Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Svindlað á sólskinsdrengnum

Sólarlag

Meginþungi heimildarmyndarinnar Sólskinsdrengurinn fer í að kynna HALO meðferðarstofnunina og aðferðir hennar sem nefnast Rapid Prompting Method (hér eftir RPM). Höfundur þessarar tækni, Soma Mukhopadhyay, segist hafa kennt einhverfum syni sínum að tjá sig með þessari aðferð. Þau hafa meira að segja gefið út bækur undir hans nafni.

Soma Mukhopadhyay og RPM

Meðferð Somu gengur út á það að kenna börnum að velja og tjá sig með því að skrifa. Börnin sem hún fær til meðferðar geta ekki tjáð sig. Það er að segja, þau kunna ekki að hafa tjáskipti, hvorki með tal- eða táknmáli.

Í meðferðinni eru börnin spurð að einföldum spurningum. Til dæmis: „Ferhyrningur hefur fjórar hliðar. Hvað sagði ég? Þrjár eða fjórar?“. Þá á barnið að velja rétta svarið úr tveimur möguleikum, í þessu tilfelli 3 eða 4. Og hókus pókus, barnið velur rétta svarið með því að benda á rétta tölustafinn.

Eftir smá stund getur barnið farið að svara opnum spurningum eins og „hvernig hefur þú það“ eða „hvað finnst þér um allt þetta fólk með myndavélar“. Börnin virðast ekki í neinum vandræðum með að svara. „Ég skil vel þessa myndatökumenn, ég er svo myndarlegur“.

Þessum opnu spurningum svara börnin á sérstöku stafaspjaldi. Börnin benda á stafina sem mynda orðin sem mynda setningarnar sem börnin segja. Það er ekkert smáræði sem þessi börn virðast kunna. Ekki bara orðin, heldur líka stafina, hvernig stöfunum er raðað saman til þess að mynda orð, hvernig orðin eru beygð og hvernig á að mynda setningar. Sólskinsdrengurinn sjálfur virtist í þokkabót kunna fullkomna ensku og beygði meira að segja allar sagnir rétt. Kraftaverk! Eða hvað?

Nokkrar vafasamar vísbendingar

Þetta brýtur auðvitað í bága við heilbrigða skynsemi. Það hefur engum nokkurn tíman tekist að kenna nokkrum að tjá sig á jafn skömmum tíma og Soma segist gera. Hvorki einhverfum né heilbrigðum. Þetta er fyrsta vísbending um að ekki sé allt með felldu.

Önnur vísbending um að ekki sé allt með felldu er að börnin horfa ekki alltaf á stafaborðið þegar þau velja (ef þið trúið mér ekki horfið þá á myndina. Ef þið hafið séð myndina horfið þá á hana aftur með þetta í huga). Það er mjög erfitt að velja stafi af svona borði án þess að horfa.

Þið getið sannreynt þetta sjálf fyrir framan tölvuna. Horfið burt frá lyklaborðinu. Haldið einum fingri fyrir ofan lyklaborðið. Veljið síðan bókstaf til þess að ýta á (til dæmis J eða R) og reynið því næst að ýta á hnappinn. Það er nánast ómögulegt, sama hversu góður þú ert í vélritun.

Þriðja vísbending er að á áttunda áratugnum fann Rosemary Crossley upp nákvæmlega sömu aðferð og kallaði hana Facilitated Communication (hér eftir FC). Eini sjáanlegi munurinn á þessum tveimur aðferðum er að í FC heldur leiðbeinandinn í hönd einhverfa barnsins en stafaborðið er kyrrstætt.

Í RPM bendir barnið sjálft á stafina en leiðbeinandinn heldur á stafasborðinu. Undir báðum kringumstæðum er mjög auðvelt að stjórna því hvaða stafi barnið velur. Í FC getur leiðbeinandinn auðveldlega stýrt höndum barnsins og í RPM getur hann auðveldlega stýrt stafaborðinu. Það er rétt að rekja stuttlega sögu FC til þess að varpa ljósi á hvað er bogið við RPM.

