Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Betra fólk

Eitt af því sem fer stundum í taugarnar á mér við sumt trúað fólk er sá stallur sem það hefur tyllt sér á. Það stærir sig af endalausri hógværð og undirgefni við Gvuð sinn annars vegar en hins vegar lítur það á sig sem betra fólk en það sem er laust við trú.

Það trúir því að kristið fólk fremji færri glæpi, haldi síður fram hjá maka sínum, hugsi betur um börnin sín og sé ólíklegra til að misnota áfengi og fíkniefni. Það trúir því að kristið fólk sé betra við náungann. Það heldur að börn batni við það að kristni sé troðið í saklausa huga þeirra.

En það hefur rangt fyrir sér, þetta er kristin mýta.

Sama fólk og trúir því að kristnir séu betri er duglegt að vísa til þess hve stór hluti þjóðarinnar er kristinn. Það fer ekki vel saman. Reyndar vitum við að hlutfall kristinna er ýkt því skráning í Þjóðkirkjuna segir ekkert til um trú manna og rannsóknir benda til þess að trúarskoðanir stórs hluta þjóðarinnar samrýmast kristni illa. Erlendar rannsóknir benda til þess að trúmenn séu líklegri ef eitthvað er til að fremja þær syndir sem þeir fordæma. Samkvæmt þeim rannsóknum eiga trúmenn meira klám, halda frekar framhjá maka sínum og fremja fleiri glæpi en þeir sem eru trúlausir. Þarna þarf ekki að vera nein fylgni - en tilvist þessa rannsókna sýnir hve mikil hræsni er fólgin í því að halda því fram að trúaðir séu betri. Barna framkvæmdu rannsókn árið 1999 þar sem ætlunin var að sýna að trú minnki líkur á skilnaði. Niðurstöðurnar komu þeim verulega á óvart, trúleysingjar höfðu lægstu skilnaðartíðni allra hópa í rannsókninni.

Gleymum því ekki að einn trúheitasti alþingismaður þjóðarinnar var dæmdur fyrir þjófnað og spillingu. Sami maður og hikar ekki við að dæma aðra syndara var gripinn með höndina í krukkunni. Reglulega er trúað fólk staðið að glæpum. Svör annnarra trúmanna eru fyrirsjáanleg, þessi er ekki "sannur trúmaður". Reyndar gagnast kristilega hugarfarið þessu fólki ágætlega, því sjaldan er jafn mikið talað um fyrirgefningu og fordómaleysi og þegar þetta fólk er gripið með hramminn í kökukrukkunni. Mættu samkynhneigðir ekki frekar fá fordómaleysið heldur en dæmdir glæpamenn.

Það er ekki lengur fyndið hversu oft íhaldsamir trúmenn erlendis eru gripnir í hneykslismálum. Vændiskonur í New York höfðu meira en nóg að gera þegar Repúblikanar héldu flokksfund sinn þar á síðasta ári. Íhaldssamir sannkristnir karlmenn, sem fordæma lauslæti í einu orði, versla við vændiskonur við fyrsta tækifæri.

Ég fordæmi ekki þessa hegðun, mér er drullusama hvað fólk gerir. Ég fordæmi þessa endalausu hræsni. Lygina sem góða fólkið lifir í.

Það eru engin tengsl milli trúar og dyggða, trúað fólk er ekki betra en trúlaust fólk á nokkurn hátt. Trúað fólk er ekkert hamingjusamara, fallegra eða graðara. Það er bara trúgjarnara.

Matthías Ásgeirsson 24.03.2005
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Orri - 24/03/05 01:05 #

Gargandi snilld! Gæti ekki verið meira sammála.

Þetta er eins í öðrum költum, eins og t.d. AA.

Samkvæmt fjölda rannsókna eru þeir sem stundað hafa AA líklegri til að fara sér að voða, en þeir sem hætt hafa drykkju upp á eigin spýtur.

Eftir fall eru þeir jafnframt líklegri til "binge drinking" en þeir sem hætta neyslu með öðrum hætti.

Þarna kemur faktorinn "learned helplessness" sterkt inn.

Fólk sem hlýðir á predikanir um vanmátt sinn og bresti, sýknt og heilagt, fer smám saman að trúa og hegða sér samkvæmt því. Að það geti ekkert annað.

Ef einhver segir við þig fimm þúsund sinnum að þú sért hálfviti, þá er líklegt að þú farir að trúa því og hegðar þér þá samkvæmt því.


Össi - 24/03/05 12:59 #

Fyrst fólk er byrjað að tala um AA samtökin, þá vil ég endilega benda á bókina „Alcoholics Anonymous: Cult or cure?„. Seinast þegar ég vissi var hún aðgengileg á netinu.


