Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ímyndað einelti

Blóm

Í umfjöllun fjölmiðla um “siðanefndarmálið” hefur eitt af aðalatriðunum í atburðaröðinni verið meint einelti Vantrúar gegn stundakennaranum Bjarna Randveri. Síðari greinin um þetta mál hét einmitt “Einelti vantrúarfélaga: Lögðu stundakennara í HÍ í einelti í yfir tvö ár”. En hvaðan kom þessi hugmynd um að eitthvað einelti væri í gangi og hvað er þetta meinta einelti?

Ofnotað einelti

Eins við höfum bent á löngu áður en þetta mál fékk alla þessa fjölmiðlaathygli, þá er orðið “einelti” of- og misnotað í íslenskri umræðu. Sumir muna eflaust eftir því að ríkiskirkjupresturinn Örn Bárður Jónsson talaði um að fjölmiðlar væru að leggja ríkiskirkjuna í einelti í kjölfar hneykslismála í kirkjunni. Ríkiskirkjuprestar hafa meira að segja talað um að blogg-skrif mín, þar sem ég gagnrýni málflutning þeirra séu einelti.

Grín með einelti

Hvort sem að fólki finnst það smekkleysa eða ekki, þá höfum við í Vantrú stundum gert grín að þessu eineltistali kirkjunnar. Þó svo að dæmin séu fleiri, þá held ég að þessi grín-orðabókafærsla úr bloggi Matthíasar Ásgeirssonar nægi:

ein•elti -is HK
stöðugar ofsóknir gagnvart e-m
svör við skrifum presta eða trúmanna
viðbrögð trúleysingja þegar drullað er yfir þá
þegar einhver segir þér að þú hafir rangt fyrir þér
þegar trúleysingjar tjá sig yfir höfuð
tilvera trúleysingja er einelti í garð trúmanna

Ein veigamestu rökin fyrir því að Vantrú hafi verið að leggja Bjarna í einelti fellur einmitt undir svona grín. Í Kastljósviðtali segir Bjarni sjálfur:

Brotin sem birtast þarna [á lokaða spjallinu] eru ekki síst í formi eineltis, meira að segja formaðurinn sjálfur, Reynir Harðarson sálfræðingur lýsir þessu 17. mars 2010 sem einelti og þá í tengslum við annan einstakling þar sem er verið að ræða það hvort að eigi að leggja hann líka í einelti.

Í grein Morgunblaðsins er svo vitnað beint í þau:

Í eitt skiptið er stungið upp á því að hefja líka einelti gegn Stefáni Einari Stefánssyni viðskiptasiðfræðingi án þess að hann tengist þessu máli nokkurn skapaðan hlut. Reynir skrifar strax: „Go for it. Megum ekki skilja svona plebba út-undan í einelti okkar.“ bls 20

Ef samhengi athugasemdarinnar er skoðuð, þá er það rangt að Stefán Einar hafi ekki “tengst þessu máli nokkurn skapaðan hlut”, hann hafði tjáð sig um þetta mál í útvarpsviðtali. Það var stungið upp á því að birta upptöku af viðtalinu ásamt gagnrýni. Þegar Reynir segir “Go for it”, þá var hann að svara þeirri uppástungu. Það er “eineltið” sem átti að hefjast gegn Stefáni.

Það er auðvitað skiljanlegt að hvorki Bjarni Randver né blaðamaður Morgunblaðsins skilji einkahúmor á lokuðu spjallsvæði Vantrúar. En það er frekar ömurlegt að sömu menn skuli notfæra sér það í áróðri sínum gegn Vantrú. Og ég verð að segja að þegar sömu menn túlka tal um “heilagt stríð” sem alvöru, og slengja því upp í fyrirsögn, þá tel ég að það sé bara um óheiðarleg vinnubrögð að ræða.

Eineltisgreinar

Í Morgunblaðsgreininni sem var minnst á hér í upphafi virðist blaðamaðurinn fallast á að það að senda kvörtun til Siðanefndar HÍ geti ekki talist einelti, né heldur geti það talist einelti að tala illa um einhvern án hans vitundar. Það sem blaðamaðurinn bendir á sem sönnun um einelti Vantrúar er allt það magn sem meðlimir Vantrúar hafa skrifað um þetta mál:

....frá því að þeir lýstu yfir heilögu stríði birtu þeir 67 greinar sem fjalla bara um Bjarna og kæruna, 31 grein þar sem hann eða kæran gegn honum er nefnd og 19 þar sem umræðurnar í athugasemdakerfinu fjalla um hann eða kæruna. Þetta eru samtals 117 greinar og hefur bæst við þá tölu núna í vikunni.

