Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hinn ófyrirleitni Jesús

Mynd af Jesú

Þegar trúlausir nefna illindin í Gamla testamentinu eru viðbrögð trúaðra venjulega þau að Jesús hafi breytt öllu og því gilda ekki lengur gömlu gyðingalögin (nema boðorðin 10, af einhverjum ástæðum). Hins vegar má einnig finna margt í Nýja testamentinu sem við getum ekki verið stolt af í dag, hvort sem við erum trúuð eða ekki. Þetta er því miður bara hluti af þeim óskapnaði sem finnst í Nýja testamentinu. Margt af þessu er meira að segja andstætt boðskap margra íslenskra presta að Jesú og guð séu fyrirgefandi persónur. Það mætti halda að Jesús hefði haft að minnsta kosti tvo mismunandi persónuleika miðað við allt það góða sem hann á að hafa sagt og hið slæma.

Guð mun eyða borgum þeirra sem heyra ekki fagnaðarerindið

Og taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi eða þeirri borg og hristið dustið af fótum yðar. Sannlega segi ég yður: Bærilegra mun landi Sódómu og Gómorru á dómsdegi en þeirri borg. (Mt. 10:14-15)

Fyrir þá sem ekki þekkja söguna um Sódómu og Gómorru er rætt um hana í 19. kafla 1. Mósebókar. Þar var tortímingin svo yfirgripsmikil að eiginkona Lots breyttist í saltstólpa. Þar rigndi eldi og brennisteini þannig að borginni var eytt út af kortinu og jafnvel gróður lifði ekki af. Og þessi örlög eiga allir íbúar borgarinnar skilið fyrir það eitt að vilja ekki hlusta á boðskap lærisveinana. Nú er rétti tíminn til að segja að Jesús elskar alla og er svo kærleiksríkur og virðir frelsi fólks til eigin skoðana og...

Jesú kom til að koma á ósáttum

Ætlið ekki að ég sé kominn að færa frið á jörð. Ég kom ekki að færa frið heldur valda sundrungu. Ég er kominn að gera son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni. Og heimamenn manns verða óvinir hans. (Mt. 10:34-36)

Í fleiri aldir var orðið sundrung í íslensku Biblíunni í þessum versum þýtt sem ‚sverð‘ þar til í nýjustu útgáfu hennar. En það breytir ekki boðskap versanna. Jesús ætlar sér að sundra fjölskyldum og koma á almennum ósáttum. Ef einhver nefnir að Jesús eða kristin trú sé sameiningartákn, bendið þeim á þetta vers.

Jesú fordæmir heilu borgirnar

En hvar sem þér komið í borg og eigi er við yður tekið, þá farið út á strætin og segið: Jafnvel það dust sem loðir við fætur vora úr borg yðar þurrkum vér af oss og þér getið hirt það. Vitið samt þetta, að Guðs ríki er komið í nánd. Ég segi yður: Bærilegra mun Sódómu á þeim degi en þeirri borg. Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gerst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gerðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast og setið í sekk og ösku. En Týrus og Sídon mun bærilegra í dóminum en ykkur. Og þú, Kapernaúm! Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Sá sem á yður hlýðir hlýðir á mig og sá sem hafnar yður hafnar mér. En sá sem hafnar mér hafnar þeim er sendi mig.“ (Lúkas 10:10-15)

Frásögn af sama meinta atburði er einnig í Mt. 11:20-24.

Nú lofar Jesús ekki bara eyðingu borga af hendi Jahve, heldur að þeim verði steypt til heljar, sem hann lýsir við önnur tækifæri að þar verði grátur og gnístran tanna. Nú nefnir hann meira að segja nöfn ákveðinna borga.

Sá sem er ekki með Jesú er á móti honum

Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir. (Lúkas 11:23 (einnig Mt. 12:30))

Hér er dæmigerð útgáfa af rökvillu sem kallast fölsk klemma sem byggist á því að settir eru fram tveir valkostir og haldið fram að annar þeirra verði að vera sannur. Mannkynið er að þróast úr slíkum svart-hvítum hugsanahætti en maður hefði búist við að guðleg persóna ætti að vera hafin yfir slíkt. Ekki má gleyma þessum orðum í því samhengi að fólk átti að lenda í helvíti ef það væri ekki með honum.

Þú ert annaðhvort með mér eða ég má pynda þig síðar.

Rasistinn Jesús

Í Mt. 15:21-28 er saga um kanverska konu sem kemur til hans til að fá hjálp við að særa illan anda úr dóttur hennar. Jesús neitar fyrst að hjálpa henni vegna þess að hún er ekki ísraelsk. Hann líkir henni jafnvel við hund hjá matarborðinu og vísar þannig í hana sem ómerkilegri manneskju en Ísraelsfólk.

