Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Fræðsluefni Þjóðkirkjunnar

Barn

Þegar Þjóðkirkjan ræðir um aðsókn sína í leik- og grunnskóla, þá segir almannatengslafólk hennar oft að kirkjunnar menn átti sig alveg á því að í leik- og grunnskólum eigi ekki að fara fram trúboð heldur fræðsla, en ég held að raunin sé allt önnur.

Skotleyfi skírnarinnar

Til að byrja með virðast trúarhugmyndir ríkiskirkjunnar stundum eyða öllum muni á fræðslu og trúboði. Sumir prestar [1] halda því til dæmis fram að þegar börn eru skírð verði þau kristin. Og þess vegna sé það ekki trúboð þegar skírð börn er innrætt kenningar kristinnar trúar, eða þau látin taka þátt í kristnum trúarathöfnum, heldur er aðeins verið að “fræða” kristnu börnin um sína eigin trú.

Þannig að þegar ríkiskirkjustarfsmenn segjast átta sig á því að það eigi einungis að fara fram “fræðsla” í skólum, þá er það engin trygging fyrir því að þeir muni í raun og veru ekki stunda trúboð, þar sem að stór hluti barna á Íslandi eru skírð, og því ekki hægt að stunda trúboð þegar kemur að þeim í augum presta.

Þeirra eigin orð

Fyrir utan frásagnir og myndir sem sýna fram á að ríkiskirkjuprestar sjá ekkert athugavert við trúboð í skólum, þá þarf maður ekki að gera annað en að skoða efni sem að ríkiskirkjan sjálf gefur út til að sannfærast endanlega.

Á heimasíðu Skálholtsútgáfunnar, útgáfufyrirtæki ríkiskirkjunnar, er hægt að kaupa heftið “Páskafræðsluefni fyrir leikskóla”. Höfundar þessa “fræðslu”efnis eru Guðný Hallgrímsdóttir (ríkiskirkjuprestur), Elín Jóhannsdóttir (“fræðslufulltrúi” á Biskupsstofu) og Edda Möller (framkvæmdastjóri Skálholtsútgáfunnar).

Í inngangi heftisins ávarpa höfundarnir leikskólakennara og segja: “Mörgum finnst vandasamt að koma boðskap páskanna á framfæri við börn á forskóla aldri. En páskaboðskapurinn er miðlægur í allri kristinni boðun og menningu og á því svo sannarlega heima í leikskólanum.” Og síðan er sagt að efni þessa heftis sé “sérstaklega útbúið með það í huga að það henti til kennslu í leikskólum” (bls. 5).

Ef það er eitthvað að marka málflutning talsmanna ríkiskirkjunnar, þá hlýtur þetta hefti, sem var sérstaklega útbúið fyrir leikskóla, að vera fagmannlegt og laust við allt trúboð. Svo er auðvitað ekki.

Bænin og tilfinningar

Í kaflanum “Ýmis fræðsla fyrir leikskólakennara” er kafli um bænina:

5. Bænamál

Bæn er að tala við Guð í Jesú nafni. Það getur gerst án orða, með táknrænu atferli, að kveikja á kerti, signa sig, leitast við að hlusta eftir þögninni. Allt þetta er gagnlegt og gott til að temja hugann og stilla sig inn á bylgjulengd bænarinnar. Börnin vilja gjarnan fara með hið sama aftur og aftur. Endurtekningin er nauðsynlegur hluti þess að tileinka sér bæn. Börnin eru fljót að læra vers og þykir vænt um það sem þau kunna. Munið að kenna börnunum að biðja fyrir öðrum. Barnið þarf líka að læra að finna kyrrð og frið í bæninni. Að vera alveg kyrr, fætur, hendur og höfuðið, inni í okkur allt verði hljótt. Við hlustum á þögnina og finnum að Guð er hjá okkur og elskar okkur. Þá fyrst erum við tilbúin að tala við hann. Karl Sigurbjörnsson hefur tekið saman bænahefti ætlað börnum sem ber heitið "Bænirnar mínar". Heftið samanstendur af mörgum bænum og inniheldur ýmsan fróðleik um bænir. Heftið fæst í Kirkjuhúsinu við Laugaveg. (bls 9)

Það er greinilega talinn vera eðlilegur hluti af fræðslunni að telja börnum um að það sé rétt og gott að “tala við Guð í Jesú nafni” og einnig að láta börnin fara með bænir.

