Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Dylgjur um nasisma

Hitler

Þjóðkirkjan hefur, rétt eins og systurkirkjur hennar erlendis, lengi boðað þá fordóma að trúleysingjar séu heimskir og illir. Það er þó ekki eina áróðursbragð kirkjunnar gegn trúleysingjum. Prestar predika nefnilega oft að Hitler og nasistarnir hljóti að hafa verið guðleysingjar.

Nasistar og trú

Þegar maður skoðar hvað nasistarnir sögðu sjálfir, þá er erfitt að skilja hvernig einhverjum manni getur dottið í hug að þetta hafi verið einhver trúleysingjahreyfing. Hitler skrifaði sjálfur í stefnuriti sínu, Mein Kampf, að hann væri að vinna fyrir guð með því að berjast gegn gyðingum[1]. Í stefnuskjali nasistaflokksins er sagt að flokkurinn styðji þá rasísku útgáfu af kristni sem var kölluð “jákvæður kristindómur” og þar er “gyðingleg efnishyggja” fordæmd [2].

Það er hægt að benda á ýmislegt meira [3], en aðalatriðið er að í mörgum gjörðum, ræðum og ritum nasista kemur klárlega fram að nasisminn var ekki stjórnmálastefna sem hafði útbreiðslu guðleysis að markmiði og að Hitler var trúaður. Ekkert bendir til annars.

Prestar og nasistar

Þrátt fyrir þetta, þá er það mjög algengt að ríkiskirkjuprestar boði það opinberlega að nasisminn hafi verið “guðlaus” og að Hitler sjálfur hafi verið trúleysingi. Hér eru nokkur dæmi:

„Hitler og flestir nasistar voru guðleysingjar … “ –Gunnar Jóhannesson[#] [4]

„Lenínisminn, Stalínisminn, Maóisminn, Nasisminn, Rauðu Kmerarnir ...
... [a]llt guðleysingjar sem kostuðu hundruðir milljóna mannslífa.“ –Þórhallur Heimisson [5]

„Alræði öreiganna, nasisminn og maóisminn, voru guðlausar stefnur sem settu manninn í hásæti Guðs.“ –Magnús Björn Björnsson [#]

Sá sem gengur líklega lengst í þessum fullyrðingum er sjálfur biskup ríkiskirkjunnar Karl Sigurbjörnsson:

„Guðleysi var leitt til öndvegis í Þýskalandi nasismans, í Sovétríkjunum og í Kína.“ [#]

„Sigurbjörn biskup lifði guðleysi og mannfyrirlitningu nasismans og kommúnismans, helstefnur sem gengu báðar fram fyrir skjöldu með framsækni og mannhyggju við stöng en gátu af sér ólýsanlegt ofbeldi og ógnir.“ [#]

„Tuttugusta öldin sá tilraunir með samfélög þar sem trúarbrögðin voru barin niður með hörku, útrýmt af opinbera sviðinu og upprætt úr uppeldinu. Seint verða ríki Hitlers og Stalíns kennd við frið og frelsi! Þau voru mestu manndráparar tuttugustu aldarinnar. Ríki sem settu manninn í öndvegi og leituðust kerfisbundið og markvisst við að ganga af allri guðstrú dauðri. Þau byggðu á guðlausri hugmyndafræði, sem gaf sig út fyrir að vera reist á vísindalegum forsendum og sögulegri nauðsyn. Og út frá þeirri forsendu sáu þeir Hitler og Stalín fyrir sér fyrirheitna landið rísa á fjöldagröfum milljónanna sem nauðsyn bar til að ryðja úr vegi.“ [#]

Uppspretta fordómanna

Í ljósi þess að jafnvel yfirborðskennd athugun á sögulegum heimildum sýnir að þessar fullyrðingar eru hreint út sagt bull og vitleysa, þá hlýtur maður að velta því fyrir sér hvaðan þessir trúmenn fá þá hugmynd að nasistarnir hafi verið trúleysingjar og að nasisminn hafi verið guðlaus stefna.

Hugsanlega hafa margir prestar bara heyrt þessu slengt fram einhvers staðar og trúað því í blindni. Þó svo að sú sé raunin, þá hlýtur upprunalega hugsunin á bak við þessa sögufölsun að vera einhvern veginn á þá leið að nasistarnir hafi verið siðlaus illmenni, og að það séu eiginleikar sem passa fullkomlega við trúleysingja.