Það er greinilegt að ekki eru allir jafnir í augum Jesú þar sem hann hafnar beiðni erlendrar konu af þeirri ástæðu að hún er erlend. Jesús virðist því hafa verið rasisti en sem betur fer ekki eins mikill rasisti og við höfum nýleg dæmi um í mannkynssögunni.

Ef Jesú líkar ekki við þig, þá ferðu í eilífðareldinn

Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld sem búinn er djöflinum og árum hans.(Mt. 25:41)

Hin íslenska prestastétt forðast að ræða um helvíti en þegar þeir gera það, þá gera þeir lítið úr þeim stað sem Jesús predikaði að væri til. Hægt er að snúa út úr þessu versi og segja að eldurinn sé eilífur en vera hvers og eins sé það stutt að það sé ekki teljandi. Tilvíst helvítis og rekstur þess er efni í sér grein en boðskapurinn í þessu versi er að Jesús vill svo sannarlega að fólk kveljist í helvíti, hvort sem það er stutt eða langt.


Mynd fengin hjá Edal Anton Lefterov

Svavar Kjarrval 08.03.2013
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Sögulegi Jesús )

Viðbrögð


Steini - 10/03/13 14:59 #

Alltaf finnst mér merkilegt þegar trúarfólk leiðréttir og túlkar svona klausur eftir hentisemi. Þvílíkt sjálfstraust sem þarf til að leiðrétta orð Guðs.


Mofi - 22/03/13 13:47 #

Fyrir áhugasama þá svaraði ég þessari grein hérna: Var Jesús ófeyrirleitinn?


Einar Steinn Valgarðsson - 22/03/13 23:39 #

http://www.youtube.com/watch?v=PK7P7uZFf5o


Svanur Sigurbjörnsson - 26/03/13 23:22 #

Mótsagnakenndur dude þessi Jesú hinn eingetni. Mér finnst einnig merkilegt að í Fjallræðunni svokallaðri sagði hann að kærleikurinn væri trúnni meiri. Kristnir trúarleiðtogar taka ekki mark á þessu versi því að þar vilja þeir gjarnan fara eftir orðum hans "Hver sem er ekki með mér er á móti mér" og velja því samkristna hagsmuni framyfir sammannlega hagsmuni. Almenn mannréttindi lúta fyrir kristnum réttindum. Þannig eru prestar og sér í lagi leiðtogar þar á meðal afar mótsagnakenndir.


Jack Daniels - 28/03/13 09:24 #

Hvað næst? Ætlið þið líka að leiðrétta það sem þið teljið slæmt málfar í símaskrá Khazakstan? Annarra manna bækur koma ykkur ekkert við.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 28/03/13 12:54 #

Annarra manna bækur koma ykkur ekkert við.

Vá. Þetta er það heimskulegasta sem ég hef lesið á þessu ári. Það verður áhugavert að sjá hvort það verður toppað.

Annarra manna bækur koma okkur við ef aðrir eru sífellt að vitna í þær bækur. Bækurnar koma okkur við ef þær hafa áhrif. Bækur koma okkur við ef fólk myndar sér skoðanir út frá þeim.


Svavar Kjarrval (meðlimur í Vantrú) - 28/03/13 23:58 #

Athyglisverð færsla (http://mofi.blog.is/blog/mofi/entry/1289337/), Mofi. Ætla að svara hér í athugasemd.

Grein Mofa:
Rangt að guð muni eyða borgum þeirra sem heyra ekki fagnaðarerindið.

Svar:
Það stendur svo sannarlega í Mt. 10:14 að átt er við þá sem taka ekki við lærisveinunum (heyra ekki fagnaðarerindið) eða fari eftir orðum þeirra (heyra það en fara ekki eftir því). Það stendur ekkert í versinu eða gefið til kynna að það sé af öðrum orsökum. Aðrar orsakir eru ekki útilokaðar en hér virðist vera sjálfstæð ástæða fyrir því að borginni verði eytt.

Ljóst er skv. Nýja Testamentinu er að Jesú segir að jafnvel hann vissi ekki hvenær dómsdagur kæmi. Fari dómsdagur fram miklu síðar, þegar komin er ný kynslóð fólks, þá sé réttlátt að eyða borginni með voðalegum hætti vegna þess að forfeður viðkomandi hlustaði ekki á lærisveinana. Hvað ef fólkið er nokkuð gott við hvert annað, eða jafnvel hluti af fólkinu tekur við fagnaðarerindinu en hinn hlutinn ekki? Á að eyða manneskjunni vegna synda hinna?

Grein Mofa:
Ósættirnar eru óhjákvæmileg afleiðing boðskaparins.

