Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Vantrú og Overton glugginn

Gluggi

Fyrir tveim vikum fjallaði Morgunblaðið um Vantrú í afskaplega einhliða og villandi grein. Við höfum sitthvað við greinina að athuga og höfum ýmsu svarað nú þegar. Eitt af því komið var inn á í greininni var Overton glugginn og gárungar hafa slengt hugtakinu fram með hneykslunartón í umræðunni, enda var umfjöllun Morgunblaðsins um það hugtak afskaplega einkennileg.

Overton glugginn

Hvað er Overton glugginn og hvernig tengist hann þessari sturluðu umræðu um Vantrú?

Ástæðan fyrir því að Overton glugganum er allt í einu slengt fram í neikvæðum tón er að þetta hljómar eins og eitthvað öfgakennt, "félagið Vantrú hrellir fólk með Overton glugganum". Í grein Morgunblaðins stóð:

Hvers vegna þessi félagsskapur hagar sér svona er erfitt að segja til um en þó má kannski staldra við orð eins þeirra á innri vefnum sem segir að félagsskapur Vantrúar sé byggður á Overton-glugganum. Um leið og hann er búinn að skrifa þetta sussar einn af forystumönnum Vantrúar á hann og segir að hans skoðun sé að Overton-glugginn virki best ef fólk viti ekki af því að það sé verið að notast við hann og því skuli ekki ræða hann. #

Jaðarskoðanir

Ég þekkti hugtakið ekki fyrr en um mitt ár 2007, rakst þá á vísun á það í umræðu á erlendu vefsvæði. Benti félögum mínum í Vantrú á að þetta passaði ágætlega við Vantrú.

Í allri þjóðfélagsumræðu eru settar fram allskonar hugmyndir, fullyrðingar og kröfur. Sumar íhaldssamar, kreddufullar og í takt við tíðarandann, aðrar framsýnar, frjálslyndar og úr takti við ríkjandi kreddur. Sumir vilja breytingar, aðrir vilja hafa allt eins og það hefur verið.

Samkvæmt Joseph P. Overton er hægt að flokka skoðanir niður í:

  • Óhugsandi
  • Róttækar
  • Ásættanlegar
  • Skynsamlegar
  • Vinsælar
  • Stefna

Réttindi samkynhneigðra er frábært dæmi. Það hefði verið óhugsandi að koma fram á Íslandi fyrir þrjátíu árum og krefjast þess að samkynhneigðir fengju að giftast og ættleiða börn. Sá sem hefði sett slíkt fram hefði verið tekinn af lífi í umræðunni, verið dæmdur öfgamaður sem ekkert mark ætti að taka á. Fyrir fimmtán árum var hugmyndin róttæk. Í dag er hún stefna, búið er að samþykkja lög um hjónabönd samkynheigðra og þeir sem andmæla eru kallaðir öfgafólk.

Fyrir fjögur hundruð árum hefði sá væntanlega hætt lífi sínu sem hefði stungið upp á því að kristni væri ekkert sérstaklega skynsamleg hugmynd, jafnvel kjánaleg. Það var óhugsandi að nefna það. Í dag ríkir tjáningarfrelsi, það er ásættanlegt að gagnrýna hindurvitni, þykir jafnvel skynsamlegt og er hugsanlega dálítið vinsælt.

Ástandið hefur semsagt breyst. Ekki vegna þess að íhaldssama og kreddufulla fólkið sem engu vildi breyta fékk sitt, heldur vegna þess að fólk sem þorði að krefjast breytinga og storka viðteknum hugmyndum lét í sér heyra.

Vantrú reynir að breyta því sem aðrir vilja ekki hrófla við og félagið þorir að gagnrýna það sem sumir vilja ekki að talað sé um. Enda hafa hlutirnir breyst frá því Vantrú var stofnað, fjölmargir taka undir málflutning okkar varðandi trúboð í skólum. Vantrú er ekki fulltrúi allra trúleysingja og efahyggjumanna á Íslandi, sem betur fer.

Er Vantrú öfgafullt félag?

Þó Vantrú hafi troðið slóðina í umræðunni um trúmál og hindurvitni er ekki þar með sagt að félagið standi fyrir öfgakenndar skoðanir. Hófsemdin hefur jafnvel háð félaginu, t.d. í umræðu um stjórnarskrá, þar sem Vantrú lagði áherslu á þá hófsömu skoðun að algjört jafnræði ríki gagnvart lífsskoðunum í stjórnarskrá. Á sama tíma höfðu kreddufullir trúmenn hátt og kröfðust þess að kristinni trú væri hampað sérstaklega í stjórnarskránni. Umræðan gekk svo út á að finna leið til að sætta sjónarmið beggja. Þarna hefði öfgakennd afstaða í hina áttina að sjálfsögðu átt að felast því að í stjórnarskrá væri kristin trú beinlínis bönnuð - millivegurinn hefði svo verið sú afstaða sem Vantrú mælti fyrir allan tímann.

