Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvar er Jesús?

Mynd af Jesú
Áður fyrr áttu trúmenn auðvelt með að benda á guðspjöllin og fullyrða að þar væri Jesú að finna, í hinum áreiðanlegu guðspjöllum. Þegar menn fóru hins vegar að skoða guðspjöllin með gagnrýnum augum kom í ljós að guðspjöllin eru óáreiðanleg og nú eru prestar ríkiskirkjunnar farnir að viðurkenna að Jesús er týndur.

Orð prestanna

Baldur Kristjánsson, ríkiskirkjuprestur, skrifar:

En það er einmitt vegna þessa fjölda [guðspjalla] er auðvelt að sjá út marga Jesúsa enda hafa margir gert sér far um að mála upp hinn mystiska Jesú, hinn pólitíska Jesú, hinn íhaldsama Jesú og hinn frjálslynda Jesú. Alla þessa Jesúsa má sjá út úr Guðspjöllunum fjórum og verður varla úr þessu dæmt úr þessu því að gyðingurinn Jesú er horfinn á vit sögunnar en eftir stendur Kristni sem Paul frá Tarsus og síðan Rómverjar bjuggu til og síðan allir þeir menningarheimar sem þessi útbreiddustu trúarbrögð veraldar hafa mótað og verið samsvarandi mótuð.

En dó Jesús sem ósáttur byltingarmaður eða var hann siðferðsipælari. Var hann kannski samkynhneigður eins og Jón Gnarr bendir á og tekinn af lífi þess vegna. Við munum aldrei komast að því en hitt vitum við að hvenær sem nafn hans er nefnt veldur það usla. #

Sigurvin Jónsson, “æskulýðsprestur” Neskirkju skrifar:

Upphaf kristindómsins er mósaík hugmynda sem kepptust um að skýra áhrif þessarar persónu og svo fjölbreyttar eru þær að það er ógjörningur að segja nákvæmlega til um hverjar þeirrar eiga uppruna hjá hinum sögulega Jesú. #

Prestarnir hafa rétt fyrir sér

Allir sem hafa kynnt sér hina svokölluðu leit að hinum sögulega Jesú vita að þetta er hárrétt hjá prestunum. Leit þessara fræðimanna byggist að miklu leyti á því að reyna að komast að því að hve miklu leyti ummæli Jesú í guðspjöllunum er hægt að rekja aftur til Jesú sjálfs og að hve miklu leyti ummælin eru síðari tíma tilbúningur.

Því miður virðist það vera nánast ómögulegt að hafa nokkra vissu í þessu sambandi. Höfundar guðspjallanna er óþekktir, við vitum ekki hvaða heimildir þeir notuðu, guðspjöllin eru stútfull af helgisögum og fjarstæðum. Loks sést á ýmsu[1] að höfundarnir voru óhræddir við að leggja Jesú orð í munn.

Allt þetta gerir það að verkum, eins og prestarnir benda á, að fræðimenn stinga upp á margs konar mögulegum Jesúsum. Var Jesús hundingi? Var Jesús uppreisnarmaður? Var Jesús heimsendaspámaður? Það er erfitt að segja. Og þó svo að okkur finnist einn Jesúsinn líklegri en hinir, þá verðum við að viðurkenna að við getum alls ekki verið mjög vissir um að hann sé sá rétti. Jesús er týndur í þoku fortíðarinnar

Hverjar eru afleiðingarnar?

Ég á erfitt með að skilja hvernig þessir prestar geta talið Jesú vera “leiðtoga lífs síns” þegar þeir viðurkenna að við vitum ekki hvað í ósköpunum þessi fornaldarmaður stóð fyrir. Hvaða vit er í kristinni trú án Jesú?

Raunin er sú að gagnrýnin rannsókn á Nýja testamentinu hefur kollvarpað þessari grundvallarstoð kristinnar trúar. Ef prestarnir hefðu nægilegt vitsmunalegt hugrekki, þá ættu þeir einfaldlega að horfast í augu við niðurstöðuna og kasta frá sér trúnni (þó svo að maður skilji auðvitað að það geta verið mjög góðar hagfræðilegar ástæður fyrir því að þeir geri það ekki).


[1] Til dæmis er hægt að skoða hvernig höfundar Matteusar- og Lúkasarguðspjalls breyttu ýmsum ummælum sem eru eignuð Jesú í Markúsarguðspjalli, en báðir notuðust þeir við Markúsarguðspjall.

Mynd fengin hjá William Murphy

Hjalti Rúnar Ómarsson 22.08.2013
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Sögulegi Jesús )

Viðbrögð


Baldur - 23/08/13 12:54 #

Hér er ekkert fjallað um Jesú trúarinnar. Sá er níu flóknari en hinir allir til samans. Bendi þér á bókina Zealot og einng BA ritgerð undirrtitaðs 1975. Bkv. B


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 23/08/13 13:22 #

Baldur, það væri gaman að fá nánari útlistun á því hvað þú átt eiginlega við.

Það hljómar eins og þú sért að segja að þú viðurkennir að út frá röklegu sjónarhorni sé Jesús týndur, en þrátt fyrir það þá bara trúir þú einhverju ákveðnu um hann í staðinn fyrir að fallast á hina rökréttu niðurstöðu.


Jón Valur Jensson - 31/08/13 01:56 #

Þú getur nú ekki miðað við Baldur Kristjánsson af öllum prestum, Hjalti Rúnar! Ég svaraði þessum Pressupistli hans með sinni fráleitu efahyggju strax á sama stað í sumar, H É R er svar mitt að finna.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.