Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Hvað gekk á í guðfræðideild?

Í byrjun febrúar 2010 sendi félagið Vantrú erindi til siðanefndar Háskóla Íslands. Erindið varðaði námsefni og kennslu Bjarna Randvers Sigurvinssonar (BRS), stundakennara í guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ, haustið 2009.

Samkvæmt siðareglum Háskólan Íslands skal umfjöllun kennara við Háskóla Íslands ekki verið einhliða og má ekki gefa villandi mynd af því sem fjallað er um (2.1.3). Skoðun félagsmanna í Vantrú er að kennsla um félagið hafi verið einhliða og villandi. Þess vegna sendi félagið erindi til siðanefndar, ekki til að leggja manninn í einelti einsog hann og fleiri telja.

Hlutverk siðanefndar

Hlutverk nefndarinnar er ekki síst það að gæta þess að vinnubrögð innan skólans standist lágmarkskröfur og að fólk og félög njóti sannmælis. Flestar kærur sem komið hafa á borð siðanefndar HÍ hafa verið þess eðlis.

Í apríl á þessu ári dró Vantrú erindið til baka, m.a. sökum þess að BRS ásamt hópi einstaklinga innan sem utan HÍ tókst að ónýta málið með rógburði og skemmdarverkum meðan það var í meðferð siðanefndar.

Stuðningsmenn BRS hafa lengi talað um að brotið hafi verið á BRS og andmælaréttur hans ekki virtur. Gagnrýni þeirra væri skiljanleg ef siðanefnd HÍ hefði úrskurðað í málinu, en það kom aldrei til þess.

Þáttur Péturs Péturssonar

Dr. Pétur Pétursson [PP] var deildarforseti guðfræðideildar HÍ þegar Vantrú sendi erindi sitt til hans, Siðanefndar og rektors. Aðkoma PP að málinu hefur verið illskiljanleg.

Eftir að siðanefnd tók málið upp hafði þáverandi formaður nefndarinnar samband við PP til að athuga hvort sættir væru mögulegar. PP taldi siðanefnd á að hann myndi sjá um málið fyrir hönd og samþykki BRS.

Einsog segir í bréfi sem hann skrifaði formanni Siðanefndar 23.3.2010 sagði PP:

Ég átti fund með Bjarna Randver, Hjalta Hugasyni og Einari Sigurbjörnssyni í dag og erum við sammála um að ræða við siðanefndina á þeim forsendum að ná sáttum eða samkomulagi.

[...]

Við urðum einnig ásáttir um að það heyrði helst upp á mig að ræða við nefndina þar sem ég er nú starfandi deildarforseti, var umsjónarmaður með umræddu námskeiði og er leiðbeinandi Bjarna Randvers, sem er í doktorsnámi í trúarbragðafræði. Doktorsverkefni hans er um trúarhreyfingar á Íslandi á 20. öld.

[Leturbreytingar ritstjórnar]

Bréf

Samþykki og ósannindi

Útfrá þessu bréfi taldi siðanefnd að PP væri fulltrúi BRS í málinu. Það er eflaust ekki rétt ákvörðun út frá sjórnsýslulegu sjónarmiði. En að halda því fram að siðanefndarmenn hefðu með þessu ekki viljað hlusta á hlið Bjarna, eða verið að taka þátt í einhverju ímynduðu einelti, á ekki við nein rök að styðjast. Siðanefndin vildi endilega heyra hlið Bjarna, en hann neitaði ítrekað að tala við siðanefndina.

BRS heldur því fram að frásögn PP sé ekki rétt. Hann neitar að hafa samþykkt að PP kæmi fram fyrir hans hönd í málinu. Við þetta má bæta að PP og BRS höfðu farið ítarlega yfir málið saman áður en þarna var komið við sögu samkvæmt frásögn BRS í tímaskýrslu hans af málinu.

Ljóst er að siðanefnd talaði við PP í góðri trú. Ef einhver kom í veg fyrir að BRS gæti komið sjónarmiðum sínum að, var það PP. Það er ekki eingöngu við siðanefnd að sakast.

