Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hverjum skal treysta?

Mynd af tveimur prestum

Agnes M. Sigurðardóttir ríkiskirkjubiskup var í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í síðustu viku. Meðal annars var rætt um prestinn á Húsavík sem reyndi að fá fórnarlamb nauðgunar til að draga kæru til baka. Þegar talið barst í kjölfarið að trausti til presta sagði Agnes:

Hverjum eigum við að treysta ef við getum ekki treyst prestinum?

Af hverju eigum við að treysta prestum?

Þessi orð Agnesar segja óskaplega mikið um sjálfsmynd hennar og margra annara presta. Þeim finnst þeir vera betra fólk, þeir eru góðir, þeim á að treysta. Annað fólk er ekkert endilega traustsins vert, en prestar, tja - hverjum er eiginlega hægt að treysta ef það er ekki hægt að treysta þeim? Prestar eru á toppi traustpíramídans, fyrir ofan sálfræðinga, lækna, löggur og allar aðrar stéttir sem hægt er að nefna.

Hverjum er hægt að treysta ef við getum ekki treyst prestinum? Hefur hugtakið traust kannski enga merkingu ef ekki er hægt að treysta prestum?

Hvað hafa prestar gert til að verðskulda meira traust? Eru þeir á toppi traustlistans vegna einhvers sem prestar hafa áorkað? Eru prestar almennt svona ofboðslega gott fólk?

Nei, þeir eru það ekki.

Hverjum skal treysta? Það fer eftir því hverju við treystum fólki fyrir. Sumt er viðkvæmt og ætti ekki að ræða við aðra en nánustu vini eða ættingja, annað er í lagi að ræða við fólk, margt er á gráu svæði.

Ef málið snýst um kynferðisofbeldi er ekkert víst að gott sé að ræða við prest, það eru nefnilega skiptar skoðanir um það hjá prestunum hvernig þeim beri að bregðast við - þessi saga frá Húsavík er ágætt dæmi. Dæmi eru um það hér á landi að fólk hafi rætt við presta og jafnvel biskupa um kynferðisglæpi án þess að málið hafi farið lengra. Endað ofan í skúffu.

Við treystum fólki yfirleitt þar til annað kemur í ljós - svona almennt - enda flest fólk sæmilegt. Það er þó löngu ljóst að prestar eru ekkert merkilegri en annað fólk. Ekkert ómerkilegri, ég er ekki að halda því fram, oft frekar uppteknir af eigin ágæti, en samt bara fólk.

Matthías Ásgeirsson 22.04.2013
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Jakob T. Arnars - 22/04/13 10:17 #

Heyr, heyr.

Sagan er sammála.

Skrifaði ritgerð í fyrra um aðkomu presta í dómabókum sýslumanna á fyrri hluta 18. aldar. Satt best að segja þá getur fjöldi dómsmálanna verið misjafn eftir svæðum og áratugum, en það sem dómabækurnar sýna er að prestar eru ekkert heilagri en aðrir. Auk þess þegar danski biskupinn kom til að meta stöðu trúmála hér á landi (í upphafi 18. aldar), þá hafði hann víst á orði hversu drykkfelldir íslenskir prestar voru. Og flest þau dómsmál sem ég skoðaði (snérust að meiðyrðum og ósæmilegu framferði) var um að ræða drykkju og afleiðingar þess.

Satt best að segja koma prestar ekkert verr eða betur út heldur en annað fólk. Meta þarf þá út frá ágæti persónu hvers og eins.


Rúnar - 22/04/13 11:30 #

Jakob, er ritgerð þessi á skemmuni? Eða var þetta ekki prófritgerð? Ef hún er góð væri ég til í að kíkja í hana.


Sid Vicious - 22/04/13 22:19 #

Hvad er thetta med presta og kynlif ,kirkjur og klàm, Skritd nok ad vera med Ríkisrekin prest og piskaup sem er kona fjekk hun ekki mailid um konur og kirkju?


Jakob T. Arnars - 26/04/13 10:41 #

Rúnar

Ritgerðin er ekki á skemmunni þar sem ekki var um að ræða prófritgerð. Við sem vorum í áfanganum sem ég skrifaði ritgerðina fyrir, bauðst að ræða við og senda til ritstjóra tímarits sem fjallar mest um 18. öldina (man ekki hvað það heitir akkúrat á þessum tímapunkti). Það eru ýmsir vankantar á ritgerðinni, sem ég stefni á að leiðrétta og betrumbæta, en þeir draga ekki úr aðal niðurstöðum ritgerðarinnar: "Hugmyndin var að prestar ættu að vera fyrirmynd fyrir samfélagið, eins og kom fram í lagasetningum en slíkt virðist hafa reynst þyngri þraut en ella." Rannsóknin gaf einnig til kynna að þrátt fyrir að kirkjan reyndi að móta samfélagið með eigin reglum, þá var reyndin sú að prestar urðu að aðlagast sínu nærsamfélagi (samfélaginu í sveitinni/héraðinu/sýslunni) annars vegar og hins vegar samfélagi presta. Ef presti tókst ekki að aðlagast öðru hvoru þessara samfélaga þá voru miklar líkur á að hann myndi hrökklast frá störfum.

Það getur vel verið að ég muni gera þessa ritgerð aðgengilega á netinu þegar vankantarnir hafa verið slípaðir.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.