Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Helvítis hátíðin

Mynd af Graham-feðgunum
Ýmsir hafa kvartað undan því að hin svokallaða Hátíð vonar hafi verið gagnrýnd á röngum forsendum: Vissulega hefur Franklin sagt ýmislegt ósmekklegt um samkynhneigða og samtökin hans hafa barist gegn réttindum þeirra, en hátíðin snýst ekki um það, hún snýst um allt annað! Það er sjálfsagt að verða við ósk þessa fólks, enda er sjálfur boðskapur hátíðarinnar margfalt verri og ógeðfelldari heldur en andúðin á samkynhneigðum.

Tilgangur hátíðarinnar

Á heimasíðu hátíðarinnar er stutt lýsing á raunverulegum tilgangi hátíðarinnar:

Áætlun Andrésar er grundvöllur skipulagningar hátíðarinnar. Þátttakendur rita á sérstakt spjald sem fylgir áætluninni nöfn nokkurra einstaklinga sem þeir vita að trúa ekki á Jesú Krist og biðja fyrir þeim á hverjum degi. Síðan leita þeir leiða til efla og teysta tengsl sín við þessa einstaklinga ásamt því að tala við þá um trúna á Krist. Að lokum þá bjóðum við fólkinu, einu og sérhverju, að koma og vera með á Hátíð vonar þar sem verður frábær lofgjörðartónlist, vitnisburðir og Franklin Graham sem predikar fagnaðarerindið. Í lok hverrar samkomu mun öllum þeim boðið að stíga fram sem vilja taka á móti Jesú Kristi sem Drottni sínum og frelsara. Þeim sem stíga þessi trúarskref er svo boðin eftirfylgd og þau hvött til að gerast virkir meðlimirí kirkju. #

Hátíðin er með öðrum orðum liður í kristniboðsátaki. Kristið fólk á að reyna að vingast við fólk í kringum það og bjóða því á hátíðina þar sem vonað er að þetta fólk heyri “fagnaðarerindið” og “frelsist”. En hvert er þetta “fagnaðarerindi” og hvers vegna er það svo mikið kappsmál að kristna fólk?

Hryllingur fagnaðarerindisins

Samtök Franklin Grahams og íslensku kirkjurnar sem virðast[1] standa á bak við hátíðina, þar með talið Þjóðkirkjan, trúa því að ef þú trúir ekki á Jesú þá mun guðinn þeirra dæma þig til helvítis þar sem þú munt kveljast að eilífu. Á heimasíðu samtaka Franklin Graham er talað um að að helvíti sé hryllingur sem ekki sé hægt að ímynda sér[2] og Franklin sjálfur segir að þeir sem trúa ekki á helvíti séu “villutrúarmenn” (e. heretic). Þetta er fagnaðarerindið hans Franklin Grahams:

Ef Jesús dó ekki í stað okkar þá eigum við öll, samkvæmt biblíunni, ekki einungis skilið að deyja heldur eigum við skilið eilífa refsingu. Eina leiðin til að komast undan reiði guðs er sú að iðrast synda sinna og trúa á Jesú Krist sem drottinn sinn og frelsara.[3]

Þetta er hryllileg heimsmynd. Samkvæmt þessu þá munu til dæmis við í Vantrú, Ásatrúarmenn, samkynhneigðir (ég efast um að Franklin Graham telji þá vera frelsaða) og jafnvel gyðingarnir sem létust í Helförinni eiga það í vændum að verða hent í “eldsofninn” hans Jesú og kveljast þar að eilífu.

Á hátíðinni mun þetta fólk dásama þann guð sem lofar að dæma allt þetta fólk til eilífra kvala og reyna að bjarga fólki undan grimmilegri refsingu hans. Sjálft inntak hátíðarinnar er því margfalt betri ástæða til að fordæma og forðast hana heldur en barátta Franklins gegn samkynhneigðum.


