Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vafi ofan á efa

Biblí Dawkins

Nýlega birtist frétt, meðal annars í DV, um að Richard Dawkins teldi ekki að það væri hægt að útiloka tilvist guðs. Í allavega einni grein var því haldið fram að Dawkins væri í raun agnostískur en ekki guðleysingi.

Ekkifrétt og annað rugl

Viðbrögð trúleysingja, meðal annars þeirra sem eru kallaðir "fylgismenn" Dawkins, voru einfaldlega sú að benda á að þetta var í fullu samræmi við allt það sem hann hefði skrifað áður. Sumsé ekkifrétt nema fyrir þá sem hafa algjörlega látið vera að hlusta á eða lesa nokkuð sem Dawkins hefur látið frá sér. Reyndar var hann einfaldlega að vísa í bók sína Ranghugmyndin um guð.

Stóri misskilningurinn er sá að agnostík sé vegur milli guðleysis og guðstrúar. Í langflestum tilfellum er agnostík frekar um þekkingarfræðilegt viðhorf til spurningarinnar um tilvist guðs. Þetta er spurning um hvort endanleg þekking á tilvist guðs sé möguleg. Í stærra samhengi getum við spurt hvort nokkur endanleg þekking á nokkrum hlut sé möguleg. Þeir sem aðhyllast það sem við getum kallað vísindalega efahyggju eru líklega flestir á því að við getum ekki fullyrt endanlega um nokkurn hlut - og efumst þá jafnvel meira en Descartes. Það þýðir þó ekki að við eigum að svara öllum spurningum með endalausum fyrirvörum.

Eðlilegir fyrirvarar

Þegar ég mæli mér mót við einhvern þá set ég stundum fyrirvara með því að segja að ég komi "ef ekkert kemur upp á". Þessi fyrirvari minn er ekki settur út frá almennum vangaveltum um að það geti alltaf eitthvað komið upp á heldur af því að ég tel meiri líkur en venjulega á því að eitthvað gerist sem mun koma í veg fyrir að af stefnumótinu verði. Þekkingarfræðilega er ég alltaf "agnostískur" á það hvort ég geti nokkurn tímann hitt nokkurn mann af því að ég veit vel að ég þekki ekki allar breytur sem gætu komið í veg fyrir það.

Ef ég tæki þennan efa alltaf bókstaflega þá myndi ég svara öllum Facebook-boðum á viðburði með "kannski" möguleikanum. Ég tek hins vegar yfirleitt þá hrokafullu afstöðu að það sé betra að hunsa óþekktan og ólíklegan vafa og segja að ég mæti. Ég gef mér það að þeir sem skipuleggja viðburðinn viti vel að ég geti ekki endanlega fullyrt um hvort ég mæti og telji það betra að ég "reikni út" líkurnar á að ég komi frekar en að ég svari með gagnslausri þekkingarfræðilegri efahyggju.

Ég er ekki viss um að það væri betra ef Facebook myndi leyfa manni að svara á skala þar sem á öðrum endanum er möguleikinn "mæti ekki ef ég get mögulega komist hjá því" og hinum endanum er möguleikinn "ég tel allar líkur á að ég komi". Það myndi til dæmis ekki hjálpa þeim sem þarf að fá lánaða stóla til að allir geti setið. Lykilhugtakið er orðið "líkur". Þegar ég met hvort eitthvað sé satt og rétt þá er það hálfgerður reikningur þar sem ég hugsa út frá líkum. Er þetta líklegt eða ólíklegt? Ganga þessi rök upp?

Oft á tíðum getur maður eiginlega hunsað möguleika ef þeir eru mjög ólíklegir út frá þekkingu manns á því hvernig heimurinn virkar. Um leið er alltaf endanlegur efi til staðar af því að það eina sem ég er viss um er að ég get ekki vitað hvort ég hafi alla nauðsynlega þekkingu sem þarf til að meta líkurnar. Þetta er því efi ofan á efa.

Líklega ekki eða já?

