Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að rægja skoðanir

Mynd af merki Sjálfstæðisflokksins, hjarta og krossi

Alþingismaðurinn Brynjar Níelsson hélt um daginn ræðu þar sem hann sagði meðal annars að Vantrú og Siðmennt létu “einskis ófreistað í ófrægingarherferð sinni gegn kristinni trú, kirkjunni og kristnum gildum”, skytu úr launsátri og rægi aðra með nútímatækni og stundaði rægingarherferðir. Loks sagði hann síðan að afkristnun stuðli að upplausn samfélagsins. Sigurður Hólm stjórnarmaður í Siðmennt svaraði Brynjari. Í nýjasta innleggi Brynjars í þessa umræðu er hann mjög hissa á því að “æðstuprestar Vantrúar og Siðmenntar” rjúki til og svari honum “í hvert sinn sem [hann tjáir sig] um kristna trú og kristnidóm”.

Að tjá sig um kristna trú og kristnidóm

Furðulegum fullyrðingum Brynjars um trúboð í skólum hefur þegar verið svarað af Sigurði Hólm, en hér skulum við einblína á ófrægingartal Brynjars.

Þegar Brynjar segir að Vantrú sé að stunda ófrægingarherferðir, skjóti úr launsátri og “láti einskis ófreistað” þá er hann auðvitað ekki bara að “tjá þig um kristna trú og kristnidóm”. Hann er beinlínis að skjóta á félagið (eigum við að kalla það “ófrægingarherferð”?), og þá ætti það ekki að koma honum á óvart að fá svör frá þeim sem hann gagnrýnir með þessum hætti.

Í nýjustu skrifum Brynjars má svo sjá hvernig hann telur okkur vera að rægja fólk; með því að tala illa um skoðanir þeirra:

En félagsskapur þar sem meðlimir segja kristna trú vera blekkingar og hindurvitni sem stríði gegn heilbrigðri skynsemi eru ekki að rýna til gagns, heldur að rægja fólk og lífsskoðanir þess, Sigurður. Í raun að sýna trú og viðhorfi og sýn langflestra landsmanna til veruleikans mikla lítilsvirðingu.

Kristin trú er hindurvitni og blekking sem stríður all-hressilega gegn heilbrigðri skynsemi. Væri Brynjar kannski til í að útskýra fyrir okkur hvernig hugmyndir eins og illir andar, helvíti, erfðasyndin, meyfæðingin, uppstigningin, algóður skapari, fórnardauði Jesú, heimsendir, endurkoma Jesú og svo framvegis stríðir ekki gegn heilbrigðri skynsemi? Þessar hugmyndir eru svo mikil vitleysa að jafnvel sumir prestar trúa þessu ekki.

Við erum ekki að rægja fólk með því að benda á að skoðanir þeirra séu kolrangar. Ef svo væri þá mætti eflaust finna “róg” á bloggsíðu Brynjars. Það má kannski halda því fram að við séum að “rægja lífsskoðanir” og þeim skoðunum lítilsvirðingu, en ég sé enga ástæðu til þess að virða þessar skoðanir. Það á nefnilega ekki að virða skoðanir.

Hjalti Rúnar Ómarsson 07.01.2014
Flokkað undir: ( Vantrú )

Viðbrögð


Einar - 07/01/14 11:52 #

Virðist vera í miklu ójafnvægi þessa dagana hann Brynjar.

Uppnefnir fólk og með hroka og yfirlæti. Svona fólk þurfum við ekki á Alþingi Ísland. Það er nokkuð víst.

Þessi flokkur fær ekki mitt atkvæði með svona fólk innanborðs.


Jón Valur Jensson - 07/01/14 18:39 #

Ég hef nú orðið var við harla margar ófrægingarherferðir hér, bæði gegn kristnum sið og einstökum prestum.

Eruð þið líka orðnir minnislausir, strákar?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/01/14 18:41 #

  1. Það er ekki hægt að rægja kristinn sið.
  2. Við höfum enga presta rægt. Við höfum bent á orð þeirra og dregið þau fram í dagsljósið, ef einhver stendur fyrir "róg" eru það þeir sjálfir.
  3. Hefur þú ekki nóg að gera við að svara öðrum umræðum eða er búið að reka þig á gat?

Jón Valur Jensson - 08/01/14 02:14 #

  1. Vitaskuld er unnt að rægja kristinn sið; það hafið þið gert.

  2. Hvað með t.d. Karl Sigurbjörnsson eða Þorvald Karl Helgason, á nú að neita því, að þið hafið talað illa um þá hér?

  3. Nei, mér sýnist þið Vantrúarmenn öllu heldur hafa verið reknir á gat í páfagauks-fullyrðingum ykkar í stíl Illuga Jökulssonar varðandi meintan "skáldskap" í jólaguðspjöllunum, meintar lygar presta í jólapredikunum og meinta tímatalsvillu Lúkasar guðspjallamanns – efni sem þið hafið haldið hér fram með dogmatískasta sjálfsánægjuhætti, en eruð í raun (eins og oftar) ekki með neinar sannanir fyrir máli ykkar í höndunum!