Heldur nokkur að PP hefði ekki sagt BRS frá því sem væri að gerast? Hvernig gat Bjarni Randver Sigurvinsson ekki vitað hvað var í gangi?

Elskið friðinn

Stuðningsmenn Bjarna Randvers verða að gera það upp við sig hvort þeim þykir aðkoma sín að málinu byggja á traustum grunni. Væri ekki rétt í ljósi þessara gagna að þeir biðji fulltrúa siðanefndar afsökunar á gagnrýni á borð við þá að hún hafi verið að leggja Bjarna í einelti eða ætlað honum eitthvað illt?

Trúir fólk því í alvöru að Vantrú hafi einhvern veginn getað stjórnað tveimur siðanefndum í Háskóla Íslands? Trúir fólk því í alvöru að í Vantrú sé svo illgjarnir og vondir einstaklingar að það vildi leggja BRS í einelti... af því bara?

Ritstjórn 06.12.2011
Flokkað undir: ( Háskólinn )

Viðbrögð


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/12/11 10:18 #

Ljóst er að siðanefnd talaði við PP í góðri trú. Ef einhver kom í veg fyrir að BRS gæti komið sjónarmiðum sínum að, var það PP. Það er ekki eingöngu við siðanefnd að sakast.

Frásögur af því að formaður siðanefndar hafi talað við Reyni Harðarson formann Vantrúar á einkafundum en ekki Bjarna Randver verður að skoða í þessu ljósi. Formaður siðanefndar átti einkafundi með dr. Pétri Péturssyni. Skiljanlega eftir að Pétur hafði sent þetta bréf og fullyrt að Bjarni Randver hefði samþykkt að Pétur kæmi fram fyrir hans hönd.

Það má gagnrýna siðanefnd fyrir að hafa ekki talað beint við Bjarna Randver. Vantrú reyndi að hafa samband við Bjarna á sínum tíma, sendi honum tölvupóst á háskólapóstfangið hans sem gefið var upp í kennsluskrá, en Bjarni svaraði aldrei. Sagði ekki nota það póstfang.


Einar - 06/12/11 10:48 #

Síðan virðist vera sett samasemmerki við hvað einhver félagsmaður sagði í hálfkæringi á lokuðu spjallborði og síðan hvað félagið gerði í kjölfarið.

Grín og kaldhæðni tekin úr samhengi og sett fram eins og full meining hafi verið þar bakvið.

Og fjöldi fólks virðist trúa þessu.

Þessi maður og stuðningsmenn hans hafa orðið sér og HÍ til skammar.

kv.


Siggeir F. Ævarsson (meðlimur í Vantrú) - 06/12/11 10:56 #

@Einar.

Sumir virðast trúa því að Láki Jarðálfur sé formaður Vantrúar.


Sigurgeir Örn - 06/12/11 12:07 #

Furðulegt hvað sumum er í mun að koma þessu félagi upp sem einhvers konar 'vondum köllum' í samfélaginu. Trúenrishyggjan, eins og Hjalti kallaði það svvo skemmtilega í síðustu grein, virðist einkar ganga úr á að sverta þetta félag. Ég verð nú samt að spyrja, er það vitleysa í mér eða er umræðan um þetta að aukast núna í Desember?


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 06/12/11 12:25 #

Kirkjan vill fara í jólastríð. Það er nefnilega svo kristilegt.


Víðir - 06/12/11 12:54 #

Kom dr. Pétur fram í nafni Bjarna Randvers í þessu máli eða ekki? Þarf ekki að fá botn í það? Bjarni segir svo ekki vera.