Ég gæti lýst mér agnostískum á tilvist álfa og framhaldslífs en það er ekki gagnleg lýsing á afstöðu minni. Ég trúi ekki á álfa og öllum boðum um dvöl í framhaldslíf er svarað með "mæti ekki" þó ég gæti alveg eins sagt að ég telji nær engar líkur á því að slíkt framhaldslíf sé yfirhöfuð mögulegt.

Ef við snúum aftur að spurningunni um Gvuð er kannski hægt að lýsa þekkingarfræðilegri afstöðu minni til tilveru hans með því að setja nokkrar guðshugmyndir á skala. Mér finnst þær allar mjög ólíklegar og ég tel ekkert sérstaklega gagnlegt að nefna einhverjar tölur í því samhengi.

Af guðshugmyndum þá tel ég að "frumaflsguð" sem setti heiminn af stað og hefur hvergi komið nærri honum aftur líklegasta af þessum ólíklegustu hugmyndum. Guð sem skapaði heiminn og hefur síðan haft áhrif á heiminn er miklu ólíklegri. Guð sem kom í heiminn í mannslíki er enn ólíklegri. Ólíklegastur af öllum þessu ólíklegu guðum á þessum skala er guð sem hefur áhuga á því hvernig fólk gengur í raunveruleikasjónvarpsþáttum.

Alveg ákaflega ólíklegt

Ef ég fæ spurninguna "Er guð til?" þar sem neikvæðu svarmöguleikarnir eru "ólíklegt" og "ómögulegt" myndi ég frekar vilja svara "ólíklegt" en ég vildi helst skrifa "alveg ákaflega" fyrir framan orðið "ólíklegt". Þannig vildi ég sýna að þó ég geti ekki útilokað endanlega möguleikann á tilvist guðs þá finnst mér það í raun meira en bara "ólíklegt".

Ef svarmöguleikarnir væru já, kannski eða nei þá myndi ég segja "nei" þar sem ég tel það líklegasta rétta svarið. Orðið "kannski" bendir til þess að möguleikarnir séu um það bil jafnir og ég tel ekki svo vera. Nei-ið mitt er alltaf háð svipuðum þekkingarfræðilegum fyrirvörum og öll svör mín um hvort ég mæti á viðburði sem mér er boðið á á Facebook.

Ef ég myndi svara spurningunni hvort ég trúi á guð með því að segja að ég væri agnostíker þá finnst mér að ég væri um of að láta eins og möguleikarnir á því hvort guð sé til og að hann sé ekki til séu um það bil jafnir en ég tel að svo sé ekki. Þegar ég segi að ég sé guðleysingi þá felur það ekki í sér að ég telji að ég hafi höndlað endanlegan sannleika heldur að ég telji það rökréttustu afstöðuna til hugmyndarinnar um guð.

Óli Gneisti Sóleyjarson 08.03.2012
Flokkað undir: ( Efahyggja )

Viðbrögð


Maggi - 08/03/12 14:09 #

Virkilega góð grein. Virkar vel sem andsvar þegar fólk talar um trúleysi sem trú. Trú á trúleysi eða trú á vísindi eða einhverskonar trú á tómhyggju. Sjálfur hef ég reynt að svara slíkum athugasemdum á þann veg að í (mínu) trúleysi felist ekki annað en sú afstaða að ég veit voðalega lítið og ætti ekki að þykjast vita hluti sem ég get ekki hugsanlega vitað. Hins vegar er hin vísindalega aðferð besta tækið sem í boði er til þess að geta vitað meira. Það þýðir hins vegar ekki að ég “trúi á vísindi”. Ég veit eiginlega ekki hvað það þýðir. En enívei... Væri ekki ráð að finna eitthvað íslenskt orð í staðinn fyrir agnostíker. Það orð fyrirfinnst ekki í íslenskri orðabók.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 08/03/12 15:08 #

Maggi, ég hef séð "efahyggjumaður" sem þýðingu á "agnostic".


Arngrímur - 08/03/12 15:49 #

Hvernig yrði 'skeptic' þá þýtt? Mér finnst efahyggjumaður of vítt hugtak á íslensku til að ná utan um 'acnostic'.