Uppruna þessarar vitleysu er eflaust að finna í þeim eldgamla hatursáróðri gegn trúleysingjum sem maður sér enn glitta í hjá ýmsum talsmönnum Þjóðkirkjunnar, að trúleysingjar séu siðlaus illmenni.


[1] "So glaube ich heute im Sinne des allmächtigen Schöpfers zu handeln: In dem ich mich des Juden erwehre, kämpfe ich für das Werk des Herrn.” – Adolf Hitler, Mein Kampf bls 70.
[2] Hérna er hægt að lesa stefnuskjalið á þýsku. Hér er ensk þýðing á 24. punktinum: “We demand freedom of religion for all religious denominations within the state so long as they do not endanger its existence or oppose the moral senses of the Germanic race. The Party as such advocates the standpoint of a positive Christianity without binding itself confessionally to any one denomination. It combats the Jewish-materialistic spirit within and around us, and is convinced that a lasting recovery of our nation can only succeed from within on the framework: The good of the state before the good of the individual.”
[3] Til dæmis má benda á lýsingu Himmlers á SS-sveitarmanni í SS sem and-bolsévísk baráttusamtök: Hann verður að trúa á guð, og telur trúleysingja vera hrokafulla og heimska.
[4] Í netútgáfunni af sömu grein, sem vísað er á á vefriti ríkiskirkjunnar, fjarlægði Gunnar þessi ummæli eftir að þeim var andmælt. En það segir auðvitað sitt að hann hafi yfir höfuð fullyrt þetta.
[5] Tilvitnanir eru teknar úr bloggfærslu Þórhalls Heimissonar sem hægt var að nálgast hér, en Þórhallur hefur lokað blogginu sínu.

Hjalti Rúnar Ómarsson 19.12.2011
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Siðferði og trú )

Viðbrögð


frelsarinn (meðlimur í Vantrú) - 19/12/11 12:07 #

Síðast þegar ég vissi voru þjóðverjar sérlega kristnir fyrir stríð enda upprunaland okkar evangelísku ríkiskirkju. Þar var mjög blómlegt starf bæði mótmælenda og kaþólikka þegar nasistar ríktu í Þýskalandi. Trúleysi er núna fyrst að verða útbreitt í Þýskalandi en lítið orðið var við aukin nasisma á sama tíma, þannig að þessi Lúterska trúleysisnasistakenning virðist ekki ganga upp.


Haukur Valgeirsson - 19/12/11 14:45 #

Nú bendir flest til að Hitler hafi verið trúaður og eins bendir flest til að Stalín hafi verið trúlaus.

Báðir þessir einstaklingar eru ábyrgir fyrir hryllilegum illvirkjum.

Það að ætla að gera trú eða skort á henni samábyrga fyrir illvirkjunum er fáránlegt.

Það eru til trúarbrögð þar sem í einhverri túlkun er haldið fram að sumir séu merkilegri en aðrir og ýmis illvirki hafa svo sannarlega verið framin í nafni þess. Margir sem aðhyllast sömu trú halda svo fram að túlkun illvirkjans sé röng.

Í trúleysi er ekkert að túlka, annað hvort telur maður ástæðu til að trúa að það séu æðri máttarvöld með puttana í framvindu heimsins eða ekki.

Menn geta kannski verið á báðum áttum, en þetta er ekkert hægt að (mis)túlka á neinn hátt til að gefa öðrum óskyldum skoðunum meðbyr.

Í trúleysi er engu haldið fram um að einhver sé merkilegri en annar. Ef trúlaus maður telur svo vera þá getur sú skoðun ekki verið sprottin af trúleysi hans, hún hlýtur að koma einhversstaðar annars staðar frá.


Oddur - 19/12/11 15:09 #

Fann þessa áhugaverða síðu
http://nobeliefs.com/mementoes.htm


Þór - 19/12/11 15:38 #

Datt innlegg mitt út?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 19/12/11 15:40 #

@Þór: Áttu við þetta innlegg?


Þór - 19/12/11 15:45 #

Alveg rétt. Só sorrí.

Þetta átti að fara hingað. :o)


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 20/12/11 00:33 #

Ég færði umræðuna um trúarskoðanir Stalíns á spjallborðið.