En aðkoma Dr.Péturs og upplifun Bjarna á samskiptaleysi við siðanefnd virðist hafa sprengt þetta mál upp að lokum. Sjá:

Nefndin telur að sú ákvörðun siðanefndar og guðfræði- og trúarbragðafræðideildar að ljúka málinu gegn Bjarna Randveri með sátt sín í milli á vormánuðum 2010, án aðkomu hans að sáttargjörðinni, sé meginástæða þess í hvaða farveg málið þróaðist og að ekki hafi tekist að ljúka því innan Háskóla Íslands

Úr skýrslu óháðu nefndarinnar um störf siðanefndar

Ég sé hreint út sagt ekki hvernig þetta mál - eins og það stendur í dag - komi athugasemd Vantrúar við hið minnsta. Maður finnur frekar nasaþef af almannatengslastríði kirkjustofnunnar og fnyk af tengdum almannatengslafyrirtækjum :)


Jón Steinar - 06/12/11 13:44 #

Ég verð að koma því hér að að mér finnst Þórður Ingvasson eiga óskipta ábyrð á því í hvaða farveg þetta mál er nú í fjölmiðlum. Fyrir hans barnaskap hefur Bjarna Randver og co tekist að henda þessu út af málefnalegu spori yfir í hatursorgíu heilagrar henykslunar trúvarnarklíkunnar. Ég kann honum engar þakkir fyrir og mér finnst að þið verðið að girða ykkur í brók og veita hver öðrum innbyrðis aðhald ef þið eigið að geta risið úr þessu hjólfari lágkúr og barnaskapar sem hann hefur komið þessu í. Skítt með það þótt honum finnist þetta eitthvað grín. Hann hefur gengið fram með ögrun og virðingarleysi, sem mér finnst algerlega óafsakanlegt.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 06/12/11 13:53 #

@Jón Steinar

Félagið Vantrú skiptir sér ekki af því hvað einstakir félagsmenn skrifa á sínar prívatsíður. Ætti t.d. Rótarý að banna sínum félagsmönnum að halda úti bloggsíðum eða ritskoða það sem þar fer fram? Það er aumt að telja Þórð bera einhverja sérstaka ábyrgð á því hvernig málum er komið.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/12/11 14:03 #

Jón Steinar, það er nokkuð liðið síðan Þórður tók umrædda bloggfærslu útaf bloggsíðu sinni.


Jón Steinar - 06/12/11 14:19 #

Hann er samkvæmt allra skilningi með ábyrgð í félagskapnum og gefur kollektívan höggstað á honum jafnt sem öðrum trúlausum. Hann er að ögra Bjarna Randveri og hæðast að honum sem meðlimur Vantrúar, hann er að brúka stjarnfræðilegan sorakjaft um biskupa og presta, sem meðlimur í félagskapunu. Öll hans skrif, hvar sem er munu notuð gegn ykkur öllum. Nú gengur maður undir mann að reyna að leiðrétta og afneita þessu á bloggsíðum. Málsatvikin sjálf komast ekki einu sinni að.

Þið ættuð kannski að setja ykkur siðareglur.Lögmannafélagið er einmitt að taka Svein Andra í gegn fyrir frekar hóflegt komment á Facebook miðað við þetta af því að framganga hans snertir alla stéttina.

Þið þurfið ekkert að hrökkva í neina vörn, ég vil félagskapnum ekkert nema vel. Þetta er kurteisleg ábending, sem ég held að eigi alveg rétt á sér.

Í sama hvaða samhengi það er, þá er engin hemja fyrir stálpaða manneskju að hegða sér svona eins og hann gerir. Í þessu tilfelli hefur það haft neikvæðar afleiðingar fyrir baráttumál hans og allra sem þau hafa.


Björn I - 06/12/11 14:42 #

Vottar Jehóva skipta sér af daglegu lífi sinna félagsmanna á hina ýmsu vegu, eða svo var það allavega þannig þegar ég var að skoða þá. T.a.m. máttu þeir ekki nota netið nema á þann hátt sem félagið samþykkti.

Við skulum nú vona að krafa Jóns Steinars um ritskoðun á félagsmönnum Vantrúar sé lögð fram í hugsunarleysi, því ef einhverntíman verður hægt að tala um Vantrú sem költ, þá verður það þegar félagið skiptir sér af daglegu lífi meðlima sinna.

