Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Rekum presta!

Prestar í furðufatagöngu

Eins ótrúlegt og það kann að hljóma þá er oft erfitt að fá presta Þjóðkirkjunnar til þess að segja hreint út hverju þeir trúa í raun og veru. Þessi undarlega framkoma þeirra er að vísu skiljanleg: Prestar geta nefnilega misst vinnuna sína ef trú þeirra er ekki í samræmi við játningar ríkiskirkjunnar.

Sökin mikla

Þegar baráttan um biskupsembættið fór fram í fyrra voru frambjóðendurnir, sem allir voru ríkiskirkjuprestar, spurðir að því hvað ætti að gera við prest sem myndi segja í predikun “að guð eigi eingöngu tilvist í hugarheimi manna”.

Einn frjálslyndasti frambjóðandinn, Sigríður Guðmarsdóttir, sagði að það þyrfti að “laga guðfræðina og ef ekki gengur, þá þarf áminningu eða brottvísingu”. Á öðrum vettvangi [1] voru frambjóðendurnir svo spurðir að því hvað ætti að gera ef prestur myndi fullyrða að “upprisa Krists hefði ekki átt sér stað“. Þetta var svar Sigríðar:

Ef prestar prédikar það sem ekki samræmist kristinni trú þarf biskupinn að skoða prédikun hans og áminna ef þurfa þykir. Það á við um upprisuna, hvort menn telji guðdóminn eiga sér stað í raun og veru og fleira.

Sigríður var ekki ein um það að telja þetta brot verðskulda áminningu eða brottrekstur. Gunnar Sigurjónsson sagði til dæmis að það þyrfti að “kanna trúarlega stöðu prestsins og áminna ef þurfa þykir”.

Trúvilla er brot

Það er skiljanlegt að prestarnir skuli vilja áminna eða reka trúvillupresta. Boðun “trúvillu” er nefnilega brot samkvæmt reglum ríkiskirkjunnar. Þegar prestar kirkjannar eru vígðir heita þeir því að boðun þeirra verði í samræmi við játningar kirkjunnar.[2]

Í samþykktum um innri málefni Þjóðkirkjunnar, sem var samþykkt af Kirkjuþingi (eins konar Alþingi ríkiskirkjunnar), er svo ljóst að kirkjan telur að það eigi að taka mark á vígsluheitinu:

Af vígsluheiti leiðir að presti er óheimilt að prédika nokkuð það sem stríðir gegn játningagrundvelli kirkjunnar.

Í samþykktunum stendur líka að biskup getur “afturkallað að fullu umboð vígslunnar og fellt vígslubréf úr gildi” ef að presturinn “hefur opinberlega hafnað játningum evangelísk-lúterskar kirkju.

Það er ekki óþekkt að prestar hafi verið áminntir fyrir trúvillu. Frægasta íslenska dæmið er eflaust frá 19. öld, en þá var Matthíasi Jochumssyni veitt “alvarleg áminning” fyrir að skrifa gegn þeirri kenningu ríkiskirkjunnar að fólk muni kveljast að eilífu í helvíti.

Látum reyna á þetta!

Nú er ég ekki kæruglaður maður, og vill ekkert sérstaklega að villutrúarprestar missi vinnuna sína en á meðan að Þjóðkirkjan berst fyrir forréttindastöðu sinni sem ríkiskirkja sé ég enga ástæðu til þess að leyfa henni að starfa í friði.

Þegar jafnvel frjálslyndustu ríkiskirkjuprestarnir virðast telja það eðlilegt að áminna og reka presta fyrir trúvillu finnst mér sjálfsagt að hjálpa ríkiskirkjunni að framfylgja þessari óþægilegu reglu.

Ég vil því hvetja alla lesendur Vantrúar, og þá sérstaklega “rétttrúaða” meðlimi Þjóðkirkjunnar, til að kæra til biskups þá presta sem afneita játningum kirkjunnar opinberlega eða boða ekki í samræmi við þær í predikunum.


[1] Þessi vettvangur var opinn umræðuhópur á Facebook um biskupsframboð. Umræðan sem um ræðir virðist hafa verið eytt.

[2] "Nú brýni ég alvarlega fyrir þér: að prédika Guðs orð greint og ómengað, eins og það er að finna í hinum spámannlegu og postullegu ritum og samkvæmt vitnisburði vorrar evagelísk-lúthersku kirkju í játningum hennar." Handbók íslensku kirkjunnar. 1981. bls 188-189

Um þessi orð segir Einar Sigurbjörnsson þetta: “Þess vegna eru þeir sem gegna opinberri þjónustuinnan kirkjunnar, prestar og kennimenn, skuldbundnir til að haga boðun sinni og vitnisburði í samræmi við trúarjátningar kirkjunnar. Er sú skuldbinding orðuð á þá leið, að hver prestur lofar því við vígslu sína eftir því sem Guð vill honum náð til þess veita að predika Guðs orð hreint og ómengað eins og það er að finna í hinum spámannlegum og postullegum ritum, og í anda vorrar evangelísku lúthersku kirkju.“ - Kirkjan játar, bls 22

Hjalti Rúnar Ómarsson 17.02.2014
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Benni - 24/02/14 08:02 #

Innan vísindasamfélagsins missa menn vinnuna fyrir að segja sannleikan.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.