

Þú mátt eiga það Snorri að þú ert sjálfum þér samkvæmur og ert ekki að reyna að pakka kristninni inni í söluvænan búning.

Hitt er að ósamræmi kristni og nútímans er ekki vandamál nútímans heldur kristninnar. Þessi mismunur opinberar hvílík fáfræði og mannvonska liggur að baki ritun þessara bóka sem eru grundvöllur nokkurra trúarhreyfinga.

Það er mikilvægt að benda þeim sem telja sig kristna á einhverjum útvötnuðum forsendum hvað þeir eru í raun og veru að "kvitta upp á":

Það þarf ekki mikla skynsemi til að hafna þessum boðskap sem því svartagallsrausi sem hann er.


Valur Arnarson - 17/08/14 20:34 #

Sæll Matti,

Ég geri mér grein fyrir því að greinin er ætluð prestum Þjóðkirkjunnar, enda átti ég mjög auðvelt með að svara henni :)

Var reyndar í vandræðum með 4. liðin en ef bara einn liður af tíu sem er til vandræða þá er það nú frekar vísbending um styrkleika kristninnar.

En ég hvet ykkur þá að til að koma með alvöru gagnrýni sem er virkilega erfitt að svara. Reyndar skýt ég nokkrum föstum skotum á ykkur í færslunum ;)

Ef ég er að lesa þetta rétt að þá er höfundurinn að mestu Hjalti Rúnar enda Þjóðkirkjuprestarnir hans sérgrein, Hjalti stendur sig vel :)


Street Preacher - 18/08/14 19:07 #

Your Bible is missing the double quotes. Jesus is quoting Isaiah:

Then I heard the voice of the Lord saying, “Whom shall I send? Who will go for us?” “Here I am,” I said; “send me!” And he replied: Go and say to this people: Listen carefully, but do not understand! Look intently, but do not perceive! Make the heart of this people sluggish, dull their ears and close their eyes; Lest they see with their eyes, and hear with their ears, and their heart understand, and they turn and be healed. Isaiah 6:8-10 (NABRE)

I think you can expand on this even more by adding Matthew 13 which is the same event (Parable of the Sower), written a little differently. I think Matthew explains it better: Though seeing, they do not see; though hearing, they do not hear or understand. In them is fulfilled the prophecy of Isaiah.


Jólasveinninn - 18/08/14 19:29 #

"The one place God undeniably exists is in the mind."

  • Alan Moore

Biiiaaatch !!!!


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 25/08/14 19:50 #

Valur, ég nenni ekki að svara öllum punktunum hérna (skal setja það á spjallið). En mig langar endilega að heyra frekari útskýringar frá þér hér á punkti númer eitt.

Þetta segir þú (með feitletrun frá mér):

Þetta er auðvitað rakalaus þvæla hjá þeim í Vantrú því kynslóð Jesú eru auðvitað allir sem lifa þessa tíma, frá því að hann var uppi og til þess dags sem hann kemur aftur eins og hann segir sjálfur í versinu og kynslóðin mun ekki líða undir lok fyrr en allt er komið fram.

Valur, síðan hvenær merkir "þessi kynslóð" eitthvað eins og "þeir sem eru á lífi núna og allir þeir sem eru á lífi þangað til Jesús kemur aftur"? Ekki finnurðu þessa merkingu í neinni orðabók.

Og ef "kynslóð" merkir þetta, var þá Jesús að segja eitthvað í líkingu við þetta:

Allir því að ég var uppi og til þess dags sem ég kemur aftur* munu ekki líða undir lok fyrr en [ég kem aftur].

Sem er alger merkingarleysa.

Það er engin ástæða til þess að halda að "Þessi kynslóð", þýði ekki það sem það þýðir vanalega (svona eins og ef ég ávarpa hóp af fólki og segi "Þessi kynslóð er heimsk.").

Jesús var að ávarpa fólk sem lifði á fyrstu öld og sagði að sú kynslóð myndi ekki líða undir lok fyrr en heimsendir kæmi. Sú kynslóð leið undir lok. Heimsendir kom ekki.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 25/08/14 20:04 #

Valur, hérna eru svör frá mér. En mig langar endilega að ræða aðeins líka um fjórða atriðið á listanum, af því að það er svo skilt því fyrsta.

Þú vilt skilja "komu mannssonarins" sem svona:

...í samhengi við Guðs ríkið í þeim skilningi að Guðs ríki sé innra með okkur og að þar gerist mikilfenglegir hlutir, smbr. þegar lærisveinarnir skírðust í heilögum anda, töluðu tungum og efldu Guðs ríkið hér á jörð með því að fá til liðs við sig fylgjendur

En málið er að væntanleg "koma mannssonarins" er oft rætt í Nýja testamentinu og aftur og aftur er um heimsendi að ræða (þeas endurkomu Jesú). Það þarf ekki að fara lengra en einni setningu áður til þess að sjá það.

Geturðu komið með dæmi um það að "koma mannssonarins" þýði eitthvað eins og "að tala tungum" eða "að mikilfenglegir hlutir gerist innra með okkur"?

Nei. Þú getur það ekki.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?