Þess utan vil ég lýsa yfir stuðningi við Vantrú í þessu máli. Það er sorglegt að sjá hve lítið þarf af bulli og upphrópunum til að hinn háværi minnihluti kristinna gangi af göflunum hér á landi, algerlega án þess að skoða nokkuð um hvað málið snýst.

Hatur, græðgi og ótti eru öflugir hvatar.


Jón Steinar - 06/12/11 15:41 #

Ekki finnst mér þetta málefnalegt svar Björn. Skiljanlegt að stundum hlaupi kekir í umræðuna, ef þetta er standard viðmót ykkar. Ég er hvergi að krefjast ritskoðunnar. Ég er hinsvegar að benda ykkur á að vanda framkomu ykkar með hag heildarinar að leiðarljósi og máske læra af þessum mistökum. Það er kannski einmitt málið að þið eigið ekki við málefnalegasta fólki á landinu þegar um trúmenn er að ræða. Það er því kannski bara skynsemi í því að gefa ekki höggstað á ykkur. Ég vona allavega að Þórður taki þetta til sín, þar sem ekki er hægt að sjá nokkurn tilgang né skynsemi í framferði hans. Hann áttar sig kannski á því að talsverð ábyrgð fylgir orðum og að þau eru ekki alltaf hans einkamál eins og berlega hefur sýnt sig. Mér finnst sjálfsagt að segja til vamms þegar við á og er undrandi á að þið hafið ekki gert það. Þvert á móti virðist þið réttlæta þetta hver um annan þveran. En ef þið kjósið að Vantrú verði í framtíðinni meira í formi tannlauss tígurs eða saumaklúbbs, þá er það ykkar val. Ég ber virðingu fyrir flestum sem koma fram í nafni félagsins og kannski óþarflega annt um framtíð þess. Ég hef allavega sagt mína skoðun. Óþarfi að snúa út úr orðum mínum eða sýna þótta. Þið ráðið alveg hvort þið takið þetta til ykkar eða ekki.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/12/11 15:45 #

Takk fyrir athugasemdina Björn. Þetta er hárrétt. Ólíkt trúfélögum skiptir Vantrú sér ekki af hegðun félagsmanna.

Jón Steinar, Björn er ekki í Vantrú.

Að sjálfsögðu mega félagsmann, hvort sem þeir eru í forsvari fyrir félagið eða ekki, vera meðvitaðir um að það sem þeir láta frá sér getur sett blett á félagið. En Vantrú ætlar ekki að leggja línurnar fyrir hegðun meðlima á öðrum vettvangi.

Greinar sem skrifaðar eru á Vantrú þurfa að uppfylla vissar kröfur og við ræðum við meðlimi um að slaka á ef þeir eru að missa sig í umræðum hér á síðunni.


Þórður Ingvarsson (meðlimur í Vantrú) - 06/12/11 15:50 #

Takk fyrir þetta Jón Steinar. Tek þessa sneið til mín. En bendi þér þó á að þú ert ekki að benda á neitt nýtt og þetta hefur alveg verið rætt. Kannski ræði ég þetta eitthvað betur á blogginu mínu og hver veit, kannski mun ég biðjast afsökunar á einhverju.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 06/12/11 16:48 #

Aftur að efni greinarinnar.

Þegar atburðarrásin er skoðuð lítur málið svona út. Afsakið ólæsilega uppsetningu, athugasemdarkerfið styður ekki töflutagið.