Tjáning með leiðbeinandi aðstoð

Eins og í RPM virtist FC í fyrstu skila mjög miklum árangri. Börn sem gátu ekki tjáð sig gátu sagt við foreldra sína að þau elskuðu þá, þau gátu skrifað ljóð og jafnvel heilu bækurnar. Alveg eins og í RPM. Því miður reyndist FC ekki vera á rökum reist. Þvert á móti kom í ljós að það voru leiðbeinendurnir sem stjórnuðu svörum barnanna.

En hvernig er eiginlega hægt að komast að því hvort svörin koma frá leiðbeinendunum eða frá börnunum? Það er einfalt. Svo einfalt að það er eiginlega vandræðalegt að þurfa að segja það. Leiðbeinendurnir eru auðvitað spurðir að spurningum sem einhverfa barnið ætti að vita svarið við en leiðbeinendurnir vita ekki svarið við. Ef leiðbeinandinn getur fengið einhverfa barnið til þess að svara rétt, oftar en tilviljun myndi spá fyrir um, hefur barnið lært að tjá sig með þessari tækni. Ef ekki, þá er leiðbeinandinn að búa til svörin.

Athuganir af þessu tagi voru gerðar á FC. Í einni slíkri tilraun voru bæði einhverfu börnin og leiðbeinendurnir með heyrnatól. Þá voru einhverfu börnin spurð að spurningum í gegnum heyrnatólinn. Leiðbeinandinn heyrði í helmingi tilfella spurninguna en hinn helming tilfella heyrði hann tónlist en ekki spurninguna.

Þegar leiðbeinandinn heyrði spurninguna svaraði barnið spurningunni vel. Gott og vel. En þegar leiðbeinandinn heyrði ekki spurninguna voru svör barnanna í ósamræmi við spurninguna. Með öðrum orðum: Leiðbeinandinn bjó til svörin, ekki börnin.

Að tala fyrir aðra

Önnur tilraun var gerð þar sem bæði barni og leiðbeinanda var sýnt spjald með mynd. Barnið gat auðvitað alltaf skrifað hvað var á myndinni þegar leiðbeinandinn og barnið sáu sömu myndina. En hvað haldið þið að hafi gerst þegar barninu var sýnd önnur mynd en leiðbeinandanum án þess að leiðbeinandinn vissi? Jú, þá skrifaði barnið nafnið á myndinni sem leiðbeinandinn hafði séð!

Þessi seinni tilraun er sláandi og var sýnd í heimildarmynd sem hét Prisoners of Silence. Það sem kom mest á óvart í þessari mynd voru viðbrögð leiðbeinendanna þegar þeir sáu niðurstöðurnar. Þeir voru í sjokki. Þeir grétu jafnvel. Þeir voru ekki að svindla heldur trúðu því í raun og veru að þeir væru að hjálpa börnunum að tjá sig. Hvernig má það vera?

Líklegasta skýringin á þessu er það sem er kallað andaglas-áhrifin (Ouija effect / ideomotor effect). William Benjamin Carpenter var sennilega fyrstur til þess að tala um þessi áhrif árið 1852.

Sálfræðingurinn Ray Hyman hefur nýlega gert nokkrar merkilegar tilraunir á þessum áhrifum. Hann tók sér tvo prjóna í hönd og sagði nemendum sínum að hann gæti fundið vatn með þeim. Þegar prjónarnir krossuðu átti að vera vatn fyrir neðan þá. Hann gekk svo með prjónana um herbergið og á ákveðnum stað krossaði hann vísvitandi prjónana og sagði að greinilega væri vatn fyrir neðan hann. Þá færði hann sig og afkrossaði prjónana á sama tíma.

