Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Kristilegi Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn, hjarta, kross

Samkvæmt Morgunblaðinu var eftirfarandi ályktun samþykkt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í gær:

Sjálfstæðisflokkurinn telur að kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi. Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um þjóðkirkju Íslands samkvæmt stjórnarskrá.

Landsfundur telur mikilvægt að ríkisvaldið standi full skil á félagsgjöldum (sóknargjöldum) þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga. Öll lagasetning skal ávallt taka mið af kristnum gildum og hefðum þegar það á við. #

Grín

Auðvitað hlæja flestir að þessu enda vissi fólk ekki hvort þetta væri bara grín þegar fyrstu fréttir bárust. Þetta er þó ekki fyndið, við erum að tala um stærsta stjórnmálaflokk landsins, flokk sem sennilega verður í valdastöðu eftir næstu kosningar.

Sjálfstæðisflokkurinn gengur of langt.

Ekki er lengur hægt að tala um Sjálfsstæðisflokkinn sem annað en kristilegan stjórnmálaflokk. Fólk sem skilgreinir sig hægra megin á stjórnmálarófinu og styður frelsi og jafnrétti í trúmálum hlýtur að velta því fyrir sér hvort það geti stutt flokk með svona stefnu.

Þessi ályktun kemur ekki eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Síðustu ár hafa þingmenn Sjálfstæðisflokks verið í forsvari þeirra sem verja ríkiskirkjuna og kristni á Alþingi. Árni Johnsen mætti með Biblíuna í púltið þegar reyna átti að hafa leik- og grunnskólalög veraldleg, Þorgerður Katrín hefur verið iðin við að berjast gegn því að lífsskoðunarfélög fái sömu réttindi og trúfélög og Bjarni Benediktsson mætti fyrir nokkrum mánuðum í útvarpsþáttinn Harmageddon og varði hin kristilegu gildi. Ef stjórnmálaflokkur daðrar ítrekað við djöfulinn þarf varla að koma á óvart þegar fjandinn mætir á fund og hefur betur.

Í þessum málaflokki hefur Vantrú barist fyrir því að allir hafi frelsi til að trúa því sem þeir vlija svo lengi sem þeir skaða ekki aðra og að allir séu jafnir að lögum. Stefnan sem Sjálfstæðisflokkur er að marka sér í trúmálum stangast á við hvoru tveggja.

Grunngildi flokksins

Telja landsfundarmenn Sjálfstæðisflokksins virkilega að það sé í samræmi við grunnstefnu flokksins að ríkisvaldið sé að standa í rekstri trúfélaga og að eitt trúfélaganna skuli sett í forréttindastöðu?

Hefur flokkurinn hingað til ekki sagst styðja einstaklingsframtak og minni ríkisrekstur? Hvernig í ósköpunum geta þeir flokksmenn sem studdu þessa ályktun samræmt þetta tvennt? Er það virkilega hlutverk ríkisins að reka trúfélög og jafnvel að “innheimta félagsgjöld” (sem eru í raun ríkisstyrkir) fyrir félög út í bæ?

Hvaða kristnu gildi?

Þegar talað er um “kristin gildi” hljótum við að gera ráð fyrir að um sér að ræða gildi sem einkenna kristni en ekki aðrar lífsskoðanir. Það er merkingarlaust að tala um sammannleg gildi sem kristin, við segjum t.d. ekki að það sé kristilegt að borða mat - allir þurfa að borða mat. Þessi gildi sem vísað er til hljóta því að vera mjög merkileg og einungis aðgengileg kristnu fólki.

Hver eru þau eiginlega? Ekki kærleikurinn eins og sumir vilja meina því fólk getur sýnt kærleika án þess að trúa því að Jesús hafi verið eingetinn sonur Maríu og framkvæmt kraftaverk.

Gjarnan er vísað til þúsund ára sögu kristni á Íslandi en þá gleymist yfirleitt að þessi saga var ekki alltaf dans á rósum nema dansað hafi verið á þyrnunum. Trúfrelsi var ekki við lýði í 900 ár af þessum þúsund, hér var bannað að vera ókristinn. Vill Sjálfstæðisflokkurinn banna það aftur?

Hvernig er það, getur Sjálfstæðisflokkurinn hér eftir kennt höfuðstöðvar sínar við Valhöll? Er ekki tímabært að endurskíra húsið. Betlehem er ágætt nafn.

Það umburðarlyndi sem einkennir Ísland í dag er glænýtt, fyrir 20-30 árum flúðu samkynhneigðir land útaf ofsóknum. Fyrir 60 árum neituðu íslendingar að taka við þeldökkum bandarískum hermönnum.

Einhverjir telja að kristnivæðing sé besta vörnin gegn íslamistum, sharia lög voru nefnd á landsfundinum í gær. Þetta er skelfileg rökleysa. Við verjumst ekki ofsatrú með því að taka upp aðra ofsatrú. Við verjumst með því að hafa veraldlegt samfélag þar sem fólki er ekki mismunað á grundvelli trúarbragða og enginn fær afslátt af lögum vegna trúarbragða sinna, hvorki múslimar né kristnir. Við verjumst með fræðslu, berjumst fyrir mannréttinum óháð trúarskoðunum.

Að lokum

Vantrú er ekki flokkspólitískt félag. Í Vantrú eru fjölmargir sem skilgreina sig sem hægrimenn og í félaginu eru núverandi og fyrrverandi félagsmenn í Sjálfstæðisflokknum. Við gagnrýnum alla flokka sem ýta undir trúarbrögð og önnur hindurvitni.

Í frétt Morgunblaðsins um þessa ályktun kemur fram að hún hafi verið samþykkt naumlega og að ungir sjálfstæðismenn hafi barist gegn því að hún yrði samþykkt.

