Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Skaðleg jól?

Auglýsing gegn formerkingu barna undir einhver tiltekin trúarbrögð

Nú er kominn desember og hver skólinn á fætur öðrum farinn að fara með börn fólks í kirkju. Af og til koma fram raddir sem mótmæla þessari svokölluðu hefð. Þeir sem standa upp og láta í sér heyra verða oft fyrir ásökunum um að vilja af-kristna kristnu börnin, vera með fordóma og læti út af engu.

Nýjasta dæmið er af foreldri í Reykjavík sem hefur fengið margar ljótar athugasemdir um sig í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla. Meira að segja starfsmenn leikskólans hafa gert lítið úr þessari konu sem ekki vill annað en að barnið sitt fái frið frá trúaráróðri. Athugasemdirnar eru oft öfgafullar og stundum virðast þeir sem þær skrifa ekki hafa grænan grun um hvað málið snýst. Hér koma mín svör (svara bara fyrir mig) við algengustu spurningunum sem ég fæ þegar ég segi að ég sé á móti ferðum leikskólanna í kirkjur. Vonandi leiðréttir þetta einhvern af þeim misskilningi sem er í umræðunni.

Af hverju vil ég ekki að barnið mitt fari í kirkju með skólanum sínum um jólin?

Vegna þess að ég tel ekki að skólinn eða kirkjan eigi að segja syni mínum hvað hann eigi að trúa á þegar kemur að trúarbrögðum. Kirkjuheimsóknir um jólin eru ekki í fræðilegum tilgangi heldur einungis til þess að telja börnunum trú um að sögurnar um Jesú og guð séu hinn stóri sannleikur. Ég vil að sonur minn fái að velja sína trú (eða trúleysi) sjálfur, en það val verður tekið af honum ef hann kynnist aðeins kristni. Ef skólinn myndi hinsvegar fara í heimsókn til að fræðast um jól annara trúarbragða myndi ég ekki kvarta en sú er ekki raunin í dag.

Að láta barnið mitt sitja eftir heima á meðan allir krakkarnir á leikskólanum fara í kirkju er ekki ásættanlegur valkostur. Skólinn er þá að skapa aðstæður sem mismuna börnum eftir trúarskoðunum fjölskyldunnar án þess að það sé nauðsynlegt. Það er ekkert sem segir að börn verði að fara í kirkju á skólatíma.

Eru kirkjuferðir skaðlegar?

Já, þær eru það. Kannski ekki líkamlega skaðlegar en það veldur hinsvegar andlegum skaða þegar prestur segir eitthvað sem fer þvert gegn því sem foreldrarnir segja heima. Það er erfitt fyrir barn að þurfa að upplifa það að annað hvort ljúgi foreldrarnir eða það sé verið að ljúga að því á skólatíma. Það er einnig mjög erfitt fyrir barn að hugsa til þess að hugsanlega séu mamma og pabbi að fara til helvítis af því að það hefur heyrt að þangað fara þeir sem trúa ekki. Þetta getur eyðilagt samskipti foreldra og barns. Vonandi hafa foreldrar tök á að vinna úr erfiðleikunum en þetta veldur kvíða og vanlíðan hjá barni eingöngu vegna þess að skólinn fór með öll börnin í kirkju.

Vil ég banna að börn fari í kirkju?

Nei, alls ekki. Mér er alveg sama hvort foreldrar fari með börnin sín í kirkju, en það er ekkert sem segir að þeir þurfi að láta skólann sjá um kirkjuferðirnar fyrir sig! Þeir geta farið í kirkju með börnin sín um helgar eða eftir skóla án þess að taka mitt barn með.

Held ég jól, þrátt fyrir að vera trúleysingi?

Já, ég held jól. Ég skreyti heimilið mitt með seríum og kertum, borða piparkökur, góðan mat, gef gjafir og óska vinum og fjölskyldu gleðilegra jóla. Jesús hefur ekkert með það að gera. Jólin eru ekki kristin hátíð. Jólin tengjast ekki fæðingu Jesú. Sumir vilja hinsvegar meina að svo sé og er ég ekkert að skipta mér af því. Fyrir mína fjölskyldu eru jólin ljósahátíð á dimmasta tíma ársins. Þetta er tíminn til að hafa það kósý og notalegt saman. Mér finnst ekki réttlætanlegt að ókunnur maður segir mínu barni að jólin séu hátíð frelsarans þegar svo ekki er raunin.

Erum við ekki kristin þjóð með kristna sögu og kristin gildi?

Nei, ef allir íslendingar væru kristnir, þá værum við kristin þjóð en þar sem stór hluti þjóðarinnar telur sig annarar trúar er ekki hægt að tala um að öll þjóðin sé kristin. Við getum heldur ekki sagt að Íslendingar séu ljóshærð þjóð þótt margir séu með ljóst hár.

Að mínu mati hefur ásatrúin meira sögulegt gildi fyrir Íslendinga heldur en kristnin. Það vita líka flestir að heiðnir menn áttu ekkert annað val en að játa kristna trú vildu þeir halda lífi. Eru þetta þau gildi sem við erum að byggja samfélagið okkar á? Að þeir sem ekki játa kristni séu einskis virði? Að einungis kristnir eigi rétt á trúfrelsi og að þeir sem ekki aðhyllast kristni verði bara að gjöra svo vel og kyngja því að þeir hafi ekkert vald yfir trúaruppeldi barna sinna? Er þetta umburðarlyndið sem prestar tala svo fallega um sem sér kristið fyrirbæri?

Hefur einhver hlotið skaða af því að fara ekki í kirkju með skólanum sínum um jólin?

Leikskólinn sem ég vinn hjá fer ekki í kirkjuferðir, einfaldlega vegna þess að það er ekki okkar hlutverk að segja af hverju fjölskyldur barnanna halda jól. Sumir halda jól með kristilegum blæ en alls ekki allir. Svo til að forðast að sú staða komi upp ef börnin fara í kirkju gegn vilja foreldranna eða að börnin verði skilin útundan þegar hópurinn fer í kirkju, förum við einfaldlega ekki í kirkju um jólin. Þeir foreldrar sem vilja að börnin þeirra kynnist kristnum jólum sjá bara um það sjálfir.

Ég sýni nemendum og foreldrum þeirra virðingu með því að troða ekki mínu trúleysi upp á börnin á leikskólanum. Ég krefst þess hinsvegar að mér sé sýnd sama virðing þegar kemur að mínu barni.

Elsa Nore 12.12.2012
Flokkað undir: ( Jólin , Skólinn )

Viðbrögð


Reputo (meðlimur í Vantrú) - 12/12/12 16:29 #

Virkilega góð grein og segir allt sem maður hefur verið að hugsa en ekki komið frá sér á beinskeittan og skiljanlegan hátt.


Þorsteinn Vilhjálmsson - 13/12/12 10:35 #

Góð grein. Það er líka þess vert að benda á að þetta kirkjuheimsóknadæmi er alls ekki "hefð", heldur er þetta glænýtt af nálinni. Þetta er aðferð kirkjunnar til að vinna gegn hrapandi aðsókn í messur og fjölgun afskráninga - taktíkin er "catch them young", eins og þeir segja í BNA. Þetta er sem sagt stefna sem var tekin upp afar nýlega - upp úr 2000, er mér sagt. Furðulegt hvernig fullorðið fólk sem aldrei fór í kirkju með skólanum sínum sjálft heldur samt að þetta sé einhver "hefð"...


Þorgils Magnússon - 13/12/12 16:52 #

Ég trúi á mátt Jólakattarins og vil að mín börn geri slíkt hið sama. En mér er samt alveg sama þó börnin mín fari og verði á í messunni með skólanum sínum. Kirkjur eru kúl hús, með fullt af sniðugu og flottu dóti fyrir krakka og börn að skoða. Ef að foreldrar geta ekki dílað við það að börnin þeirra fari einu sinni á ári í kirkju með skólanum sínum og hlusti á einhvern furðulegan prest, þá held ég að þeir ættu jafnvel að fá einhvern sér fróðari til að segja sér til með uppeldið. P.S. Á engin börn ennþá og hef alltaf verið lafhræddur við helvítis jólaköttinn!


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 13/12/12 17:23 #

Ef það væri nú bara svo saklaust að það var verið að skoða dótið í kirkjunni.... En í kirkjunni tekur prestur á móti (hvort hann sé furðulegur læt ég vera ósagt) og segir börnum að nú erum við að fara að halda upp á afmæli jesú, og að þökk sé honum getum við greint milli réttu og röngu, að hann elskar okkur öll og með því að trúa á hann komum við til himna, án hans munum við villtast á lífsleið okkar og að hann er eins og ósýniegi vinur okkar sem við getum alltaf leitað til. Presturinn fer sem sagt að ljúga að börnunum, troða inn í þau ranghugmyndir um lífið, og svo þarf foreldrar að leiðrétta og segja börnunum að þetta er ekki rétt, sem ekki alltaf er Þetta er viðbjóðslegt trúboð sem ekki á heima í skólum landsins.


Einar - 13/12/12 19:48 #

Trúboð á ekki heima í leik eða grunnskólum.

Þegar krakkarnir hafa aldur og vit að þá taka þau ákvörðun um sína trú eða lífsskoðun.


Jón - 14/12/12 09:16 #

Þetta er tekið af heimasíðu Rimaskóla, fyrsta frétt (www.rimaskoli.is). Þetta er greinilegt brot á reglum borgarinnar, http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources/skolaogfristundasvid/skyrslur/Reglurtrufelog.pdf (sérstaklega d) lið þeirra).