Takið sérstaklega eftir síðustu setningunni. Öll umfjöllun Vantrúar eða meðlima Vantrúar, þar sem er minnst á þetta mál er “einelti”, jafnvel svör við umfjöllun Morgunblaðsins er “einelti”. Þessi grein er einelti!

Þessi listi yfir “eineltið” er líka alveg kostulegur. Grein á Vantrú sem fjallar um það að orðið einelti sé ofnotað er hluti af þessu einelti. Upprunaleg umfjöllun okkar um glærurnar á Vantrú var hluti af þessu einelti. Tilkynning um að Vantrú væri farið í sumarfrí, þar sem tekið er fram að við munum láta lesendur vita ef niðurstaða myndi fást í “siðanefndarmálinu”, er einelti. Auglýsing um spjallkvöld “Efast á kránni” þar sem umræðuefnið var fyrirlestur sem hafði vakið nokkra athygli um hvernig efahyggjufólk ætti að tjá sig er líka einelti.

Bloggskrif um Roy Hodgson, þáverandi knattspyrnustjóri Liverpools, eru hluti af eineltinu (í alvöru!). Þegar guðfræðinemi (eða guðfræðingur) minnist á þetta mál í athugasemd við grein á Vantrú sem fjallar um allt annað, þá er það einelti af hálfu Vantrúar (í alvöru!)

Eineltið?

Ég get vel skilið það að Bjarni Randver hafi tekið því illa að Vantrú hafi kvartað til Siðanefndar vegna umfjöllunar hans um félagið, en að kalla það einelti, er gengisfelling á orðinu “einelti”. En að kalla það einelti í hvert sinn sem einhver í Vantrú minnist á málið, jafnvel þrátt fyrir að verið sé að fjalla um málið í Morgunblaðinu og Kastljósi, er svo mikil gengisfelling, að orðið verður algerlega innihaldslaust.

Hjalti Rúnar Ómarsson 27.12.2011
Flokkað undir: ( Háskólinn )

Viðbrögð


R - 7171 - 27/12/11 11:36 #

Þessa grein ættu allir að lesa. Allt tal um einelti er fáránlegt. En ef að maður túlki venjulega orðræðu um trúmál sem einelti, þá er þetta svo sem skiljanlegt. Sú túlkun Þórhalls ríkiskirkjuprests, að gagnrýni á englapælingar hans séu einelti, eru mjög svo umhugsunarverðar og varpa ljósi á þann hugsunarhátt sem virðist ríkja hjá mörgum.

Englapælingar eru auðvitað fullgildar, en það er ekkert einelti að setja spurningamerki um tilvist þessara meintu fyrirbæra.

Það sem er verra, og er aldrei talað um, er að það var brotisti inn í spjallkerfi Vantrúar, þaðan stolið upplýsingum. Þessar upplýsingar voru síðan notaðar til þess að kokka upp einhvern bræðing sem var siðan

- SÝNDUR SAMSTARFSFÓLKI ÞEIRRA SEM ÁTTU SAMTAL Á ÞESSUM ÞRÆÐI -

Þetta var gert til þess að eyðileggja fyrir viðkomandi og skemma fyrir frama innann viðkomandi stofnunar/fyritækis.

Það væri gaman að vita hvað háskólakennararnir 106 segi um þessi vinnubrögð. Þetta verður alveg örugglega túlkað sem hluti af "akademísku frelsi"

-Sveiattan.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/12/11 12:10 #

Svo virðist sem það dugi að nefna "leiða kisu" í athugasemd til að bloggfærsla teljist einelti gegn Bjarna Randver.

Vert er að taka fram að upprunalega leiða kisan á blogginu mínu táknar ekki Bjarna Randver þrátt fyrir að það sé niðurstaða hans. Ég vil hvetja Bjarna og stuðningsmenn hans til að kynna sér "meme" á internetinu (og í gvuðanna bænum, ekki túlka þetta hugtak sem "hernaðartaktík"), þar er nóg til af leiðum kettlingum og hvolpum.

