Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Feimnismál ríkiskirkjunnar

Börn

Miðað við hvað prestar ríkiskirkjunnar kvarta oft undan of lítilli umfjöllun í fréttum af starfi kirkjunnar, þá er undarlegt að þeir skuli vera feimnir við að viðurkenna einn mjög stóran þátt í starfi hennar: barnatrúboðið.

Ha? Við?

Um daginn birtist á heimasíðu ríkiskirkjunnar ræða sem presturinn Hildur Eir Bolladóttir flutti á afmælishátíð Knattspyrnufélags Akureyrar 13. júlí. Í ræðunni minnist hún á að hún hafi verið efins um að senda frumburð sinn í íþróttir meðal annars vegna þess að hún hélt að það væri of mikil áhersla lögð á keppnisumhverfið, hún segir svo að þessi ótti hafi reyndist algerlega óþarfur.

Hún líkir þessu við “[tortryggni sumra] gagnvart kirkjustarfi”, sem er á þá leið að þeir “halda að þar sé stundaður takmarkalaus heilaþvottur”. Eins og með ótta hennar gagnvart íþróttum, þá er víst “óþarfi að halda að í kirkjunni sé stundaður heilaþvottur og særingar.”

Hvað gerir kirkjan?

Til að byrja með er rétt að taka fram að ég held að engin haldi að það séu stundaðar “særingar” á börnum innan veggja ríkiskirkjunnar (þó svo að ríkiskirkjuprestar segjast berjast við illa anda þegar þeir blessa hús).

En er stundaður “takmarkalaus heilaþvottur” eða bara “heilaþvottur” í barnastarfi ríkiskirkjunnar? Það fer eftir því hvað maður á við með orðinu heilaþvottir. Sannleikurinn er sá að í barnastarfi kirkjunnar er reynt á mjög skipulagðan hátt að sannfæra lítil börn um hinar ýmsu kennisetningar ríkiskirkjunnar. Því eins og einn ríkiskirkjuprestur sagði, þá “vill nú svo heppilega til að börn eru gjarnan leiðitöm, hættulega leiðitöm, trúgjörn og grandalaus".

Ímyndum okkur að Sjálfstæðisflokkurinn hefði sérstakan “barnaskóla Sjálfstæðisflokksins”, þar sem að börn mættu vikulega og að sérstakir starfsmenn Sjálfstæðisflokksins segðu börnunum sögur af því hvað heimurinn væri frábær ef fleiri myndu kjósa rétta flokkinn og hvað Milton Freedman hafi verið frábær náungi. Tilgangur þessa barnaskóla væri að sannfæra börnin um stefnu Sjálfstæðisflokksins. Væri þetta “heilaþvottur”? Eða kannski bara “pólitískt uppeldi” eða “fræðsla”? Væri hugsanlega rétt að tala um þetta sem stuðning við “pólitískan þroska” barnsins?

Hvaða orð sem maður vill nota, þá væri ljóst að stjórnmálaflokkurinn væri skipulega að reyna að notfæra sér varnarleysi barnanna til að sannfæra þau um ágæti eigin málstaðar. Stjórnmálaflokkar gera þetta sem betur fer ekki, en trúfélög gera það, þar með talið auðvitað ríkiskirkjan.

Markmið ríkiskirkjunnar

Þar sem að prestar gætu jafnvel farið að neita því að ásókn kirkjunnar í börn snúist um það að kristna börnin, þá er best að benda á nokkur dæmi sem sýna fram á það.

Til að byrja með getum við kíkt á námsefnið sem að kirkjan semur fyrir barnastarfið sitt. Eitt dæmi er “Litlir lærisveinar”[1]. Í því riti eru kaflar fyrir hverja “kennslustund” og í upphafi hvers kafla er sagt frá markmiði kennslustundanna. Markmiðin þar eru til dæmis “[a]ð börnin læri að við frelsumst fyrir trú á Jesú Krist” (bls 76) og “[a]ð börnin læri að Guð vill að allir fái að heyra um hann” (bls 226).

Ríkiskirkjan hefur nýlega samþykkt svokallaða “fræðslustefnu”. Þar er sagt frá markmiði starfs ríkiskirkjunnar með börnum og unglingum. Til dæmis er sagt að að “[í] barnastarfi Þjóðkirkjunnar læri barnið [12 ára og yngri] að þekkja Guð og upplifa samfélag við hann”. Svo er fermingarstarfinu “ætlað að vekja og efla með ungmennum trú á Guð, kenna þeim grundvallaratriði kristinnar trúar og virkja þau í starfi kirkjunnar.”

Einnig er tekið fram að ein af grunnskyldum starfsmanna ríkiskirkjunnar er að “boða trúna á Krist”. Svo er hlutverk kirkjunnar sagt vera “að boða kristna trú og lífsgildi þannig að þeir sem henni tilheyra tileinki sér boðskapinn” og að “fræða hin skírðu um trúarsannindin”.

Loks er einfaldlega hægt að skoða hvað starfsmenn ríkiskirkjunnar segja sjálfir. Núverandi æðsti biskupinn, Agnes M. Sigurðardóttir sagði eitt sinn að “markmið æskulýðsstarfs kirkjunnar er kristniboð, boðun fagnaðarerindisins um Jesú Krist.” #. Forveri hennar, Karl Sigurbjörnsson, sagði: “Það [æskulýðsstarfið] verður, eins og öll önnur starfsemi safnaðarins, að vera liður í boðuninni og miðast að guðþjónustu safnaðarins. Annars er það gagnslaust.”