,,Nemendur 1. – 6. bekkjar heimsóttu Grafarvogskirkju á aðventu og áttu hátíðlega stund þar sem hegðun og framkoma þeirra var til mikillar fyrirmyndar. Sr Vigfús Þór og Þóra Björg æskulýðsfulltrúi tóku á móti nemendahópnum, sögðu þeim jólasögu og ræddu um þann friðarboðskap sem jólin færa þjóðum heims. Á milli atriða voru sungin jólalögin Litli trommuleikarinn, Hátíð fer að höndum ein, Eigi stjörnum ofar, Jólin alls staðar og að lokum "jólalag" nemenda Rimaskóla sem nefnist Guð verndar þig vinur minn". Flutningur fjögurhundrað nemenda komu okkur öllum í sannkallað jólaskap."

Þessi stund var undir handleiðslu prests og aðstoðamanns hans sem er skýrt brot (sjá d lið reglnanna að ofan). Ég veit að Skóla- og frístundasvið hefur fengið ábendingar varðandi þetta en skólastjórinn hunsar tilmæli og brýtur reglur án nokkurra viðurlaga (þetta gerist reyndar víðar um borgina). Hvers vegna er verið að setja reglur ef ekki á að fara eftir þeim?


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 14/12/12 10:59 #

Vá! Ég á ekki til orð!


Garðbæingur - 14/12/12 12:31 #

Engar reglur eru í gildi um þetta í Garðabæ, enda sækir kirkjan stíft í börnin. Sumir grunnskólarni hafa farið til þeirra, en ekki allir. Leikskólarnir hafa látið draga sig í heimsókn líka. [http://kirkjan.is/gardasokn/2012/12/leikskolar-i-heimsokn/#more-3133}

Leikskólarnir í Garðabæ komu og heimsóttu okkur miðvikudaginn 5. desember.

Fleiri hundruð börn komu til okkar og hlustuðu á jólasöguna. Prestarnir og organistinn fóru á kostum í tónlistarflutningi og trúðurinn Rebekka kom og lék söguna um fæðingu Jesú með dyggri aðstoð prestanna í aukahlutverkum. Lítil 5 vikna stúlka tók svo að sér að leika Jesúbarnið. Vakti þetta mikla lukku hjá börnunum sem tóku mikinn þátt í leiknum með söng og látbragði. Þetta var stund sem þau eiga eftir að muna lengi.

Það er alltaf svo stór og kærkomin jólagjöf hjá okkur í kirkjunni að fá þessi börn í heimsókn til okkar á Aðventunni.


Adda G. Sigurjónsdóttir - 14/12/12 17:04 #

Góð grein og ég er virkilega sammála hverju orði. Hef pælt mikið í þessu og var einu sinni á þeim stað að fylgja straumnum hvað varðar trúarinnrætingu. Fannst sjálfsagt að fara með börn í kirkju og svoleiðis. Var líka í mörg ár í kirkjukór en hef núna svoleiðis endurskoðað allt þetta sjónarspil. Stend utan trúfélaga og finnst að skólar og leikskólar eigi ekki að taka þátt í kirkjuferðum nema ætla að hafa reglulegar heimsóknir í öll trúfélög á höfuðborgarsvæðinu þannig að börnin kynnist öllum hliðum. Finnst réttast að láta foreldra bara sjá um þetta :)


Guðjón Eyjólfsson - 14/12/12 21:00 #

Ég held að það geti allir verið sammála um að trúboð á ekki heima í leik eða grunnskólum. En hins vegar eru ekki allir sammála um hvað trúboð er. Mér sýnist að í hinn opðinberu umræðu og þar með talið hjá fjölmiðlum sé gegnið út frá þeirri skilgreiningu á trúboði að það sé öll sú starfsem sem einhvejum dettur í hug að sé trúboð. Síðan éta ekki síst fjölmiðlamenn þessa vitleysu upp hver eftir öðrum og hneigslas síðan í kór yfir þeirr ósvinnu að sárasaklausar heimsókir í kirkju séu trúboð og að stjórnendur leik og grunnskóla að fremja alvarleg embættiafglöp.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 14/12/12 21:21 #

Hvað telur þú vera trúboð, Guðjón, fyrst það að láta börn taka þátt í trúarathöfnum og að segja þeim biblíusögur eins og um sannleika sé að ræða er "sárasaklaust" í þínum huga?


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 14/12/12 22:10 #

Að segja að guð sé til er trúboð. Að segja að guð sé ekki til er trúleysisboð. Kennari, prestur eða starfsmaður sem virðir fjölskyldur barnanna segir hvorugt. Að segja að sumir trúa á guð og sumir gera það ekki er hins vegar í lagi mín vegna.


Guðjón Eyjólfsson - 14/12/12 22:25 #

Í mínu huga er trúboð það að vinna skipulega að því að fá einhvern til þess að skipta um trú. Það væri t.d. í þeim anda ef kennari beitu áhrifum sínu til þess að taka þátt kirkjustarfi eða fá þá til þess að tileika sér trúarskoðanir sem væru þeim framandi. Eitt af því sem mér finnst alvarlegt við þessa umræðu er að það er verið að gefa í skyn að skólafólk sé að brjóta af sér í starfi með því að standa fyrir starfsemi sem ekki sé hægt að réttlæta. Auðvita veit ég ekki hvernig staðið er að öllum skóla eða leikskólaheimsóknum á öllu landinu. En þær heimsóknir sem ég hef haft spurnir af eru ekki þess eðlis að það taki því að æsa sig yfir þeim. Mér finnst þessi umræða lykt af ofstæki og ég tel að umburðleysi og óþol gegn öllu trúarlegu síður en svo vera framför- Ég hef hins vegar enga löngun til þess að stæla um þessi mál. Flestir hér eru mér sjálfsagt innilega ósammál. Það verður bara að hafa það og það þjónar ekki neinum tilangir að þræta fram og aftur um hvað sér trúboð og hvað ekki.


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 14/12/12 22:50 #

Kirkjan er að vinna markvisst að því að veiða ung börn. Þau eru ekki einu sinni að reyna að fela það. Það er hluti af þeirra áætlun til að fjölga sóknarbörnum. Bjóða leikskólabörnum í heimsókn í kirkju er liður í því trúboði.


Guðjón Eyjólfsson - 14/12/12 23:44 #

Leikskólabörn ákveða ekki sjálf að taka þátt í barnastarfi. Ég á nokkur börn sem eru búin að gagna í gegnum þetta og ef eitthvað er að marka þá reynslu er þetta ekkert til að hafa áhyggjur af. Ekkert að mínu börnum hefur sýnt þessu starfi nokkurn áhuga. Ég sé reyndar ekkert athugvert við að börn taki þátt í svona starfi og það hefur þann kost framyfir mjög margt tómstunda og íþróttastarf að vera ókeypis sem skiptir mál á þessum erfiðu tímum þegar margir eru illa staddir. Við búum í þjóðfélagi sem er veraldlegt út í gegn og jafnvel börn sem alast upp áheimilum trúaðra þar sem þau þurfa að þola trúboð alla sína bernsku snúa mörg þeirra baki við trú þegar þau verða fullorðin. Ég get auðvita ekki sett mig i ykkar spor sem hafið allt aðra afstöðu til trúar, en ég menn séu hér að gera úlfvalda úr mýflugu.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 15/12/12 00:29 #

hmmm, þetta er auðvitað engan veginn ókeypis Guðjón, við borgum jú öll fyrir þetta. Fyrir minn smekk væri peningunum betur varið í aðra starfsemi.

En, ég á nú bágt með að trúa að þú skiljir ekki að foreldrum sé illa við að verið sé að predika lífsskoðanir sem þeim líkar ekki yfir börnunum.

Og mér er fullkomlega fyrirmunað að skilja hvers vegna þetta er allt í einu dottið inn á skólatíma. Er virkilega eitthvert vandamál að þeir sem hafa áhuga, foreldrar eða börn, sæki kirkju utan skóla?