Þessi tiltekna túlkun, þar sem leiða kisan táknar Bjarna Randver og er liður í einelti gegn honum, segir að mínu mati ýmislegt um túlkunarhæfileika þess kennara.


Sigurgeir Örn - 27/12/11 12:34 #

Það er kannski áhugavert að taka þessar pælingar með: http://www.youtube.com/watch?v=-j8ZMMuu7MU&feature=relmfu


Halldór L. - 27/12/11 13:08 #

Með hverjum ljósleiðara ætti að fylgja handbók fyrir internetið. Á síðu 2 mætti vera minnst á lögmál Poes.

Svona fólk ætti ekki að tjá sig á netinu (<--- ég að brjóta mannréttindi).

Annars vantar sárlega kaldhæðnis-font.


R - 717 - 27/12/11 13:29 #

Eftir því sem ég kemst næst, var Vantúarmanni gefin þau orð að hafa kalla Sigurbjörn Einarsson biskup, hund. Bjarni Randver kokkaði það upp úr stolnum gögnum og sýndi hverjum sem vildi sjá.

Þetta átti að vera sýnidæmi um orðbragðið hjá Vantrúuðum. "þau kalla biskupinn okkar hund" var sagt í hneykslunartón.

Þessi hunda-saga var eftirfarandi. Einhver vantrúarmaður var að tala um homma-hatur í gamladaga og einhverjar umræður spunnust í kringum það og hvernig kirkjan tók á þessu máli. Einhver kallaði Biskupinn hommahatara eða þvíumlíkt en þá kemur svarið sem var upphafið af þessari hundalíkingu.... Vantrúarmaðurinn segir eitthvað á þá leið að ekki sé að undra að hommahatur hafi verið í kirkjunni í gamla daga enda landlægt um allt samfélagið. Hann segir svo að það sé ekkert skrýtið að gamli maðurinn hafi ekki skipt um skoðun enda sé "erfitt að kenna gömlum hundi að sitja"..

Þarna hafið þið það...

Biskupinn er hundur samkvæmt vísindum Bjarna Randvers.

Þessi vinnubrögð eru til skammar.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/12/11 13:34 #

Dæmið með gamla hundinn kemur úr greinargerð BRS og er tekið úr athugasemd hér á Vantrú.


R - 717 - 27/12/11 13:41 #

Þetta var sem sagt ekki fengið af lokuðu spjalli eins og mér var sagt. Þessi hundasaga var öllum kunn sem áhuga höfðu á að kynna sér málið.

-Ekki skánar það.

Hvað skyldu þessir 106 merkilegu háskólakennarar segja um þessi vinnubrögð. Hvað segir Háskólinn um þessi vinnubrögð?

Flokkast svona undir "akademískt frelsi" mér er spurn.

Verst þykir mér þó framganga Randvers Bjarna þegar hann sauð saman "pakka" upp úr stolnum trúnaðarsamtölum og sýndi vinnuveitendum fólks sem er í Vantrú. Það er vonandi búið að kæra til lögreglunnar.

Ég hef aldrei heyrt af öðru eins. "Akademískt frelsi" segja víst háskólakennararnir 106.