Í umræðum um trúboð í skólum sést best hve hófsöm afstaða Vantrúar er á því að andstæðingar okkar þurfa sífellt að segja ósatt og fullyrða að öfgafullu trúleysingjarnir vilji bola allri kennslu um trúarbrögð og kristni úr skólum. Að sjálfsögðu er það ekki rétt og allir sem skoða umræðuna fordómalaust sjá að krafan um að trúboð fari ekki fram í skólum landsins er bæði ásættanleg og skynsamleg. Hún þarf bara að verða að stefnu eins og unnið er að hjá Reykjavíkurborg.

Óbilgirni

Í greininni í Morgunblaðinu veltir Börkur Gunnarsson blaðamaður hugtakinu fyrir sér og skrifar:

Það skýrir kannski óbilgirni sumra þeirra sem tjá sig í umræðunni að þeir nálgast hana ekki opnum huga, heldur hafa þeir að markmiði að færa umræðuna til. #

Þetta gildir ekki um Vantrú. "Óbilgirni" Vantrúar felst fyrst og fremst í því að við fjöllum um málefni sem aðrir hafa ekki viljað, nennt eða þorað að fjalla um. Óbilgirni Vantrúar felst einnig í því að við svörum fyrir okkur þegar gagnrýnendur gera okkur upp öfgafullar skoðanir sem við aðhyllumst ekki.

Óbilgirni Vantrúar er kannski fyrst og fremst fólgin í tilvist félagsins sem margir vilja alls ekki að sé til.

Vantrú mun halda áfram að gagnrýna trúarbrögð og önnur hindurvitni málefnalega, jafnvel þó sú umræða þyki stundum óásættanleg. Við vitum nefnilega að jaðarinn færist til og það sem ekki mátti ræða í gær er sjálfsagt umræðuefni á morgun. Þökk sé þeim sem þora að að stíga fram, tjá sig, og gagnrýna.

Matthías Ásgeirsson 16.12.2011
Flokkað undir: ( Vantrú )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 16/12/11 16:52 #

Blaðamaður Morgunblaðsins dregur hugtakið fram því að í umræðum á innra spjalli Vantrúar, um Bjarna Randvers málið, kvartaði ég í athugasemd undan því að mér þætti umfjöllunin ekkert fara út í aðferðarfræði okkar og nefndi Overton gluggann í því samhengi. Annar meðlimur félagsins tók þá fram að honum honum þætti betra að ekkert væri fjallað um þetta hugtak, því það sú taktík virkaði betur þegar fólk veit ekki af henni. Þó orðið "taktík" hafi verið notað er ekki þar með sagt að það sem Vantrú gerir sé miðað við að vera á jaðri umræðunnar, staðreyndin er bara sú að þar hefur félagið verið.

Meira var ekki rætt um þetta hugtak í þessu samhengi. Það er því frekar skondið að fylgjast með fólki velta þessu hugtaki fyrir sér eins og um eitthvað skelfilegt sé að ræða. Svo er alls ekki.


Kristinn - 16/12/11 18:16 #

"Það skýrir kannski óbilgirni sumra þeirra sem tjá sig í umræðunni að þeir nálgast hana ekki opnum huga, heldur hafa þeir að markmiði að færa umræðuna til."

Þetta er fremur einkennilegt hjá Berki. Ég held að það megi segja með nokkurri vissu um flest félög og hagsmunahópa að þau/þeir hafi á stundum áhuga á að "færa umræðuna til". Það útilokar alls ekki að menn "nálgist umræðuna með opnum huga".

Vantrú hefur bæði fært umræðuna til og haft áhrif á eðli hennar - og ósjaldan nálgast efnið af opnum huga, þótt það megi vitaskuld deila um það í ljósi þess að það er dálítið huglægt atriði.

En það getur ómögulega orðið einhver sérstakur áfellisdómur yfir Vantrú að félagið hugi að því að hámarka áhrif sín og sníði framsetningu orða sinna eftir því. Það gera líklega flestir ef ekki allir að einhverju marki - og þó má einmitt oft finna dæmi um að Vantrú fari út af því spori og sé þá t.d. óþarflega hófstillt miðað við hugmyndina um Overton gluggann.


Jón Steinar - 16/12/11 23:25 #

Sammála Kristni. Hér hefur viðleitnin verið að reyna að flytja umræðuna um trúmál og hindurvitni úr staðinni og fúlli tjörn viðtekinna viðhorfa og hefða, sem fyrir löngu hafa verið sýndar vera grunnlausar.