Rán - 15/12/12 14:32 #

Mig langar að segja smá reynslu sögu, ég biðst fyrir fram afsökunar á því hvað hún er löng en þeir lesa þetta sem nenna því. Ég er alin upp af trúlausu fólki. Ég kunni ekki faðirvorið þegar ég fór í 1. bekk og ég vissi ekki mikið um guð, engla eða himnaríki.Ég man eftir því að í 1. bekk safnaðist bekkurinn saman í hring á gólfinu og kennarinn bað bænir með okkur. Ég kunni þetta ekki. Allir kreptu saman lófana og fóru með faðirvorið. Það hafði ég aldrei heyrt. Ég gleymi því aldrei hvernig krakkarnir horfðu á mig, afhverju var ég ekki að biðja? vildi ég fara til helvítis? Einn bekkjarbróðir minn sagði mér að ef maður tryði ekki á guð færi maður til djöfulsinns. Ég man hvað mér fannst þetta óþægilegt og ég sagði þeima að mér fyndist betra að biðja í hljóði. Með árunum varð alltaf erfiðara að fela trúleysi mitt. Ég kunni einfaldlega ekki þá trúar siði sem hinir krakkarnir fylgdu, og þau gerður grín af mér. Um hver jól var farið í kirkju. Megnið af grunnskóla árunum mínum var ég þæg og fór með. Krakkarnir í bekknum mínum gerðu athugasemdir við það að ég væri að fara með þeim, var ég ekki trúlaus?! hvað var ég að gera með þeim þarna? Þetta var semsagt tapað stríð, ef ég fór í kirkjuna fannst þeim það asnalegt og ef ég fór ekki var ég asnaleg útaf því að ég var öðruvísi. Ég get sagt þeim sem vilja heyra það að þetta er bara víst trúboð. Ég man eftir að í kirkjuferðinni fyrir jólin í 4. bekk mætti presturinn með kerti sem kveikti á sér sjálft, það var hægt að kaupa þetta út í búð og var vinsælt í afmælum á sínum tíma. Hann blés á kerti og það kveiknaði sjálfkrafa á því aftur og hann hélt því fram að guð hefði gert það. Við báðum bænir í þessum kirkjuferðum. Þegar ég var í 9. bekk sagði ég hingað og ekki lengra. Ég og frænka mín ákváðum í sameiningu að segja nei við því að fara í kirkjuna. Ég sagði umsjónarkennaranum mínum að ég ætlaði ekki í kirkjuna, hann sagði mér að ég yrði að fá pabba minn til að hringja og fá leyfi til þess að sleppa henni. Mér fannst að ég ætti ekki að þurfa að biðja pabba minn um að fá leyfi til að sleppa skólanum svo ég sagði nei, ég ætla bara ekki í kirkjuna, ég vil fá að gera eitthvað annað í staðinn. Það kom ekki til greina. Kennararnir í skólanum mínum urðu brjálaðir. Einn sagði mér að ég gæti þá bara þrifið mötuneyti skólans, annar sagði mér að ég ætti ekki skilið að fá jólagjafir. Það sem kom mér mest á óvart var þó framkoman við fænku mína. Pabbi hennar er frá Alsír og það sést á henni að hún er af erlendum ættum. Einn kennari öskraði á hana, já ég segi öskraði,"þegiðu og farði í kirkjuna, eða hvað ertu kanski einhver múhameðstrúarmaður." Þetta er bara brot af því sem starfsfólk skólans sagði við okkur. En ég gleymi aldrei hvað þau gerðu lítið úr okkur. Til að gera langa sögu styttri, þá endaði þetta á því að við fórum ekki í kirkjuna, við klöguðum í fræðsluráð bæjarinns og töluðum við umboðsmann barna. Í framhaldinu baðst skólinn afsökunar og breytti verklagsreglunum og kirkju ferðin varð valkvæð árið eftir, við höfðum semsagt val um það hvort við vildum fara á bókasafnið og lesa eða fara í kirkjuna. Þegar Fólk heldur því fram að Kirkjuferðir skaði engann þá er það rangt. Krikjuferðirnar sköðuðu mig félagslega, krakkarnir voru vond við mig afþví ég var öðruvísi. Það að breyta kirkjuferðum í valkvæðar ferðir lagar ekkert. það dregur alveg jafn mikið fram hverjir eru öðruvísi. Ég hef aldrei skilið þessi rök. Kirkjuferðir skaða engann, þær sköðuðu mig.


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 15/12/12 16:06 #

Takk fyrir að segja frá. Helstu rök þeirra sem eru fygjandi kirkjuheimsókna eru einmitt að tala um að það "skaðar engan" að heyra um jesú. Margir segja líka að við (sem eru ekki kristinnar trúar) verða að sýna þeim virðingu. En á það ekki að gilda í báðar áttir? Ég get vel trúað að margir láta yfir sig ganga til að forðast að vera "erfiða foreldrið" eða af hræðslu við árásir á borð við það sem hefur komið í kjölfar frásögn Helgu Þóreyjar. Ég skil ekki af hverju sumum finnst svo hræðileg tilhugsun að fara ekki í kirkju með leikskólanum. Það er svo lítið mál að fara sjálf með eigin börn. Er það ekki?


Þorsteinn - 15/12/12 18:30 #

Takk fyrir söguna, Rán. Þetta er rétt. Nú ef t.d. barn af minnihlutahópi er skilið eftir í skólanum eða það neytt til þess að fara í kirkju þá er verið að gefa því og samnemendum þess skilaboð: Þetta barn er, sökum uppruna síns, óæðra okkur. Þetta er sem sagt stofnanalegur rasismi, og prestar þjóðkirkjunnar eru þar stofnanalegir rasistar.


Reynhildur - 16/12/12 07:42 #

Nú er ég ekki foreldri, og hvorki trúuð né strangótrúuð ef svo má segja, mest svona ligeglad, en mér finnst fólk eins og Rán (sem ég er að velta fyrir mér hvort er frænka mín) aðeins líta skakkt á þetta. Auðvitað er hennar upplifun ömurleg, og þessir skólastarfsmenn til skammar. En hér er verið að ræða um eina heimsókn yfir árið, ekki daglegan hluta skólastarfsins. Eins og Elsa orðar það, "að segja að sumir trúa á guð og sumir gera það ekki er hins vegar í lagi mín vegna", ein heimsókn í kirkju með sögustund og slíku myndi ég segja að falli undir þá skilgreiningu, það er kynning frekar en heilaþvottur um helvítisvist þeirra nánustu.

Það er vont að vera skilin útundan, auðvitað, en er það ekki einmitt það sem við viljum að börnin læri, að það sé í lagi að það séu ekki allir eins? Ekki gerum við það með því að fela margbreytileikann? Sum börn eru á sérfæði vegna heilsufars eða trúar, sumir fá séraðstoð í tímum, undanþágu fra íþróttum eða dönsku, afhverju er eitthvað meira vont að fara í aðra/fara ekki í kirkju?

Það sem ég vil hinsvegar spyrja mér fróðara fólk ef einhver las þetta langt: "Er Vantrú eða minnihlutatrúarbrögðum bannað að bjóða (leik-)skólum í heimsókn, á borði eða í orði?"


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 16/12/12 12:20 #

Dæmin eru of mörg þar sem prestar hafa farið með áróður sem nánast má líkja við heilaþvott. Tilgangur heimsóknana, frá sjónahóli kirkjunnar, er að fjölga sóknarbörnum. Þetta er ekki eins saklaut og fólk telja. Presturinn talar um jesú og guð sem staðreyndir, sem sagt boða trú sína yfir börnin. Reglur Reykjavíkurborgar segir skýrt að það sé ekki við hæfi að trúar- og lífsskoðunarfélög fara með starfsemi sína inn í skóla. Hingað til hafa þau (svo ég viti) virt þetta, eða ekki einu sinni dottið í hug að boða skoðun sína fyrir leikskólabörn. Allir, nema ríkiskirkjan. Fyrst svo margir eru á móti þessum ferðum, er þá ekki ástæða til að endurskoða þær? Er eitthvað annað í skólum sem vekur jafn hörð viðbrögð? Þar að auki má ekki gleyma að verið er að brjóta á persónuvernd fólks. Trúarskoðanir eru einkamál sem er undir persónuvernd. Alveg eins og ég þarf ekki að gefa upp hvaða stjórnmálaflokk ég kaus, eða kaus ekki, þá á ég ekki að þurfa gefa upp hvaða trúarskoðanir ég hef. Kirkjuferðir skólanna neyða fólk til að annaðhvort þegja um skoðun sína og láta börnin sitja undir trúboði gegn vilja sínum, eða opinbera trúarskoðanir sínar. Skólar geta auðveldlega komið íveg fyrir þetta persónuverndarbrot með því að sleppa kirkjuferðunum.


Guðjón Eyjólfsson - 16/12/12 12:22 #

Sæll Valgarður Það er hlutverk kennara og skólayfirvalda að sjá til þess að skólastarf sé þannig að sem flestir sé sáttir við það. Ég er alfarið á móti því að börnum sé mismunað vegna trúarskoðana eða trúleysis. Lausnin sem þú aðhyllist er sú að allt trúarlegt sé gjörsamlega útilokað frá skólastafi. Auðvitað á skólastarf ekki að vera eins og Rán lýsir því, en það er mikilvægt að börn læri umburðarlyndi í trúmálum, en það gerist ekki með því að útiloka allt trúarlegt í skólastarfi. Kenna menn börnum að umgangast ólíka kynþætti með því að útiloka alla kynþætti nema einn frá skólanum. Hvernig ætla menn að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni með því að viðurkenna i raun bara eina skoðun í trúmálum þ.e. trúleysið.


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 16/12/12 12:57 #

Hvar segir Valgarður að hann vilji útiloka allt trúarlegt úr skólum? Ég get ekki lesið það út úr kommentinu hans. Mér finnst ekki að það á að banna allt trúarlegt í skólum. En það á að banna skólum að standa fyrir boðun trúar. Hlutlaus fræðsla um mismunandi trúarbrögð er nauðsýnleg, en boðun kristinnar er ósiðlegt. Hvernig læra börnin umburðarlyndi gagnvart öðrum trúarbrögðum þegar skólinn kennir þeim að kristni er satt og rétt og allt sem ekki er kristið sé öðruvísi? Annaðhvort farið þið í heimsóknir og kynnist öðrum lífsskoðum eða sleppið því alveg!


Rán - 16/12/12 14:08 #

Reynhildur, það er alveg rétt hjá þér að það er mikilvægt í skólastarfi að kenna fjölbreytileika mannlífsins. En hvernig gerum við það? Að mínu mati gerum við það ekki með því að senda öll skólabörn í kirkju, þó sé bara einusinni á ári.

Ég man eftir stelpu sem er ári eldri en ég og gekk í sama skóla og ég. Afhverju man ég eftir henni? Hún var votti. Við gerðum grín að henni. Hún hélt ekki jól, mátti ekki syngja afmælissönginn og var á margan hátt öðruvísi en við. Er ég að segja að við eigum ekki að syngja afmælissönginn í skólum? nei. Hinsvegar útskýrði enginn fyrir okkur hvað það var að vera votti, eða hvað fælist í öðrum trúarbrögðum. Ég er viss um að ef við hefðum vitað hvað fælist í hennar trú hefðum við verið umburðarlindari. Með því að útskýra mismunandi trúarbrögð kennirðu krökkum hvað felst í fjölbreytileika mannlífsins, ekki með því að senda alla í kirkju og einskorða þannig fræðsluna við ein trúarbrögð.