Svanur Sigurbjörnsson - 20/12/11 22:32 #

Það er vinsælt hjá þessum sérum að spila út "hatursspilum" gagnvart trúleysi því að ekki gengur þeim vel að sýna fram á gagnsemi trúar út frá eigin verðleikum. Það er vissara að sverta aðra hugmyndafræði í leiðinni að minnsta kosti. Skítt með staðreyndir.


Jón Steinar - 21/12/11 04:40 #

Í hlekknum hanns Odds má finna mynd af Maríu og Jesúbarninu, málaða af Hitler. Spurning hvort þetta sé Jólakortið í ár frá Vantrú til þjóðkirkjupresta. :)


Ólafur - 27/12/11 18:48 #

Það er næsta ótvírætt að nasistar voru trúleysingjar eða andtrúarflokkur og sýndu kristni mikinn fjandskap. Af nægum vitnisburði er að taka þar um:

http://en.wikipedia.org/wiki/Religion_in_Nazi_Germany#Nazism_and_Christianity

Ásamt kommúnisma er nasisminn sönnun þess að trúleysi er engin töfralausn á vandamálum heimsins.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 27/12/11 18:53 #

Það er næsta ótvírætt að nasistar voru trúleysingjar eða andtrúarflokkur...

Ég verð að játa að ég á erfitt með að lesa úr þessari vísun þinni að þetta hafi verið "næsta ótvírætt".


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 27/12/11 20:07 #

Many Nazis promoted positive Christianity a militant, non-denominational form of Christianity which emphasized Christ as an active fighter and anti-semite who opposed the institutionalized Judaism of his day.[35] Even in the later years of the Third Reich, many Protestant and Catholic clergy within Germany persisted in believing that Nazism was in its essence in accordance with Christian precepts.[36] However many Church leaders raised objections over the extreme nationalism and racial attitudes exhibited by the Nazi Party.

Einmitt, algjörlega ótvírætt.


Svanur Sigurbjörnsson - 28/12/11 15:41 #

Ég fékk bók Lindquists um Napóleón í jólagjöf. Á einum stað stendur að Napóleón hafði óbeit á því fyrirkomulagi páfagarðs (um 1795) að skylda alla gyðinga þar að ganga með gula Davíðsstjörnu og lifa í aflokuðum gettóum! Það er greinilegt að hugmyndafræði og hegðum páfagarðs passaði vel við gyðingahatur nazismans. Hitler var ekki hugmyndasmiðurinn af gettóum gyðinga eins og maður hélt.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 28/12/11 15:58 #

Kallar þetta ekki bara á efasemdir um að páfagarður hafi aðhyllst kristni? :-/


Baldvin (meðlimur í Vantrú) - 28/12/11 16:12 #

Einangrunarbúðir Þjóðverja í SV-Afríku (núverandi Namibíu) og útrýmingarherferð þeirra gegn innfæddum í upphafi 20. aldar sýna líka að nasistar þurftu ekki að finna upp hjólið þegar kom að því að útrýma gyðingunum.


Guðmundur Þ - 20/01/12 17:03 #

Hmm...

Hérna var þetta ekki orðað einhvernveginn svona:

Veginn þangað, sem ég fer, þekkið þér. 5Tómas segir við hann: Herra, vér vitum ekki, hvert þú ferð, hvernig getum vér þá þekkt veginn? 6Jesús segir við hann: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig. 7Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann.

Sumsé ef að þið hegðið ykkur eins og ég (Jesú)og gangið þann veg sem ég fer. Þá komist þið inn í himnaríki.

Það er ýmislegt við sögu nasista sem bendir til þess að þeir hafi ekki TRÚAÐ orði af því sem Jesú litli var að reyna að segja þeim, eða hvað finnst ykkur?

Eftir því sem ég man best úr sögunni þá reyndi karlinn heldur að gera gott en annað, gekk um og læknaði fólk og reisti jafnvel frá dauðum.

Það stemmir einhvernveginn ekki við að hann hefði tekið undir það að reisa útrýmingarbúðir, steypa heilu þjóðunum í styrjaldir osfrv.

Hitt er svo annað að prestar vorir líkja ekki eftir ævi hans heldur, með því einu að setjast að í feitu brauði á hlunnindajörð eða í augsýn áhrifamanna, ert þú samkvæmt uppdrættinum æfistarf Jesú Krists orðinn guðlaus líka.