Hann lét svo nemendur sína prófa. Þeim til mikillar furðu krossuðu prjónarnir á nákvæmlega sama stað og hann hafði krossað. Nemarnir höfðu krossað prjónana án þess að átta sig á því að þeir hefðu gert það. Þannig virka andaglass áhrifin. Fólk býst við einhverju og hreyfir sig ósjálfrátt og í samræmi við það. Andaglass áhrifin eru auðvitað nefnd eftir andaglasi. Þess má til gamans geta að fjöldi fólks hefur skrifað ljóð og bækur í andaglasi, alveg eins og Tito sonur Somu skrifar ljóð og bækur í gegnum RPM.

Skaðlegar skáldsögur

Margir hafa haldið því fram að þó að FC virki ekki þá sé það nú ekki skaðlegt. Þetta er alrangt. Í fyrsta lagi eru foreldrar barna sem fá þessa gervimeðferð líklegir til þess að hætta annars konar meðferð sem myndi gagnast börnunum. Það er jú engin ástæða til þess að halda áfram annarri meðferð ef barnið getur skrifað heilu skáldsögurnar.

Í öðru lagi hafa komið upp ljót tilvik þar sem foreldrar einhverfra barna hafa verið sökuð um kynferðisofbeldi vegna frásagna gegnum FC leiðbeinanda. Feður einhverfra barna hafa jafnvel þurft að dúsa í fangelsi mánuðum saman og eyða stórfé í málsvörn vegna slíkra ásakana. Sem betur fer hefur slíkum ákærum þó verið vísað frá rétti á endanum. Í þriðja lagi er það bara ljótt að plata fólk til þess að kaupa dýra meðferð sem virkar ekki.

Soma heldur því þó fram að RPM sé önnur meðferð heldur en FC. Ég fór þess vegna að leita mér upplýsinga í ýmsum gagnabönkum um árangur af RPM. Hvað haldið þið að ég hafi fundið margar ritrýndar greinar um RPM? Ekki eina einustu! Það hefur ekki verið gerð ein einasta rannsókn á þessari meðferð!

Þess vegna legg ég til að Soma sýni okkur fram á að hún sé ekki sjálf að svara spurningum sínum. Það væri hægt til dæmis með því að endurtaka tilraunirnar sem afsönnuðu FC. Ég er meira að segja með bónus tilraun sem væri hægt að gera. Látið barnið fá heyrnatól þar sem hægt er að gefa því skilaboð án þess að Soma heyri, og án þess að Soma sjái þann sem gefur skilaboðin. Látið svo tölvu velja tölur milli 0 og 100, þúsund sinnum í handahófskenndri röð. Soma reynir svo í hvert skipti að fá barnið til þess að segja sér hvaða tölu það heyrði. Ef ég hef rétt fyrir mér og tilviljun ræður svörum Somu þá ætti hún að gera rétt um það bil 10 sinnum en rangt um það bil 990 sinnum. Ef það eru börnin sem gefa Somu svörin þá ætti hún að geta rétt miklu oftar.

Sönnunargagnsdrengurinn

Það er engin ástæða til þess að trúa því að Soma kenni börnunum að tjá sig fyrr en hún hefur sýnt fram á það í tilraunaaðstæðum. Þvert á móti eru mjög góðar ástæður til þess að efast um þessa aðferð. Spurningin er bara: Þorir Soma að gangast undir slíka rannsókn? Og er Friðrik Þór Friðriksson tilbúinn að mæta á svæðið og gera heimildarmynd um það?