Reynhildur - 16/12/12 14:43 #

Takk, Rán, fyrir svarið, og ég er sammála því að ein trúarbrögð eiga ekki að hafa einkarétt, en það gildir líka um trúleysið, í mínum huga. Þess vegna spurði ég um rétt annarra trúarfélaga. Því ég held að jafnræði sé best gætt ef hver trú er kynnt af sínu fólki, en ekki allar af einum einstaklingi sem hlýtur óumræðanlega að hallast að einni þeirra (eða trúleysi, sem er valmöguleiki meðal trúarbragða). Því miður hef ég ekki enn fengið svar við spurningu minni.


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 16/12/12 15:06 #

Ég taldi þetta svara spurningunni: "Reglur Reykjavíkurborgar segir skýrt að það sé ekki við hæfi að trúar- og lífsskoðunarfélög fara með starfsemi sína inn í skóla. Hingað til hafa þau (svo ég viti) virt þetta, eða ekki einu sinni dottið í hug að boða skoðun sína fyrir leikskólabörn. Allir, nema ríkiskirkjan."

Að taka trúboð úr skólum er ekki það sama og að hleypi trúleysisboð inn. Það er hægt að vera hlutlaus og boða hvorugt. Kennari á að geta gætt hlutleysi þegar kemur að þessum málum.


Reynhildur - 16/12/12 16:35 #

Takk, Elsa, þarna kom a.m.k. að hluta svar við því sem ég var að leita að: "svo ég viti". Þessi regla Reykjavíkur er ekki allstaðar, og henni er ekki fylgt fullkomlega þar sem hún er skv. athugasemdum hér að ofan, svo mér finnst skipta máli hvort aðrar skoðanir sitji við sama borð eða ekki. Ekki endilega hvort þær séu með starfsemi, það er mál hvers trúarfélags, heldur hvort þeir megi það, hvort heldur sem er þar sem reglur eru ekki, eða reglur sveigðar.


Guðjón Eyjólfsson - 16/12/12 18:08 #

Ég held því ekki fram að núverandi fyrirkomulag sé fullkomið. Hins vegar finnst mér ekki að það sé hlutleysi í skólastarfi að öllu trúarlegu sé rutt burt og í staðin komin veraldlegar aðferðir þ.e. tekist sé við hlutina með aðferðum trúleysingja. Nú er ég ekki í þjóðkirkjunni, en ég er ekki sáttur við að brugðist sé við sorgarviðburðum einungis með veraldlegum hætti. Þegar bekkjarkennari yngstu dóttir minnar dó þegar hún var í fyrsta bekk kom prestur og talaði við bekkinn auk þess sem haldinn var bænastund. Ef ég hef skilið ykkur rétt flokkast slíkt sem trúboð sem á klárlega að banna og sálfræðingur eða annar slíkur á að koma í staðin. Pólitískur rétttrúnaður gengur út á að í öllum tilvikum eigi að banna allt trúarlegt en athöfn í anda trúleysis væri í góðu lagi. Foreldrum er sagt að í tilvikum eins og þessum geti þeir foreldrar sem það kjósa farið með börn sín í kirkju eftir að skólatíma líkur og að óheimilt sé með öllu að einhverjar trúarathafnir fari fram á skólatíma. Þeir sem hrópa nú hæst um trúboð hafa í raun ekkert á móti mismunun í skólastarfi þeir vilja bara skipta út þjóðkirkjunni fyrir trúleysi og telja að þar með verði allir ánægir. Þeir vilja fá að ráða skólastarfi og það sé allra hagur að skólinn verði dauðhreinsaður af öllu trúarlegu. Vissulega vilja þeir að í skólanum fari fram fræðsla um trúarbrögð en hún á að vera fræðileg og á veraldlegum forsendum. Ég dreg það ekki í efa að vantrúarmenn og Vottar Jehóva væru mjög ánægðir með slíkt fyrirkomulag en ég væri það ekki þó að ég sé ekki í þjóðkirkjunni. Heldur vil ég búa við mismunun þjóðkirkjunni í hag heldur en að skólastarf sé einugis miðað við þarfir trúleysingja.


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 16/12/12 18:22 #

Það er engin að halda því fram að við eigum að fara út í öfgar í hina áttina. Þú ert að halda því fram að það er þetta sem við viljum. Þín orð, ekki okkar. Hlutleysi er ekki það sama og trúleysi. Skólinn ber skylda að koma til móts við öll börn, sama hvers trúar þau eru. Núverandi fyrirkomulag kemur einungis til móts við fjölskyldur sem eru kristin.

Þessi grein fjallar aðallega um kirkjuferðir um jólin. Af hverju skipta þessar ferðir svo miklu máli að skólar telja nauðsýnlegt að vaða yfir foreldrum sem eru á móti þeim? Það er ekki hlutverk skólans að sjá um trúaruppeldi barna!


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 16/12/12 19:19 #

Ég held því hvergi fram, Guðjón, að öllu trúarlegu eigi að vera úthýst úr skólum. Það er frekar hvimleitt þegar verið er að gera manni upp skoðanir.

Öll fræðsla um sögu, menningu og trúarbrögð er af hinu góða. En það er grundvallaratriði að hafa í huga að fræða en ekki boða trú.

Við getum verið sammála um að umburðarlyndi eigi að vera leiðandi, enda ekkert umburðarlyndi í því að draga börn frá heimilum með ólíkar lífsskoðanir í predikun og trúboð hjá einum trúarhóp.

Þessar kirkjuferðir tíðkuðust ekki þegar ég var í skóla og fólk kannast almennt ekki við þær fyrr en um aldamót.

Mig langar að ítreka spurninguna hvers vegna það er vandamál að foreldrar, sem það vilja, sinni þessu utan skólatíma.


Guðjón Eyjólfsson - 16/12/12 20:38 #

Valgarður svo ég svar spurningu þinni. Ég tel að í því felist mismunun. Þá er verið að sníða skólastarf alfarið að þörfum trúlausa. Ég tel að í sumum tilvikum sé eðlilegt að trúarathafnir fari fram í skólanum t.d. í tengslum við dauðsfall. Það að segja að menn geti bara beðið og farið í kirkju að skóladegi loknum tel ég vera fáránlegt. Getur trúlausa barnið sem getur ekki komið nálægt neinu trúarlegu vegna ákafra óbeita á öllu trúarlegu ekki beðið þangað til það kemur heim? Auðvita ekki Valgarður.


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 16/12/12 20:51 #

Mér finnst ekki eðlilegt að trúarathöfn fari fram í skólanum í tengslum við dauðsfall. Til er fullt af fólki sem hefur þekkingu á að bregðast við áföll án þess að tengja neinni trú inn í málið. Mér finnst allt í lagi að leita til prests ef einhver fjölskylda óskar þess (og já, presturinn má alveg mín vegna hitta fjölskylduna í húsnæði skólans). En það á að vera á frumkvæði fjölskyldunnar ekki skólans.


Guðjón Eyjólfsson - 16/12/12 20:53 #

Elsa Í Mínu huga snýst þessi umræða alls ekki um Þjóðkirkju annars vegar og aðrar trúarskoðanir hins vegar. þetta snýst um trúleysi annars vegar og trú hins vegar. Ég er ekki í þjóðkirkjunni og aðhyllist ekki kristna trú. En ég hef ekkert á móti heimsóknum í kirkju eða mosku eða til siðmenntar svo lengi sem vel er að slíkum heimsóknum staðið og þess gætt að vel og skynsamlega sé haldið á málum þannig að ekkert barn hljóti ama af. Að lokum vil ég þakka þér og Valgarði fyrir þessa umræðu og óska ykkur alls hins besta.


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 16/12/12 21:02 #

Ég er þér sammála. Heimsóknir á faglegum nótum í mismunandi trúfélög hef ég ekkert á móti, enda fræðsla um fjölbreytileika heimsins mikilvæg. Raunveruleikinn er hins vegar þannig að ídag velur margir skólar að fara í heimsókn í EINA kirkju um jólin, þar sem predíkað er yfir börnin á allt annað en faglegan, hlutlausan og fræðilegan hátt. Um þetta snýst þessa grein. Svo lengi sem aðeins er verið að kynna eitt trúfélag fyrir börn allt niður í leikskóla, þá verð ég algjörlega á móti jólaheimsóknir í trúarhúsum.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 16/12/12 21:59 #

Nei, Guðjón, þú svarar ekki hvers vegna allt í einu er þörf á þessum kirkjuferðum. Það er enginn að tala um að sníða skólastarf að þörfum trúlausra (ef ég mætti biðja þig aftur um að hætta að gera mér upp skoðanir).

Var skólastarf sniðið að þörfum trúlausra á síðustu öld?

Dauðsfall segirðu. Hvað með þau trúlausu? Eða þau sem eru annarrar trúar? Segjum að barn sem ekki var kristið látist og það barn hafi átt félaga sem voru einnig utan kristni... eiga þau að sitja undir kristinni athöfn í skólanum? Nei, þú hlýtur að sjá að þetta er fráleitt.

Hvað ef meirihluti barna í bekk væri múhameðstrúar eða gyðinga? Ættu minni hluti barnanna sem væri kristinn að sitja undir trúarathöfn þeirra?

Auðvitað ekki. Trúarlegar athafnir eiga ekkert erindi í skóla.