Varist að iðka réttlæti yðar fyrir mönnum, þeim til sýnis, annars eigið þér engin laun hjá föður yðar á himnum.

19 Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela.

20 Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.

21 Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera

4 Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 20/01/12 20:14 #

Guðmundur, mér finnst þetta nú frekar vafasöm túlkun á þessum orðum sem eru eignuð Jesú í Jóhannesarguðspjalli. En alveg óháð því þá virðist þú líka átta þig á því að það virðist ekki beint ganga að nota einhverja skilgreiningu á "kristinn" eins og "fer eftir öllu því sem er eignað Jesú í guðspjöllunum", þá eru nú bara örfáir menn kristnir á jörðinni ;)

Og það er rangt að nasistar hafi ekki trúað orði af því sem að var eignað Jesú, þeir voru svo hrifnir af sumum þeirra að þeir settu þau upp á skilti (ef ég man rétt þá voru það ummæli Jesú um að djöfullinn væri faðir gyðinga).

Það stemmir einhvernveginn ekki við að [Jesús] hefði tekið undir það að reisa útrýmingarbúðir, steypa heilu þjóðunum í styrjaldir osfrv.

Tjah...samkvæmt sumu í guðspjöllunum virðist hann hafa verið sáttur við búðir sem voru margfalt verri heldur en útrýmingabúðirnar.

Svo máttu ekki gleyma því að í guðspjöllunum virðist Jesú líta á guð Gamla testamentisins sem hinn alvöru guð (hann minnist t.d. á útrýmingu Sódómu og Gómorru, og hótar borgum sem honum líkar ekki við svipuð örlög). Sá guð stundaði þjóðarmorð samkvæmt því sem Jesús kallar orð guðs í guðspjöllunum. Mér finnst að þú mættir athuga hvort að sú góða mynd sem þú hefur af Jesú stafi ekki af því að þú einblínir á góðu kaflana, en lokar augunum fyrir þeim vondu.


Hjalti Rúnar (meðlimur í Vantrú) - 19/01/15 01:22 #

Jæja, enn einu sinni endurtekur ríkiskirkjurpestur þetta rugl, nú var það á Rás1. Sendi honum póst:

Sæll Ólafur Jóhannsson

Í desember síðastliðnum sástu um nokkra þætti af “Morgunbæn og orð dagsins" á Rás1. Í einum þættinum sagðirðu eftirfarandi:

“Samt hafa mannfrekustu grimmdarverk sögunnar ekki verið af trúarlegum toga, heldur þvert á móti verið framin í skjóli af guðlausum stefnum sem komust í tísku á tuttugustu öld, þóttu fínar og þykja það jafnvel enn. Kommúnisminn og nasisminn leiddu af sér flestar skelfilegustu fjöldaaftökur og þjóðernishreinsanir sögunnar. Mannkynið hefur sannarlega ekki hegðað sér betur þar sem trú er óvelkomin. "

Nasisminn var ekki “guðlaus stefna" og þar var trú ekki óvelkomin. Leiðtogi nasismans sagðist til dæmis í stefnuriti sínu að barátta hans gegn þeim minnihlutahóp sem hann ofsótti hvað mest væri þjónusta við guð. Nasistaflokkurinn sagðist styðja “jákvæðan kristindóm" í stefnuskrá sinni og fordæmdi “guðlausa efnishyggju". Trú á guð var líka sögð vera nauðsynleg til að komast í sérsveitir nasistanna samkvæmt leiðtoga þeirra. Þú getur lesið meira um þetta hérna (þar sem ég birti þennan tölvupóst einnig).

Ekkert bendir til þess að nasistar hafi verið "guðlaus stefna" eða þá að trú hafi verið óvelkomin hjá þeim.

Vinsamlegast hættu að endurtaka þá sögufölsun að nasisminn hafi verið einhvers konar andtrúarleg guðleysingjahreyfing.

Hjalti Rúnar Ómarsson


Matti (meðlimur í Vantrú) - 19/01/15 09:34 #

Það er gott að ríkiskirkjuprestar nota þennan vettvang sem morgunbænin er til að útvarpa áróðri gegn guðleysi. Smekklegtt.

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?