Ítarefni:
Ályktun APA 1994
Halo-Soma stofnunin
Prisoner of Silence: heimildarmyndin og handritið af myndinni

  • Dillon, K. M. (1993). Facilitated Communication, Autism, and Ouika. The Skeptical Inquirer, 17, 281.
  • Gardner, M. (2001). Facilitated Communication: A cruel farce. The Skeptical Inquirer, 25, 17.
  • Gorman, B. J. (1998). Facilitated Communication in America: Eight years and counting. Skeptic, 6, 64.
  • Mulick, J. A., Jacobson, J. W. og Kobe, F. H. (1993). Anguished silence and helping hands: Autism and Facilitated Communication. The Skeptical Inquirer, 17, 270.
  • Nakajima, S. (2003) The “Miracle Poet” Case: Japanese media fooled by the doman method and facilitated communication. The Skeptical Inquirer, 27, 12.
  • Norton, L. (2006). Facilitated Communication and the Power of Belief: How Time magazine got it wrong. Skeptic, 12, 14.

Greinin birtist upprunalega á heimasíðunni Húmbúkk veturinn 2009 og birtist hér á Vantrú örlítið uppfærð

Þórður Örn Arnarson 09.05.2012
Flokkað undir: ( Efahyggja , Kjaftæðisvaktin )

Viðbrögð


Guðmundur Brynjólfsson - 09/05/12 13:59 #

Þetta er ansi hreint merkileg yfirferð hjá þér. Og satt best að segja sláandi. Ég hef svo sem ekki skoðað myndina út frá þessum sjónarmiðum en maður ætti kannski að kíkja á hana aftur.


Þórður Örn Arnarson - 09/05/12 14:57 #

Já, ég mæli með því að þú horfir líka á Prisoners of Silence. Þar er gerð mun ítarlegri grein fyrir FC og það er miklu meira sláandi að horfa á hana heldur en að lesa þennan texta. Hún er í fjórum hlutm á youtube og þú getur séð fyrsta hlutann hér:http://www.youtube.com/watch?v=HXw8Ksvyt5Y


Friðrik Þór Friðriksson - 09/05/12 17:05 #

[Athugasemd lagfærð. Ekki er hægt að setja myndbönd inn í athugasemdir. Vísanir verða að duga. - ritstjórn]

http://www.youtube.com/watch?feature=player_embedded&v=Wvn7kYJyOFM


Friðrik Þór Friðriksson - 09/05/12 17:34 #

Sorglegt að sjá hvað margir læka þessa mannfyrirlitningu sem felst í þessum pistli. Þorkell Þorsteinsson er núna í skóla með jafnöldrum sínum og gengur vel þökk sé Sómu og hennar aðferðumm sem hafa gert fjölmörgum kleift að losna úr fjötrum einangrunar. Það er meira en steinaldaaðferðirnar sem þið aðhyllist.

PS: FC, þar sem haldið er í hönd barnsins, á lítið við skylt RPM.

Svo ráðlegg ég bara öllum að kíkja í biblíuna, Jóhannes;12, kaflann "Vantrúin myrkur, trúin ljós", sérstaklega:

Hann hefur blindað augu þeirra og forhert hjarta þeirra, að þeir sjái ekki með augunum né skilji með hjartanu og snúi sér og ég lækni þá

Kær kveðja og von um sálarheill, ykkur til handa.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 09/05/12 17:40 #

Ekki veit ég þér tekst að sjá mannfyrirlitningu í pistlinum.

Það má vel vera að aðferðir Sómu virki, en ég neita því ekki að það voru atriði sem trufluðu mig við að horfa á myndina.

Og mér er eiginlega alveg óskiljanlegt hvers vegna ekki er hægt að gera einfalt próf til að skera úr um hvort þetta virkar.

Þá verður þetta nefnilega staðreynd og hættir að snúast um trú eða vantrú.

Það eykur tortryggni verulega þegar fólk kemur sér undan því að gera eðlilegar prófanir á virkni hlutanna.


Andrés - 09/05/12 18:38 #

Friðrik, finnst þér virkilega ekki smá hringlókík í því fólgin að segja "Vantrúar menn eru vitlausir að trúa ekki á biblíuna, því biblían segir að þeir sem trúi ekki á biblíuna séu vitlausir."?