Þessi ásókn í skóla er yfirgangur í skjóli meirihluta. Þetta gæti komið í bakið á þeim kristnu, það styttist hratt og örugglega í að meðlimir þjóðkirkjunnar verði í minnihluta...


haukurv - 16/12/12 23:48 #

Það hefur enginn verið að óska eftir boðun trúleysis í skólum hér á þessum vef. Mér fyndist líka bara ekkert í lagi að kennarar færu að segja börnunum að það sé ekki til neinn guð þó að ég sé trúlaus sjálfur.

Það hefur heldur enginn verið að biðja um að trúleysi sé gert hærra undir höfði í skólum en trúarbrögðum, bara að þessu sé haldið utan skólans.

Og bara rétt til að benda á muninn fyrir þá sem eru ekki enn búnir að átta sig: Fullyrðingar um tilvist guða og heimsmynd trúarbragða er boðun og er ekki í lagi á skólatíma. Fræðsla um trúarbrögð, hverju er trúað í hvaða trúarbrögðum og að það sé líka til fólk sem ekki trúir á guði er allt annar hlutur.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 17/12/12 07:18 #

Er það virkilega rétt skilið hjá mér að viðtal við sálfræðing eftir áfall sé, sankvæmt Guðjóni, sérsniðið að þörfum trúleysingja?


Arnar Gunnarsson - 17/12/12 08:34 #

Já Haukur, þannig skil ég hann sjálfur. Ég skil hann líka þannig að fyrst ekki er ætlast til að stjórnmálaflokki sé gert hærra undir höfði en einhverjum öðrum. Þá er verið að sérsníða skólastarfið að þörfum, tjá hvað, anarkista? eða anti-pólitíkusa?


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 17/12/12 11:33 #

Það er ekki góðs viti fyrir umræðuna ef að fólk getur ekki séð neinn greinamun á trúleysi og hlutleysi í trúmálum.


Guðjón Eyjólfsson - 17/12/12 18:27 #

Það er greinilegt frekari umræður um þessi mál milli okkar þjóna ekki neinu tilgangi. Gjáin á milli okkar verður ekki brúuð með umræðum. Við skilgreinum veruleikan með ólíkum hætti - það sem einn kallar hlutleysi kallar annar veraldarvæðingu. Valgarður spyr hvað ef meirihluti barnanna væri múhameðstrúar eða Gyðingar. Það er til trúað fólk úr þessum trúarbrögðum sem sér ekkert athugavert við að sameinast um trúarathöfn þar sem hver biður með sínum hætti. Þannig eiga trúarbrögð að vera að mínu mati. Ég sé akkúrat ekkert athugvert víð slíkt- það að láta mismunandi trúarskoðanir hindra það að minnast látins vinar sameiginlega er að mínu mati heimska. Ef trúin verður til þess að valda miskíð og hatri þá er betra að vera án hennar.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 17/12/12 19:20 #

Get tekið undir niðurlagið hjá þér. Þó það sé kannski óvart. En getur þú ekki gert þér í hugarlund afstöðu gagnvart trúleysi svipaða þeirri afstöðu sem talsmenn kirkjuferðanna virðast hafa gagnvart kristni?

Farið væri í ferð til Vantrúar þar sem að því yrði haldið að börnunum að engir guðir væru til og að trúarbrögð væru skaðleg. Að við fráfall barns í skólanum væri formaður trúleysingjafélags fenginn til að leiða sorgarstund á þeirri forsendu að nú væri viðkomandi horfinn að eilífu en lifði ekki áfram í neinni mynd. Og svo framvegis.

Það væri starf sniðið að trúleysi. En það er enginn að byðja um þetta. Trúleysingjar eru ekkert að byðja um að eingöngu sé fjallað um hlutina útfrá þeirra forsendum. Eina krafan er að þar aldrei muni allir vera sammála í trúmálum þá verði fjallað um mismunandi trúarbrögð af hlutleysi og á fræðilegum nótum innan þess skólakerfis sem við borgum öll fyrir.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 17/12/12 19:38 #

Ég vil nú gefa umræðunni tækifæri.

En vissulega hefði ég ekkert á móti því að vera án trúarbragða.

Mig vantar enn hvað réttlætir þá breytingu sem varð á heimsóknum skólabarna í kirkju á síðustu árum.

Það má vera að einhverjir trúaðir myndu sætta sig við einhvers konar sameiginlega athöfn, en mig grunar að hún myndi trufla heldur fleiri.


Guðjón Eyjólfsson - 17/12/12 21:11 #

Ég hef reynt hingað til án árangurs að útskýra forsendur afstöðu minnar. Forsendur heimsókna í kirkjur eða til er að slíkar heimsóknir séu ábyrgð og forsendum skólans en ekki þeirra safnaða sem heimsóttir eru. Skólamenn bera þá ábyrði á að ekkert fari þar fram sem geti stuðað eða komið illa við nemendur hverjar trúarskoðanir sem þeir kunna að hafa og þar með undanskil ég ekki trúleysi. Það er að mínu mat fráleitt að tilgangur slíkrar ferðar sé einhverskonar trúboð eða tilraun til innrætingar. Tónlist, söngur og viðtal við börnin á vinsamlegum nótum, ásamt fræðslu er i lagi. En það er hlutverk skólafólks að standa vörð um að ekkert gerist sem ekki þolir dagsljós.


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 17/12/12 21:17 #

Hvað af þessu er skólafólkinu sjálfu ofviða? Hver er þörfin á að fræðslan og söngurinn fari fram í kirkju, á heimavelli eins ákveðins trúfélags?


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 17/12/12 21:20 #

En, ef ég má reyna að fá svar, hvað styður þær breytingar sem orðið hafa á heimsóknum á þessari öld?

Hvaða vandamál átti þessi breyting að leysa?

En þar fyrir utan fer ekkert á milli mála að tilgangurinn er einmitt trúboð og tilraun til innrætingar.

Er ekki öruggasta leiðin til að tryggja að ekkert trúboð fari fram og að engin innræting eigi sér stað að sleppa þessu?

Og hvað mælir á móti því að þeir foreldrar sem það vilja sinni kirkjuferðum?


Jón - 18/12/12 10:59 #

Til að svara Guðjóni með því hvort skólafólki sé ekki treystandi þá svarið við þeirri spurningu NEI, langflestum ekki eins og dæmin sanna.

Flestir grunnskólar fara í kirkjur á aðventunni þar sem nemendur eru undir handleiðlslu presta og aðstoðarmanna þeirra, Rimakóli er ekki einsdæmi. Skólafólk einsog aðrir hefur andað að sér boðskap kirkjunnar í gegnum árin og menn einfaldlega samdauna boðskapnum.

Ég veit um fáeina grunnskóla sem gera þetta vel með því að prestur býður krökkunum að koma í kirkjuna eftir skóla þannig að þeir sem vilja geta farið og hinir fara heim. Með þessum hætti þarf presturinn ekki að sníða athöfnina þannig að ekki megi vera með trúboð og jesútal. Er eitthvað að þessari nálgun? Þarna fá allir það sem þeir vilja, krökkunum er ekki stillt upp við vegg (þeim sem ekki vilja fara af einhverri ástæðu) og skilin eftir í skólanum og þeir sem vilja fara hitta prest sem ekki er ,,ritskoðaður".


Benni - 22/12/12 19:47 #

Á meðan við búum í lýðræðis þjóðfélagi sé ég ekkert að því að börnin fræðist um kristni, á meðan meirihluti foreldra þeirra eru kristin. Ekki finndist ykkur eðlilegt að börnin ykkar fengju ekki að horfa á video saman í leikskólanum þótt einhver minnihlutahópur væri á móti því.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 22/12/12 20:20 #

Hversu erfitt er að skilja að enginn mótmælir því að börn læri um kristni?


Oi - 25/12/12 20:38 #

Sæl verið þið.

Nú það er nokkuð ljóst Elsa að Valgarður vill að skólar séu án trúboðs, geri ráð fyrir því að þú sért þeirra skoðunar líka.

,,Auðvitað ekki. Trúarlegar athafnir eiga ekkert erindi í skóla." - Valgarður, segir frá

Það verður að segjast að það er ótrúleg ósvífni að halda því fram að fólk sem boðar kærleik, trú og von í Jesú nafni sé að bera á borð heilaþvott til þess eins að fjölga í söfnuðinum. Amma gerði þetta, ekki var hún á launum hjá Kirkjunni og mér að vitandi voru engir vinir hennar kikjunnar þjónar.

Það verður að teljast einn af stóru póstum hvers samfélags umburðalyndi gagnvart trú og trúleysi. Ef fólk vill ekki trúboð þarf það að koma frá foreldrum til skóla þar sem unnið verður í því að halda því frá barninu.

Auðvitað eiga börn rétt á því að kynnast trú í landi þar sem kirkjan er samofin þingi og þjóð, skárra væri það. Það er mín persónulega skoðun þó ég virði ykkar vilja til að halda því fra´ykkar börnum.

Reynum að sýna fólki sem vill að börnin sín hljóti uppeldi þar sem trú kemur við sögu (nei ég sagði ekki trúarlegt uppeldi) þá virðingu að setja þeim ekki stólinn fyrir dyrnar.

Ef foreldrar kjósa svo að börn séu haldin utan trúarkynningu eins og kýs frekar að kalla það, þetta er bara í mýflugumynd almennt í skólum verða að átta sig á að börnin eiga hættu á að vera talin öðruvísi, þó kennarar reyni allt sem þeir geta til að tryggja að svo gerist ekki.

Virðum hvort annað, ef þið viljið ekki trú í skólum á þá meirihluti þjóðarinnar að taka því bara eða er það eðlilegra í lýðræðisríki að meirihlutinn ráði?


