Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fáguð eða fáránleg trú?

Prestar

Stundum er því haldið fram að trúleysingjar séu almennt að ráðast á einhverja gerviútgáfu af kristni, að þeir séu bara að gagnrýna fáránlegar útgáfur af kristni, en láti fágaða kristni vera. Ástæðan fyrir þessu vali er stundum sögð vera sú að “bókstafstrúin” er auðveldara skotmark. Þetta finnst mér fráleitar ásakanir.

Eru kirkjunar fágaðar?

Ef maður skoðar hvað stærsta kirkjan á Íslandi, ríkiskirkjan, boðar (til dæmis í fermingarefni, játningunum og Alfa-námskeiðinu), þá er þar gamla, góða, fáránlega kristnin.

Þar er boðað að það sé til ósýnileg andavera sem hægt er að tala við, að forsprakki sértrúarsafnaðar fyrir 2000 árum síðan sé þriðjungur þessarar ósýnilegu persónu, að þessi költleiðtogi hafi þurft að deyja af því að fólkið hlýðir ekki ósýnilegu persónunni, og að sami maður hafi síðan risið upp frá dauðum. Allt þetta og meira til er boðað þar.

Svo þarf ekki að leita lengi til að finna ríkiskirkjupresta koma með alls konar rugl sem verður seint flokkað sem virðingarverð og djúphugsuð útgáfa af kristni. Þeir tala um að guðinn þeirra sé að stjórna náttúruhamförum (nú á dögum virðist hann oftar koma í veg fyrir þau frekar en að orsaka þau), og í nýliðnum kosningabaráttu biskupsefna ríkiskirkjunnar sagði einn þeirra að djöfullinn væri útskýringin á bölinu í heiminum [1].

Hvar er fágaða fólkið?

Því skal ekki neitað að það eru til einstaka prestar og guðfræðingar sem eru með afskaplega sérstakar og ruglingslegar útgáfur af kristni. Samkvæmt þeim þá var Jesús bara maður, biblían bara samansafn af hugleiðingum fornaldarmanna, þrenningin bull og guð er jafnvel ekki til.

Það er eflaust rétt að þetta er ekki jafn auðvelt skotmark, einfaldlega af því að þarna er mikið af ruglinu afneitað. En hvers vegna ættu trúleysingjar að eyða tíma sínum í að hrekja einhverjar þokukenndar útgáfur af kristinni trú sem einhverjir örfáir atvinnutrúmenn aðhyllast, í staðinn fyrir að einbeita sér að því sem að flestir trúmenn trúa í raun og veru á?

Ófáguðu prestarnir

Þeir trúmenn sem telja sig hafa fágaða trú ættu bara sætta sig við það að við trúleysingarnir tökum loftkastalana þeirra ekki alvarlega einfaldlega af því að það hafa svo fáir þessa meintu fáguðu trú. Í staðinn fyrir að kvarta yfir athyglisleysinu ættu þeir kannski að leggja hönd á plóginn í að ráðast gegn allri þeirri vitleysu sem gegnumsýrir íslenskt þjóðfélag.


[1] Sjá hér: “Hvernig útskýrir þú hið illa. Bölið í heiminum? Með tilvist þess sem getið er í Jóh. 12:31” Í Jóh 12:31 er talað um “höfðingja þessa heims”, sem er djöfullinn sjálfur.

Sjá einnig: Forðast "nýju trúleysingjarnir" "raunverulegu rökin"? eftir Edmund Standing

Hjalti Rúnar Ómarsson 11.07.2012
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


gös - 11/07/12 12:41 #

Skv. svörum nýkjörins Biskup Íslands við spurningum Guðmundar Pálssonar.

9. Hvað er sannleikur?

Það sem ég tel og það sem mér finnst er sannleikur fyrir mér. Það sem þú telur og það sem þér finnst er sannleikur fyrir þér. Það gildir ekki endilega fyrir aðra.

11. Hvernig útskýrir þú hið illa. Bölið í heiminum?

Með tilvist þess sem getið er í Jóh. 12:31

33. Hvaða orð úr Ritningunni verða einkunnarorð þín í embætti?

Einkunnarorð mín í núverandi embætti og lífi eru úr Orðskviðunum 3:5 „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit“.

Jóh. 12:31 fjallar að sjálfsögðu um Satan, eins og getið er að ofan.

Í öðrum orðum: Sannleikur er huglægur, Satan er til, treystu Guð en ekki eigin gáfum.

Frábær boðskapur.


Kristinn - 11/07/12 12:53 #

Sæll Hjalti

Klassískt stef hér á ferð. Auðvitað boða prestar oft mikið af þeirri trú sem margir trúleysingjar gagnrýna. Síðan skilst mér að sumir prestar fái stundum samviskubit eftir að hafa gerst dálítið líbó trúmenn og taki þá skeið í örlítið meira bókstaflegri trú. Þannig gangi þetta í bylgjum.