Mismunandi markmið

Hildur Eir endar ræðuna sína á því að fullyrða að ríkiskirkjan og íþróttafélögin hafi “sama markmið í æskulýðsstarfi, sem er að efla og styrkja sjálfsmynd barna og unglinga, efla vináttu, virðingu og samstöðu og forða þeim frá því að velja leiðir sem brjóta niður mennsku þeirra.” En þetta er auðvitað ekki rétt: Ólíkt íþróttafélögunum, þá snýst æskulýðsstarf ríkiskirkjunnar um það að notfæra sér trúgirni barna til þess að kristna þau.


[1] Elín Elísabet Jóhannsdóttir. 1994. Litlir Lærisveinar. Skálholt : Fræðsludeild kirkjunnar. Reykjavík.

Hjalti Rúnar Ómarsson 08.08.2012
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Ríkiskirkjan )

Viðbrögð


Brynjólfur Þorvarðarson (meðlimur í Vantrú) - 09/08/12 07:47 #

Það segir sig nú eiginlega sjálft að tilgangur barnatrúboðs er að innræta börnum trú. Nú veit ég ekki hvort prestar afneita þessu en mér sýnist af ummælum Hildar að hún sé að reyna að fá foreldra til að senda börn sín í barnastarf kirkjunnar með því að gera lítið úr trúboði sem þar fer fram sem er auðvitað villandi.

Nú er það réttur foreldra að sinna trúaruppeldi barna sinna og ef foreldrar velja að senda börn sín til þátttöku í barnastarfi kirkjunnar þá er það þeirra mál og kemur í sjálfu sér engum öðrum við. Mig grunar að þeir eru fáir foreldrarnir sem það gera, á Íslandi alla vega (Íslendingasamfélög erlendis virðast annars eðlis, þar er mjög algengt að foreldrar sendi börn sín i sunnudagaskóla hjá íslenskum prestum ef það býðst, væntanlega vegna þess að um íslenska starfsemi er að ræða - kristnin er svona óheppilegur fylgifiskur).

Samanburðurinn við sjálfstæðisflokkinn finnst mér óheppilegur. Stjórnmálaflokkar eru með ýmis konar ungliðastarf og jafnvel barnastarf og auðvitað er það einnig foreldrum frjálst að senda börn sín í slíkt. Nú veit ég ekki hvort neinn stjórnmálaflokkur er með skipulagða starfsemi fyrir börn á grunnskólaaldri en jafnvel ef svo væri þá er ekkert við það að athuga í sjálfu sér.

Hið raunverulega vandamál varðandi barnastarf kirkjunnar, hin raunverulega hætta, er þegar prestar reyna að troða sér inn í grunnskólana þar sem börnin eru "fangin" og foreldrar hafa ekkert val. Slíkt er auðvitað ótækt með öllu. En endilega leyfið kirkjunni að hafa sitt barnastarf, svo lengi sem starfið er eingöngu ætlað börnum þeirra foreldra sem vilja.

Ef vandamálið er að kirkjan er með villandi áróður fyrir barnastarfi sínu þá er auðvitað gott mál að benda á slíkt. Ef það er tilgangur greinarinnar þá er það auðvitað hið besta mál.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 09/08/12 08:43 #

Það segir sig nú eiginlega sjálft að tilgangur barnatrúboðs er að innræta börnum trú. Nú veit ég ekki hvort prestar afneita þessu en mér sýnist af ummælum Hildar að hún sé að reyna að fá foreldra til að senda börn sín í barnastarf kirkjunnar með því að gera lítið úr trúboði sem þar fer fram sem er auðvitað villandi.

Prestar hafa neitað því að innræting kristinnar trúar sé hluti af barnastarfi kirkjunnar, t.d. með því að segja að þar sem að börnin séu þegar skírð, þá séu þau þegar kristin!

Ég tel ekki að það sé tilviljun að þetta sé svona villandi. Ég held að færri myndu senda börnin sín þangað ef þau væru opinská með tilganginn.

En endilega leyfið kirkjunni að hafa sitt barnastarf, svo lengi sem starfið er eingöngu ætlað börnum þeirra foreldra sem vilja.

Ég skil ekki alveg hvað þú ert að biðja um hérna. Hvað áttu við með því að við ættum að "leyfa kirkjunni að hafa sitt barnastarf"? :S


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 09/08/12 17:31 #

Ég held nú að Binni sé að segja að fyrst að kirkjan er með þessa þjónustu í boði þá er ekkert sem hindrar söfnuðinn að nýta sér þessa þjónustu. Frjáls félagasamtök og soleiðis.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 14/08/12 15:43 #

Binni, við erum ekki að fara að banna barnastarf kirkjunnar :S


Tiberius Barnes - 14/08/12 15:47 #

I am personally of the view that the induction and indoctrination of children into what are effectively state sponsored cults is reprehensible, incorrigibly depraved and altogether indicative of folly. Good work, Hjalti!

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?