Oi - 25/12/12 20:51 #

Þessi setning vekur mikla undrun hjá mér:

,,Ég sýni nemendum og foreldrum þeirra virðingu með því að troða ekki mínu trúleysi upp á börnin á leikskólanum."

Auðvitað ertu að troða þínu trúleysi uppá þau, það getur vart verið augljósara.

Hérna er ég þér sammála: ,,Ég krefst þess hinsvegar að mér sé sýnd sama virðing þegar kemur að mínu barni."

Mikið er ég sammála þér þarna, auðvitað áttu rétt á því að trú sé ekki troðið uppá barnið þitt. Þú verður bara að átta þig á að þú ert í minnihluta. Minnihlutinn verður oft að beygja sig undir þarfir og vilja meirihlutans. Það er í raun ÞÚ sem þarft að gera sérstakar ráðstafanir til að ,,forða" barninu frá trúnni. Þetta er eðililegt, jafn eðlilegt og að þú reynir hér að koma þínum skoðunum að hjá öðrum.


Oi - 25/12/12 21:00 #

@Rán

Ég las frásögn þína og þykir afar leitt að það skuli vera fólk þarna úti sem beitir slíku harðræði þegar kemur að trúnni. Ég ætla rétt að vona að fáir skólar hafi kennara á launum sem gera þetta.

Presturinn og kertin er svo önnur saga, ég vona að þetta sé ekki rétt munað hjá þér enda sorgleg hegðun hjá Presti ef rétt er.

Nú hitt er að það er til kolbilað trúað fólk rétt eins og það eru til kolbilaðir trúleysingar. Finnst ekki rétt að bera þetta saman við þessa umræðu hérna, ég finn samt til með þér Rán að hafa upplifað þetta.


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 25/12/12 21:47 #

Reynum að sýna fólki sem vill að börnin sín hljóti uppeldi þar sem trú kemur við sögu (nei ég sagði ekki trúarlegt uppeldi) þá virðingu að setja þeim ekki stólinn fyrir dyrnar.

Auðvitað ertu að troða þínu trúleysi uppá þau, það getur vart verið augljósara.

Nei, ég er ekki að segja börnunum í vinnunni minni að guð er ekki til. Ef umræður koma upp um þessu mál er ég hlutlaus og spyr þau frekar enn að gefa svör. Ég segi ekki mína persónulega skoðun í málinu þar sem ég hef enga rétt til að segja þeim hvað þau eiga að trúa. Ég er heldur ekki að koma íveg fyrir að foreldrar sinni uppeldi þar sem trú kemur við sögu. Enda er ég ekki inni á heimilum þeirra.

auðvitað áttu rétt á því að trú sé ekki troðið uppá barnið þitt. Þú verður bara að átta þig á að þú ert í minnihluta. Minnihlutinn verður oft að beygja sig undir þarfir og vilja meirihlutans.

Hvaða þarfir ertu að tala um? ÞURFA börn kristinna manna að fara í kirkju á skólatíma? hvað er svona hættulegt að sjá um kirkjuferðir með sín eigin börn alveg sjálf?

Getur þú nefnt eitt annað atriði í skólastarfi á Íslandi sem vekur jafn hörð viðbrögð og kirkjuheimsóknir skóla um jólin?

Ég er viss um að fleiri eru ámóti þessum ferðum en þeir sem láta í sér heyra. Af ótta við að vera talið "erfiða" foreldrið, eða að fá kjaftshögg af fylgjendum ferðanna í kommentum á netinu eru líklega margir sem þegja. Sumir vilja kannski ekki heldur gefa upp trúarskoðanir sínar og láta þess vegna börnin sín fara í kirkjuna gegn vilja sínum.

Það er í raun ÞÚ sem þarft að gera sérstakar ráðstafanir til að ,,forða" barninu frá trúnni.

Sem betur fer þarf ég ekki lengur að standa í þessu, þar sem skóli sonar míns fer ekki í kirkju um jólin. Hins vegar fór hann með leikskólanum sínum fyrir nokkrum árum. Skóli sem fer með börnin í kirkju um jólin er að skapa óþarfa aðstæður þar sem foreldrar þurfa að taka erfiða ákvörðun. Þetta eru aðstæður sem auðvelt er að komast hjá, einfaldlega með því að sleppa kirkjuferðunum. Það er hægt að gera svo margt annað sem ekki vekur jafn hörð viðbrögð.

Mér finnst heldur ekki boðskapur ríkiskirkjunnar sérstaklega falleg. Hún talar fallega um kærleika umburðarlyndi og virðingu en sýnir mest hroka, vanvirðingu og fyrirlitningu við þá sem ekki eru í henni. Sérstaklega við trúleysinga.


Oi - 25/12/12 23:20 #

@Elsa

Gott að heyra að þú teljir þig ekki vera troða þínum skoðunum uppá börnin, væri gott ef svo væri. Tel líklegt að uppeldismenntað fólk miðli af þekkingu sinni og reynslu hvað börn varðar, ekki satt? Kennarar/Leikskólakennarar eru ekki vélmenni.

Hvað varðar uppeldishlutan þá eru foreldrar klárlega ábyrgir fyrir uppeldinu og hafa því ákveðin rétt hvað varðar gagnrýni á því umhverfi sem börnin eru í, með eða á móti.

Með þörfum er ég að meina þarfir þeirra sem hafa vit á að láta skoðun sína í ljós. Þeas þarfir þínar og þarfir mínar. Með meirihluta á ég við þá sem krefjast þess að trú sé hluti af kennslu plús þá sem vilja það og þá sem vilja ekki sjá það fara. Þarfir og vilji foreldrana er það sem hefur raunverulega áhrif á þetta, til þess að breyta því þarf fyrst að breyta vilja foreldranna ekki satt?

Hvað varðar hörð viðbrögð þá vill ég nefna einelti, það hefur vakið umtalsvert harðari viðbrögð en þetta. Gengi barna í skólum í samanburði við skóla annarstaðar á norðurlöndum, borið saman geta vs. tími settur í skólastart og kostnaður. Verkföll kennara hafa vakið gríðar hörð viðbrögð. Ég get sennilega nefnt fleiri hluti ef ég legg hausinn í bleyti. Trúboð/trúkynning vekur hörð viðbrögð hjá mjög fámennun hópi. Auðvitað er hægt að sleppa því en það verður að vera meirihlutavilji fyrir því ekki satt?

Þegar ég meina ÞÚ þá meina ég líka að meina þeir sem deila skoðun þinni hvað þetta varðar. Ef meirihluti foreldra í einhverjum skóla/leikskóla vilja ekki trúboð/trúarkynningu í skólum geta þeir líklega knúið fram sínn vilja, enda eru þeir í meirihluta þá ekki satt?

Mér finnst einmitt ríkiskirkjan sem og flest trúfélög vera með fallegan boðskap.

Hvað varðar hegðun einstakra aðila innan kirkjunnar þá finnst mér leitt að þú hafir upplifað hroka, ég vona að þú upplifir það ekki frá mér þó ég hafi aðra skoðun en þú á málinu. En eins og ég skrifaði áður þá finnst mér ósæmileg hegðun einstakra aðila ekki leggja línurnar hvað varðar alla kirkjuna og þaðan af síður kristna trú.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/12/12 01:18 #

Kæri Oi.

Þú hefur komið þínum skoðunum (og fordómum) á framfæri.

Trúboð á ekki heima í skólastarfi. Það skiptir nákvæmlega engu máli hvað meintum meirihluta finnst um það. Mannréttindi snúast ekki um meirihluta og minnihluta.

Það er ekki brotið á réttindum neins þegar börn eru ekki látin sitja undir trúboði á skólatíma.

Það er brotið á réttindum fjölda barna og foreldrar þegar börn eru látin sitja undir trúboði á skólatíma. Það er engin lausn að taka börn úr hópnum af því tilefni.

Umræðan snýst ekki um kennslu um trúarbrögð heldur trúboð.


Oi - 26/12/12 10:10 #

Og fordómum, úff Elsa, þetta kemur úr hörðustu átt.

Trúboð er einmitt fólk sem hefur sterka trú á þeirra trú sé sú rétta, svo sterka trú að það vill deila með öðrum þeirri trú. Þetta líkist óneitanlega hefðbundinni kennslu ekki satt? Þú lærir hluti og miðlar þeim, þú nærð þér í reynslu á lífsleiðinni og miðlar því líka. Trú spannar margar kynslóðir ekki bara eina ævi.

Það er eins með trúnna og það sem þú lærir í kennslustofu, maður er ekki endilega sammála öllu. Það er allaveganna þannig hjá mér, líklega hjá þér líka.

Ef við viljum serelísera skólastarfið að reynslu manna og trú þá myndi ég halda við værum að ala upp vélmenni, börn leita til okkar. Við eigum ekki að vera hlutlaus, en við eigum heldur ekki að heilaþvo. Þar set ég punktinn við trúnna. Hún er ekki heilaþvottur, þú sætir engum pyntingum, ekki heldur börnin.

Flettu upp hugtakinu heilaþvottur, þá sérðu hvað það þýðir.

En Elsa þú hefur sannalega komið þínum fordómum gagnvart trú kristinna og annara manna til skila og hefur til þess þetta vefrit sem ég hef mjög gaman af.

Gleðileg jól Elsa.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 26/12/12 12:15 #

Það var ég, Matti, sem skrifaði athugasemdina sem þú svarar. Ekki Elsa. Fordómar þínir felast meðal annars í því að þú gefur þér, án raka, að Elsa stundi trúleysisboð í starfi sínu.

