Ertu óframfærin og óörugg manneskja? Vantar þig sjálfstraustið til þess að standa með skoðunum þínum og sannfæringu? Í dag vantar ekki gúrúana sem geta hjálpað. Fólk getur sótt Dale Carnagie námskeið eða kynnt sér boðskap fólks eins og Tony Robbins sem hjálpa fólki byggja upp sjálfstraustið og standa með sjálfu sér. Þeir sem eru nú þegar góðir með sig og kunna að koma fram geta tryggt sér góðan lífeyri með því að hjálpa þeim sem minna mega sín. Auðæfi fyrrnefnds Tony Robbins eru metin á um 480 milljónir bandaríkjadollara í dag svo dæmi sé tekið.
En svo leita sumir í trúna líka. Ekki ætla ég að gera lítið úr því að trúarbrögð hafi hjálpað fólki í gegnum tíðina. Mikil ósköp. Ég amast ekki við því sem virkar fyrir fólk, ég vildi bara óska þess að þeir sem eru sannfærðir í trúnni fengju ekki aðstoð frá opinberum yfirvöldum til þess að kynna sína töfralausn fyrir lýðnum.
En af hverju er ég að minnast á trúarbrögð í samhengi við sjálfshjálpargúrúa eins og títtnefndan Tony Robbins? Jú, af því að þegar biblíutúlkun sumra innan ríkiskirkjunnar er skoðuð ofan í kjölinn er ekki laust við að sú samlíking hreinlega öskri á mann. Séra Hildur Eir Bolladóttir, prestur á Akureyri, skrifaði hugleiðingu nýlega sem er ef ég skil Hildi* rétt dæmi um þetta:
Í kraftaverkasögum Nýja testamentisins segir frá því þegar Jesús reisti við lamaða, læknaði sjúka og gaf blindum sýn, nokkuð sem Vantrú og Siðmennt þykir alveg óskaplega varhugaverður boðskapur í upplýstum heimi. En staðreyndin er sú að í raun og veru er Jesús að reisa við sjálfsmynd fólks í þessum sögum, hann er ekki að kukla heldur að hjálpa fólki að rétta úr baki og treysta á eigin dómgreind og getu. Sögurnar snúast s.s ekki um hið bókstaflega heldur hið eiginlega
Finnst okkur í Vantrú þetta vera varhugaverður boðskapur? Ekki er þetta efst á blaði yfir það sem við lítum á sem varhugaverðan boðskap í kristni en þegar loddarar eins og Benny Hinn þykjast geta endurtekið kraftaverkin sem Jesú er sagður hafa framið og læknað fólk af öllum krankleikum teljum við að vert sé að staldra við og taka mark á því sem framfarir seinustu 2000 ára í læknavísindum segja okkur. Þú læknar ekki fótbrot með handayfirlagningu. Hvað þá klofinn hrygg. Ég efast um að þar sé Hildur Eir ósammála okkur þannig að ég átta mig ekki alveg á því hvað hún er að fara.
En það er seinni parturinn sem mér finnst athyglisverður. Samkvæmt Hildi Eir framkvæmdi Jesú í raun engin kraftaverk. Hún er ekki bókstafstrúarmanneskja, sem er í sjálfu sér jákvætt, en hvað er einn þriðji af gvuðinum hennar orðinn samkvæmt þessu? Hann virðist vera einhverskonar deilkarnegískur gúrú sem hjálpar fólki að öðlast meira sjálfstraust. Hann reisti þannig ekki við lamaða, læknaði ekki sjúka né gaf blindum sín í eiginlegri merkingu þeirra orða sem rituð voru fyrir árþúsundum, samkvæmt presti í hinni kristnu lúthersku ríkiskirkju á Íslandi. Hann hjálpaði þessu fólki að öðlast öðlast trú á sig sjálft. Jesú var Tony Robbins síns tíma.
Satt best að segja kann ég ágætlega við þessa söguskýringu. Helst vildi ég að allir prestar ríkiskirkjunnar tækju undir hana. Með henni er boðskapur kirkjunnar nefnilega settur á sinn rétta stall. Hún er bara enn eitt sjálfshjálpartækið. Hvorki verra né betra sjálfsagt en önnur slík kerfi. Í krafti þeirra bókstaflegu túlkana sem Hildur Eir afneitar og þess að valdamenn hafa í gegnum tíðina séð sefjunarkraft kristni sem tromp í valdabaráttu hefur kristnin vissulega náð lengra en allar markaðsbrellur sem Dale Carnegiear og Tony Robbinsar sögunnar gætu ímyndað sér, og verið notuð í virkilega ógeðslegum tilgangi en ein og sér er þessi sjálfshjálpartækni í sjálfu sér skaðlaus. Svona þannig séð.
Nú er bara að vona að Hildur Eir og aðrir átti sig á samhenginu sem felst í Jesú sem fyrsta sjálfshjálpargúrúnum.
*Ég sendi Hildi tölvupóst og spurði hvort að skilningur minn væri réttur. Ekkert svar hefur borist.
Mynd fengin hjá Justin Levy
Ég er ekki að gera lítið úr því sjálfshjálp í þessum pistli. En þetta er hinsvegar klárlega gróðabissness hjá hluta af þeim sem eru í þessu. Enda er varla til sá angi mannlífsins þar sem fólk hefur ekki séð gróðatækifæri.
Sem sagt. Gefum upp á bátinn, öll trúarbrögð, og gerum þar af leiðandi út um alla kraftaverkamenn. Tja!?
Þú ert að lesa eitthvað annað út úr þessari grein en ég skrifaði held ég.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Gestur - 28/10/13 19:53 #
Þótt ég sé sammála þér í grundavallaratriðum þá finnst mér óþarfi að gera lítið úr sjálfshjálp, ég held að námskeið eins og Dale Carnegie séu ekki peningaplokk (og mun skárri heldur en en ruglið í sambandi við óhefðbundnar lækningar). En kannski skil ég þig ekki rétt.