Seinna í sama kafla er undirkaflinn “Tal um tilfinningar”, og þar er þennan gullmola að finna:

Í umræðunni um dauðann má ekki gleyma lífinu sjálfu. Á eftir föstudeginum dimma, kemur hinn bjarti páskadagur. Þá lifnaði Jesú við og reis upp frá dauðum. Hafið ekki áhyggjur af útskýringum. Fyrir börnum er þetta oftast ósköp einfalt. Jesús bara lifnaði við, hann lifir alltaf og "gætir mín" og ekkert meira með það. (bls. 10)

Í “fræðslunni” á augljóslega að kenna börnunum að það sé staðreynd að Jesús hafi lifnað við frá dauðum, lifi enn og “gæti” barnanna. Þá er einnig tekið fram að það sé óþarfi að útskýra þetta fyrir börnum, þar sem þau bara gleypi við þessu.

Fræðandi samverur

Í heftinu er einnig efni sem að leikskólakennarar geta notað á “samverum”. Einn liður í samverum er auðvitað “bæn” og nokkrar bænir eru í heftinu handa leikskólakennaranum. Annar liður ber heitið “saga” og í heftinu eru nokkrar sögur. Fyrsta sagan heitir Tinna hugsar um dauðann og svona endar hún:

Nú tók mamma í hönd afa og grét. Svona, sagði afi, þú skalt ekki gráta, þú veist hvernig þetta er. Já, sagði mamma, en ég er svo leið. Jesús hefur verið þar á undan mér, sagði afi. Hvar hefur Jesús verið, spurði Tinna. Í ríki hinna dauðu, sagði afi, en hann komst þaðan aftur. Hann reis upp frá dauðum.

Tinna skildi ekki alveg hvað afi átti við. En hann virtist svo hamingjusamur þegar hann sagði þetta að það hlaut að vera eitthvað stórkostlega dásamlegt að rísa upp frá dauðum. Nú lokaði afi augunum sínum. Það var kominn tími til að halda heim. Mamma grét ennþá og Tinna sagði ekki neitt. Á leiðinni heim héldu þær fast í höndina á hvor annari. Það var öruggt og notalegt. Allt í einu sagði Tinna: Mamma, þegar Maríurnar fóru út að gröf Jesú á páskadag, þá fundu þær hann ekki þar...Var það þetta sem Afi var að tala um?

Já, einmitt þetta. Jesús er ekki dáinn. Hann er upprisinn og það var einmitt þetta sem afi var svo glaður yfir. Hann veit að Jesús tekur á móti honum þegar hann deyr.

Nú en þetta er þá ágætt, sagði Tinna. Ég ætla að segja Maríu frá þessu á morgun. Mamma, ég ætla að syngja fuglssönginn fyrir afa á morgun. Fuglssöngur? sagði mamma undrandi. Já þennan sem María og ég sungum þegar við jörðuðum fuglinn. Hann heitir: Upprisinn er hann, húrra, húrra! (bls 23-24)

Sögurnar í heftin eru allar í þessum “fræðandi” dúr. Önnur saga, um lítinn fugl, endar svona:

Allir ættu að gleðjast yfir því að Jesús væri lifandi og myndi alltaf lifa. Hann myndi þó ekki lifa lengur á jörðinni, heldur hjá Guði. – Það gerir ekkert til, hugsaði litli fuglinn, ég veit að þá sér Jesús allan heiminn og getur passað alla í einu, líka mig. Hann verður alltaf vinur minn og nú skil ég hvernig konungur hann er. Hann er konungur alls heimsins. Hann veit hvernig mér líður þegar mér líður illa, því að hann skilur mig, ég sá þegar honum leið illa í garðinum, hugsaði litli fuglinn. Nú þegar Jesús lifir hjá Guði getur hann líka lifað í hjarta mínu ef ég hugsa um hann og reyni að muna það sem hann kenndi fólkinu, það að vera góður við alla. Allir sem deyja fara til Guðs og þeir munu líka lifa eins og Jesú, hugsaði litli fuglinn. Það er honum að þakka því hann sigraði dauðann, hann dó en lifnaði við.