Jón Steinar - 29/12/11 06:54 #

Ég sé að menn eru farnir að grípa á lofti hugtök eins og "akademískt frelsi" í málsvörnum sínum, sem engan endi virðast ætla að taka. Rétt að minnast á að þetta hugtak vísar ekki í lögmál eða rétt, heldur æskileg viðmið, sem eru tekin fram í skilgreiningu um það. Það er allavega ljóst að þeir sem nota þetta hugtak hafa ekki humgmynd um inntak þess né uppruna. Legg til að menn lesi orðabókarskilgreiningar. Þetta var raunar til komið að hluta vegna afskipta kirkjunnar af starfi háskóla, svo sem menn skynja vel ef þeir lesa sögu. Hér er fjallað um frelsi nemenda og háaskóla til að gagnrýna og veita aðhald, þar sem reynt er að takmarka hömlur á rannsóknir og tjáningu, en hafa í stað þess það lykilmarkmið og (því réttlætingu) að leiðarljósi sem vísa til sameiginlegra hagsmuna mannkyns. (benefits) Nefna má siðferðileg dæmi á borð við einræktun og stofnfrumurannsóknir sem siðferðileg álitamál undir utanaðkomandi þrýstingi þar sem akademískt frelsi er vegið í ljósi sameiginlegra hagsmuna, svo rannsóknir megi halda áfram. Ég fæ ekki með nokkru móti að mál Bjarna falli inn í þessa kategoríu né raunar guðfræðin yfirleytt. Allir háskólar hafa siðanefndir og innra aðhald, sem taka við athugasemdum ef um málefni er að ræða, sem koma vísindarannsóknum lítið við, en þykja vafasöm. Þ.a.m. fordómar, öfgafull hugmyndafræði, vafasöm framkoma kennara etc. Ef Bjarni hefði t.d. hæðst eða gefið fordæmandi mynd af einhverjum öðrum trúarhóp eða trúarbragði, sem þætti óviðeigandi, þá er ljóst að það félli utan vísindalegrar eftirgrennslunnar og hann ætti þá yfir sér áminningu um siðferðisbrot. Það er í raun hjákátlegt að fjallað skuli um mál Bjarna innan ramma vísindaviðmiðia og reynt að helga og gera vinnubrögð hans ósnertanleg með pápískri velþóknun á grunni gilda sem vernda vísindi gegn samfélagslegum hömlum.

Mikið vildi ég sjá mál hans rekið fyrir dómi, ef þetta er vörnin. Sá held ég að fengi skell á rassinn.


Jón Steinar - 29/12/11 07:12 #

Akademískt frelsi miðar semsagt ekki að því að gera háskóla að akademískum fílabeinsturnum eða ósnertanlegum rétttrúnaðarstofnunum heldur þver öfugt. Hugtakið vísar til opinnar umræðu með ákveðin lykilmarkmið vísinda að leiðarljósi.

Ég verða að segja að eftir því sem ég les meira af tjáningu þessara prófessora og kennara við þessa stofnun, þá lækkar hún í áliti hjá mér sem menntastofnun og ég held hún hafi misst algerlega sjónar af hlutverki sínu og sé því örugglega meðal hinna lélegustu í heimi sem slík.

Hver ástæðan er, er kannski óljós. Menn eru orðnar heimakærar afætur þarna, jafnvel æviráðnir og ósnertanlegir sumri hverjir. Þetta er einhverskonar lístíll og öryrkjadómur í vernduðu umhverfi, sem gersneytt er öllum kröfum á starfsmenn.

Menn þurfa jú bara að kíkja á afrek skólans á vísindasviði til að sjá að stofnunin er til einskis nýt og hefur aldrei verið. Þaðan hefur aldrei neitt komið sem hægt er að stæra sig af. Því miður. Þetta virðist bara frontur fyrir stórkostlegt fjarhagslegt racket, svona rétt eins og ríkiskirkjan.


Halldór Benediktsson - 30/12/11 13:17 #

Jón Steinar, það er erfitt að taka mark á þér þegar þú ferð út í svona tilhæfulausar alhæfingar um HÍ. Allt sem þú segir á undan er ónýtt í mínum huga.


Snæbjörn Guðmundsson (meðlimur í Vantrú) - 30/12/11 13:40 #

Sammála því sem Halldór segir. Þessar alhæfingar hjá þér, Jón Steinar, um Háskóla Íslands og gæði hans eru rugl. Það er hægt að segja ýmislegt um Háskóla Íslands en þar starfar samt gomma af mjög hæfu fólki, sem sumt er jafnvel meðal fremstu vísinda- eða fræðimanna í sínum sérsviðum í heiminum.


Jón Steinar - 30/12/11 21:26 #

Ég er ekkert að biðja menn að vera sammála mér, en þetta er mín skoðun á Háskólanum að vel athuguðu máli. Þetta er lokuð sérhagsmunaklíka og incompetent stofnun. Má vel vera að þar hafi farið góðir einstaklingar um ganga, en það réttlætir ekki batteríið frekar en góðir einstaklingar innan ríkiskirjunnar réttlæti það racket.

'Oþarfi að fyllast heilagri hneykslan. Kannski snerti ég við viðkvæmum bletti hjá einhverjum ykkar og gott ef þið takið þessu ekki nákvæmlega eins og trúaðir taka gagnrýni á kirkjuna. Ekki góður vitnisburður um ykkur allavega.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.