Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Valdbeiting Maríu?

Mynd af Gabríel og Maríu

Senn líður að hátíð kristinna manna sem fagna fæðingu Jesú en um þann viðburð er fjallað í handbók hirðingjanna, sem sumir kalla Biblíuna en er safnrit á sama hátt og Þjóðsögur Jóns Árnasonar en á vegum hins forna feðraveldis. Rauði þráðurinn í sögum hirðingjanna er virðing, hlýðni, undirgefni og ótti við valdið, í bland við fordóma, ranghugmyndir og forneskjulegar kreddur. Þar segir líka frá boðun Maríu, sem kölluð er guðsmóðir, því hún gekk með og fæddi son Guðs, eftir boðun að ofan.

Þetta heitir meyfæðing á máli kirkjunnar og er við fyrstu sýn ósköp hugljúf og notaleg saga af móður, syni, fósturföður og Guði. Við heyrum hana um hver jól.

Þetta er saga. Ein af mörgum í handbók hirðingjanna. Við vitum ekki hvort þetta gerðist eða hvort þetta var svona. En ekki er allt sem sýnist og þessi túlkun býður upp á meira en eitt spurningarmerki. Samkvæmt frumtextanum voru málavextir þessir og stuðst er við lýsingu geranda og þolanda í guðspjalli Lúkasar:

Og engillinn kom inn til hennar og sagði: “Heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.” En hún varð hrædd við þessi orð og hugleiddi, hvílík þessi kveðja væri. Og engillinn sagði við hana: “Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita JESÚ.“ (Lk 1:28-31)

Þegar gagnrýnigleraugun hafa verið fægð og textinn lesinn að nýju, er hægt að sjá í sögunni lýsingu á konu sem fær þá tilkynningu frá karli („engill“) að hún þurfi að ganga með barn fyrir ósýnilegan Guð eða Drottinn sem hefur valið hana einhliða sem staðgöngumóður fyrir son sinn. María er ekki spurð frekar en bóndi hennar, Jósef, heldur er hún neydd til að sæta þessari gervifrjóvgun að hætti Austurlandabúa, án greiðslu, eins og nútímastaðgöngumóður væri sennilega boðið. María er varnarlaus og enginn tekur málstað hennar. Henni ber að þakka fyrir þá náð að vera valin til verkefnisins af æðra máttarvaldi og aldrei kemur til greina að eyða fóstrinu eins og einboðið væri núna. Hún þarf að ganga með það, fæða og ala upp sem sitt eigið og yfir öllu þessu á hún að vera glöð og hamingjusöm. Hún fær ekki einu sinni að ráða nafninu, sem hugsanlega væri einhver sárabót fyrir niðurlæginguna. Hún ræður engu. Hún er valdlaus. Valdið kemur að ofan.

Ef við færum söguna yfir til ársins 2013, kemur eftirfarandi túlkun til greina. María okkar daga myndi hugsanlega kæra þetta sem nauðgun. Málið yrði rannsakað en yfirgnæfandi líkur eru á að ekki verði úr kæru, miðað við íslenskar hlutfallstölur. Engin vitni eru að þessum atburði, einungis frásögn þolanda án ummerkja og talsmenn meintra gerenda tæta svoleiðis meintar lygasögur í sig. Þegar loksins kemur að fæðingu eru 9 mánuðir liðnir og María uppgefin, niðurlægð og kúguð, sættir sig við þennan yfirgang sem felst í afnotum og upptöku á legi samkvæmt fyrirskipun æðsta fulltrúa feðraveldisins.


Birtist upphaflega á Málbeininu.

Gísli Ásgeirsson 20.12.2013
Flokkað undir: ( Jólin , Kristindómurinn )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.