En það sem ég held að gangi oft á þegar fólk er að kalla gagnrýni trúleysingja strámann er að litið er á trúarbrögðin sem (tiltölulega) meinlausan "placeholder" fyrir persónugerðan vilja til góðs. Þá er allt kristilega umstangið bara pakki af hefðum og háatíðlegum hugmyndum sem fólki þykir góð hvatning til hins góða lífs í Aristótelískum anda.

Þannig vilja menn fá að fullyrða allskyns þvælu um líf Jesú og merkingu biblíunnar án þess að horfast í augu við mótsagnirnar, því leikurinn sjálfur er talinn álitlegur farvegur hegðunar sem leiði til aukins sjálfsaga og þess háttar - hvort sem það er rétt eða ekki.

Ég giska á að þetta sé drjúgur hluti af því sem trúfólki þykir nýtrúleysið blint á. Fyrir fólki sem tekur þátt í leiknum af þessum ástæðum og telur jafnvel mjög hreinskipta umræðu um það skemma leikinn getur gagnrýni trúleysingja á trúarbókstafinn, einstaka presta eða afmarkaðar hefðir virkað óttalega vanhugsuð - án þess að ég sé að segja að hún sé það.

Hugsanlega mætti draga úr þessum ásökunum um strámenn með því að gera oftar grein fyrir skilningi á þessum þáttum meðfram áminningum um hve froðukennd kristni og önnur trúarbrögð geta verið?


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 12/07/12 06:28 #

Svo fólk vill fá að fullyrða hluti sem það veit að er rangt og þykir svo þeir sem gagnrýna þær fullyrðingar ekki fatta afhverju það er verið að fullyrða það? Svo við erum að skemma fyrir fólki sem vill vera óheiðarlegt við sjálft sig því það telur það geri það að betra fólki?

Og þér þykir ástæða fyrir okkur að koma til móts við þennan vitsmunalega óheiðarleika?


Kristinn - 12/07/12 08:46 #

Nei nei, mér finnst ekki ástæða til að koma til móts við þetta frekar en fólk vill. Í greininni var hinsvegar verið að fjalla um þessa klassísku ásökun um strámann og ég held að þetta sé oft skýringin á þeirri ásökun.

Og ef menn eru þreyttir á ásökuninni og vilja fá önnur viðbrögð við gagnrýni sinni má þó vera að það geti virkað vel að gera grein fyrir þessum sálmum.

Sem sagt vangaveltur um orsakir og mögulega lausn, en ekki yfirlýsing um hvað skuli gera eða finnast.


Haukur Ísleifsson (meðlimur í Vantrú) - 12/07/12 12:05 #

Þakka þér hugulsemina Kristinn. En ég held satt best að segja að þú sért að ofhugsa þetta.


Kristinn - 12/07/12 12:59 #

Þetta er reyndar alls ekki eitthvað sem ég er að finna upp, heldur nokkuð sem trúmenn segja mér berum orðum og trúarbragðafræðingar hafa bent á. Ég er bara að umorða, svo ekki eigna mér heiðurinn.

En hvort akkúrat þetta sé lýsandi fyrir hugsun marga sem saka ykkur um að ráðast gegn ófágaðir trú er önnur spurning. Kannski er það alls ekki tilfellið.


Árni Árnason - 30/07/12 17:49 #

Öllu má nú nafn gefa. Fáguð trú. Jújú það má svosem til sanns vegar færa að það sé einhvers konar fæging að taka trúarbrögð sem samanstanda af bulli, bábiljum, lygi og fáfræði og svo auðvitað smá skammti af kærleika og mildi, og kynna þau upp á nýtt eftir að búið er að brjóta, skrapa, skafa, slípa, og fægja af þeim skafankana og skilja bara eftir kærleikann, sem býr jú innra með flestum vel meinandi og hugsandi manneskjum. En er það þá "Kristni" að slíta og henda flestöllum blaðsíðunum úr Biblíunni, hlæja góðlátlega að allri gömlu fáfræðinni og kalla restina fallegar dæmisögur ??

Nei, við skulum ekki láta draga okkur á asnaeyrunum lengur. Við vitum vel að það trúir ekki nokkur maður þessari þvælu lengur, ekki einu sinni prestar og biskupar. En eitthvað haldreipi verða þeir að hafa til að geta haldið sínum "milljón á mánuði" launum.

Að örfáum trúarnötturum undanskildum eru langflestir sem játa svokallaða "barnatrú" ( trú á börn eða trú fyrir börn ?)

Trúarpostular eiga í verulegum tilvistarvanda. Þeir þurfa að velja á milli þess að trúa öllum pakkanum og vera álitnir tröllheimskir, eða boða trú sem þeir trúa ekki sjálfir til að halda flottu laununum fyrir þægilegt innistarf. Þeir redda sér fyrir horn með því að draga í land með það allra fáránlegasta og gerast atvinnu-gæðablóð í mislitu silki. Fágun ? Eigum við ekki frekar að segja hræsni í fægðum umbúðum.


bjarney - 09/12/12 12:36 #

hvernig væri að fara að trúa á sjálfan sig!! fyrsta skref í rétta átt!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.