4.2.2010 Vantrú sendir erindi til siðanefndar, rektors og guðfræðideildar
4.3fram kemur á síðu Vantrúar að félagið hefði haft samband við siðanefnd
15.3 kom formaður siðanefndar aftur til starfa
18.3 hafði formaður siðanefndar samband við Hjalta Hugason símleiðis og lét hann vita af málinu. Allir koma af fjöllum varðandi það að málið sé hjá siðanefnd þrátt fyrir að það hafi komið fram 4.3 á síðu Vantrúar
23.3 Pétur Pétursson sendir formanni siðanefndar bréf og segist munu koma fram fyrir hönd BRS. PP segir að þetta sé gert samráði við BRS
25.3 Siðanefnd fundar um málið. Ákveðið að formaður hafi samband við aðila málsins. Skv. bréfi PP kemur hann fram fyrir hönd BRS. Formaður siðanefndar ræðir við fulltrúa beggja aðila og reynir að koma á sáttum.
Hefst nú atburðarrás þar sem ýmsir aðilar fara að gera athugasemdir við störf nefndarinnar, sem hefur þó ekkert gert annað en að formaður hefur reynt að ljúka málinu með sátt. Tími formanns fer að stórum hluta í að verjast árásum stuðningsmanna BR.
30.4 Siðanefnd sendir Vantrú bréf um að málið verði tekið fyrir Nefndin sendir BRS einnig bréf, en það fer í rangt pósthólf.
10.5 Ritari siðanefndar hringir í BRS, hann fær lengri frest útaf misstökum nefndarinnar við að hafa samband við hann.

Bréf PP þann 23.3 er algert lykilatriði þegar störf siðanefndar eru gagnrýnd.


Björn I - 06/12/11 18:07 #

JÓn Steinar: Hvaða ábyrgð fylgir þeim orðum að ég og aðrir trúleysingjar ógni mannlegu samfélagi?

Í hverju felst ábyrgð þess sem lagði út frá þeim orðum í boði ríkisins?

Af hverju í ósköpunum á ég að stressa mig yfir ábyrgð einhvers bloggara sem ég þekki ekki neitt og les ekki ef út í það er farið, á meðan forsvarsmaður ríkisbákns með milljón á mánuði, þarf ekki að bera neina ábyrgð á sínum orðum sem eru sögð í útbreiddasta fjölmiðli á Íslandi?

Hví hrópuðu þeir sem nú hrópa ekki þegar grein þessa Þórðar var birt á sínum tíma? Svar: Vegna þess að þeim var ekki sagt að gera það þá en þeim er sagt að gera það nú.

Að lesa költistana á moggablogginu er eins og að lesa drónahjal manna sem aldrei hafa hugsað en hafa hinsvegar getað litið á sjálfa sig sem meiri menn þar sem þeir hafa hingað til verið í sigurliðinu. Auðvitað eru slíkir menn hræddir um þessar mundir, þegar almenningur er að átta sig á þeirri staðreynd að guðlegt yfirvald meikar engan sens.

Þess vegna hjala þeir nú, í boði þjóðkirkju og þeirrar áróðursmaskínu sem þjóðkirkjan borgar.

Þess utan get ég bent á sambærileg dæmi og hjá Bjarna Randver hjá Vottum Jehóva, þar sem þeir taka út millisetningar til að afvegaleiða fólk og þannig þjóna sínum málstað. Þessi Bjarni Randver er þrælóheiðarlegur maður sem klippir miskunarlaust út úr tilvitnuðum texta þannig að það henti hans málstað. Slíkt hið sama gera Vottar Jehóva og á ég mörg dæmi um slíkt.

Það þarf mikla trú til að taka málstað Bjarna Randvers í þessu máli og trú er jú byggð á helstu löstum manna sem er óttinn og græðgin.


Jóhanna - 07/12/11 01:51 #

[Hvað kemur þetta málinu beinlínis við? Fært á spjallið. - ÞI]


Andrés Björgvin Böðvarsson - 07/12/11 10:55 #

Mér virðist ljóst að framganga Péturs Péturssonar var, a.m.k. í þessu efni, ekki Bjarna til framdráttar: Þessi yfirlýsing hans um að þeir hefðu orðið sammála um að það heyrði helst upp á hann að ræða við nefndina er frekar óljós, a.m.k. ekki afdráttarlaus yfirlýsing um að hann ætli sér að koma fram beinlínis sem fulltrúi Bjarna. En í ljósi þess að Siðanefndin hafði ekkert uppáskrifað frá Bjarna um að hann samþykkti PP sem fulltrúa sinn þá bar henni að ganga úr skugga um að svo væri.

