Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Um guðlast

Guðlast

Þegar Danakonungur ríkti yfir Íslandi þá tók hann sér völd í skjóli trúar og um leið eignuðust Íslendingar heilagan ríkisguð. Í Rómverjabréfinu sem finna má í nýja Testamentinu er útskýrt hvernig hinn danski konungur hélt völdum samkvæmt kennisetningum ríkistrúarinnar.

Rómverjabréf
Róm13:1 Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn. Því ekki er neitt yfirvald til nema frá Guði, og þau sem til eru, þau eru skipuð af Guði. 2 Sá sem veitir yfirvöldunum mótstöðu, hann veitir Guðs tilskipun mótstöðu, og þeir sem veita mótstöðu munu fá dóm sinn. 3 Sá sem vinnur góð verk þarf ekki að óttast valdsmennina, heldur sá sem vinnur vond verk. En viljir þú eigi þurfa að óttast yfirvöldin, þá gjör það sem gott er, og muntu fá lofstír af þeim. 4 Því að þau eru þjónn Guðs þér til góðs. En ef þú gjörir það sem illt er, þá skaltu óttast. Yfirvöldin bera ekki sverðið ófyrirsynju, þau eru Guðs þjónn, hegnari til refsingar þeim er aðhefst hið illa. 5 Þess vegna er nauðsynlegt að hlýðnast, ekki einungis vegna hegningarinnar, heldur og vegna samviskunnar. 6 Einmitt þess vegna gjaldið þér og skatta, því að valdsmennirnir eru Guðs þjónar, sem annast þetta. 7 Gjaldið öllum það sem skylt er: Þeim skatt, sem skattur ber, þeim toll, sem tollur ber, þeim ótta, sem ótti ber, þeim virðing, sem virðing ber.

Vegna mikilvægi kennisetninga kristninnar var eðlilegt að konungur vildi halda ströngum aga um ríkistrúna. Þegar fyrstu lög um prentfrelsi voru gefin út árið 1855 af konungi voru eftirtalin atriði bönnuð:

Að hvetja til uppreisnar gegn konungi, dróttar að honum svívirðilegum athöfnum, gerir gys að trúarlærdómum eða guðsdýrkun.

Þegar Íslendingar fengu sjálfstæði fengu opinberir starfsmenn réttarstöðu konungs og ekki mátti á þá halla orði. Svo fór þó að lokum að mannréttindadómstóll Evrópu aflétti þessar réttarstöðu starfsmanna ríkisins. Eftir stendur í íslenskum lögum heilagleiki trúar í krafti úrelts fyrirkomulags einræðis og harðstjórnar. Hér eru almenn hegningarlög frá árinu 1869:

157.gr.almennra hegningarlaga frá 25. júní 1869

Hver, sem gerir gys að eða smánar trúarlærdóma eða guðsdýrkun nokkurs trúarbragðafélags, sem er á Íslandi, skal sæta fangelsi ekki vægara en 1 mánaðar einföldu fangelsi eða sektum, ef miklar málsbætur eru.

Þessi lög konungs má ennþá finna á 21. öld og eru þau skráð í almennum hegningarlögum frá árinu 1940. Lögin frá 1940 eru verri en þau gömlu frá 1869, því þar er fangelsisvist lengd úr einum mánuði í þrjá mánuði. Staða ríkissaksóknara er ekki öfundsverð því hann er settur í sömu stöðu og gömlu ákærendur rannsóknarrétta fyrri tíma.

125.gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

Hver, sem opinberlega dregur dár að eða smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúarbragðafélags, sem er hér á landi, skal sæta sektum eða [fangelsi allt að 3 mánuðum].1) Mál skal ekki höfða, nema að fyrirlagi saksóknara.

Fyrr á öldum var fólk tekið af lífi fyrir guðlast en upp úr 19. öld var öðrum refsingum beitt. Eftir að Íslendingar fengu sjálfstjórn í sínum málum árið 1918 hafa aðeins tveir menn verið dæmdir fyrir guðlast; Brynjólfur Bjarnason árið 1925 og Úlfar Þormóðsson árið 1983.

Það er athyglisvert að þegar saga 20. aldar er skoðuð þá voru kirkjuyfirvöld fremst í flokki að reyna virkja þessi miðaldarlög. Mál Spaugstofunnar 1997 er fróðlegt dæmi um það og er allt hið raunalegasta fyrir íslenskt samfélag.

Kennisetningar kristinnar trúar

Í kennibók kirkjuyfirvalda eru skýrar reglur um meðferð einstaklinga sem fremja guðlast:

Mt 12:31 [Jesú segir] ... en guðlast gegn andanum verður ekki fyrirgefið.
Mt 13:41 [Jesú segir] Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, 42og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna.
Mt 23:32 [Jesú segir] þeim sem mælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið, hvorki í þessum heimi né í hinum komanda.
Jn 15:6 [Jesú segir] Hverjum sem er ekki í mér, verður varpað út eins og greinunum, og hann visnar. Þeim er safnað saman og varpað á eld og brennt.

Nú er ljóst samkvæmt kenningum kristninnar að refsing þess sem fremur guðlast eru vítiskvalir í eldsofni um alla eilífð. En eilífðarkvalir í helvíti virðist samt ekki duga refsiglöðum trúmönnum því einnig þarf að refsa manninum í lifandi lífi. Kannski er skýringin að finna í vantrú veraldlegra yfirvalda á refsimætti hins kristna guðs eða hér er um að ræða þjófstart yfirvalda á aðgerðaráætlun Mannsonarins (Jesú) á meintri endurkomu hans til jarðar. Hver sem ástæðan er þá er það til háborinnar skammar að til séu sérstök lög um guðlast í íslenskri löggjöf.

Burt með guðlast

Það er athyglisvert að sjá fólk hér á landi gagnrýna trúarnöttara í mið-austurlöndum fyrir trúarofstæki og ofsóknir en sætta sig við - eða vita ekki af - að klerkar á Íslandi geti krafist dóma yfir löndum sínum byggt á lögum sem talíbanar mundu fagna.

Á meðan þessi lög eru enn í almennum hegningarlögum verður ekki annað séð en að alþingi hafi sofnað á verðinum. Þingmenn verða að gera sig grein fyrir að 125. grein almennra hegningarlaga er hluti kristilegs konungsveldis sem kúgaði Íslendinga öldum saman í skjóli sinna verulega vafasömu kennisetninga og hugmynda. Fjöldi manns hefur verið ofsótt og drepið á hryllilegan hátt vegna guðlasts á Íslandi. Lágmarks virðing fyrir æru og minningu fórnarlamba kirkjuyfirvalda og konungs er að fella þessa grein úr gildi.

Með lögum skal land byggja, en ólögum eyða.

Frelsarinn 30.10.2011
Flokkað undir: ( Guðlast )

Viðbrögð


Halldór L. - 30/10/11 13:36 #

Það þyrfti að setja af stað einhverskonar hreyfingu sem mótmælir þessu í verki, "Handtakið okkur" gæti hún heitið eða eitthvað álíka.

Þar myndi fólk í stórum stíl draga dár að ýmsum trúarbrögðum undir nafni og jafnvel gefið upp heimilisfang og góðar tímasetningar fyrir löggimann að banka upp á og sækja.

Það eina sem að hún myndi þó ná fram væri að sýna fram á áhugaleysi þingmanna og afskiptaleysi löggunnar.


Svanur Sigurbjörnsson - 04/11/11 16:49 #

Góð úttekt á guðlastslögunum og ástæðunni bak við þau. Takk fyrir.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.