[1] Fyrir viku síðan sendi ég fyrirspurn til skrifstofu Hátíðar vonar og bað um að fá að vita hvaða kirkjur og samtök taka þátt í framkvæmd hátíðarinnar. Ég hef ekki fengið neitt svar.
[2] “Thus, the doctrine of everlasting punishment is truly horrifying. But this does not make it untrue. Even now, there are horrors happening in our world—child sexual abuse, torture, self-mutilation and who knows what else—that are beyond our imagining unless we experience them. The Bible is telling us that hell is a horror beyond all imagining, but that does not imply that no one will suffer it nor that God will be unrighteous or cruel to send sinners there.” #
[3] “According to the Bible, we all deserve not only physical death but eternal punishment—apart from the death of Jesus as our substitute. Our only hope for escaping the wrath of God is through repentance from sin and by faith in Jesus Christ as our personal Savior and Lord. “ #

Hjalti Rúnar Ómarsson 16.08.2013
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Stefa Nía - 19/08/13 01:03 #

Í beinu framhaldi við aðgerðarátak aðstandenda helhátíðarinnar, þá vil ég minnast á "Bænatilraunina miklu" sem m.a Richard Dawkins talar um í bók sinni Ranghugmyndin um Guð (e. the God Delusion). Frændi Darwins, Francis Galton, varð fyrstur til að rannsaka með vísindalegum hætti hvort það skilaði árangri að biðja fyrir fólki. Hann benti á að á hverjum sunnudegi bæðu söfnuðir allra kirkna á Bretlandi opinberlega fyrir heilsu konungsfjölskyldunnar. Ætti ættin þá ekki að vera lang-heilsuhraustust allra? Galton kannaði málið og fann engan marktækan mun. Kannski gerði hann þetta af kaldhæðni líkt og þegar hann bað fyrir mismunandi landskikum, völdum af handahófi, til að sjá hvort gróðurinn yxi eitthvað hraðar (sem hann gerði ekki).


Baldvin - 21/08/13 16:56 #

Ekki gera fólki upp skoðanir. Þið virðist vera óskaplega þunglynd og niðurdrepandi og haldin einhverri sjúklegri ofsóknarkennd. Þetta jaðrar við hið vinsæla orð dagsins í dag að kallast "hatursáróður". Væri líklega verðugt verkefni fyrir sálfræðinga og geðlækna að kanna soldið hugarfar félaga í Vantrú? Alltaf sorglegt þegar fólki líður illa andlega. En ég óska félögum í Vantrú alls hins besta. Það er skylda hins kristna mann að launa illt með góðu og biðja fyrir þeim sem hatar mann.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 21/08/13 17:31 #

Ekki gera fólki upp skoðanir.

HAHAHA!


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 21/08/13 18:12 #

Ekki gera fólki upp skoðanir.

Baldvin, þegar þú kemur með svona fullyrðingu, þá er algert lágmark að segja hvaða skoðanir ég á að vera að gera fólki upp.


Fanndís V. - 21/08/13 18:19 #

Já eftir að hafa lauslega lesið og skoðað þessa vefsíðu og viðbrögð félaga í Vantrú þá er ég nokkuð viss um að þessu fólki líði almennt mjög illa andlega. Sennilega mjög margir þunlyndissjúklingar.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 21/08/13 18:27 #

Baldvin/Fanndís: Viltu ekki halda þig bara við eitt dulnefni?

Og geturðu útskýrt hverjum ég var að gera upp hvaða skoðanir?


Svanur Sigurbjörnsson - 24/08/13 00:09 #

Það er frekar grátleg sú aðferð fólks í athugasemdum að í stað þess að nefna hvað sé að í orðræðu greinarhöfundar, er farið út í að skjóta viðkomandi (eða alla þá sem eru í félagi við hann) niður með niðrandi athugasemdum eins og að "þessu fólki líði almennt mjög illa andlega". Þetta sé veikt fólk sem skrifi svona. Með þessu hefur gagnrýnandinn sig upp yfir það að það þurfi að færa rök fyrir máli sínu og fer beint í blammeringarnar, líkt og gerist oft hjá börnum sem eru í fýlu út í hvort annað.

Svo er önnur aðferð, skyld þessari, en hún felst í því að lýsa yfir vorkunn sinni á andlegu ástandi greinarhöfundar. Þetta er uppgerð tilfinning til að gefa í skyn að höfundur sé svo vesæll að bara vorkunnsemi komi í huga gagnrýnandans.

Andúð í andrúmslofti hræsni eru einu skilaboðin sem koma frá þessum aðferðum og eru gagnrýnandanum frekar til minnkunar en þeim sem fyrir þeim verður.