Jón Steinar - 09/05/12 23:37 #

Ég verð að taka undir með Friðriki að því marki að mér finnst undirtónn geinarinnar fordæmandi og augljóst að höfundur hefur myndað sér neikvæða skoðun á efninu byggða á heimildarmynd á youtube. Það virðist engu að síður vera staðreynd að drengurinn hefur tekið tröllauknum framförum, hverju sem það er að þakka og því finnst mér að menn megi halda opnum huga án þess þaó að heilinn detti út. Ég er á hinn bóginn sammála því að þetta verði rannsakað á hlutlausan hátt, en ég hef það á tilfinningunni að menn hafi talsvert neikvæð markmið að leiðarljósi ef þeir leggja upp með að afsanna þetta. Ljóst að menn muni móta aðferðafræðina eftir því líkt og James Randy gerir t.d. í tilfellum yfirnáttúru. Margir leita örvænt eftir leiðum til að frelsa þessi börn úr höftum og víst er að sumt orkar tvímælis og annað á eftir að rannsaka frekar. Það er ljóst að margt virðist sýna ótrúlegan árangur og ég spyr mig þá hvort það eru einhver Placebo áhrif í gegnum lækninn sjálfann sem ráði því? Er verið að íja að einhverjum slíkum fáránleika hér. Ein aðferð sem sýnir árangur er hyberbaric chamber þar sem börn eru sett í þrýstiherbergi með yfirskammti af súrefni og það virðist gera skammvinn kraftaverk. Margir hafna þessu þó án þess að geta sýnt fram á gagnrök. Börn byrja að tala, faðma foreldra sína og sýna ótrúlega framför eftir slíka meðferð, en svo bráir þetta af og börnin hverfa í sama farið aftur. Sumir segja þó smástiga framför eftir meðferðina. Þetta er ekki leyft víða af því að menn skilja ekki enn hvað er á ferð og telja að það þurfi frekari rannsóknir. Börnin mega þjást þar til vísindunum tekst að skilja hvað er á seyði. Það er þó takmarkaður áhugi fyrir því að leggja peninga í slíkar rannsóknir af því að þetta er lítill "markaður". Kannski er áhugaleysið og fordæmingin vegna þess að ekki er hægt að þróa dýr lyf til að hagnast á. Hver veit. En m´´er finnst allavega að akademían sé á mörkum hins siðlega í þessari militant sceptic nálgun í mörgum tilfellum.


Þórður Örn Arnarson (meðlimur í Vantrú) - 10/05/12 00:13 #

Jón Steinar, ég er bara að kalla eftir einu einföldu prófi. Prófið er einfalt, það hefur verið gert áður og það eru til prótókolar fyrir því. Þetta próf myndi taka allan vafa af því hver er að tjá sig, en hins vegar hefur ekki verið sýndur neinn vilji til að framkvæma það.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 10/05/12 01:03 #

Er það ekki fyrst og fremst titillinn sem er að trufla, Jón Steinar? Sem ég get tekið undir að er ekki heppilegur, það er ekki tilefni til að fullyrða að eitthvert svindl sé í gangi. Bæði má svo sem vel vera að þetta virki og þar fyrir utan kannski líklegt að þó svo sé ekki þá séu þeir sem að þessu standa í góðri trú.

En innihaldið er kannski hversu auðvelt væri að ganga úr skugga um þetta með einföldu prófi.


Ragnar (meðlimur í Vantrú) - 10/05/12 02:47 #

Tek undir að heimildarmyndin Prisoners of Silence er virkilega sláandi. Einhver áhugaverðasta heimildarmynd sem ég hef. Sýnir einmitt hvernig einfaldar tilraunir urðu til þess að taka af allan vafa um að FC virkaði gegnum andaglas-effektinn, sem er engu að síður lygileg niðurstaða því maður vill eiginlega ekki trúa að fólk geti blekkt sjálft sig á svona einfaldan hátt.


