Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Misskilningurinn um kristnibannið

Mynd af skólastofu

Hún er byrjuð aftur, umræðan um að nú sé búið að banna kristni í skólum borgarinnar. Börnin mega ekki syngja jólalög eða föndra eitthvað fallegt til að hengja á jólatréð heima. Meira að segja ritstjórar á virðulegum fjölmiðlum taka þátt í þessari skrýtnu umræðu. Og það skrýtnasta í henni er auðvitað það að til er fólk sem heldur því fram í fullri alvöru að kristinfræði sé ekki lengur kennd í skólum borgarinnar.

Jólaundirbúningurinn

Þetta með jólaundirbúninginn er mjög sérstakt. Ritstjóri Fréttablaðsins heldur því fram að í upphaflegum tillögum um samskiptareglur skóla og lífs- og trúskoðunarfélaga hafi átt að banna hefðbundinn jólaundirbúning. Þar fer ritstjórinn einfaldlega ekki með rétt mál.

Ferðir í bænahús trúar- og lífsskoðunarfélaga, bænahald, sálmasöngur og listsköpun í trúarlegum tilgangi er hluti af trúaruppeldi foreldra en ekki hlutverk starfsmanna borgarinnar. Slík starfsemi á ekki heima í starfi með börnum í opinberum skólum. Kirkjuferðir skulu ekki farnar á starfstíma frístundaheimila og leik- og grunnskóla. Þess skal sérstaklega getið að ekki er verið að hrófla við öðrum jólaundirbúningi leik- og grunnskóla. # [Leturbreyting höfundar]

Oddný Sturludóttir, sem situr í Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar, ítrekaði þetta svo enn frekar í grein sem hún skrifaði þegar tillögurnar komu fyrst fram:

Það er enginn að eyðileggja jólin. Í drögunum er þess sérstaklega getið að ekki er ætlunin með þeim að hrófla við hefðbundnum jólaundirbúningi leik- og grunnskóla. Litlu-jólin, jólaföndrið, jólaböllin og annar sígildur undirbúningur jóla verður eftir sem áður veruleiki reykvískra leik- og grunnskólabarna. #

Það hefði ekki átt að vera nokkur leið að skilja tillögur Mannréttindaráðs með þeim hætti sem ritstjórinn gerir. Hinsvegar varð þessi misskilningur svo útbreiddur og djúpstæður á sínum tíma að það tók meira en ár að uppræta hann. Þess vegna er leiðinlegt að sjá ritstjóra stærsta dagblaðs landsins dreifa honum áfram í dag.

Kristinfræði

Sé spuninn um jólaundirbúninginn sérstakur þá veit ég varla hvað má kalla þá fullyrðingu að nú megi ekki lengur fræða börn um kristni í skólum borgarinnar. Það þarf fyrir það fyrsta talsverða vanþekkingu á skólakerfinu til þess að halda þessu fram.

Í lögum um leikskóla og lögum um grunnskóla eru mjög skýr ákvæði um það að ráðherra setur skólum aðalnámskrá sem þeir vinna eftir. Í lögum um grunnskóla eru svo ítarlegri ákvæði um innihald námskránnar. Þar má finna eftirfarandi:

Í aðalnámskrá skal setja ákvæði um inntak og skipulag náms í íslensku, íslensku sem öðru tungumáli eða íslensku táknmáli, stærðfræði, ensku, dönsku eða öðru Norðurlandamáli, list- og verkgreinum, náttúrugreinum, skólaíþróttum, samfélagsgreinum, jafnréttismálum, trúarbragðafræði, lífsleikni og upplýsinga- og tæknimennt. [leturbreyting höfundar]

Þegar hæfniviðmið fyrir samfélagsgreinar í núgildandi aðalnámskrá eru skoðuð kemur í ljós að í trúarbragðafræðslu er kristnin fyrirferðarmest. Það er eðlilegt. En hvernig fær fólk það út að einstaka sveitafélag geti hreinlega bannað kennslu um kristni? Alþingi setur lög þar sem kveðið er á um hvað skal tekið fyrir í aðalnámskrá. Menntamálaráðherra gefur út aðalnámskránna. Sveitarfélögin hafa einfaldlega ekki vald til þess að ákveða að kristni sé ekki kennd í trúarbragðafræði frekar en að þau geti ákveðið að kenna ekki samlagningu í stærðfræði.

Meirihlutinn ræður

Annað atriði sem heyrist oft í umræðu um þessi mál er að kristnir séu í slíkum meirihluta að aðrir verði bara að sætta sig við hlutskipti sitt og kyngja því að kristni sé boðuð í almennum skólum. Í því samhengi er áhugavert að skoða eftirfarandi klausu úr lögum um grunnskóla:

Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu, stéttar, trúarbragða, heilsufars, fötlunar eða stöðu að öðru leyti.

Svona klausur eru settar í lög einmitt af því að þegar kemur að réttindum fólks þá á meiri- eða minnihluti ekki að skipta máli. Almennir skólar eiga að vera fyrir alla. Ekki bara þá sem tilheyra meirihlutahópum.


Mynd fengin hjá kemorgan65

Egill Óskarsson 26.11.2013
Flokkað undir: ( Skólinn , Stjórnmál og trú )

Viðbrögð

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.