En eitt það ámælisverðasta í störfum nefndarinnar er að hún skyldi ekki strax birta honum kæruna og að fyrra bragði óska eftir skýringum frá Bjarna strax í upphafi málsins. Bjarni hafði aftur á móti samband við formann Siðanefndar 14. apríl, næstum heilum mánuði ÁÐUR en hann fær kæruna í hendur, og formaðurinn NEITAÐI að ræða við hann um málið. Bjarni var ekki boðaður á fund nefndarinnar fyrr en næstum því ÁTTA MÁNUÐUM eftir að kæran var lögð fram. Það var allur áhuginn sem nefndin hafði á að ræða við Bjarna um málið. Aftur á móti hafði formaður nefndarinnar svo mikinn áhuga á að ræða við kærandann, Reyni Harðarson, að hann bauð honum HEIM TIL SÍN 7. apríl 2010.

Bjarna, og raunar PP líka, var orðið ljóst á þessum tímapunkti að nefndin ætlaði sér ekki að taka hans sjónarmið til greina. Bjarni var aldrei boðaður á fund af fyrri siðanefndinni og það var ekki fyrr en skipaður var nýr formaður "nýrrar" sérskipaðrar siðanefndar, sem þó innihélt tvo af þremur upprunalegum nefndarfulltrúum, sem nefndin boðaði hann á fund. Bjarni og lögmaður hans, Ragnar Aðalsteinsson, álitu nefndina vanhæfa og eftir ráðum lögmanns síns ákvað Bjarni að neita að tjá sig við nefndina og þess í stað láta öll samskipti við nefndina fara í gegnum lögmann sinn.

Það er því í besta falli hálfsannleikur að Bjarni hafi ítrekað neitað að ræða við Siðanefndina. Bjarni neitaði aðeins að mæta sjálfur fyrir nefndina, heldur sendi málsvara sinn Ragnar Aðalsteinsson í sinn stað, eftir að fyrri nefndin hafði klúðrað málsmeðferðinni og gerst brotleg við starfsreglur sínar (eins og fram kemur í niðurstöðu rannsóknarnefndar sem fór yfir málsmeðferðina), sér í lagi hvað varðar rannsóknarskyldu, enda sátu í "nýju" nefndinni ennþá tveir meðlimir úr upprunalegu nefndinni.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/12/11 11:09 #

Bjarni var ekki boðaður á fund nefndarinnar fyrr en næstum því ÁTTA MÁNUÐUM eftir að kæran var lögð fram.

Þetta er ekki nákvæmt. Bjarni Randver var boðaður á fund nefndarinnar 10.5 eins og fram kemur í athugasemd minni fyrir ofan. BRS fékk frest þar sem siðanefnd hafði sett bréfið til hans í rangt pósthólf.

Stuðningsmenn Bjarna Randvers komu í veg fyrir að siðanefnd gæti fjallað um málið. Það endaði með því að formaður siðanefndar sagði af sér eftir harðar árásir frá stuðningsmönnum BRS. Það þurfti því að finna nýjan formann svo nefndin gæti kárað máli

Fundurinn sem var að lokum haldinn, átta mánuðum eftir að Vantrú sendi siðanefnd erindi sitt, var eftir að nýr formaður og tveir aukamenn voru komnir í nefndina (og sumarfríi var lokið).

enda sátu í "nýju" nefndinni ennþá tveir meðlimir úr upprunalegu nefndinni.

Þeir voru fleiri. Ég sé ekki að það sé gerð athugasemd við þetta í rannsóknarskýrslunni. Helst er gerð athugasemd við að siðanefnd hafi ekki lokið málinu, en hvernig átti nefndin að gera það þegar BRS neitaði að mæta og standa fyrir máli sínu?

Þetta mál væri enn í gangi ef Vantrú hefði ekki ákveðið að draga kvörtun sína til baka með hag Háskóla Íslands í huga.


Andrés Björgvin Böðvarsson - 07/12/11 12:31 #

Þetta er ekki rétt Matti. 10. maí var Bjarna boðið að skila inn skriflegum andmælum. Hann var ekki boðaður á fund nefndarinnar.