Þórður Örn Arnarson (meðlimur í Vantrú) - 10/05/12 08:27 #

Valgarður, segjum sem svo að ég sé að selja nýtt lyf við krabbameini. Ég fullyrði að það sé miklu betra en önnur krabbameinslyf og að það breyti gjörsamlega lífi krabbameinssjúklinga. Hins vegar hef ég engar rannsóknir með mér sem sýna fram á þennan undraverða árangur og ég neita að gera þær grunnrannsóknir sem þarf að gera til að árangursmeta krabbameinslyf. Væri þá full langt gengið að kalla þetta lyf svindl?


Friðrik Þór Friðriksson - 10/05/12 09:34 #

Andrés það er er vit í því. En Valgarður og Þórður þið skiljið ekki að einhverfa er einstaklingsbundinn. Það sem virkar fyrir Kela virkar ekki á alla einhvefa. Það er í mörgum tilfellum hjápar eitthvað að breyta um mataræði og nýlegar rannsóknir benda til að kanabisneysla virki vel fyrir ákveðna tegund einhverfu. Þess vegna verður aldrei framleitt lyf sem virkar fyrir einhverfu og af sömu ástæðu er próf á aðferðum Sómu líka marklaust. Dæmin sanna að þau virka á ákveðna einsklinga sem er blessun fyrir þá en er engin alsherjar lausn á einhverfu. Keli gengur núna í skóla með svokölluðum heilbrigðum jafnöldrum sínum og hann er með þeim bestu hvað einkunnir varða 3.8 af 4. Það sem ég kalla t.d. mannfyrirlitningu í þessum pistli er að efast um að Keli skilji ensku. Það er sama og að segja að hann skilji ekkert í umhverfu sínu. Þetta eru algengustu fordómar fólks á einhverfum einstaklingum og ástæðan að samfélagið sættir sig við að halda þeim föngnum í eigin líkama. Friðþægingin fellst í því að búa til fagra leikmynd til handa þessum einstaklingum í stað þess að frelsa þá líkt og Sóma reynir að gera. Kær kveðja F


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 10/05/12 10:03 #

Þórður, ég hefði notað annað hugtak, eða sett spurningamerki, að minnsta kosti ef ég væri að gagnrýna umfjöllun um lyfið en ekki þann sem er eða selja.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 10/05/12 10:10 #

Gott að heyra að þú ert kominn úr biblíugírnum Friðrik. Það hefði mín vegna mátt sleppa þessu með enskuna og umhverfið, en ég skildi þetta sem vangaveltur og ástæðulaust að tala um mannfyrirlitningu - og það voru önnur atriði sem kveiktu efasemdir hjá mér.

Ég veit að einhverfa er mjög mismunandi, jafnvel ekki alltaf skýrar línur. Það er samt auðvelt að gera þessi próf, sem Þórður leggur til, fyrir hvern einstakling fyrir sig. Og ég skil eiginlega ekki hvers vegna þetta er ekki gert. Mögulega kæmi það einfaldlega mismunandi út fyrir einstaklinga. En það fengist þá úr því skorið fyrir hvern og einn hvort þessar aðferðir henta honum.


Friðrik Þór Friðriksson - 10/05/12 10:27 #

Valgarður Sóma prófar alla þá sem leita til hennar og hún segir hreint út hvort hún geti hjálpað. Þetta sést vel í myndinni. keli er t.d. örfhentur sem hentar verr, því talstöðin er í vinstra heilahveli og því átti hann ekki jafnauðvelt með að benda á stafina einsog þeir sem eru rétthentir. Mannfyrirlitningu kalla ég það þegar fólk er með dylgjur um það að einstaklingar geti ekki hitt eða þetta vegna fötlunar kv F


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 10/05/12 10:46 #

Það sést ekkert próf sambærilegt við það sem Þórður nefnir. Þetta er einfalt próf og tekur af allan vafa.