Litli fuglinn var svo glaður þegar hann skildi að Jesús væri lifandi og myndi alltaf vera vinur hans að hann tók að syngja. Hann söng og söng af gleði yfir lífinu. Hann söng svo að fjaðrirnar stóðu beint út í loftið. Nú þyrfti hann aldrei að verða hræddur framar, myrkfælinn eða sorgmæddur. Hann þyrfti ekki að hræðast þrumuveður eða stóru dýrin sem vildu borða hann. Hann hafði eignast vin sem yrði alltaf vinur hans, vinur sem passaði hann vel og þessi vinur var konungurinn, Jesús Kristur.“ (bls 37)

Það er ljóst að tilgangur þessara sagna er eingöngu sá að fræða leikskólabörn um tilvist þessarar helgisögu kristinna manna. Í sögunni af Maríu er það viðhorf að trúa þessu mjög dásamað og aðalpersónan og “góði endir” sögunnar er sá að María litla áttar sig á því hvað það er frábært að trúa þessari helgisögu og hún ákveður að best sé að fara og boða öðrum þetta.

Svipaða sögu er að segja af litla fuglinum. Þar er beinlínis sagt að allir ættu að gleðjast út af því að þessi saga sé sönn og sagan virðist einblína á það að fuglinn áttar sig á því hvað það sé frábært að trúa kristni og mikil áhersla er lögð á að Jesús sé besti vinur í heimi. Þetta er trúarhugmynd sem er vinsæl í boðun kirkjunnar til barna.

Aðskilnaður kirkju og skóla

Þetta trúboðshefti handa leikskólum passar engan veginn við þá fullyrðingu kirkjunnar manna að þeir vilji ekki trúboð í skólum. Annað hvort vill hún trúboð í skóla, þvert á það sem spunameistarar hennar segja í fjölmiðlum, eða þá að hún áttar sig engan veginn á því hvað er trúboð og hvað er fræðsla. Í báðum tilvikum er hins vegar ljóst að ríkiskirkjunni er alls ekki treystandi til þess að hafa aðgang að fræðslu í leik- og grunnskólum.


[1] Gott dæmi um þetta viðhorf eru þessi ummæli Carlosar Ferrer, þáverandi ríkiskirkjuprests: “Skv. skilgreiningunni og skilningi kirkunnar verða börn kristin þegar þau eru borin til skírnar.” #

Hjalti Rúnar Ómarsson 29.08.2011
Flokkað undir: ( Kristindómurinn , Ríkiskirkjan , Skólinn )

Viðbrögð


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 29/08/11 11:36 #

Verst að fjarskiptalög ná ekki yfir þessa ósvinnu. Samkvæmt þeim er óheimilt að:

hvetja börn til þess að kaupa vöru eða þjónustu með því að notfæra sér reynsluleysi þeirra eða trúgirni,

notfæra sér það sérstaka trúnaðartraust sem börn bera til foreldra, kennara eða annars fólks...

Siðferði ríkiskirkjumanna er í algjörlega í ræsinu í þessum málum og þeir reyna grimmt að notfæra sér trúnaðartraust barna grímulaust til að verja sérhagsmuni sína. Viðbjóður.


Jón Ferdínand - 29/08/11 19:16 #

Hvílík dusilmenni segi ég bara!

Sýnið viðbrögð, en vinsamlegast sleppið öllum ærumeiðingum. Einnig krefjumst við þess að fólk noti gild tölvupóstföng, líka þegar notast er við dulnefni. Ef það sem þið ætlið að segja tengist ekki þessari grein beint þá bendum við á spjallborðið. Þeir sem ekki fylgja þessum reglum eiga á hættu að athugasemdir þeirra verði færðar á spjallborðið.

Hægt er að nota HTML kóða í ummælum. Tög sem virka eru: a href, b, i, u, br, p, strong, em, ul, li og blockquote. Einnig er hægt að notast við Markdown rithátt í athugasemdum. Notið skoða takkann til að fara yfir athugasemdina áður en þið sendið hana inn.










Muna þig?