Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

En svona í alvörunni, afhverju trúarbrögð?

Mynd af uppstigningu Jesú

Titillinn er það sem að greinin mun enda á, spurning sem að ég á erfitt með að sjá svarið við í nokkrum aðstæðum. Ég er ekki að tala um steríótýpu öfgafólk eins og redneck sköpunarsinna eða snargeggjaða hermenn Sharía í eftirfarandi heldur þennan venjulega „miðjumann“ trúmálanna; þjóðkirkjukristinn gætum við kallað hann.

Það hefur marg oft komið fram að stærstur hluti fólks í ríkiskirkjunni er ekki kristnari en svo að hafa verið skírðu og hengur í félaginu fyrir þær sakir eða fyrir sakir, sem að er algengari orsök, letinnar. Margt af þessu fólki kallar sig kristið, jafnvel þó að það taki ekki mark á upprisunni frekar en að vita hvað gerðist á uppstigningardaginn.

Einnig hefur það oft komið fram að það á bara alls ekki að taka mark á öllu í trúarritunum, sérstaklega ekki þeim kristnu. Það þarf hvorki að grýta homma, brenna nornir né segja satt.

Fólk sem að segir þetta, að ekki þurfi að vera bókstafstrúar, er einmitt það sem að ég á í vandræðum með hérna. Fólk sem að hvorki ristir á hol Egypta né brennir nautgripi til dýrðar guðs síns.

„Ó, ég kem bara fram við aðra eins og ég vill að aðrir komi fram við mig,“ eða „dæmisögurnar eru svo góðar,“. Já, það er alveg rétt. Gullna reglan er alveg hreint frábær og það eru nokkrar ágætar dæmisögur; þú getur fengið fullt af hörnuðum trúleysingjum til þess að viðurkenna það. En það gerir mann ekki kristinn að fylgja gullnu reglunni, ekki frekar en fólk verður að hindúum við að líka við hugsun karma.

Ég er hrifinn af mörgu í trúarbrögðum: gullnu reglu Nýja Testamentisins, karma hindúa, spakmæli Búddha og sögur heiðninnar en það gerir mig hvorki að kristlingi, hindúa, búddhista né heiðingja.

Þetta er þar sem margir hætta að átta sig á hlutum. Vegna þess að mér líkar við ákveðinn hluta ákveðinnar sögu innan þessa trúarrits hlýt ég að vera þessarar trúar. Afgangurinn af bókinni er bara ekki í samhengi.

Fólk flest getur alveg ákveðið hvaða ritningum trúarbragða það fylgir, sem betur fer. Merkilegt nokk þá eru það nær alltaf þessi þægilegu svo sem ekki drepa og ekki stela. En fyrst fólk getur alveg ákveðið fyrir sig sjálft hvernig boð og bönn leiðbeini lífi þeirra, hvers vegna þá að velja einhver yfirleitt?

Ef að einhver getur blaðað í gegnum Biblíuna og ætlað að fylgja einhverjum af þessum fágætu góðu hlutum en algerlega úthýst viðbjóðinum hvers vegna þá bara ekki að sleppa Biblíunni og ákveða sjálfur? Einstaklingurinn er ekki autt umsóknarblað sem að er fyllt út með lestri og kennslu. Siðferði fólks mótast af uppeldi og menningu og hvernig genin bregðast við því og það sést greinilega á því hvað verður fyrir valinu í trúarritningum. Eða frekar, hvað verður ekki fyrir valinu.

Ef að fólk getur svona auðveldlega valið eigin boðorð og lífsmottó hvers vegna að láta alla bókina fylgja með ósnortna? Afhverju ekki bara að segja „ókei, þessi hluti er fínn“ og hafa það þannig en ekki kaupa allan bílinn fyrir fínt útvarp?

Mér væri sama hvað fólk kallaði sig vegna þess að ég þekki mjög vel þrána fyrir að vera flokkaður og að tilheyra einhverju fjærsamfélagi en ég bara get það ekki þegar slík „rangnefni“ eru að fylla segl finngálkna óréttlætis.

Fólk verður ekki kommúnistar við að vilja jöfnuð né kapítalistar fyrir að vilja eignir. Það verður ekki heiðið fyrir að líka kveðskapur né nörd fyrir að hafa séð Episode III.

Ef að fólk getur alveg ákveðið meðvitað hvað það vill gera í lífinu: Hvers vegna trúarbrögð?

Grjóni Baldvinsson 25.02.2014
Flokkað undir: ( Aðsend grein , Kristindómurinn )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?