Það er mér mikið ánægjuefni - sem foreldri og kennara - að reglur er banna trúboð í skólum borgarinnar hafi verið samþykktar. Hins vegar koma athugasemdir ýmissa einstaklinga er varða þessar reglur mér mjög á óvart.
Sumir vilja meina að þessar reglur séu árás á ríkiskirkjuna. Aðrir segja að það fari hvort sem er ekkert trúboð fram í skólum. Enn aðrir halda því fram að það sé verið að þurrka siðferði út úr skólastarfinu og verið sé að banna kristinfræðslu. Svo eru nokkrir sem telja að með þessu sé verið að bola trúnni burt úr opinberu rými og fleira í þeim dúr.
Að halda því fram að einungis kristnir geti kennt siðferði og manngildi er móðgandi fyrir kennarastéttina sem ég tilheyri. Sjálf er ég fullfær um að sýna og kenna nemendum mínum virðingu, samkennd og umhyggju. Einnig get ég kennt þeim færni í að leysa vandamál og ágreining á friðsamlegan hátt. Þetta er hægt án þess að til þurfi einhverskonar guðlega og kristilega íhlutun.
Það er ekki þar með sagt að ég boði trúleysi í vinnunni minni. Af virðingu fyrir barni og fjölskyldu þess myndi mér aldrei detta í hug að segja við barn kristinna foreldra að guðinn sem þau trúa á sé ekki til. Enda ekki mitt að segja. En ég vil að sjálfsögðu að sama virðing sé borin fyrir mér og mínu barni.
Sú staðhæfing að enginn hafi hlotið skaða af starfi kirkjunnar í skólum er röng (1, 2). Börn hafa upplifað andlega vanlíðan vegna heimsókna skóla í kirkju og heimsókna presta í skóla. Þá á ég aðallega við þá vanlíðan sem slíkar heimsóknir geta valdið innan fjölskyldunnar.
Til dæmis fannst mér mjög sárt að horfa upp á þá reiði sem sonur minn sýndi gagnvart mér þegar hann heyrði að ég trúi ekki á guð. Hann sagði mér að ég væri búin að "drepa guð". Í smá tíma þá var ég versta manneskja í heimi í hans augum.
Þetta gerðist aðeins nokkrum dögum eftir að leikskólinn hans fór í jólaheimsókn í kirkju. Þar með var leikskólinn að snúa barninu mínu gegn mér. Áður hafði ég ekki skipt mér mikið af kirkjuheimsóknum þar sem ég hélt í einfeldni minni að kennarar leikskólans og starfsmenn kirkjunnar myndu forðast boðandi efni af virðingu við mismunandi skoðanir foreldra.
Sem foreldri get ég beðið um að barnið mitt verði tekið úr hópnum á meðan á þessum heimsóknum stendur. En er það virkilega sanngjarnt gagnvart barninu? Verð ég virkilega að velja milli þess að láta barnið mitt vera útundan eða að leyfa einhverjum ókunnugum að innræta barni mínu trú án míns samþykkis?
Þegar ég segi að ég vilji ekki að barninu mínu sé mismunað vegna trúarskoðana hef ég stundum fengið þau svör að það sé ég sjálf sem mismuni barni mínu vegna þess að ég vil ekki að hann taki þátt í trúarstarfi.
Þetta er jafn furðuleg röksemdarfærsla og sú sem Friðrik Schram hélt fram, þ.e. að þeir sem eru á móti samkynhneigð sæti fordómum. Að þeir sem eru með fordóma verði fyrir fordómum. Þannig mismuna ég barninu mínu því ég vil ekki að því verði mismunað.
Það er ekki verið að neita neinum um réttinn til trúar. Hver sem er má fara í kirkju og tala við sinn prest ef viðkomandi vill. Það er einungis verið að koma í veg fyrir að trú sé innrætt börnum án samþykkis foreldra. Það hefur ekki verði bannað að fara með börn í kirkjur. Það verður bara ekki gert á vegum skólans.
En af hverju eru sumir svona ákveðnir í að boða trú í skólum? Treysta trúaðir foreldrar sér ekki til að viðhalda trú barnanna sinna á eigin spýtur? Eða er það kirkjan sjálf sem treystir þeim ekki til þess?
Að sjálfsögðu ekki, Elín, enda hefur jólasveinninn ekkert með kristni að gera... ;)
ef jólasveinninn fer að telja sig eiga einkarétt á að segja hvað er rétt og rangt, heimtar milljarða úr ríkissjóði, fer að skipta sér af með hverjum fólk giftist, ákveður hvernig foreldrar eiga að ala upp börnin sín og svo framvegis, þá finnst mér sjálfsagt að við skulum takmarka aðkomu hans í skólum líka!
Ef krökkum væri innrætt í skóla fram eftir öllum aldri að jólasveinar væru til, þá myndi ég gera athugasemdir við það.
Á maður að skilja af þessari spurningu að Jesús sé eins og Jólasveinninn? Ég mótmæli því svo sem ekkert sérstaklega.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Elín Sigurðardóttir - 23/10/11 14:29 #
Verður jólasveinninn bannaður næst? Maður spyr sig.
http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=2992