Ég skil enn ekki hvað mælir á móti þessu.

Ég las enga mannfyrirlitningu úr þessum atriðum, einungis að þetta hefði kveikt spurningar.


Þórður Örn Arnarson (meðlimur í Vantrú) - 10/05/12 10:55 #

Það er algengur misskilningur að einhverfir séu fangar í eigin líkama. Þetta er einmitt sami misskilningur og er í FC. Það var síðan athugað með einföldu prófi sem ég fjalla um í greininni hér að ofan og stóðst ekki. Ef það er þannig í raun og veru að einhverfir eru fangar í eigin líkama þá er það ábyrgðarhluti þeirra sem halda því fram að sýna fram á það. Það myndi breyta öllu í meðferð einhverfra ef það væri hægt að sýna fram á þetta. Þess vegna verður eiginlega að gera þetta próf og ég skil ekki hvers vegna þú ert mótfallinn því.


Þorgeir Tryggvason - 10/05/12 14:14 #

Ég hnýt um setninguna "Það er algengur misskilningur að einhverfir séu fangar í eigin líkama". Þetta orðalag hlýtur að vera líkingamál, og því snertipunktalaust við mat á hvort um misskilning sé að ræða. Annars væri gaman að sjá lýsingu á prófi sem metur hvort fólk er fangar í eigin líkama eður ei :)

Ef þú átt við að aðferðin sem lýst er í greininni (og trúlega í myndinni, hef ekki séð hana) þurfi að standast umrætt próf, þá finnst mér það sanngjörn krafa. En ef einhverft fólk sem gengið hefur í gegn um RPM-prógrammið og nær eftir það augljósum og mælanlegum framförum, sem Friðrik lýsir hér að ofan, er það ekki líka vísbending um að eitthvað sé að virka?


Þórður Örn Arnarson (meðlimur í Vantrú) - 10/05/12 14:58 #

Jú það væri það ef við vissum hvor er að svara leiðbeinandinn eða sá einhverfi. Prófið gengur út á að tékka á því.


Friðrik Þór Friðriksson - 10/05/12 15:15 #

Þórður Þú ættir að reyna að setja þig í spor þess sem skynjar umhverfi sitt en getur ekki tjáð sig um það. Þannig var Keli þegar hann hitti Sómu fyrst. Enginn hafði hugmynd um hvað hann var í raun að skynja úr umhverfi sínu. Ef þú kallar það ekki að vera fangi í eigin líkama þá ættir þú ekkert að vera að tjá þig um einhverfu því þá skynja ég þig ekki einungis haldin mannfyrirlitningu heldur mannvonsku á háu stigi. Tilraunin sem þið staglist á sýnir misskilning ykkar á útá hvað RPM gengur. Skoðið myndina aftur hún svarar ykkar vantrú ef þið kjósið að lifa í ljósinu kv F


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 10/05/12 15:45 #

Þetta truflar mig reyndar við myndina. Ég hefði búist við "Við ákváðum að sannreyna aðferðir Sómu..." en sá kafli kom aldrei.

Ég skil ekki enn hvað mælir á móti prófi eins og Þórður leggur til. Þetta tal um misskilning með próf gengur ekki upp. Þetta er einfalt og sýnir hvaðan svörin koma. Ekki ertu að halda fram að prófið myndi sýna rangar niðurstöður?

Það er heldur ekki traustvekjandi að sjá svör sem ganga eingöngu út á að að gera greinarhöfund tortryggilegan og lítið úr honum.


Friðrik Þór Friðriksson - 10/05/12 18:57 #

Valli ekki gera þér þetta. Aðferð Sómu virkaði í myndinni og einsog margar fleiri aðferðir sem voru kynntar. En skárri er það nú þvermóðskan. Lestu það sem ég hef skrifað og ef þú skilur ekki hvað ég er að fara þá get ég ekki sýnt af mér þá þolinmæði sem Sóma sýnir sínum skjólstæðingum.Kv F


Þórður Örn Arnarson (meðlimur í Vantrú) - 10/05/12 21:10 #

Friðrik, þú verður sjálfur að bera ábyrgð á þinni þolinmæði.