Trúboð er einmitt fólk sem hefur sterka trú á þeirra trú sé sú rétta, svo sterka trú að það vill deila með öðrum þeirri trú. Þetta líkist óneitanlega hefðbundinni kennslu ekki satt?

Nei, þetta er mjög langt frá því að vera satt.

Ef við viljum serelísera skólastarfið að reynslu manna og trú þá myndi ég halda við værum að ala upp vélmenni, börn leita til okkar.

Sem sýnir ágætlega fordóma þína gagnvart þeim sem ekki aðhyllast trú. Og "reynsla manna" og "trú" eiga fátt sameiginlegt, a.m.k. ekki þegar kemur að reynslu sem hægt er að staðfesta.

En Elsa þú hefur sannalega komið þínum fordómum gagnvart trú kristinna og annara manna til skila og hefur til þess þetta vefrit sem ég hef mjög gaman af.

Nei, Elsa hefur ekki komið fordómum gagnvart kristinni trú til skila. Hún hefur þvert á móti verið afar hógvær í umfjöllun sinni um kristni. Það eina sem hún fer fram á er að kristniboð sé ekki stundað í skólum. Í því felast ekki fordómar.


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 26/12/12 12:26 #

Ég þekki einstaklinga innan ríkiskirkjunnar sem mér þykir vænt um og sem virða mínar skoðanir og ég þeirra. Við erum ekki að reyna að breyta trú hvors annars. Boðskapurinn sem biskupinn, bæði fyrrverandi og núverandi, sem og margir aðrir háttsettir innan kirkjunnar eru að predíka, er boðskapur sem mér finnst allt annað en fallegur. Þau segja að lífið mitt sé einskis virði, að góðverk mín skipta engu máli þar sem það sem ég geri er ekki gert með einhver guð í huga. Að ég sé siðlaus og á innihaldslaust líf, vegna þess að ég er trúlaus. Er þetta umburðarlyndi? Ég vil ekki að mitt barn lítur á mig á sama hátt og æðstu menn kirkjunnar.

Svo má líka nefna önnur mannréttindabrot sem kirkjan standa fyrir, svo sem mismunun vegna kynhneigðar. Ég vil að sonur minn virði fólk eins og það er, og þar er kirkjan ekki til fyrirmyndar.

Hvað varðar kennsluaðferðir mínar, þá vinn ég með það að markmiði að börnin hugsi sjálfstætt. Ég hvet þau til að hugsa og koma með eigin hugmyndir um tilveruna án þess að segja þeim HVAÐ þau eiga a hugsa. Ef barn spyr mig beint út hvort guð sé til, þá svara ég "Ég veit ekki. Hvað heldur þú?" og hvetur þannig barnið til að taka eigin afstöðu. Sama hvað svar barnsins verði, þá virði ég það og reyni ekki að breyta því. Annað væri ófaglegt af minni hendi og væri vanvirðing við fjölskyldu barnsins.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 26/12/12 13:18 #

Ég datt nú út úr þessari umræðu Oi, en ég sagði hvergi að allir sem boða trú væru að því til að fjölga í söfnunuðinum - og bið þig einu sinni enn að hætta að gera mér upp skoðanir og ummæli, þó ég viti að það sé til lítils, "umræðutæknin" sem þú notar er að gera fólki upp skoðanir og ráðast svo á þessar tilbúnu skoðanir...

En, það eru klárlega þannig að sumir þeirra sem stunda trúboð í skólum eru að því til að fjölga í söfnuðinum. Og þó svo að boðskapurinn hjá öðrum sé vel meintur þá á þetta ekkert erindi í skóla, því það sem er vel meint hjá einum, getur (eins og er margsinnis búið að benda á) verið foreldrum annarra þvert um geð. Enda vandséð hvers vegna ekki er hægt að kenna börnum góða siði án þess að vera stöðugt að blanda einhverjum yfirnáttúrulegum verdum í málið.

Þess vegna á trúboð ekkert erindi í skóla.


Oi - 29/12/12 20:41 #

Úbs, fyrirgefðu Matti, þú komst inní samræður, var ekki nógu athugull að það var komið nýtt nafn. Ekki í fyrsta skipti sem ég klikka á þessu :).

Matti þú segir, Nei það er ekki satt... hmmm virðist vanta rök á bak við þetta hjá þér?

Þú vilt meina að ég sé með fordóma af því að ég myndi ímynda mér að hlutir yrðu þannig ef trúleysi væri algert.

Sé ekki alveg hvert þú ert að fara með því þar sem trú þarf ekki alltaf að vera með Kristni, Muhameð eða aðra stimpla. Trú snýst um að geta brúað vitneskju með ósönnuðum þáttum. Þetta gerir þú eflaust sjálfur oft á dag án þess að þykja það tiltökumál (ég skal koma með dæmi ef þú "trúir" mér ekki :)). Ef þú getur ekki lagt trú þína á ósannaða hluti getur þú aldrei lært nema með sönnunum, ímyndaðu þér að keyra í New York án þess að treysta skiltum því að þú ert ekki búinn að sannreyna þau.

Trúin er mjög víðtæk og snýst ekki bara um Biblíuna, líka um náungakærleik, fyrirgefningu, umburðalyndi (ég veit að þetta orð fer í taugarnar á vantrú). Til að súmera, síðferði og trú er að mörgu leyti samofin (ég skal koma með dæmi um þetta líka ef þú vilt). Það eru samt til alskonar vitleysingar, trúaðir og trúlausir, ekki halda ég ég sé að segja að allt sem trúaðir segja sé rétt, frekar en að allt sem trúlausir segja.

Elsa er eflaust ágætis stelpa en ég nú ætla ég að einfalda mál mitt mikið.

Tiltill á grein: Skaðleg jól?

Subtitill: Hefur einhver hlotið skaða af því að fara ekki í kirkju með skólanum sínum um jólin?

Ef ég spyr þig Matti hvort þú sért ástfangin af Elsu og set því þennan titil á grein: Matti og Elsa ástfangin?

Set svo fyrir neðan greinina: Matti hefur ekki viljað viðurkenna að hann sé hrifin af Elsu.

Getur verið að ég sé að koma með ósannaðar fullyrðingar án þess þó að fullyrða það beint, meira í fréttamanna spurningastíl.

Það sem ég er að segja er. Greinin er mjög fordómafull gagnvart trúnni og gefur til kynna(já gefur til kynna) að börn komi ekki ósköðuð út úr skólum þar trúboð fari fram. Hún færir hvergi marktæk rök fyrir því að það sé raunin, þetta kallast fordómar Matti. Að þú sjáir það ekki segir meira um hvernig þú lest greinina en ég þar sem ég er klárlega trúaður og er ekki að reyna vera eitthvað sem ég er ekki.

Hún er ekki bara að halda fram að trúboð eigi ekki í skólum. Sérðu það ekki?


Oi - 29/12/12 21:07 #

@Elsa

Ég bara skil ekki afhverju þú talar um trúboð í heild sinni og leggur hana fram eins og allir trúi blint á það sem stendur í biblíunni. Eins má skilja það á orðum þínum að þar sem Kirkjan hafi staðið fyrir mannréttindabrotum, þá sé trúin vond.

Þeir sem stunda trúboð eru einmitt að gera það þeas boða trú. Flestir hljóta að vera með það markmið að efla siðgæðisvitund þeirra sem trúboðinu er beint að. Hluti biblíunnar eru dæmisögur þar sem það er sýnt að réttlætið sigrar. Auðvitað er hægt að gera það á marga vegu, þarf ekki trúboð til. En.... er verið að því?

Börn eru með mikla námshæfileika, líklega er það ástæðan fyrir því að það er haft fyrir því að kenna þeim, sé ekki fyrir mér skólastarf væri öflugt ef námshæfileikar myndu ekki myndast fyrr en eftir 18 ára aldur.

Svo spyr ég Elsa, hvar dregur þú mörkin varðandi að blanda þínum skoðunum í kennsluna? Getur sagt með fullri vissu að hún komi aldrei að borðinu? Líklega ekki.


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 29/12/12 21:09 #

Ég held því fram að trúboð í skólum getur verið skaðleg, og færði ég rök fyrir því þar sem það skaðar samskipti innan fjölskyldunnar þegar prestur segir eitthvað sem fer þvert á móti viðhorf fjölskyldunnar. Skólinn á ekki að snúa börn gegn foreldrum sínum.

Skóli sem fer með börnin í kirkju valda sumum fjölskyldum andlegan/tilfinningalegan skaða. Annað hvort með því að barn trúlausa/annara trúar sitji undir trúboði, eða með því að barnið verður skilið eftir í skólanum.

Skóli sem EKKI fer með börnin í kirkju veldur engum skaða þar sem ekkert trúboð mun fara fram og enginn verður skilinn eftir í skólanum.


Elsa (meðlimur í Vantrú) - 29/12/12 21:22 #

Að sjálfsögðu hef ég skoðanir á hlutum eins og hver annar hugsandi maður, en sem kennari er það ekki mitt hlutverk að láta mínar persónulegar skoðanir yfir á börnin. Ég vil að börnin hugsi sjálfstætt og gagnrýnt og hvet þau til þess á faglegan hátt, án þess að segja þeim hvað þau eiga að trúa, sérstaklega þegar það kemur að jafn viðkvæmum og persónulegum hlutum og trúarbrögðum. Ég ber virðingu fyrir foreldra barnanna og legg mig fram við að eiga gott samstarf við þau um uppeldi barna þeirra. Sama hvaða lífsskoðanir þau hafa.