Ritningarnar er þó ekki aðalatriðið í þessu þótt Guðfræðideildir eigi tilvist sína einvörðungu að þakka því að ekki er fótur fyrir ritningunum í neinu tilliti. Það er valdið, innihaldslaust andlegt ofbeldi og yfirgangur, sem menn eru að andæva. Samruna stjórnmála og trúarkenninga m.a.

Og fyrst ég er að pára hér, þá langar mig að leita í þekkingu ykkar í beinu framhaldi af þessu.

Mér hefur ekki fundist mikið til þeirra samræðna koma sem sprottið hafa úr gagnrýni á ritningarnar. Þær eru afgreiddar á sama hátt þegar líður á umræðuna rétt eins og Godwins Law ráði þar í annarri útgáfu.

Allt eymast niður í Sálm 14:1.

"Heimskinginn segir í hjarta sínu:
"Guð er ekki til."
Ill og andstyggileg er breytni þeirra,
enginn gjörir það sem gott er."

Biskupinn fer þar fremstur í djúphyglinni. Við þessu geistlega persónuníði er þó andeitur frá Kristi sjálfum í Matt. 5:22

"En ég segi yður: Hver sem reiðist bróður sínum, skal svara til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann, hefur unnið til eldsvítis."

Að vísu búið að slétta vel yfir ójöfnur í þessari straumlínulaga þýðingu eins og víðar í seinni tíð Því hér er beinlínis vísað til þess að kalla menn heimskingja.

Enska þýðingin sýnir það vel.

"But I say to you that everyone who is angry with his brother shall be guilty before the court; and whoever says to his brother, 'You good-for-nothing,' shall be guilty before the supreme court; and whoever says, 'You fool,' shall be guilty enough to go into the fiery hell."

Man einhver eftir eldri íslenskri þýðingu sem stendur nær upprunalega textanum og er ekki búið að túlka undir teppið.


Jón Steinar - 16/12/11 23:53 #

Ég spyr að þessu vegna þess að engin önnur þýðing en hin Evangelíska New Living Translation frá árinu 2007, bjagar þetta svona. Þýðing, sem mjög margir telja hreinræktað rusl og fegrunaraðgerð án nokkurs grundvallar. Það er augljóst að íslenskir apologistar sækja mikið í að lauma mistúlkunum þessarar þýðingar yfir í bókina.

Þetta er kannski efni í annan þráð en hér, en ég biðst forláts á tækifærismennskunni.;)


Þorgeir Tryggvason - 17/12/11 15:14 #

Oddur Gottskálksson útleggur þetta:

"En hver eð reiðist bróður sínum, hann verður dóms sekur, en eg segi yður: Hver eð reiðist bróður sínum, að hann verður dóms sekur. En hver sem til bróður síns segir: Racha - hann verður ráðs sekur, en hver eð segir: Þú afglapi, - hann verður sekur helvítis elds"

Annars stendur þessi kafli enganvegin án setningarinnar sem á undan kemur: Þér hafið heyrt hvað sagt er til inna gömlu: Þú skalt eigi mann vega. En hver eð mann vegur, hann verður dóms sekur, en ég segi yður: "

Og svo kemur tilvitnunin þín. Sumsé: Hér er verið að herða á boðorðinu um að ekki megi mann deyða. Reiðin er skv. Kristi jafn alvarlegt mál og morðið. Eða það sýnist mér vera bókstaflegur skilningur orðanna.


Jón Steinar - 17/12/11 21:22 #

Ég hef hvergi séð þessa túlkun í erlendum ritum Þorgeir, en vafalaust má segja þetta eins og hvað annað. Það er augljóslega verið að krækja hjá orðinu heimskingi með einbeittum vilja hér. Ég get ekki betur séð en að þetta segi að það sé morðinu alvarlegra að kalla menn fábjána eða heimskingja. (Jafnvel með tilvitnun úr bókinni)

Markmið Biskupsins er alveg ljóst í sálmatilvitnun sinni og jafn ógeðfellt og Jesús gefur í skyn þarna.

Er þetta annars ekki jafn wobbly guðspeki eins og svar hins margrómaða Bjarna Randvers á Vísindavefnum (jamm vísinda...) við spurningunni um það hvort guð geti búið til svo stóran stein að hann geti ekki lyft honum. Djúpviturt svar Bjarna er þetta:

"Það hlýtur að felast í almætti Guðs, að hann geti hætt að vera almáttugur. Svo lengi sem hann nýtir sér ekki þann möguleika, telst hann almáttugur."

Já, þessi maður kallast fræðimaður. Aþþíbara og liggaliggalá er það eina sem hann virðist hafa þurft að læra til að hljóta vegtylluna.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 18/12/11 19:14 #

Já, það má segja að þessar umræður tengist efni greinarinnar frekar lítið!

Ég sakna þess frekar að heyra frá andstæðingum okkar, þar sem þeir benda á það hvað Vantrú er hrikalega öfgafullt (og hættulegt) félag - og færa rök fyrir því.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.