Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Að vera eða vera ekki særingamaður

Særingarmaður

Fyrir stuttu síðan birtist í Fréttablaðinu stutt viðtal við nokkra ríkiskirkjupresta um reimleika og húsblessanir. Á svörunum sér maður að prestarnir eru í ákveðinni klemmu. Annars vegar vilja þeir greinilega ekki hljóma eins og fólkið á Omega, en hins vegar þurfa þeir líka að vera prestar.

Allt mjög fræðilegt

Í sumum ummælum virðast prestarnir líta á að húsblessanir hafi einungis sálrænar afleiðingar og að ekkert yfirnáttúrulegt sé í gangi. Svona svipað og að fá mömmu til að kyssa á bágtið.

Ríkiskirkjupresturinn Anna Sigríður Pálsdóttir segir til dæmia að húsblessanirnar hafi ekkert með illa anda að gera: „Þjónusta presta snýst þó ekki um að „reka burt illa anda” heldur lesa þeir úr ritningu, fara með bæn og blessa.”.

Þannig að það mætti halda að þetta væri afskaplega jarðbundið og ekkert í líkingu við „Jesúhoppara” eða töfralækna sem berjast við illa anda, en þegar maður skoðar nánar það sem er í gangi, þá er afskaplega lítill munur á þessu.

Akabrajesús

Samkvæmt ríkiskirkjuprestinum Karli V. Matthíassyni þá felst húsblessun í því að ákalla máttugustu andaveruna sem til er og biðja hana um að senda máttminni, en góðar, andaverur til að búa í byggingunni. Hann segir svo að þessi beiðni til æðstu andaverunnar sé mjög máttug.

Auk þess segist hann fara að dyrum hvers herbergis byggingarinnar til að framkvæma sérstaka handahreyfingu, sem á líklega að hafa þau áhrif að góðu andarnir séu líklegri til þess að taka sér bólfestu á staðnum.

Í ummælum Önnu má sjá að “prestar lesa úr ritningu”, þó svo að hún taki það ekki fram, þá telja þau líklega að upplestur úr þessari ákveðnu bók sé líklegri til þess að sannfæra æðstu andaveruna um að senda góðu andaverurnar til búsetu í húsinu.

Það er erfitt að sjá hvers vegna það ætti að líta á svona hegðun einhverjum öðrum augum en þegar töfralæknar eða særingarmenn eru að reyna að fá illa anda til að fara úr fólki eða húsum. Það er ef til vill einvern, en í öllum meginatriðum er það sama í gangi, þarna eru meintir sérfræðingar í andaverum að reyna að hafa áhrif á þá til þess að hagnast okkur. En prestarnir ganga enn lengra, og í sumum ummælum þeirra sést að einhverjir þeirra telja sig í raun og veru vera að berjast við illar andaverur.

Svitadjöflar

Hápunktur greinarinnar er án efa ummæli ríkiskirkjuprestsins Gísla Jónassonar, þar sem skín í gegn að hann telur húsblessanir snúast um að reka í burtu illar andaverur:

„Mér eru nokkur atvik mjög eftirminnileg og ég hef einu sinni lent í verulegum átökum þar sem ég snarsvitnaði við blessunina. Ég hefði ekki trúað þessu sjálfur, haldið að þetta væri della fyrr en ég reyndi. En heimilisfólk var þar greinilega að upplifa eitthvað meiriháttar illt,” segir Gísli og bætir við að ástandið hafi snarbatnað að blessun lokinni.

Karl Matthíasson talar líka um að fólk hafi beinlínis þurft að flýja heimili vegna “óróa” sem hvarf eftir að hann ávarpaði máttugasta andann og framkvæmt töfrahandahreyfingarnar.

Einhver hluti prestanna virðist greinilega telja að þeir séu í raun og veru ekki að berjast við menn af holdi og blóði heldur við andaverur vonskunnar, svo maður vitni í postulann Pál.

Höfuðsæringarmaðurinn

Það er ögn pínlegt að sjá þessa presta vera svona klofna. Það er of „trúarnöttaralegt” og ónútímalegt að viðurkenna að maður sé að berjast við illa anda, en hins vegar eru þeir auðvitað atvinnutrúmenn, og stór hluti trúarbragða, sumir myndu segja kjarni þeirra, snýst um hin ýmsu samskipti við andaverur, þar á meðal baráttan við illar andaverur.