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 08/01/14 08:53 #

Þriðji punkturinn er stórkarlalegur, komandi frá "guð er til því biblían segir það og biblían var skrifuð af guði"-gaur.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/01/14 09:56 #

  1. Nei, við höfum ekki borið út neinn "róg" um kristinn sið
  2. Hvað með Karl og Þorvald? Höfum við talað illa um þá? Höfum við talað um Þorvald yfir höfuð? Annars er það að tala illa um einhvern ekki það sama og að bera út rógburð um hann. Sannleikurinn er ekki rógburður.
  3. Þegar þú stendur aleinn gegn bæði vantrúarsinnum og flestum ríkiskirkjuprestum er kominn tími til að líta í eigin barm Jón Valur. Getur verið að það sért þú sem hefur verið rekinn á gat?

Jórunn Sörensen - 08/01/14 16:58 #

Gífurlega eru viðbrögð Sigurðar Hólm við ræðu (séra) Brynjars góð!


Jón Valur Jensson - 08/01/14 20:47 #

Þessi 3. svarliður þinn, Matti, er vitaskuld enginn uppistöðu-partur af eiginlegri rökræðu um málið. Þar að auki hefur engin könnun verið gerð mðal þjóðkirkjupresta um afstöðu þeirra til hinna fífldjörfu, einhliða, dogmatískt boðuðu fullyrðinga Illuga. Og ekki hafa þjóðkirkjuprestar falið þér að tala hér fyrir sína hönd – og myndu trúlega síztan allra velja þig til þess.

Langlíklegast er, að meirihluti þjóðkirkjupresta trúi Lúkasi, ekki ykkur Illuga! (Meira seinna.)


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/01/14 21:41 #

Þar að auki hefur engin könnun verið gerð mðal þjóðkirkjupresta um afstöðu þeirra til hinna fífldjörfu, einhliða, dogmatískt boðuðu fullyrðinga Illuga.

Það þarf enga könnun, við höfum tilvitnanir í nokkra þeirra - og engan höfum við séð andmæla enn. Getur þú bent mér á þjóðkirkjuprestinn sem andmælir Erni Bárði þegar hann segir að jólaguðspjallið sé "mýta"?

Og ekki hafa þjóðkirkjuprestar falið þér að tala hér fyrir sína hönd – og myndu trúlega síztan allra velja þig til þess.

Veistu Jón Valur, ég gæti trúað því að flestir þjóðkirkjuprestar myndu frekar kjósa að ég talaði fyrir þeirra hönd en þú í flestum málum.


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 08/01/14 21:55 #

Af hverju er bíblían svo mikilvægt rit kristinna, þegar það er algjörlega ómögulegt að treysta henni? Það þarf greinilega að velja hvaða sögu um sama atburð maður á að trúa. Langmest af því sem hún boðar erum við hvort sem er sammála um að sé siðferislega rangt og grimmt (Við drepum ekki fólk fyrir að vinna á sunudögum, látum ekki fórnarlömb kynferðisbrota giftast afbrotamanninum, drepum ekki samkynhneigða, höldum ekki þræla, en borðum samt alveg skelfisk og klæðumst föt úr blönduðu efni ef við viljum, og svo framvegis). Væri ekki bara ágæt að uppfæra hana? Klippa út allt sem er fáránlegt og augljóslega rangt og geyma þessar örfáar blaðsíður sem eitthvað vit er í.


Jón Valur Jensson - 08/01/14 22:34 #

Svar þitt, Matti, til mín um afstöðu þjóðkirkjuprestanna er allsendis út í hött; þú getur a.m.k. ekkert fullyrt eins og hver annar glanni um að þeir séu á línu Illuga (!!!); þeim er ætlað að boða Guðs orð ómengað, en ekki málflutning efahyggju- og vantrúarmanna (sem fjandskapast út í kristinn sið og niðra jafnvel Kristi sjálfum); og margir þessara þjóðkirkjupresta hafa fengið köllun til starfs síns, þótt sumir hafi síðan spillzt af lélegu ástandi SUMRA fræðamála í guðfræðideild HÍ.

Elsa, sem hér skrifaði, virðist aðeins hafa lesið erfiðustu partana í GAMLA testamentinu, en helzt ekkert í NÝJA testamentinu – og böndin berast þá að Vantrúarvefnum: að þaðan hafi hún "upplýsingu" sína, ekki úr beinum lestri Biblíunnar sjálfrar –– því að svo sannarlega er megnið af Gamla testamentinu gefandi efni (þ.m.t. spámannaritin, sem tala hart gegn þjóðfélagslegu ranglæti og hroka valdstétta, andlegra sem veraldlegra) og sumt þar með því fegursta í heimsbókmenntunum (t.d. Orðskviðirnir, Síraksbók, Speki Salómós, Davíðssálmar og Ljóðaljóðin) og margt af þessu skrifað öldum áður en grísku heimspekingarnir og jafnvel Hómer voru uppi á dögum!


Matti (meðlimur í Vantrú) - 08/01/14 23:02 #

Svar þitt, Matti, til mín um afstöðu þjóðkirkjuprestanna er allsendis út í hött; þú getur a.m.k. ekkert fullyrt eins og hver annar glanni um að þeir séu á línu Illuga

Þeir sem hafa tjáð sig undanfarið eru á línu Illuga þó þeir hafi móðgast útaf orðalaginu. Meira að segja Örn Bárður. Líka séra Þórhallur Heimisson, Árni Svanur, Guðrún Karlsdóttir og fleiri. Ég alhæfi ekkert um þá alla, get bara tjáð mig um þá sem hafa tjáð sig.

þeim er ætlað að boða Guðs orð ómengað,

Þeim er ætlað eitt og gera annað, ekki þar með sagt að þeir gerir það. Ekki mitt vandamál heldur þitt.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?