Svar:
Rökfærslan í grein Mofa talar fyrir sig sjálf. Lýsingin þar gerir lítið annað en að styðja mál mitt um að Jesú hafi ætlað að valda sundrungu, sérstaklega þar sem Mofi bendir meira að segja á að þar myndast gjá milli hópa af fólki. Í svari Mofa er jafnvel farið út í það að boðskapurinn sjálfur valdi sundrungu og jafnvel vilji Jahve.

Grein Mofa:
Steypa til heljar er annað orðalag fyrir að eyða borgum og uppfylltur spádómur.

Svar:
Hér er um að ræða þína eigin persónulegu túlkun á að helvíti sé ekki til. Það breytir því ekki að helvíti er staður sem Jesús segir að verði grátur og gnístran tanna. Óháð því hvort þú viljir ekki viðurkenna að helvíti sé til, þá er augljóst að Jesú vill að íbúar borganna upplifi grátur og gnístran tanna.

Að um sé að ræða uppfylltan spádóm er einfalt fyrir mannfólk að skrifa niður nöfn staða sem hafa aldrei verið til og segja síðan að þeim hafi verið eytt. Alveg eins og þegar ég bölsetti Krækjufljót og hótaði að þurrka það upp þannig að það væri eins og það hefði aldrei verið til. Þetta er auðvitað uppfylltur spádómur því það er ekkert fljót með þessu nafni í dag.

Grein Mofa:
Ekki rökvilla að segja að fólk er annaðhvort á móti Jesú eða með honum.

Svar:
Hvað um fólk sem hafði aldrei heyrt um Jesú áður en það dó? Er það með Jesú eða á móti honum? Það væri varla áreiðanlegt ef fólk myndi taka ákvörðun um það þegar það væri þegar búið að sanna fyrir því að himnaríki væri til. Slíkt væri ekki byggt á trú.

Grein Mofa:
Jesú var ekki rasisti.

Svar:
Greinilegt er að Jesú fór ekki eftir orðum Jahve í 3. Mósebók 19:34 þegar hann hitti kanversku konuna. Síðan er augljóst af sögunni í 7. Lúkasarguðspjalli að hundraðshöfðinginn sendi öldunga Gyðinga til Jesú, því er ekki um sambærilegt atvik að ræða. Þar að auki nefna þessir sömu öldungar í 4.-5. versi að hundraðshöfðinginn hafði mikla aðdáun á Ísraelsþjóð og reisti meira að segja samkunduhús þeirra. Slíkt er ekki um að ræða hvað kanversku konuna varðar. Ekkert styður það að kanverska konan hafi ekki móðgast, enda er auðvelt fyrir slík atriði að rata ekki í guðspjöllin, sérstaklega miðað við að þau voru rituð löngu eftir lát Jesú og af einstaklingum sem voru nokkuð hlutdrægir.

Grein Mofa:
Fólk fer ekki í elífðareldinn ef Jesú líkar ekki við það.

Svar:
Hér er það sem Jesú (konungurinn í sögunni) segir við þá sem eru til vinstri (Mt. 25:41-46): „Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég en þér hýstuð mig ekki, nakinn en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi en ekki vitjuðuð þér mín. Þá munu þeir svara: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi og hjálpuðum þér ekki? Hann mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér. Og þeir munu fara til eilífrar refsingar en hinir réttlátu til eilífs lífs.“ “

Jafnvel þótt við gefum að helvíti sé ekki til, þá er samt greinilegt hér að Jesú vill að þeir til vinstri verði undir eilífri refsingu. Það er einmitt það sem hugmyndin um helvíti gefur til kynna; staður með grátur og gnístran tanna þar sem fólki er refsað endalaust fyrir það sem það átti að hafa gert á takmörkuðum tíma á meðan það var á lífi. Hvað frekar þarf að sanna að í Biblíunni sé vísað til staðar sem heitir helvíti? Skilti með ör þar sem stendur „Helvíti“?

En grein Mofa fer í orðaleik vegna orðavalsins að Jesú líki ekki við mann vegna þess að það er ekki sagt svo með berum orðum. Ef Jesú elskar alla svo mikið að hann líki við þá alla, af hverju ekki að bjóða öllum yfir til himnaríkis í stað þess að senda suma (sem honum greinilega líkar við) til staðs þar sem þeim verður óendanlega refsað? Það er ekki eitthvað sem ég myndi búast við af manneskju/guðlegri veru sem líkaði við mig.


njeh - 29/03/13 04:05 #

Finnst mjög fyndið hvernig Svavar "svarar" greininni í kommentunum hérna og tekur þar með svör Mofa úr samhengi..vel gert Svavar, vel gert.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 29/03/13 10:56 #

Ha! Er það ekki nákvæmlega það sem mofi gerði þegar hann svaraði þessari grein í bloggfærslu á síðu sinni en ekki í athugasemd hér?