Við vonum innilega að unnendur trúfrelsis innan Sjálfstæðisflokksins muni ná yfirhöndinni í framtíðinni, en ljóst að er hér hefur orðið bakslag, flokkurinn er kristilegri í dag en hann hefur verið síðustu áratugi. Ef ekkert verður að gert hljóta frjálslyndir hægrimenn að fara að leita sér að öðrum flokki.

Hugsanlegt er að ályktunin verði tekin til baka á landsfundi í dag þó fundarsköp leyfi það reyndar ekki. Það breytir því ekki að Sjálfstæðisflokkurinn er mættur til leiks sem kristilegur íhaldsflokkur. Framsókn er ekki lengur jafn einmana.

Ritstjórn 24.02.2013
Flokkað undir: ( Stjórnmál og trú )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/02/13 13:10 #

Nokkuð margir hafa tjáð sig um málið. Hér eru fáeinir.

Óli Jón spyr: Hvenær eiga kristin gildi ekki við?

Í fyrri málsgreininni er talað um að 'kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr', en í þeirri seinni er talað um að hyggja eigi að þessum gildum 'þegar það á við'.

Líklega þarf maður að vera ofsalega vel og innilega kristinn til þess að skilja þetta. Skilja að þótt kristin gildi séu frábær, æðisleg, geggjuð og best í heimi, þá skuli bara hafa þau að leiðarljósi þegar hentar, þegar það á við, þegar aðrir alvöru hagsmunir eru ekki í myndinni.

Davíð Þór Jónsson bloggaði:

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt að kristin gildi skuli ráða við alla lagasetningu. Í þessum anda var einnig samþykkt að Sjálfstæðisflokkurinn vilji „standa vörð um Þjóðkirkju Íslands samkvæmt stjórnarskrá”. Þessu hljóta allir kristnir menn að fagna – eða er það ekki annars? Er ekki afskaplega kristilegt að aðhyllast mismunum trúfélaga, þ.e.a.s. svo framarlega sem það er ekki manns eigið trúfélag sem mismunað er gegn? Það er ekki eins og Kristur hafi einhvern tímann sagt: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður það skuluð þér og þeim gera” Eða hvað?

Baldur Kristjánsson lagði einnig orð í belg:

Það er svo önnur umræða hvers vegna stjórnmálaflokkur víkur sérstaklega að kristnum gildum með þessum hætti. Þó að þessir jákvæðu þættir í lífi okkar séu hér kenndir við kristni þá aðhyllist stór hluti þjóðarinnar önnur trúarbrögð sem álíta nefnd gildi úr sinni trú sprottin eða aðhyllast trúleysi og líta án nefnd gildi óháð trú.

Kristin stjórnmálasamtök (JV) eru ánægð:

Fagnaðarefni er þessi samþykkt landsfundar flokksins 2013 – og nú þarf hann að fara að taka betur til hjá sér, snúa baki við ókristilegri stefnu í ýmsum málum, sem kristallaðist á sínum tíma í því Heimdellingamati, að frjálst ætti fólki að vera að gera líkama sinn að verzlunarvöru, þ.e.a.s. í áliti þeirra til stuðnings vændisfrumvarpi sjálfstæðisþingmanna!

Ennfremur er líf ófæddra heilagt að kristinni trú og hjónabandið einungis milli manns og konu.

Ásdís Halla Bragadóttir gerði athugasemd við þetta á Facebook, a.m.k. tveir kristilegir sjálfstæðismenn verja þetta í athugasemdum:

Í sjálfri stjórnarskránni er lagt bann við því að fólki sé mismunað eftir trúarbrögðum. Ályktun þar sem kveðið er á um það að ,,kristin gildi ráði við lagasetningu" stenst ekki stjórnarskrá og hana þarf Landsfundur Sjálfstæðisflokksins að afturkalla með afgerandi hætti!

Agnar Kristján Þorsteinsson: Hin kristilegu gildi stjórnmálanna

En já, hvað eru kristin gildi?

Ég veit það ekki eins og áður var sagt.

Þau eru ekki meitluð í stein heldur metin huglægt af hverjum og einum.

Og miðað við reynsluna af kristnum gildum og hefðum í stjórnmálum þeirra sem tala um slíkt þá eru það fordómar, mannréttindabrot, kvenfyrirlitning, barátta fyrir ójöfnuði og gegn réttindum kvenna, minnihlutahópa og samkynhneigðra auk afneitunar á vísindum og staðreyndum.


Eiríkur Kristjánsson - 24/02/13 13:26 #

Nú munu brjótast út innanflokksátök milli "What would Jesus do?" og "What would SUS do?", geri ég ráð fyrir.

Gleymum heldur ekki að seðlabankastjóri lenti í slæmri krossfestingu á sínum tíma, reis svo á þriðja degi, steig í pontu, situr nú sem hægri hönd Guðbjargar almáttugrar og dæmir lifendur og dauða.

How's that for kristin gildi?


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 24/02/13 15:28 #

Samkvæmt frétt Vísir.is var setningin um að öll lagasetning skyldi byggjast á kristnum gildum felld út.

Það er gott. En finnst Sjálfstæðismönnum samt í lagi að ríkið standi í því að reka trúfélög, og að eitt þeirra sé í forréttindastöðu?


Matti (meðlimur í Vantrú) - 24/02/13 15:40 #

Þessi klausa er væntanlega ennþá inni

Sjálfstæðisflokkurinn telur að kristin gildi séu þjóðinni til góðs nú sem aldrei fyrr og að hlúa beri að kirkju og trúarlífi. Sjálfstæðisflokkurinn vill standa vörð um þjóðkirkju Íslands samkvæmt stjórnarskrá.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki jafn sturlaður og hann var meðan hitt var inni - en hann er enn kristilegur flokkur.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.