Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

10 undarlegustu versin í Nýja testamentinu

Mynd af Nýja testamentinu

Nýja testamentið er fullt af óvenjulegum sögum: Jesús labbar á vatni og flýgur upp í loftið, skuggar lækna fólk, englar eru í hlekkjum neðanjarðar og svo framvegis. Þannig vers, sem eru bara undarleg vegna þess að þau byggja á furðulegri heimsmynd kristinnar trúar, verða ekki með hér, heldur bara vers sem eru undarleg þó svo að maður geri ráð fyrir kristinni heimsmynd (og Opinberunarbókin verður ekki tekin með, af því að allt í henni er undarlegt!). Gjöriði svo vel, 10 undarlegustu versin í Nýja testamentinu:

10. Nakti maðurinn

Í frásögn sinni af handtöku Jesú í garðinum segir höfundur Markúsarguðspjalls frá þessu:

En maður nokkur ungur fylgdist með Jesú. Hann hafði línklæði eitt á berum sér. Þeir vildu taka hann, en hann lét eftir línklæðið og flýði nakinn. (Mk 14.51-52)

Hvað þetta á að þýða og hvers vegna höfundur guðspjallsins setti þetta í söguna veit enginn.

9. Hvernig verður María ófrísk?

Í fæðingarfrásögn Lúkasarguðspjalls birtist engill Maríu mey og segir henni að hún muni verða ófrísk og að sonur hennar verði afkomandi Davíðs konungs. Þegar María heyrir þetta þá spyr hún þessarar spurningar:

Hvernig má þetta verða, þar eð ég hef ekki karlmanns kennt? (Lk 1.34)

María virðist hafa “gleymt” því að hún var “föstnuð manni, sem Jósef hét, af ætt Davíðs” (Lk 1.27). Ef kona er trúlofuð afkomanda Davíðs, þá er ekki mjög merkilegt að spá því að hún muni verða þunguð af afkomanda Davíðs.

Engillinn virðist heldur ekki fatta þetta en útskýrir að hún muni verða ófrísk af afkomanda Davíðs af því að “Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur hins hæsta mun yfirskyggja þig.” (Lk 1.35).

Það er ekki ljóst hvernig það á að gera Jesú að afkomanda Davíðs, nema auðvitað að heilagur andi sé sjálfur afkomandi Davíðs.

8. “Ekki ormana!”

Það er ekki oft sem guð beinlínis drepur fólk í Nýja testamentinu. Heródes, barnabarn fræga Heródesar, er einn þeirra sem fær þann vafasama heiður:

Á tilsettum degi klæddist Heródes konungsskrúða, settist í hásæti og flutti þeim ræðu. En lýðurinn kallaði: "Guðs rödd er þetta, en eigi manns." Jafnskjótt laust engill Drottins hann, sökum þess að hann gaf ekki Guði dýrðina. Hann varð ormétinn og dó. (P 12.21-23)

Eins gott að muna eftir því að “gefa Guði dýrðina”!

7. Hið máttuga munnvatn

Oft heyrast sögur af kraftaverkum Jesú en af einhverjum ástæðum halda trúmenn ekki mikið upp á þessa sögu:

Þá færa þeir til Jesú mann, daufan og málhaltan, og biðja hann að leggja hönd sína yfir hann. Jesús leiddi hann afsíðis frá fólkinu, stakk fingrum sínum í eyru honum og vætti tungu hans með munnvatni sínu. Þá leit hann upp til himins, andvarpaði og sagði við hann: "Effaþa," það er: Opnist þú. Og eyru hans opnuðust, og haft tungu hans losnaði, og hann talaði skýrt. (Mk 7.32-35)

Að lækna fólk með munnvatni og galdraþulum myndi maður venjulega flokka sem töfralækningar. Jesús var því töfralæknir. Trúmenn nútímans stunda það víst ekki að hrækja á fólk til að lækna það.