Hér svarar Svavar aftur á móti við sömu grein og mofi gerði athugasemd við þannig að samhengið heldur sér.

Ef þú vilt halda samhengingu hjá mofa setur þú bara link á svarið í athugasemd við færsluna hans.


mofi - 29/03/13 14:29 #

Það stendur svo sannarlega í Mt. 10:14 að átt er við þá sem taka ekki við lærisveinunum (heyra ekki fagnaðarerindið) eða fari eftir orðum þeirra (heyra það en fara ekki eftir því).

Ég hérna geri ráð fyrir því að þeir sem taka ekki við lærisveinunum hlusti á þá en hafni þeim; sem sagt heyri fagnaðarerindið en hafna því. Ekki að vera eytt án þess að heyra það.

Ljóst er skv. Nýja Testamentinu er að Jesú segir að jafnvel hann vissi ekki hvenær dómsdagur kæmi. Fari dómsdagur fram miklu síðar, þegar komin er ný kynslóð fólks, þá sé réttlátt að eyða borginni með voðalegum hætti vegna þess að forfeður viðkomandi hlustaði ekki á lærisveinana

Mín trú er að það eru alltaf syndir fólks sem veldur þeirra glötun en ekki að hafa ekki heyrt eitthvað. Síðan í lögmáli Guðs þá var bannað að hegna einhverjum fyrir syndir annara svo mín trú er að Guð myndi ekki láta einhvern glatast vegna þess sem foreldrar viðkomandi gerðu.

Rökfærslan í grein Mofa talar fyrir sig sjálf. Lýsingin þar gerir lítið annað en að styðja mál mitt um að Jesú hafi ætlað að valda sundrungu, sérstaklega þar sem Mofi bendir meira að segja á að þar myndast gjá milli hópa af fólki. Í svari Mofa er jafnvel farið út í það að boðskapurinn sjálfur valdi sundrungu og jafnvel vilji Jahve.

Málið er einfaldlega að benda á hvað er rangt, benda á hvað er rétt og boða að með að iðrast og setja traust sitt á Jesú, að þessi boðskapur sem að mínu mati er mjög fallegur og góður, að margt fólk mun hata þennan boðskap af alls konar ástæðum.

Að um sé að ræða uppfylltan spádóm er einfalt fyrir mannfólk að skrifa niður nöfn staða sem hafa aldrei verið til og segja síðan að þeim hafi verið eytt.

Ef þú heldur að það sé líkleg útskýring þá þú um það. Mér finnst hún mjög langsótt því að fólk á þessum tíma hefði annað hvort þekkt borgirnar eða ekki og þetta hefði komist upp ef að þetta hefði verið skáldskapur.

Hvað um fólk sem hafði aldrei heyrt um Jesú áður en það dó? Er það með Jesú eða á móti honum? Það væri varla áreiðanlegt ef fólk myndi taka ákvörðun um það þegar það væri þegar búið að sanna fyrir því að himnaríki væri til. Slíkt væri ekki byggt á trú.

Ég trúi því að margir sem munu öðlast eilíft líf munu aldrei hafa heyrt nafnið Jesús en það tók afstöðu með Guði samkvæmt þeirri þekkingu sem það hafði.

Greinilegt er að Jesú fór ekki eftir orðum Jahve í 3. Mósebók 19:34 þegar hann hitti kanversku konuna

Ég sé Jesú verða við beiðni þessarar konu; kannski var hvernig Hann talaði við hana ákveðin lexía fyrir hana, ég veit ekki. En þar sem ég trúi að Jesús var á bakvið versin í 3. Mósebók þá er það mín trú að Hann var ekki rasisti.

En grein Mofa fer í orðaleik vegna orðavalsins að Jesú líki ekki við mann vegna þess að það er ekki sagt svo með berum orðum. Ef Jesú elskar alla svo mikið að hann líki við þá alla, af hverju ekki að bjóða öllum yfir til himnaríkis í stað þess að senda suma (sem honum greinilega líkar við) til staðs þar sem þeim verður óendanlega refsað? Það er ekki eitthvað sem ég myndi búast við af manneskju/guðlegri veru sem líkaði við mig

Versin sem var vísað í fjallaði um hvernig sumir gerðu hinum minnstu í heiminum góðverk og hvernig aðrir skeittu sig ekkert um vanlíðan annara. Það er ástæðan sem vísað er í varðandi af hverju þeir heyra fordæmingu frá Jesú. Það er að minnsta kosti punkturinn sem ég var að svara.

Öllum er boðið til himna svo aðeins þeir sem afþakka boðið eða neita að virða þær reglur sem gilda í himnaríki munu ekki fara þangað.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.