Hvers vegna má Bjarni ekki viða að sér stuðningsmönnum, sérstaklega þegar málið varðar starfsgrundvöll fræðimanna almennt, þ.e. þegar vegið er að akademísku frelsi manna? Mega þeir ekki tjá sig um málið eins og þið? Hafi málinu verið spillt vegna yfirlýsinga stuðningsmanna Bjarna þá hafði því þegar verið spillt á leynifundi formanns Siðanefndarinnar og formanns Vantrúar 7. apríl þar sem sáttatillaga var soðin saman sem fól í sér áfellisdóm yfir störfum Bjarna Randvers án þess að talað hefði verið við hann.

Jú vissulega voru tveir aukamenn með í nýju nefndinni, ég hefði betur tekið það fram í svari mínu (ég mundi reyndar ekki þegar ég skrifaði svarið hvort þeir voru tveir eða fleiri). Það skiptir þó ekki sköpum í mínum huga. Þeir tveir sem eftir sátu höfðu hagsmuni af því að verja málsmeðferð og afstöðu fyrri nefndar gagnvart hinum fulltrúunum. Nóg var fyrir þá að fá einn af nýju nefndarmönnunum á sitt band til að áfellisdómur yfir Bjarna yrði staðfestur. Eðlilegast hefði verið að skipa alfarið nýja nefnd í þessu máli, helst skipaða óháðum aðilum utan Háskólans. Þó svo þetta fyrirkomulag að halda eftir tveimur nefndarmeðlimum í stað þess að skipa nýja nefnd sé ekki gagnrýnt í skýrslunni þá bera nefndarmennirnir samt sameiginlega ábyrgð með fyrri formanninum á klúðri í málsmeðferðinni og broti á starfsreglum nefndarinnar. Þetta hafði óháða nefndin að segja um ákvörðun Vantrúar að draga kæruna til baka (bls. 9):

"Nefndin telur það óviðunandi, fyrir Háskóla Íslands og málsaðila, að ekki hafi tekist að ljúka því efnislega. Siðanefndinni hafi borið að taka afstöðu til þess hvort fullnægjandi málsgrundvöllur væri til staðar, þ.e. hvort málið heyrði undir nefndina og ef svo bar undir, að leggja fullnægjandi grundvöll að málinu með sjálfstæðri rannsókn svo úrskurða mætti hvort siðareglur Háskóla Íslands hefðu verið brotnar. Þetta tókst ekki."

Hverjum telur óháða nefndin að sé um að kenna? Ekki stuðningsmönnum Bjarna heldur Siðanefndinni sem brást rannsóknarskyldu sinni.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/12/11 14:10 #

Þetta er ekki rétt Matti. 10. maí var Bjarna boðið að skila inn skriflegum andmælum. Hann var ekki boðaður á fund nefndarinnar.

Rétt. Svo hefði fundur verið haldinn í kjölfar þess. Þann fund var aldrei hægt að halda.

Hvers vegna má Bjarni ekki viða að sér stuðningsmönnum

Hann mátti það. Stuðningsmenn hans hefðu mátt halda aftur af sér í grófum árásum á siðanefndarfólk - að mínu hógværa mati.

Þeir tveir sem eftir sátu höfðu hagsmuni af því að verja málsmeðferð og afstöðu fyrri nefndar gagnvart hinum fulltrúunum.

Það voru fleiri en tveir eftir. Það er það sem ég var að reyna að benda þér á.

Eftir mjög harðar árásir stuðningsmanna BRS á siðanefndarfólk var algerlega borin von að hægt yrði að skipa nýja nefnd. Ekki einu sinni þó leita þyrfti til fólks utan skólans. Staða málsins var þannig að helst hefði þurft að finna fólk í útlöndum til að sinna þessu.

Málið var ónýtt.


Ásgeir (meðlimur í Vantrú) - 07/12/11 14:34 #

Í raun kemur þetta ekki málinu við, hvernig Siðanefnd höndlaði málið kemur upphaflegri kæru Vantrúar ekkert við. Bjarni er jafn sekur (eða saklaus) hvort heldur sem áður.


