Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Gervifræðin guðfræði

Mynd af aðalbyggingu HÍ

Háskóli Íslands hefur sett sér það langtímamarkmið að vera á meðal hundrað bestu háskóla heimsins. Þó svo að það sé eflaust óraunhæft markmið, þá er auðvitað verðugt að vilja bæta Háskólann. Eitt augljóst skref í þá átt að væri að leggja niður guðfræðikennslu í Háskólanum. Guðfræði er nefnilega gervifræði.

Trúarbragða- eða guðfræði?

Ég á alls ekki við að í Háskólanum eigi að leggja niður alla kennslu um trúarbrögð. Alls ekki. Trúarbrögð eru verðugt rannsóknarefni, það á bara að rannsaka þau á fræðilegum og vísindalegum forsendum. Það fag sem stundar þetta kallast trúarbragðafræði.

Ólíkt trúarbragðafræðinni, þá er guðfræði þau gervifræði sem rannsaka trúarbrögðin út frá ófræðilegum, kristnum forsendum. Til dæmis er gengið út frá tilvist hins kristna guðs eða þá guðlegum innblæstri helgiritasafns kristinna manna.

Þessu má kannski líkja við það að innan þjóðfræði við Háskóla Ísland væri ekki einungis lært um þjóðsögur af álfum, heldur væri þar líka kennd álfafræði, sem gerði ráð fyrir því að álfar væru til. Þjóðfræði á heima innan Háskólans, álfafræði ekki. Trúarbragðafræði á heima innan Háskólans, guðfræði ekki.

Þeirra eigin orð

Þessi aðgreining á milli trúarbragðafræði og guðfræði er alls ekki eitthvað sem ég hef fundið upp á, heldur má lesa um hana í ýmsum skrifum guðfræðinga. Sem dæmi má benda á greinasafn Háskólaútgáfunnar Hvað er guðfræði? [1] Af þeim fjórum guðfræðingum sem skrifuðu greinar í því riti, tóku þrír þeirra klárlega undir þessa skilgreiningu.

Einn þeirra, Karl Barth, var einn frægasti guðfræðingur tuttugustu aldarinnar, og hann segir einfaldlega að “[g]uðfræði [verði] aðeins stunduð í órjúfanlegri einingu þessara tveggja þátta, bænar og þekkingarleitar.” (bls. 9) Um rannsóknir guðfræðinnar á helgiritasafni kristinna segir hann að ein forsenda hennar sé “að biblían segi frá guðlegum atburðum” og að hún sé “innblásið” rit (bls. 13).

Hinir höfundarnir tveir fjalla beinlínis um þennan mun. Annars vegar er um að ræða breska guðfræðinginn Brian Hebblethwaite:

Enn ein spurning sprettur af því sem hér hefur verið rakið. Getur guðleysingi verið guðfræðingur? Augljóslega getur guðleysingi rannsakað trúarbrögð; en ef guðfræðin fæst við veruleika Guðs, hlýtur hún þá ekki að gera ráð fyrir trú? Hana þarf að stunda innan frá af þeim sem raunverulega trúa á Guð. Annars er maður bara að rannsaka trúarskoðanir annarra, og þá er enn og aftur búið að innlima guðfræðina í trúarbragafræðin sem einn þátt þeirra. (bls 22)

Þessi guðfræðingur kemst þó að þeirri niðurstöðu að guðleysingi geti verið guðfræðingur, svo lengi sem að hann gerir ráð fyrir að guð sé til í guðfræðirannsóknum sínum!

Síðasti þessara þriggja guðfræðinga var svo þáverandi prófessor við guðfræðideild Háskóla Íslands, Jóhann Hannesson. Hann segir að guðfræðingur sé “maður sem rannsakar trú sinnar eigin kirkju og athugar hvernig sú trú verður bezt fram sett í orðum og athöfnum. Guðfræðingurinn setur sig ekki út fyrir eigin kirkju, heldur stendur hann innan hennar.” (bls 45).

Hægt er að finna sambærileg ummæli frá guðfræðingum á ýmsum öðrum stöðum. Kristján Búason, þáverandi dósent við guðfræðideildina sagði til dæmis að “guðfræðileg menntun án persónulegs sambands við Guð [sé] mótsögn í sjálfu sér.[2].

Ef fólk vill nýlegt dæmi þá er hægt að benda á skrif Sigurjóns Árna Eyjólfssonar, stundakennara við guðfræðideildina og guðfræðidoktors (tvöfaldur!), um muninn á trúarheimspeki og guðfræði:

Guðfræðin fæst við inntak tiltekinni trúarbragða (kirkjudeilda) á þeirri forsendu að heilög rit, játningar, hefðir og yfirlýsingar kennivalds séu virtar sem uppspretta þekkingar. Guðfræðin er röklega háð þessum þáttum og þeim trúarbrögðum sem rannsökuð eru undir merkjum hennar. Trúarheimspekin er hins vegar röklega óháð öllu slíku og réttlætir framsetningu sína með því að styðjast við gegnsæi og skynsemi. Í krafti þeirra á annar tveggja að geta fylgt röksemdafærslunni og komist að sömu niðurstöðu og hinn. Þetta er þáttur sem á að sjálfsögðu líka við um guðfræðina, en munurinn er sá að íhugunin er möguleg og á sér stað án þess að sá sem íhugar aðhyllist tiltekin trúarbrögð. [feitletrun mín - Hjalti]

Það er því ljóst að margir guðfræðingar skilgreina guðfræði sem rannsókn á trúarbrögðum á þessum ófræðilegu, kristnu forsendum.

Hverju skal henda?

Vissulega flokkast margt af því sem kennt er í guðfræðideildinni ekki sem guðfræði (enda er hún líka kölluð guðfræði- og trúarbragðafræðideild). Til dæmis efast ég um að í kirkjusögu sé gengið út frá því að guð sé til eða eitthvað álíka. En þá er um trúarbragðafræði að ræða, eða einfaldlega sagnfræði.

Raunin er sú að enn er ýmislegt kennt í guðfræðideildinni sem flokkast svo sannarlega sem guðfræði og því ber að henda úr Háskólanum, þar sem þar er um gervifræði að ræða og á því ekki heima í háskóla sem vill setja markið hátt.

Þegar búið verður að henda öllu ruglinu verður svo loks hægt að tala einfaldlega um trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.


[1] Hvað er guðfræði? Fjórar greinar um eðli og hlutverk guðfræðinnar Háskólaútgáfan Rvk 1997 Gunnar Harðarson tók saman [2] Orðið 28. árgangur 1994, bls. 74

Mynd fengin hjá Etienne Ljóni Poisson

Hjalti Rúnar Ómarsson 10.02.2014
Flokkað undir: ( Háskólinn , Klassík )

Viðbrögð


Emil Friðriksson (meðlimur í Vantrú) - 10/02/14 13:09 #

Hvað með að taka þessu opnum örmum bara, setja á stofn græðaradeild, sem kennir smáskammta-"lækningar", árulestur, o.fl. og svo stjörnu-"speki"-deild, o.s.fr. HÍ gæti þá verið fremstur háskóla í gervifræðum :)


Júlía - 11/02/14 22:04 #

Held á stundum að það sé "leynigræðaradeild" í skólanum miðað við kuklið sem sumir þaðan bjóða upp á.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?