Dóri - 24/03/05 22:57 #

Við trúleysingjar megum heldur ekki þykjast vera eitthvað betri en hinir trrúuðu. Við megum ekki gleyma því að flestir íslendingar eru ekki trúaðir þeir trúuðu sem þykjast vera eitthvað æðri og dyggðum prýddari eru gaukar eins og Gunnar í Krossinum. Mér er líka alveg sama þó að börnin mín læri um jésús og svoleiðis og hitti presta í skólanum. Það skaðar engann.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 25/03/05 00:17 #

Vissulega er ekki gefið að trúleysingjar séu eitthvað betri en annað fólk og því er ekki haldið fram í greininni.

Setningin, "það skaðar engann" fer afskaplega í taugarnar á mér, meira um það síðar.


Orri - 25/03/05 02:06 #

Jamm, Össi. "AA - cure or cult?" er frábær bók og fjölmargar aðrar eru til um sama efni.

Bók á íslensku um þessi málefni mun líka vera í vændum.


Már - 25/03/05 09:49 #

Góð grein Matti!

Orri, þessi rök um AA fólkið virðast í fljótu bragði vera hundalógík. Ég efast stórlega að hægt sé að bera "meðlimi í AA" saman við "fyrrverandi óreglufólk almennt". Þeir sem fara í AA finna sig í því starfi er yfirleitt fólk sem telur sig hafa fullreynt að hætta "upp á eigin spýtur". Það má vel leiða líkum að því að AA fólk sé allt að því samkvæmt skilgreiningu veikara á svellinu en flest annað óreglufólk - og einmitt þess vegna leiti það í faðm "költsins", svo ég noti orðið sem þú kallar AA. Það er vel mögulegt að án einmitt þessara "költ"-einkenna AA, hefði þetta fólk endað dautt eða djúpt í ræsinu.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 25/03/05 17:50 #

Ég held að styrkur AA samtakanna felist einfaldlega í hópstarfinu, hinu félagslega. Það hlýtur að vera ótrúlega gefandi að geta ramblað um raunir sínar frammi fyrir fullu húsi af fólki sem svipað er ástatt fyrir, og hlusta á raunir annarra.

Held að Guð (og Jesús, sem í seinni tíð hefur verið að þröngva sér þarna inn, þrátt fyrir staðhæfingar AA manna um að hver og einn geti fundið sér sinn eigin „æðri mátt“) sé öldungis óþarfur. Það að planta honum þarna inn í dæmið gerir annars ágætan félagsskap að ömurlegu költfyrirbæri.


Orri - 27/03/05 07:08 #

Ég hafna þessum fullyrðingum þínum, Már, um hundalógík.

Eins gáfaður og þú ert, þá ertu hér að fjalla subject sem þú veist sennilegast lítið um.

Þú segir: "Þeir sem fara í AA finna sig í því starfi er yfirleitt fólk sem telur sig hafa fullreynt að hætta "upp á eigin spýtur". "

Það er rétt, að hluta. Örfáir gera nákvæmlega það sem þú segir og ná árangri. Hinir droppa út. Flestir, nota bené.

Bindindisárangur innan AA er á bilinu 5 - 8%, samkvæmt fjölmörgum bandarískum rannsóknum.

Hvaða hálfviti treystir sér annars til að halda því fram að AA sé effektívt - burtséð frá því hvort um költ er að ræða, eður ei?

Hvernig geta menn leyft sér að halda þvi fram að AA sé eitthvað final path og lausn?


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 27/03/05 11:50 #

Ég vantreysti aðferð AA-samtakanna, ég held að til þess að komast yfir fíkn þá þurfirðu að átta þig á því að þú getir stjórnað lífi þínu en AA fer akkúrat í hina áttina. Síðan fékk ég lýsingu á AA-fundum frá þurrum alkahólista og það opnaði svo sannarlega augu mín, þetta er bara költ.


Alexandra Ingvarsdóttir - 30/03/05 11:48 #

Mjög góð grein, allt saman dagsatt. Þetta er eins og með marga rasista, flestir halda að allir glæpirnir í heiminum séu lituðu fólki að kenna, aðalega svertingjum. Þeir útiloka allar orsakir af glæpum, eins og fátækt (sem er yfirleitt yfirvöldum að kenna). Fólk sem heldur að þau séu æðri útiloka allt sem er ekki eins.


Sævar - 31/03/05 20:26 #

Frábær grein! Eins og talað frá mínu hjarta.