Andrés Björgvin Böðvarsson - 07/12/11 16:16 #

Hvernig veistu það, Matti, að fundur með Bjarna hefði verið haldinn í kjölfar þess að hann sendi inn andmæli? (Ég spyr ekki vegna þess að ég efist um að það hafi staðið til heldur vegna þess að ég einfaldlega veit það ekki og veit ekki um nein gögn sem staðfesta slíkt.)

Í hverju fólust þessar grófu árásir á siðanefndarmenn? Fólust þær í því að benda á brot á starfsreglum siðanefndar sem óháða rannsóknanefndin síðan staðfesti?

Það sem ég vildi reyna að benda þér á, Matti, varðandi seinni siðanefndina er að það skipti ekki máli þó fjöldinn hefði verið aukinn í fimm þar sem áhrifa tveggja upprunalegu meðlimanna, sem voru samábyrgir fyrri formanni á óvandaðri málsmeðferð í þessu máli, gætti enn og efast mátti um að þeir myndu breyta afstöðu sinni við rannsókn málsins og þar með fella þann dóm yfir sjálfum sér að hafa brugðist rannsóknarskyldu sinni í fyrri nefndinni.

Ásgeir: Rétt er það: Mistök Siðanefndar Háskólans er ekki á ábyrgð Vantrúar (þó grandvarari menn hefðu e.t.v. áttað sig á því að óformlegur einkafundur með formanni nefndarinnar bæri ekki vott um vandaða málsmeðferð). En í greininni er verið að verja Siðanefnd og vildi ég svara nokkrum rangfærslum í því samhengi.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/12/11 17:23 #

Hvernig veistu það, Matti, að fundur með Bjarna hefði verið haldinn í kjölfar þess að hann sendi inn andmæli?

Þannig starfar siðanefnd.


Birgir Baldursson (meðlimur í Vantrú) - 07/12/11 18:19 #

(þó grandvarari menn hefðu e.t.v. áttað sig á því að óformlegur einkafundur með formanni nefndarinnar bæri ekki vott um vandaða málsmeðferð)

Hefur það ekki komið fram að nefndin átti sams konar fund eða fundi með Pétri Péturssyni, sem eftir því sem best var vitað hafði málið á sinni könnu fyrir hönd Bjarna Randvers? Í ljósi þess er óþarfi að gera svona mikið úr þessum fundi siðanefndarformanns með Reyni.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 07/12/11 18:48 #

Formaður siðanefndir lýsti því sjálfur að þarna hefði hann verið í hlutverki sáttasemjara, að athuga hvort það væri hægt að finna sáttaleið í málinu.

Um leið og ljóst var að sættir voru ekki mögulegar tók nefndin málið formlega fyrir og haft var samband við BRS.

Getur verið að Pétur Pétursson hafi sagt Bjarna Randver að ræða málið ekki veið neinn? Er það hugsanlegt?


Haukur Þ. - 13/12/11 12:02 #

Samkvæmt siðareglum Háskólan Íslands skal umfjöllun kennara við Háskóla Íslands ekki verið einhliða og má ekki gefa villandi mynd af því sem fjallað er um (2.1.3).

Orðalagið er að "birtar niðurstöður" eigi ekki að gefa einhliða og villandi mynd. Það hljómar meira eins og verið sé að tala um útgefnar greinar og bækur eða opinbera fyrirlestra fremur en venjulega kennslu.

Ekki svo að skilja að mér finnist það bara gott mál að gefa einhliða og villandi mynd í kennslunni.


Matti (meðlimur í Vantrú) - 13/12/11 13:29 #

Þetta er ágætur punktur. Hefði verið áhugavert að sjá umfjöllun siðanefndar og hvort gerður sé greinarmunur á útgefnu efni fræðimanna og fyrirlestrum hvað þetta varðar.


Trausti Trausta - 15/12/11 20:42 #

[ athugasemd flutt á spjallborð þar sem hún tengist ekki efni greinarinnar ]

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.