Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Bókstafstrú og fæðingarfrásagnirnar

Mynd af fæðingu Jesú

Ein helstu viðbrögð presta ríkiskirkjunnar við grein Illuga Jökulssonar um fæðingarfrásagnir guðspjallanna voru að ásaka hann um “bókstafstrú”[1]. En hvernig myndi “bókstafstrú” á fæðingarfrásagnirnar í raun og veru líta út og hver er “bókstafstrúarmaður” þegar kemur að þeim?

Hvað á ”bókstafstrú” að þýða?

Þó prestarnir útskýri ekki hvað þeir eiga við með “bókstafstrú” þá virðist það í þessu tilfelli eiga að vera það viðhorf að fæðingarfrásagnirnar hafi verið ætlað að lýsa raunverulegum atburðum.

Þessir prestar vita jafnvel og við hin að þetta gerðist ekki. En þá er spurningin sú hvort að höfundar fæðingarfrásagnanna í Lúkasar- og Matteusarguðspjalli hafi ætlast til þess að lesendur skildu frásögur þeirra sem lýsingar á raunverulegum atburðum eða ekki.

Hvað meintu höfundarnir?

Það er ýmislegt sem bendir til þess að höfundarnir hafi ekki verið bara að skrifa ævintýri eða eitthvað álíka, heldur hafi þeir ætlast til að lesandinn skildi þær sem lýsingar á raunverulegum atburðum:

Áður en höfundur Lúkasarguðspjalls segir frá fæðingu Jesú talar hann um að hann sé að “rekja sögu þeirra viðburða, er gerst hafa meðal okkar” og talar um að hann hafi “athugað kostgæfilega” frásagnirnar af þessum viðburðum og ritar til þess að lesandinn megi “ganga úr skugga um sannindi frásagnanna” (Lk:1-4). Svo þegar kemur að sjálfri frásögninni af fæðingu Jesú, þá tengir hann söguna við raunverulega atburði (manntalið sem átti sér stað) og tímasetur hana (á dögum Ágústínusar keisara, þegar Kýreneus var landsstjóri í Sýrlandi).

Höfundur Matteusarguðspjalls hefur frásögn sína einfaldlega á því að segja “Fæðing Jesú varð á þennan hátt:”. Eftirfarandi atriði í frásögninni eiga svo að hafa uppfyllt spádóma Gamla testamentisins samkvæmt höfundinum: að Jesús hafi fæðst í Betlehem, að Heródes hafi drepið öll sveinbörn í Betlehem, að Jesús flúði til Egyptalands, að Jesús hafi endað í Nasaret. Það er ekkert vit í því að segja að þessir spádómar hafi ræst, nema þá að atburðirnir eigi að hafa gerst í raun og veru. Hann ætlaðist þess vegna til þess að lesandinn myndi skilja þetta sem raunverulegan atburð.

Ekki myndlíkingar eða ævintýri

Þetta gerðist auðvitað ekki. Þetta eru helgisögur. Þær eru auðvitað ekki sagðar bara til þess að lýsa raunverulegum atburðum. Höfundarnir eru að reyna að koma á framfæri alls konar skilaboðum, til dæmis að dásama Jesú. En það breytir því ekki að þessu átti að vera trúað.

Þess vegna eru þessar sögur ólíkar til dæmis sögunni af Rauðhettu (sem presturinn Örn Bárður minntist á). Ævintýri eru sögð með þeirri væntingu að viðtakandinn skilji að þeim er ekki ætlað að vera lýsing á raunverulegum atburðum.

Helgisögurnar eru heldur ekki myndlíkingar á borð við “geislar sólarinnar kyssa jörðina” (annað dæmi frá Erni Bárði). Þegar Mattheus segir til dæmis að María hafi verið þunguð áður en hún og Jósef “komu saman”, þá er það ekki myndlíking eða táknmál.

Auðvitað getur maður leikið sér að því að túlka texta út og suður eins og maður vill, þvert á það sem höfundurinn vildi. En það breytir ekki ætlun höfundarins.

”Bókstafstrú” presta

Trúa prestarnir því virkilega að fæðingarfrásagnirnar séu bara ævintýri og myndlíkingar? Trúa þeir ekki að höfundarnir hafi verið að lýsa raunverulegum atburðum? Trúa prestarnir því ekki að þessir atburðir hafi gerst?

Það vill nefnilega svo merkilega til að einu staðirnir í Nýja testamentinu þar sem sagt er frá meyfæðingu Jesú er í fæðingarfrásögnunum.

Er meyfæðingin myndlíking? Eru prestarnir það miklir “bókstafstrúarmenn” að þeir trúa á meyfæðinguna? Þeir segjast trúa henni í hverri einustu messu.

Svo er hægt að halda áfram. Trúa þessir prestar frásögnunum af kraftaverkum Jesú? Trúa þessir prestar frásögnunum af upprisu Jesú? Einhvern veginn grunar mig að prestarnir vilji alls ekki fallast á að það séu allt myndlíkingar eða sögur á borð við Rauðhettu.

Hentugleikatúlkun

Ég held að allt þetta tal um myndlíkingar og bókstafstrú sé nauðavörn hjá prestunum. Þeir geta ekki lengur varið þessar ótrúlegu frásagnir. Og í staðinn fyrir að viðurkenna einfaldlega að það séu ósannar helgisögur af Jesú í Nýja testamentinu, þá neyðast þeir til að segja að þeim var aldrei ætlað að vera trúað til að byrja með og reyna að klína bókstafstrúarstimplinum á þá sem voga sér að benda á að Nýja testamentinu sé alls ekki treystandi.


[1] Félagarnir í Vantrú og Illugi – sem kann einnig að tilheyra félaginu? – ég veit það ekki – eiga það sameiginlegt að vera hallir undir bókstafstrú. Þeir eru fúndamental sem kemur fram í því að þeir heimta að allir guðfræðingar og prestar hugsi á sömu nótum og þeir þ.e.a.s. taki Biblíuna bókstaflega í öllum greinum. Jólasagan er þar með talin og vei þeim prestum sem ekki túlka hana bókstaflega… - Örn Bárður Jónsson #

En mikið skelfing er orðið tímabært að það fari að síast inn í almenna þekkingu þjóðarinnar þetta með eðli bókstafstrúar. Greindur maður sem er að ljúka meistaraprófi í kennslufræðum stakk upp á því í samræðum fyrir skömmu að bókstafstrú, hvort sem hún birtist undir merkjum guðleysis eða guðstrúar, sé í eðli sínu skortur á læsi – það að geta ekki lesið sér til gagns. - Bjarni Karlsson #

Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með Illuga sem ég annars er svo oft sammála ég hef hingað til talið frekar skarpan mann en ekki svo fullan af "bókstafstrú/bókstafsvantrú" sem pistill hans ber með sér. - Guðrún Karls Helgudóttir #

Mynd fengin hjá Adam McLane

Hjalti Rúnar Ómarsson 17.01.2014
Flokkað undir: ( Biblían )

Viðbrögð

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?