Axel - 15/04/05 13:48 #

Þarna er ég reyndar alls ekki sammála þér. Glæpatíðni fólks fer líklega ekki eftir því hvort það trúi á Guð eða ekki. Spurningin er hvort maður gefi Guði líf sitt eða ekki. Flestar rannsóknir sem ég hef séð benda til Þess að Kristnir menn séu yfirleitt hamingjusamari en aðrir en ég held að það eigi bara við þegar menn eru í sambandi við Guð. Trú = traust. Að trúa því að Guð sé til er ekki sama og að Trúa á hann. Svo virðist þessi rannsókn sem þú hefur séð ekki mjög trúverðug. Sennilega trúleysingjar sem hafa gert hana með það markmið að reyna að koma aftan að Kristnum sem verður aldrei gert með góðum rökum.


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 15/04/05 13:53 #

. Sennilega trúleysingjar sem hafa gert hana með það markmið að reyna að koma aftan að Kristnum sem verður aldrei gert með góðum rökum.
Það voru trúmenn sem framkvæmdu þessa rannsókn, markmið þeirra var að sýna fram á að trúmenn væru "betri". Niðurstöður voru ekki að þeirra skapi. Ef þú hefðir lesið heimasíðuna sem ég vísa, hefðir þú fljótt rekist á þetta
e ultimate aim of the firm is to partner with Christian ministries and individuals to be a catalyst in moral and spiritual transformation in the United States. It accomplishes these outcomes by providing vision, information, evaluation and resources through a network of intimate partnerships. Among its strategic partners are Church Communication Network, EMI Christian Music Group, Filmdisc, HollywoodJesus.com, Kingdom Inc., The Oncore Group, and Tyndale House Publishers.

Annars minnir þessi athugasemd dálítið á enginn sannur skoti rökvilluna.


Krummi - 11/05/05 12:49 #

Allt þetta sem stendur hér bæði um kristna og aðra er hægt að segja í einni setningu. "Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá" Takk fyrir.


jeremía - 12/05/05 21:19 #

Kjarninn í þessu hjá þér er að "sumt" trúað fólk lítur á sig sem betra fólk en aðra (trúleysingjar) En hver er rökstuðningur við þessari fullyrðingu? Dæmi? Í stað fáum við dæmi um hversu vont "sumt" trúað fólk er... og um leið þá tilfinningu að sá sem skrifar telur sig betri en "sumt" trúað" fólk. Er þá ekki verið að kasta steinum úr glerhúsi?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 12/05/05 21:26 #

jeremia, þetta er fullkomlega tilgangslaus athugasemd.

Þú ert ágætt dæmi, ef dæmi vantar.


jeremía - 14/05/05 20:53 #

Það er eins og þú getir ekki rökstutt þessar fullyrðingar að trúað fólk sé hræsnarar. Þá ættir þú að geta komið með nokkur dæmi um þar sem trúaðir segjast vera betri en aðrir. Og ef þú getur fundið dæmi um það, þá er eftir að sýna fram á að þess vegna sé það hræsnari. Ég held að allir telji sig vera betri en einhverjir aðrir, til dæmis tel ég mig vera betri en einhver raðmorðingi. Er ég þá hræsnari? Telur þú þig ekki vera betri en sami raðmorðingi? Erum við þá öll hræsnarar, bara mismikið? Ein spurning: telur þú þig vera betri en hinn meðal trúmann?


Matti Á. (meðlimur í Vantrú) - 14/05/05 21:55 #

Það er eins og þú getir ekki rökstutt þessar fullyrðingar að trúað fólk sé hræsnarar.
Ég þarf einfaldlega ekki að rökstyðja þá fullyrðingu að sumt trúað fólk sé hræsnarar. Ég þarf ekki að telja upp dæmi um fólk sem heldur því fram að trúaðir séu betri en aðrir.

Þetta eru ríkjandi viðhorf hjá stórum hópi trúaðs fólks og út í hött að þræta um það. Tilgangsleysið með slíkri umræðu er algjört.

Þessi rökræðutaktík sem þú beitir hér náskyld þeirri sem kom fram um daginn á þessum vef þar sem við vorum krafðir um nöfn einstaklinga sem höfðu látist úr alnæmi vegna áróðurs kaþólsku kirkjunnar gegn smokkum. Með þessari taktík er verið að andmæla augljósum staðreyndum með kjánalegum hætti.

En villtu dæmi um trúmann sem heldur því fram að trúað fólk sé betra en annað. Gjörðu svo vel.

Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum; ótryggð og ótrú ógnar uppeldi barna okkar, sundrar heimilum og fjölskyldum. Valið stendur milli trúar og trúleysis á vettvangi hversdagsins, sem og viðskipta og stjórnmála. Ég er ekki í vafa um að flestir myndu að athuguðu máli velja trúna. Og viðurkenna að þegar allt kemur til alls sé einfaldlega ekkert vit í því að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni. Eða hvað?
Svo mælir biskupinn yfir Íslandi.

Ég sé hvert þessi umræða stefnir og loka henni því hér. Ef þú villt tjá þig nánar um þetta bendi ég á spjallborðið

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.