B - 29/08/13 00:44 #

Hvað er svona mikið verra og ömurlegra við að fara til helvítis, en að verða að drullu og étinn að ánamöðkum? Hvað er svona mikið fallegra við að segja við lítið barn það verði brátt mold og drulla, en hræða það með helvíti? Bæði er andleg misnotkun á börnum. Sannleikurinn er sá að enginn VEIT þetta, og því ættu mennirnir að halda kjafti og hætta að leika Guð. Graham stundar andlegt ofbeldi. En það gera margir trúleysingjar líka. Sem þegnar samfélags sem leyfir frjálsa tjáningu, ólíkt Sovét gamla og vinum þess, þá verðum við að láta það óáreitt og virða að menn hafa rétt til þess að hafa andstyggilegar skoðanir sem eru skaðlegar öðrum, eins og þeir sem eyðileggja hina náttúrulegu von mannsins með að predika gereyðingu og útrýmingu mannsins eins og trúleysingjar, nú eða eilífa kvöl eins og bókstafstrúarmennirnir. Allt þetta er leyft í frjálsu samfélagi, þó það minnki lífslíkur manna verulega, því þegar menn verða fyrir áföllum í lífinu þá er nauðsynlegt að eiga von, og þeir sem eiga hana ekki lenda oftar en ekki strax í gröfinni. Þeir sem kenna börnunum sínum um helvíti auka líkurnar á að sonur þeirra homminn fremji sjálfsmorð í stað þess að koma út úr skápnum. Og þeir sem kenna að enginn æðri máttur geti gripið inn í, og engin sé vonin önnur en hinir að eilífu lík-étandi ánamaðkar, minnka líkurnar á að sonur þeirra eða dóttir sem lendir í hræðilegu áfalli eða ofbeldi geti fundið styrk í trú á eitthvað handan við kringumstæðurnar til að lifa af, og velji því dauðann. Látið skoðanir annarra manna vera, og leyfið hinni náttúrulegu von mannsins að lifa. Hvað sem hann kallar hana og hvernig sem hann skilgreinir hana. Það er ofbeldi að taka hana frá honum, sama með hvaða móti, þó löglegt sé.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 29/08/13 10:39 #

Hvað er svona mikið verra og ömurlegra við að fara til helvítis, en að verða að drullu og étinn að ánamöðkum?

B, myndirðu sem sagt frekar vilja kveljast að eilífu frekar en að vera ekki til?

Sannleikurinn er sá að enginn VEIT þetta, og því ættu mennirnir að halda kjafti og hætta að leika Guð.

B, þó svo að við "VITUM" þetta kannski ekki, þá er nokkuð ljóst að meðvitund okkar byggist á heilanum, og þegar þú deyrð þá hættir heilinn að starfa.

...nú eða eilífa kvöl eins og bókstafstrúarmennirnir [boða].

Eins og ég benti á í greininni þá boða ekki bara "bókstafstrúarmenn" eilífar kvalir, Þjóðkirkjan gerir það t.d. líka (nema þú viljir flokka hana sem "bókstafstrúarmenn", ég get alveg fallist á það).

Látið skoðanir annarra manna vera, og leyfið hinni náttúrulegu von mannsins að lifa. Hvað sem hann kallar hana og hvernig sem hann skilgreinir hana.

B, viltu ekki bara láta skoðanir okkar í friði?

Það er ofbeldi að taka hana [vonina] frá honum, sama með hvaða móti, þó löglegt sé.

Nei.


B - 30/08/13 00:19 #

Sársauki og kvöl hafa mikið gildi í þessu ríki, og án skuggahliða mannlegrar tilveru væri engin siðmenning og enginn tilgangur með lífinu. Vegna nálægðar dauðans og hverfulleika hlutanna breytum við vel við aðra og trúarbrögðin og önnur slík menning eru aðallega forn kommenta-kerfi um þessa nálægð dauðans. Siðferði, framfarir og listir væru ekki til ef lífið væri ekki erfitt. Ég flokka Þjóðkirkjuna ekkert síður sem bókstafstrúar en alla aðra. Ekki sé ég að þið látið skoðanir annarra í friði, og ekki geri ég ykkur því þann greiða. Ég er ekki svo lánsamur að eiga trú, en sonur minn væri ekki á lífi ef hann hefði ekki sína. Trúleysi er lúxus fyrir fólk sem hefur átt auðveldara líf en aðrir, og ef áfall gengur yfir verður það líf vart mikið lengra. Þegar allt er vonlaust og myrkt er manninum nauðsynlegt að trúa á eitthvað handan við kringumstæðurnar, einhvern æðri mátt sem geti gripið inn í og bjargað honum. Og að helga líf sitt því að ræna aðra þessari von er ekkert skárra en að helga það manndrápum, því ef ætlunarverkið tekst og manneskjan lendir svo í áfalli sem kallar á trú á von, þrátt fyrir allt, þá mun hún ekki lifa af, því hún var svipt von sinni. Og þessi manneskja gæti vel verið dóttir þín eða eiginkona, faðir eða bróðir.


