Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kirkjuþing unga fólksins

Mynd

Síðastliðna helgi var haldið svokallað „Kirkjuþing unga fólksins“. Þar komu saman ungmenni sem eru virk í kirkjustarfi um land allt og réðu ráðum sínum. Ályktað var um hitt og þetta, t.d. að launaðir „leiðtogar“ í æskulýðsstarfi kirkjunnar ættu ekki að vera verktakar heldur launþegar. En mesta athygli mína vakti eftirfarandi klausa úr einni ályktuninni:

Kirkjuþing unga fólksins leggur mikla áherslu á það að aftur verði komið á fót eðlilegu samstarfi á milli kirkju og skóla. Í ljósi þjóðaratkvæðagreiðslunnar má sjá að það er vilji þjóðarinnar fyrir því að á Íslandi sé þjóðkirkja og því finnst okkkur eðlilegt að samstarf sé til staðar á milli þjóðkirkjunnar og menntastofnana á Íslandi. Börn eiga að fá tækifæri til að kynnast trúnni og eiga ekki að þurfa að líða fyrir það kirkjunni sé meinaður aðgangur að skólunum.#

Skaði og sjálfsgagnrýni

Þrennt hef ég við þetta að athuga:

  1. Það að meirihluti þeirra sem tók þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs vilji að í stjórnarskrá sé kveðið á um Þjóðkirkju getur varla talist réttlæting fyrir trúboði í menntastofnunum. Þetta eru tvö aðskyld málefni. Það hlýtur að teljast skýr réttur barna og foreldra að boðun trúar og kristilegt starf fari ekki fram sem hluti af skólastarfi. Réttindi fólks eru ekki ákveðin með meiri- eða minnihluta.

  2. Sú hugmynd að börn „líði“ fyrir það að kirkjan fái ekki að stunda trúboð í skólum er fáránleg. Að hvaða leyti kemur það niður á börnum? Stendur það þroska þeirra og menntun fyrir þrifum að prestar og aðrir starfsmenn kirkjunnar geti ekki lengur gengið að þeim vísum í skólum? Svo að ég grípi nú til gamalkunnungs stílbragðs trúboðssinna: Hver er skaðinn?

  3. Hér eru leiðtogar og þátttakendur í æskulýðsstarfi kirkjunnar í raun að lýsa því yfir að starf þeirra sé ekki mikils virði. Varla þyrfti kirkjan að sækja inn í skóla ef starfið sem fer fram á hennar eigin heimavelli væri öflugt.

Uppgjöf og gagnsókn

Unga fólkið í kirkjunni fetar hér sömu brautir og þeir eldra hafa gert undanfarin misseri. Allt frá því Ólafur Skúlason, þáverandi biskup og fyrsti æskulýðsfulltrúi ríkiskirkjunnar, benti á að aðsókn í barnastarf kirkjunnar hefði hrunið í kjölfar þess að sjónvarpsstöðvar fóru að bjóða upp á barnaefni um helgar hefur kirkjan staðið fyrir markvissri ásókn inn í skóla.

Ríkiskirkjan hefur í raun viðurkennt að hún nær ekki til barna og foreldra á sama hátt og áður. Þegar teiknimyndir ógna grundvelli æskulýðsstarfs hennar er augljóst að það stendur ekki á traustum grunni. Út á það gengur „samstarf“ kirkjunnar við skóla. Þegar börnin hætta að koma til kirkjunnar sjálfviljug er trúboðið fært þangað sem þau komast ekki undan.


Mynd fengin hjá jyoseph

Egill Óskarsson 31.05.2013
Flokkað undir: ( Skólinn )

Viðbrögð


Linda Björk Rúnarsdóttir - 31/05/13 14:58 #

Mér finnst líka merkilegt að þeir segja "Börn eiga að fá tækifæri til að kynnast trúnni..." og eiga þar við kristna trú eins og það sé eina trúin. Þeim er væntanlega alveg sama um réttindi barnanna til að vera upplýst um önnur trúarbrögð sem til eru í heiminum eða trúleysi og skiptir engu máli þó fulltrúum þessarra aðila sé meinaður aðgangur að skólum. Svona er jafnrétti íslensku þjóðkirkjunnar.


Sveinn Þórhallsson - 31/05/13 16:20 #

Góðir punktar. Mig langar þó að bæta við að það er vægt til orða tekið vafasamt að byggja þessa skoðun á einmitt þessari þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem einmitt þessi spurning var bæði einstaklega illa orðuð OG jafnframt eina spurningin sem var 'öfug' miðað við niðurstöður stjórnlagaráðs.

Sjálfur þekki ég slatta af fólki sem sagði "já" við þessari spurningu því það taldi sig vera að kjósa með niðurstöðu stjórnlagaráðs, en er almennt á móti þjóðkirkjufyrirkomulaginu.


Valur Bjarnason - 01/06/13 00:44 #

Það er enn stundað í Brekkubæjarskóla á Akranesi að fara með börn í kirkju til að hlusta á prest og foreldrar eru ekkert spurðir álits.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.