Þessi hálfgerða afneitun á því sem er í gangi er enn undarlegri þar sem að Jesús, sá maður sem prestarnir þreytast aldrei á að dásama, var samkvæmt uppáhaldsbókinni þeirra alltaf að reka út illa anda og skipaði lærisveinum sínum að gera það sama. Ekki halda prestarnir að Jesús hafi í raun og veru ekki verið að reka út illa anda? Ekki halda prestarnir að allar sögurnar og ummælin um illa anda í guðspjöllunum sé skáldskapur?

Ég held að svo sé ekki. Ég held að margir prestar skammist sín bara fyrir það að vera særingarmenn og eru í skápnum.

Hjalti Rúnar Ómarsson 18.05.2011
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Birgir Hrafn Sigurðsson - 18/05/11 12:50 #

Þessir prestar eru rosalegir


Jon Steinar - 18/05/11 13:57 #

Það er sem ég segi...Þykistuleikur og liggaliggalá. Þetta er svo yfirmáta barnalegt að þetta hlýtur að flokkast undir misþroska.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 18/05/11 15:06 #

Minni á fleyg orð Árna Árnasonar:

Grímuklæddur töfralæknir sem makar sig blóði halfdauðrar hænu og dansar trylltann dans umhverfis strákofann þar sem ættarhöfðinginn liggur sóttheitur inni er umsvifalaust stöðvaður og trúboðinn sýnir honum að miklu betra er að stökkva hann vígðu vatni, gera krossmark yfir brjóst hans og fela hann þrenningunni patri et fili et spiritus sankti. Haldiði að það sé nú munur.


Vésteinn Valgarðsson (meðlimur í Vantrú) - 18/05/11 17:56 #

Það er nú klárt mál að krossmark ásamt kíníni eða penisillíni gerir meira gagn en framliðin hænsni.


Miniar - 21/05/11 12:43 #

Það sem mér finnst sorglegt er að trúarinnar menn skuli í raun felast með hversu trúarlegt og "galdra"-legt þetta allt er.

Ég er ekki trúlaus (en ekki kristinn), en ég geri greinamun á því sem ég veit og því sem ég trúi. Prestarnir "vita" að það sem þeir gera er að lesa og fara með handahreifingar, en þeir "trúa" að þeir séu að gera meira en bara það. Að þeir skuli ekki geta viðurkennt þessa trú sýnir að þeir eru meðvitaðir um muninni milli trúar og vitneskju og að þeir skammist sín fyrir að trúa í stað þess að vita þegar fless trúarbrögð kalla á svo mikið traust á trúna að fólk eigi að "vita" í stað þess bara að trúa. En þeir geta ekki vitað, bara trúað, og þá verður þessi togstreita til.

Ef fólk gæti gert þennann greinarmun þá myndu engir árekstrar lengur verða á milli hina ýmsu trúa, né við trúlausa, tel ég allavegana, því þá myndum við læra að gera það sem við vitum að er rétt fyrst og fremst, en þeir sem vilja myndu kanski líka gera eitthvað sem þeir trúa að sé rétt fyrir þá sjálfa líka.

... ef þetta meikar sens.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 22/05/11 14:26 #

Á Facebook síðu ríkiskirkjunnar er búið að setja inn þessa særingarþulu (sem þau kalla bæn) eftir Kristján Val Ingolfsson.

Þegar æðandi kraftar eldsins
úr iðrum jarðar,
þrýsta öskunni til himins
breiða hana yfir byggðirnar,
byrgja auglit sólar,
fela angan jarðar ,
og fylla vit alls sem andar,
áköllum við þig ó, Guð
um miskunn.

Þú, sem í árdaga bast höfuðskepnurnar
og breyttir óskapnaðinum í sköpun
við biðjum þig,
Kom í mætti þínum
og beisla óhemjuna,
svo að aftur verði kyrrð og friður á jörðu,
ullin verði aftur hvít
og jörðin græn
og fólkið gangi til iðju sinnar
í öruggu trausti,
til verndar þinnar
og varðveislu
í frelsaranum Jesú Kristi.
Amen.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.