B - 30/08/13 00:28 #

Ég vara alla einlæglega við að skipta sér um of af eðli og upplagi barna sinna eða reyna að innprenta þeim skoðanir. Það voru foreldrar eiginkonu minnar sem kynntu mínum dreng sína trú, og sú trú hélt honum á lífi. Við skiptum okkur ekki afþví. Það hefði haft sömu afleiðingar og ef bókstafstrúaði faðirinn hefði skipt sér af skoðunum samkynhneigðs sonar síns. "Skynsemi" og "rökhyggja" hjálpa engum að glíma við dýpstu sorgir lífsins eða óbærileg áföll og stórkostlegt ofbeldi. Það er engin tilviljun hvað trúin bjargar mörgum af götunni og forðar mörgum frá sjálfsvígum. Ég skal láta "ykkar" skoðanir í friði. Það er alltaf óhuggulegt þegar menn tala um sjálfa sig í fleirtölu og minnir á ofstækisfullar stjórnmálahreyfingar og hættulega sértrúarsöfnuði. Ég hef varað ykkur við og það ætti að nægja. Eigið það við eigin samvisku að í drottnunarsýki sem birtist í yfirráðasýki yfir skoðunum annarra manna taka frá þeim eina haldreipið sem dugir, þeim sem eru svo heppnir að finna það. Hefði ég lent í samskonar áfalli og sonur minn, þá væri ég löngu kominn í gröfina, því ég á ekki þetta skjól.


Jón Valur Jensson - 30/08/13 09:33 #

Kristin trú, hjá hverjum kristnum sem trúir á Krist, er ekki, hr. B, "skoðun", heldur fullvissa. Og kristinn trúmaður segir með réttu, ekki röngu: "Ég VEIT, á hvern ég trúi." Þetta er ekki trú á óljósa, tímalausa goðsögn, heldur á persónu sem vitjaði okkar á sögulegum tíma og miklar og traustar heimildir eru til um, bæði tilvist hans og dauðdaga og jafnvel kraftaverk hans og upprisu. Eins hafa ótal menn og konur upplifað kraft hans í sínu lífi.

Hlustið á Jesúm sjálfan í guðspjöllunum, þar til þið hafið fengið góða mynd af hugsun hans og þar með hugarfari hans og vilja, sjálfsskilningi hans og köllun. Þá er unnt að taka afstöðu og – vonandi – að taka tilboði hans um líf með honum í trú, traustri von (glaðri eftirvæntingu þess, sem ekki er unnt að sjá í þessu lífi) og í kærleika til Guðs og manna.


Jón Valur Jensson - 30/08/13 09:40 #

Annars eru innlegg "B" mjög merkileg og alvarlegt umhugsunarefni fyrir virka vantrúarmenn. Hér var í pistli Hjalta amazt við "kristniboðsátaki", en mótleikur hans er trúleysisboðun. Sú boðun Vantrúarmanna hefur, já, farið niður á neðstu hæðir í smekk og virðingu fyrir sannfæringu annars fólks.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 30/08/13 10:58 #

Sársauki og kvöl hafa mikið gildi í þessu ríki, og án skuggahliða mannlegrar tilveru væri engin siðmenning og enginn tilgangur með lífinu.

Og þetta svarar í engu því hvort þú vildir frekar kveljast að eilífu eða vera ekki til. Mig grunar að ástæðan sé sú að svarið sé augljóst.

Ekki sé ég að þið látið skoðanir annarra í friði, og ekki geri ég ykkur því þann greiða.

B, bíddu nú við, lætur kristið fólk "skoðanir annarra í friði"? Ef það er í lagi að láta okkur ekki í friði af þessari ástæðu, af hverju dugar þessi ástæða okkur ekki?

Það er alltaf óhuggulegt þegar menn tala um sjálfa sig í fleirtölu og minnir á ofstækisfullar stjórnmálahreyfingar og hættulega sértrúarsöfnuði.

Já, notkun fleirtölunnar er eitt aðalmerki "ofstækisfullra stjórnmálahreyfinga og hættulegra sértrúarsafnaða"! lol

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.