Ef maður skoðar fullyrðingar kristinnar trúar, þá sér maður að þær eru ekki beint smávægilegar: Það er til almáttug og algóð ósýnileg andavera sem er í raun þrjár persónur og hún skapaði alheiminn. Maður sem fæddist án aðkomu karlmanns fyrir 2000 árum var ein af persónum þessarar andavera. Þessi maður bjargaði fólki frá hræðilegu lífi eftir dauðanum með því að deyja, lifna upp frá dauðum og fljúga upp til himins.
En á hverju eru þessar ótrúlega stórvægilegu fullyrðingar byggðar?
Ef maður færi tvö hundruð ár aftur í tímann þá væri svar trúmannanna einfalt: biblían var grundvöllurinn. Það er erfitt að ímynda sér annan grundvöll fyrir ofantaldar fullyrðingar, nema kannski þá “kirkjan segir mér að trúa þessu”.
Ég leyfi mér að fullyrða að án þess að vísa í biblíuna geta trúmennirnir ekki fært nokkurs konar rök fyrir mörgum af grundvallarkennisetningum kristinnar trúar. Það er ekki hægt að sjá nein merki um meyfæðingu eða upprisu Jesú í náttúrunni og það upplifir enginn sannindi þrenningarkenninnar. Þetta var allt rökstutt með vísun til þess að biblían, þetta kennivald kristinna manna, kenndi þetta. Biblían var álitin innblásin og traust heimild, og þess vegna dugði það trúmönnum að vísa einfaldlega á hana.
Nú til dags telja hins vegar líklega fáir kristnir menn á Íslandi því að biblían sé þetta innblásna kennivald. Það að Páll postuli eða höfundur Jóhannesarguðspjalls segi að guðinn þeirra muni refsa fólki grimmilega nema það trúi á Jesú þýðir ekki að svo sé í raun og veru. Það er bara skoðun þessara höfunda. Þeir sem eru ósammála því og telja að það eitt að fullyrðing sé sönn bara af því að biblían segir það eru stundum kallaðir “bókstafstrúarmenn” í nútímanum.
Síðustu tvö hundruð árin hafa menn svo getað rannsakað biblíuna án þess að eiga það á hættu að vera brenndir á báli. Niðurstöður þessara rannsókna eru þær að biblían er ekki einu sinni traust heimild þegar kemur að veraldlegum, sannreynanlegum staðhæfingum. Sem dæmi þá var engin brottför úr Egyptalandi, engin innrás Í Kanaan, engir Móses, Samson og Jósúa. Erfitt er að vita nokkurn skapaðan hlut um Jesú og boðskap hans, hann er jafnvel týndur og stór hluti bréfanna í Nýja testamentinu eru falsanir. Það er erfitt að sjá hvers vegna í ósköpunum maður ætti að taka svona óáreiðanleg ritsafn trúanlega þegar kemur að hinum stórkostlegu grundvallaratriðum kristinnar trúar.
Það er eins og kristið fólk hafi enn ekki gert sér grein fyrir afleiðingum þess að hafna kennivaldi biblíunnar, “bókstafstrúinni”. Án þessa grundvallar hanga flestar kenningar kristinnar trúar í lausu lofti. Það er ekki nein góð ástæða til að trúa þeim, og oft eru góðar ástæður til að trúa þeim ekki.
En hvers vegna viðhaldast þessar hugmyndir innan kristinna trúfélaga, til dæmis ríkiskirkjunni? Prestarnir ættu að vita betur, þeir hafa lært um kenningarnar og biblíuna í háskólanum, en þeir eiga það á hættu að missa vinnuna ef þeir boða ekki þessar úreltu skoðanir. Markhópurinn að þessari boðun er síðan aðallega börn, sem eins og einn prestur orðaði það eru “gjarnan leiðitöm, hættulega leiðitöm, trúgjörn og grandalaus”. Þessi börn eru síðan föst með þessar kenningar það sem eftir er, nema þau eyði orku í að hugsa um þær með gagnrýnu hugarfari, en eins og flestir vita þá er það ekki vinsælt hjá kirkjunni.
Þetta er vítahringur sem væri gott að geta bjargað fólki út úr, svo þessar rakalausu trúarkenningar geti endað á öskuhaugum sögunnar.
Mynd fengin hjá D Services
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Jóhann - 14/09/13 00:34 #
Vafalítið er þetta allt satt og rétt hjá þér Hjalti.
[Útúrdúr færður á spjallið - Hjalti]