Það hefur ýmislegt merkilegt verið sagt í umræðunni um ummæli Snorra í Betel. Það merkilegasta finnst mér hins vegar hvað hefur ekki verið sagt. Nánar til tekið, að prestar ríkiskirkjunnar hafa ekkert minnst á frillulífi.
Í hinum alræmda Stóradómi var kynlíf ógiftra eitt af brotunum og var það kallað frillulífi. Kristin kirkja hefur að því virðist ávallt fordæmt frillulífi. Strax í guðspjöllunum er Jesús alls ekki hrifinn af því, það eitt að horfa á konu með girndaraugum flokkast sem synd, sem hlýtur að þýða að það sé synd að framkvæma verknaðinn. Ef við förum svo um það bil tvö þúsund ár fram í tímann, þá sagði sjálfur æðsti biskup ríkiskirkjunnar, Karl Sigurbjörnsson, að “[k]ristileg siðfræði leggur áherslu á, að kynlíf eigi eingöngu rétt á sér innan vébanda hins gagnkvæma, skuldbindandi persónusamfélags, þ.e. hjónabandsins.”
En hvernig tengist frillulífi eiginlega samkynhneigð? Í ljósi þess að margir prestar ríkiskirkjunnar, og líka æðsti biskupinn þeirra, telja að hjónaband sé eingöngu á milli karls og konu, þá telja þeir prestar augljóslega allt kynlíf tveggja einstaklinga af sama kyni vera synd. Allt kynlíf utan hjónabands er synd, hjónaband er bara fyrir karl og konu, þannig að allt kynlíf karls og karls eða konu og konu er synd.
Ég er auðvitað ekki sá fyrsti til að koma augun á þetta. Árið 1996 birtist grein í tímaritinu Bjarma sem kallast Samkynhneigð, snúið mál![1], eftir þá Guðmund Karl Brynjarsson, ríkiskirkjuprest, og Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóra Kristniboðssambandsins og fyrrverandi “skólaprest”. Þessir tveir kirkjunnar menn komust að þessari sömu niðurstöðu.
Eftir að hafa bent á að það séu dæmi um að “kynhneigðin hafi breyst á skammri stundu fyrir verk heilags anda”, úr samkynhneigð yfir í gagnkynhneigð auðvitað, segja þeir að: “Sigur yfir synd er ekkert auðvelt mál, ekki heldur í lífi gagnkynhneigðra. Kristið, samkynhneigt fólk sem vill fylgja orðum Biblíunnar er kallað til að lifa skírlífi."
Í lokaorðunum segja þeir svo að biblían dæmi ekki einstaklinga fyrir að “dragast að sama kyni, en kynlífi þeirra er hafnað”. Ástæðan fyrir því er sú að “[grunnhugsun biblíunnar] byggir á sköpunarvilja Guðs sem ætlað hefur kynlífinu farveg innan hjónabands karls og konu.”
Þarna kemur þessi hugsun klárlega fram. Kynlíf utan hjónabands er synd, hjónaband er fyrir karl og konu, því eiga samkynhneigðir að lifa skírlífi ef þeir eru svo óheppnir að heilagur andi breyti kynhneigðinni þeirra.
Ég trúi því ekki að þessir þrír menn séu þeir einu innan ríkiskirkjunnar sem trúa því “áhersluatriði kristinnar siðfræði” (svo ég noti orðalag biskupsins þeirra) að kynlíf utan hjónabands sé synd. Eða ætli prestum finnist allt í einu kynlíf utan hjónabands bara vera allt í lagi? Eða þora þeir kannski ekki að tjá þessa skoðun sína?
[1]Bjarmi, 1996, 2. tölublað, bls. 4-11
Ætli þeir þori nokkuð að tala um þetta? Eða kannske frekar: Þeir tíma því ekki.
Ég hef nú verið viðstaddur nokkrar giftingar í kirkju í eign Þjóðkirkjunnar, og presturinn var eins Þjóðkirkjuprestur. Í öllum þessum athöfnum áttu hjónin a.m.k. eitt barn (þar af einu sinni þegar var ég annað barnið og systir mín hitt), og í eitt skipti var brúðurinn sjáanlega með barni nr. 2 (seinna kom í ljós að það var stelpa). Og ég held að þetta sé ekkert sérstaklega óvenjulegt.
Ég held því að prestur sem færi eitthvað að tjá sig opinberlega um hvað kynlíf utan hjónabands (sem kynlíf fyrir hjónaband er nú líka) væri mikil synd og svínarí - ég held að þau væru færri, væntanlegu brúðhjónin sem kæmu til hans til að gefa sig saman. Og það þýðir ekkert nema minni peningur í vasa prests.
En á hinn bóginn rekst þessi hugmynd utan í það, að prestar eru nú þegar að missa af pening þegar þeir neita að gefa samkynhneigð pör saman. Þannig að það er kannske ekki fullkomið vit í þessu hjá mér eftir allt saman.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Björn I - 23/02/12 15:19 #
Telst ekki forseti vor vera hórkarl í biblíulegum skilningi? Hann er jú giftur fráskilinni konu. Ég man ekki betur en að biskup hafi óumbeðinn lagt blessun sína yfir það hjónaband á sínum tíma.
Hve margir þeirra sem hafa svona mikinn áhuga á skírlífi samkynhneigðra, lifa kynlífi eftir skilnað og drýgja hór?