Oi - 29/12/12 21:24 #

@Valgarður

Ég er ekki að gera þér upp skoðanir, ég er með tilvitnun í skilaboð frá þér sjálfum, hvernig er hægt að skilja þessa setningu öðruvísi???

,,Auðvitað ekki. Trúarlegar athafnir eiga ekkert erindi í skóla." - Valgarður, segir frá

Var það einhver annar með aðganginn þinn að skrifa hérna inn? Ef svo er biðst ég forláts.

Þú talar svo í kross Valgarður að ég á erfitt með að vitna í þig.

Trú er ekki bara bara þvaður um yfirnáttúrleg öfl, trú er lífsskoðun. Þegar meirihluti vill að hlutirnir séu á einn veginn verður að taka tillit til þess. Trúlausir eiga vissulega sinn rétt en réttur meirihlutans er líka ríkur. Það þarf að finna milliveg fyrir þessa tvo hópa. Ég tel að hann sé kominn, trúboð er víðast hvar í lágmarki og meira segja bannað á mörgum stöðum, sem mér þykir miður.

Valgarður þú verður að átta þig á stigsmun á milli skólastiga. Leikskóli og grunnskóli er uppeldisstig en þar fer fram kennsla með öðrum hætti en í framhaldsskóla.

Það er hægt að sleppa trú en það er ekki vilji meirihlutans, þetta virðist eiga vandratað á skoðanabrettið hjá þér. Þegar trúlausir taka sig saman og stofna skóla eða samfélag eru þeir í meirihluta og hafa því meira að segja um málið eins og raun ber vitni í fræðsluráði Reykjavíkurborgar, aka meirihluti.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 29/12/12 21:28 #

Matti þú segir, Nei það er ekki satt... hmmm virðist vanta rök á bak við þetta hjá þér?

Fullyrðing sem er sett fram án raka er hægt að andmæla án raka.

Þú vilt meina að ég sé með fordóma af því að ég myndi ímynda mér að hlutir yrðu þannig ef trúleysi væri algert.

Nei, ég vil meina að þú sért með fordóma því þú fullyrðir í athugasemd að Elsa stundi trúleysisboð í starfi sínu. Þú hafðir nákvæmlega ekkert fyrir þér í því annað en fordóma.

þar sem trú þarf ekki alltaf að vera með Kristni, Muhameð eða aðra stimpla. Trú snýst um að geta brúað vitneskju með ósönnuðum þáttum.

Veistu það oi, mér gæti ekki verið meira saman um útúrsnúninga þína á trúarhugtakinu. Hér er rætt um trú á forsendum trúarbragða og trúleysis. Hér er rætt um trú eins og kristni og boðun á henni. Hér er ekki rætt um trú í merkingunni traust eða skoðun.

Hitt kemur málinu nákvæmlega ekkert við og ég vil biðja þig um að halda samræðum um "frumlegar" túlkanir þínar á trúarhugtakinu á öðrum vettvangi.


Oi - 29/12/12 21:35 #

@Elsa

Skólinn snýr vitanlega börnum ekki á móti foreldrum enda mun barnið vera vera með sjálfstæðar skoðanir. Væntanlega mun barnið legga trú og traust á þá aðila sem þeir hafa mest mætur á.

Það verður vandséð hvernig heimsóknir í kirkju 1-2 svar á ári flokkist undir heilaþvott, líklega er frekar um kynningu að ræða eða jafnvel frekar hefð en nokkuð annað.

Aftur ítreka ég að þú sem kennari ert ekki eins og aðrir kennarar vegna þess að þú hefur önnur gildi, aðrar skoðanir og ert önnur manneskja. Þú kennir öðruvísi en aðrir, ég er ekki að meina þetta ílla. Kennarar eru venjulega kennarar af hugsjón. Hver er munurinn á því hvað þér finnst um hluti og trú.

Dæmi:

Sumum finnst fjölkvæni rangt, sumstaðar er þetta eðlilegt.

Tilraunir á föngum án þeirra samþykkis er mannréttindabrot, sumstaðar eru fangar ekki fólk, þessvegna er það ekki mannréttindabrot, þó okkur finnist það.

Þannig að með því að ýta undir eina skoðun ertu sjálfkrafa að ýta niður annara skoðunn. Það er vandratað um vegi hlutleysisins. Þú vilt vel, ég les það að minnsta kosti úr textanum hjá þér.


Oi - 29/12/12 21:51 #

Úff Matti,

Án raka, einmitt það sem þú ert að skora flott í þessa stundina.

Æji ég veit ekki hvort ég eigi að eyða fleiri orðum á þig en jæja... prufum.

Ég sagði aldrei trúleysisboð, þú ert að skálda í eyðurnar. Ég sagði að hún væri að troða sínu trúleysi uppá þau. Það er ekki gert með því að segj að guð sé ekki til, það er gert með því að halda trúnni frá þeim, með einum eða öðrum hætti. Ekki halda fram því sem ég hef ekki sagt!

Hún heldur því sjálf fram að hún vilji ekki trúboð í skólum. Hún telur trúboð ýta undir úlfúð í fjölskyldum ef ég hef skilið hana rétt. Hún telur að trúboð sé í raun lýgi sem hún og aðrir trúlausir foreldrar þurfi að leiðrétta þegar barnið kemur heim.

Tvær staðreyndir: Ég tel trú ekki vera lýgi. Trú er ekki trúboð.

Frumlegar túlkanir á trú eru settar fram til að einfalda hlutina, til dæmis fyrir þig. Auðveldara að rökræða ef hlutirnir eru brotnir upp í litla búta, kannski ertu ekki sammála, mér er soldið sama reyndar.

Varðandi útúrsnúningana þá máttu alveg sleppa því að svara ef ég fer í taugarnar á þér.

Gott að þér er sama Matti, mér gæti nebblega varla verið meira sama líka um það sem þér finnst :). Var þetta nógu barnalegt svar fyrir þig ;).


Matti (meðlimur í Vantrú) - 29/12/12 22:11 #

Ég sagði aldrei trúleysisboð, þú ert að skálda í eyðurnar. Ég sagði að hún væri að troða sínu trúleysi uppá þau

Vertu ekki með svona útúrsnúninga.

Það er ekki gert með því að segj að guð sé ekki til, það er gert með því að halda trúnni frá þeim, með einum eða öðrum hætti. Ekki halda fram því sem ég hef ekki sagt!

Það að stunda ekki trúboð jafngildir því ekki að boða trúleysi.

Tvær staðreyndir: Ég tel trú ekki vera lýgi. Trú er ekki trúboð.

Þú ert fyrst og fremst að tala við sjálfan þig.

Sjáu til "oi", þú ert hér með þras sem við höfum farið í gegnum ótal sinnum á Vantrú. Þér finnst þetta kannski frumlegt og gáfulegt en okkur fannst þetta þreytandi árið 2004.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 31/12/12 13:27 #

Oi,þegar þú skrifar

,Auðvitað ekki. Trúarlegar athafnir eiga ekkert erindi í skóla." - Valgarður, segir frá Það verður að segjast að það er ótrúleg ósvífni að halda því fram að fólk sem boðar kærleik, trú og von í Jesú nafni sé að bera á borð heilaþvott til þess eins að fjölga í söfnuðinum

þá ertu að gera mér upp þær að ég hafi haldið því fram með setningunni sem þú vísar til að allir sem boða kærleik... séu að gera það til þess eins að fjölga í söfnuðinum.

Þetta kemur hvergi fram í þeirri setningu sem þú vísar til, reyndar hvergi annars staðar. Þess vegna ertu að gera mér upp skoðanir. Þú bítur svo höfuðið að skömminni með því að kalla þessa uppdiktuðu skoðanir mínar "ótrúlega ósvífni".

Og nei, ég tala ekki í kross, það er enginn annar með aðgang og það er ekkert vandamál að vitna í mig ef þú gerir það heiðarlega í stað þeirra vinnubragða sem þú notar.

Það er enginn munur á leikskóla eða framhaldsskóla þegar kemur að trúboði í skólum, nema kannski að því leyti að framhaldsskólanemendur eru síður auðtrúa.

Og þú hefur ekkert fyrir þér í þeirri fullyrðingu að það sé vilji meirihlutans að trúboð sé stundað í skólum.

Fyrir það fyrsta benda kannanir til að trúaðir eru í minni hluta á Íslandi.

Þó þeir væru í meirihluta þá er ekkert sem segir að þeir vilji láta troða þeirri trú upp á aðra í skólum.

Og þó svo væri, þá er það aldrei réttur meirihlutans að brjóta mannréttindi á minnihlutanum.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 31/12/12 17:12 #

Trúaðir í minnihluta Valgarður? Ég verð að fá sources fyrir þessu ef ég á að kaupa það.


valgardur (meðlimur í Vantrú) - 01/01/13 14:29 #

Skal fletta upp á morgun (nema Hjalti sé með þetta við hendina) en muni ég rétt kom fram í Gallup könnun 2004 að þetta væru rétt rúm 40% - og svo hefur þróunin verið þannig að trúleysingjum fjölgar í nágrannaríkjunum (aftur nenni ég ekki að leita að heimildum akkúrat núna)...

En þetta er auðvitað algjört aukaatriði og sennilega átti ég ekkert að vera að nefna þetta - meirihluti eða minnihluti skiptir nákvæmlega engu í þessu samhengi..


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 02/01/13 01:16 #

Já mannréttindi eiga aldrei að vera spurning um meirihluta eða minnihluta. En ef ég man rétt þá kom fram í könnuninni 2004 að um 70% landsmanna teldu sig trúaða og um 75% af þeim teldu sig kristna. Sem þýðir að um 50% allra töldu sig kristna.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.