Valgarður Guðjónsson (meðlimur í Vantrú) - 10/05/12 22:04 #

Gera mér hvað, minn kæri?

Mér finnst þú aðeins vera að misskilja og kominn í óþarfa "kappræðuham". Við eigum alveg að geta rætt þetta af viti. En ég vil mjög gjarnan fá staðfestingu á að aðferðin virki. Þessar spurningar og efasemdir eru ekki einhver illkvittni, aðeins að mér finnst mikilvægt að fá staðfestinguna (vil ekki fara nánar út í hvers vegna).

Það myndi styrkja bæði Sómu og alla þessa vinnu ykkar að negla niður að þetta virki.

Því enn skil ég ekki hvað mælir á móti prófi.

Er eitthvað sem segir að svona próf myndi ekki skera úr um hvort aðferðin virkar? Væri ekki einmitt fín hugmynd fyrir Sómu að gera svona próf þegar hún tekur við nýjum einstaklingum?

Mér fannst sláandi að það var skautað yfir þennan þátt, hvarflaði meira að segja að svona próf hlyti að hafa verið gert, en verið sleppt svona sögunnar vegna, þetta hefði þótt óspennandi myndefni.


Jón Steinar - 10/05/12 23:11 #

Til að halda öllu til haga, væri þá ekki sanngjarnt að setja spurningarmerki aftan við fyrirsögnina?

Hún ætti þá jafnvel við fleiri svið, sem m.a. snúa að viðurkenndum lækningaraðferðum. Segjum til dæmis Chemo Therapy við krabbameini, sem er svona universal hrossalækning við flestum tegundum krabba, sem drepur fleiri en hún læknar og í allflestum tilfellum skilur sjúklinginn eftir sem andlegt og líkamlegt flak.

Hvernig væri að þið leggðust í athugun á því sem hefur komist í gegnum nálarauga læknavísindanna. Þessa gömlu drauga sem þóttu lausnir þegar þekkingin var lítil en halda áfram að vera patentlausnin löngu eftir að nærgætnari aðferðir og betur establisheraðar hafa komið fram í dagsljósið.

Ég voga mér hreinlega að segja að lögild morð njóti blessunnar vísindanna á spítölum.

Í leiðinni megið þið svo t.d. skoða hin svokölluðu geðlækningarvísindi og hvernig þeim er sinnt. Ég lofa ykkur því að það fær hárin á hnakkanum til að rísa.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 11/05/12 11:02 #

Jón Steinar, þó þú hefðir rétt fyrir þér varðandi krabbamein og geðlækningar þá skiptir það engu máli varðandi þessa umræðu hér. Það er alltaf hægt að fjalla um eitthvað annað.


sabína - 19/06/12 17:18 #

Einhverfa er engin fjötrun heibrigðs hugsunar. Einhverfa orsakast að mestu leyti af skyntruflunum, sem sagt, að heilinn vinnur öðruvísi úr skynáreitum en hjá fólki sem er ekki með einhverfu og hefur ekkert með mataræði, bólusetningar eða Cóla-drykkju að gera. Það á sér genitisk orsök og er mjög hamlandi í daglegu lífi og þurfa einstaklingar með einhverfu sérstaklega mikla tillitsemi, þólinmæði og umburðarlyndi, en ekki eitthvað hokus pokus sem einhver ætlar að græða á. Af hverju ekki að reyna sömu aðferð við geðklofa? Eða Downs syndrom? Engum dettur það í hug. Hvers eiga einhverfir að gjalda? Og Þorður, ég þakka fyrir ummæli. Sabína, einhverfusérfræðingur

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.