Óli Gneisti (meðlimur í Vantrú) - 08/03/12 16:25 #

Ég hef oftast held ég séð "efasemdarmaður" notað en mér finnst ekkert af þessu skýrt.


Maggi - 08/03/12 17:04 #

samkvæmt orðabók er agnostic efasemdarmaður um yfirnáttúruleg efni, maður sem heldur því fram, að ekkert verði vitað um tilvist guðs né um neitt fyrir utan mannlega skynjun og reynslu.

Það sem ég var að reyna að velta upp er hvort það væri e.t.v. eitthvað annað íslenst orð sem notast mætti við. Efasemdamaður er að mínu mati ekkert sérstaklega lýsandi sem er eflaust ástæðan fyrir því að orðið agnostíker er notað í greininni.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 08/03/12 17:24 #

Ég var örugglega að rugla "efahyggjumaður" saman við "efasemdarmaður".


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 08/03/12 18:12 #

Til er þýðing á agnosticism: óvissustefna/hyggja.

Agnostic hefur líka verið þýtt sem óvissumaður, sá sem aðhyllist óvissustefnu eða óvissuhyggju.

Ekkert af þessu er fagurt en er t.d. notað í þýðingunni á "Ranghugmyndinni um guð" til aðgreiningar frá sceptic, efahyggjumaður, og scepticism, efahyggju.

Að sama skapi notum við eiginlega aldrei orðið guðleysi eða guðleysingi, í stað atheism og atheist, heldur trúleysi og trúleysingi. En strangt til tekið er það non-belief og non-believer.

Á íslensku má alltaf finna svar... eða þannig.


Jón Steinar - 10/03/12 06:27 #

Hvers vegna túlka menn svo að efasemdarmenn séu einhvern vegin á báðum áttum? Kannski, kannski ekki eitthvað. Efahyggjumenn krefjast sannana og gagrýna þá sem láta sér ær í léttu rúmi liggja. Allavega þá sem boða og kenna það að láta sér sannaninr í engu varða.

Er hægt að sanna að Guð sé til? Nei. Er hægt að leiða líkum að því svo það sé allavega kenning byggð á staðreyndum? Nei.

Efasemdarmenn trúa ekki á Guð af því að samkvæmt öllu, þá er hann ekki til. Þeir væri til í að skipta um skoðun ef annað kæmi í ljós. Eðlilega. En svo hefur enn ekki orðið frá upphafi vega og hverjar eru þá líkurnar?

Þykistuleikurinn er fyrir misþroska fólk sem ekki nær að vaxa frá fantasíum bernskunnar. Það gerir ekki greinarmun á hugarburði og raunveruleika og vil ekki einu sinni hugleiða möguleikann á að þar sé munur á. Rökstuðningurinn er skotheldur: Af því bara, liggaliggalá.


Ómar Harðarson - 10/03/12 17:55 #

Þetta er fín grein. Þegar ég rakst á þessa frétt datt mér heldur ekki í hug að hér væri Dawkins að draga allt til baka.

Málið er að Richard Dawkins er vísindamaður. Fullyrt er að einn eða fleiri guðir séu til. Engin spor hafa hins vegar fundist sem óyggjandi eru merki um guðleg afskipti. Það er nóg fyrir mig og aðra að "mæta ekki".

Það er þó ekki útilokað að akkúrat í augnablikinu séu allir virkir guðir í heimsókn í nágrannaalheiminum, eða að þeir séu í felum í einhverju af óteljandi svartholum heimsins. Það er heldur ekki hægt að útiloka Lagarfljótsorminn, garðálfa eða annað slíkt sem sumum þykir gaman að leggja trú á.

Staðhæfing um ekki sé hægt að útiloka eitthvað af þessu tagi gerir mann þó ekki að óvissutrúmanni, og allra síst er Dawkins beggja blands, þ.e. að það séu 50/50 líkur á guðstilvist. Sjálfur bendir hann á að hann sé á 7 stiga skala (7=fullkomin vissa um enga guðstilvist) með einkunnina 6.9 og yfir.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.