6. Tilgangur dæmisagna Jesú

Hve oft hefur maður ekki heyrt fólk segja að Jesús hafi sagt dæmisögur svo að fólk ætti auðveldara með að skilja boðskap hans? Hvað sagði Jesús sjálfur að ástæðan væri? Hann sagði að ástæðan væri sú að hann vildi koma í veg fyrir að fólk skildi hann:

Hann svaraði [lærisveinunum]: "Yður er gefinn leyndardómur Guðs ríkis. Hinir, sem fyrir utan eru, fá allt í dæmisögum, að sjáandi sjái þeir og skynji ekki, heyrandi heyri þeir og skilji ekki, svo þeir snúi sér eigi og verði fyrirgefið." (Mk 4.11-12)

5. Að hylja eða að hylja ekki.

Í fyrra Korintubréfinu er Páll mjög upptekinn af hári og höfuðfötum. Konur eiga til dæmis auðvitað að hylja hárið sitt þegar þær biðja (ef hún vill það ekki, þá á hún að sjálfsögðu að láta klippa sig). Karlmaður þarf ekki að hylja höfuðið sitt af því að “hann er ímynd og vegsemd Guðs, en konan er vegsemd mannsins”. En hvers vegna eiga konur að hylja hárið sitt?

Þess vegna á konan vegna englanna að bera tákn um yfirráð mannsins á höfði sér. (1Kor 11.10)

Auðvitað. Vegna englanna!

4. Að gelda sig fyrir guð.

Sumir eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, sumir eru vanhæfir gjörðir af manna völdum, sumir hafa sjálfir gjört sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli, sem höndlað fær. (Mt 19.12)

Er Jesús að segja að maður eigi að gelda sig ef maður fær höndlað það? Samkvæmt sagnaritaranum Evsebíosi þá skildi kirkjufaðirinn Órígenes versið þannig og hlýddi boðinu. Þessi túlkun hefur skiljanlega ekki verið vinsæl í gegnum tíðina.

3. Hvernig komast konur til himna?

Maður heyrir oft talað um að maður þurfi að vera góður eða trúaður til að komast til himna. Af einhverjum ástæðum heyrir maður kristið fólk ekki minnast á að konur komast til himna af því þær eignast börn:

En [konan] mun hólpin verða, sakir barnburðarins, ef hún stendur stöðug í trú, kærleika og helgun, samfara hóglæti. Sumir hafa reynt að halda því að “barnsburðurinn” vísi ekki til þess að konan fæði börn, heldur til fæðingu Jesú. Þeim líst skiljanlega ekki á boðskapinn. (1Tm 2.11)

2. Ég er ósigrandi!

Jesús virðist stundum hafa verið ansi bjartsýnn á getu lærisveina sinna:

Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi. Alls ekkert mun yður mein gjöra. (Lk 10:19 )

Það eru til sögur um ódrepanleika lærisveina Jesú, til dæmis segir Tertullianus frá því að Jóhannesi hafi verið dýft í sjóðandi olíu en ekki orðið neitt mein af því! Við mælum ekki með því að kristið fólk prófi að láta höggorma og sporðdreka stinga sig.

1. Kurteisu uppvakningarnir

En Jesús hrópaði aftur hárri röddu og gaf upp andann. Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr, jörðin skalf og björgin klofnuðu, grafir opnuðust og margir líkamir helgra látinna manna risu upp. Eftir upprisu Jesú gengu þeir úr gröfum sínum og komu í borgina helgu og birtust mörgum. (Mt 27.50-53)

Það er nógu undarlegt að fjöldinn allur af heilögum mönnum vakni frá dauðum við dauða Jesú (áhugvert er að hinum guðspjallahöfundunum þótti þetta ekki nógu merkilegt til að skrifa um það). Enn undarlegri er svakaleg kurteisi uppvakninganna.

Þeir rísa upp frá dauðum á föstudeginum við andlát Jesú, en bíða þolinmóðir í gröfunum sínum alveg fram á sunnudagsmorgun, svo að Jesús fái að lifna fyrstur upp frá dauðanum. Sannir herramenn!

Ritstjórn 03.02.2014
Flokkað undir: ( Biblían , Kristindómurinn )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.