Prestar eru gjarnir á að koma með ansi frumlegar túlkanir til þess að afsaka allt það ljóta í biblíunni. Hin hliðin á sama peningi er að reyna að lesa inn í biblíuna góða hluti sem er ekki að finna þar. Nú til dags má Jesús varla vera í kallfæri við konu án þess að það sé túlkað sem ákall rauðsokkunnar Jesú fyrir jafnrétti kynjanna. Sama virðist vera að eiga sér stað varðandi samkynhneigð.
Fyrir hálfum mánuði síðan flutti æskulýðsprestur Neskirkju, Sigurvin Jónsson, predikunina Jesús kominn úr skápnum. Í predikuninni viðurkennir Sigurvin að kristið fólk “í hinum vestræna heimi [hefur] verið helsta hindrun samkynhneigðra í baráttu sinni fyrir viðurkenningu og réttindum” og hann tekur fram að það sama gilti hér á landi. Sigurvin er klárlega fylgjandi réttindum samkynhneigðra. Hann virðist meira að segja halda að það vilji svo heppilega til að Jesús hafi verið sammála honum. Í predikuninni kemur Sigurvin nefnilega með þessa frumlegu túlkun á kraftaverkasögu í Matteusarguðspjalli:
Kynlíf og kynhneigð Jesú eru ekki viðfangsefni guðspjalla Nýja testamentisins en einn texti veitir mikilvæga vísbendingu um það hvernig Jesús mætir samkynhneigðum. Í Matteusarguðspjalli (Mt 8.5-13) leitar rómverskur hundraðshöfðingi til Jesú og biður hann„Drottinn, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn.“ Eins og kunnugt er bregst Jesús strax við bón hans með orðunum „ég kem og lækna hann“ og hundraðshöfðinginn svarar með orðum sem víða er farið með í messu við brauðsbrotningu: „Drottinn, ég er ekki verður þess að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð og mun sveinn minn heill verða.” Gríska orðið fyrir svein er í þessari frásögn pais en í almennri notkun var það gæluhugtak fyrir ástmögur, yngri ástmann fullorðins karlmanns. Samkynhneigði hundraðshöfðinginn er í huga Jesú trúarhetja,„sannlega segi ég ykkur, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael”. Í stað þess að mæta parinu með fordæmingu mætir Jesús þörf þeirra með sömu virðingu og hann mætir öðrum sem fara halloka í samfélaginu.
Málflutningur Sigurvins byggist á því að rétt sé að skilja orðið pais í þessari sögu sem “gæluhugtak fyrir ástmögur, yngri ástmann fullorðins karlmanns.”. En þýðir pais þetta hér? Þær orðabækur sem ég hef kíkt í gefa aðallega upp merkinguna barn eða þræll, en orðið var eflaust einnig notað í þeirri merkingu sem Siguvin gefur upp. Þetta er alls ekki sjaldgæft orð og er oft notað í Nýja testamentinu, þar með talið í Matteusarguðspjalli. Þegar Heródes drepur börnin, þá drepur hann pais (Mt 2.16), þegar þjónar eru barðir í einni dæmisögur Jesú, þá eru það pais sem eru barðir (Lk 12.47).
Þó svo að það sé auðvitað mögulegt að pais þýði hér "yngri ástmaður fullorðins karlmanns" þá er erfitt að sjá hvers vegna það sé líklegra en að um þræl eða jafnvel son hundraðshöfðingjans sé að ræða.
Í Lúkasarguðspjalli er önnur útgáfa af sömu sögu (Lk 7.2-10), og þar biður hundraðshöfðinginn Jesú um að lækna doulos sinn, sem þýðir þræll. Í Jóhannesarguðspjalli er auk þess önnur útgáfa af sömu sögu þar sem að talað er um sjúka aðilann sem pais, en hann er einnig kallaður uios, sem þýðir sonur.
Þar sem ekkert í textanum sjálfum bendir sérstaklega til þess að um “yngri ástmann fullorðins karlmanns” sé að ræða, en ekki t.d. son eða þræl, eins og í annarri hvorri af hinum útgáfunum af sömu sögunni, þá er erfitt að skilja hvers vegna Sigurvin telji að það sé besta þýðingin. Það er engin sérstök ástæða til þess að telja að hér sé um “mikilvæga vísbendingu” ræða.
Sigurvin finnst það eftirtektarvert að Jesús fordæmir ekki hinn meinta samkynhneigða hundraðshöfðingja, heldur mætir hann honum með virðingu. Ef við samþykkjum þessi rök Sigurvins, að þarna sjáist merki þess að Jesú fordæmdi ekki samkynhneigð, þá hlýtur maður að geta notað sömu rök á aðrar sögur í guðspjöllunum.
Gott dæmi væri hin útgáfan af sömu sögu í Lúkasarguðspjalli. Þar segir Jesús líka að hundraðshöfðinginn sé “trúarhetja” og mætir honum af “virðingu” en “fordæmir” hann ekki. En þar er líka hundraðshöfðinginn að biðja Jesú um að lækna þræl sinn. Ef Sigurvin vill vera samkvæmur sjálfum sér, þá er hér um að ræða “mikilvæga vísbendingu um það hvernig Jesús mætir [þrælaeigendum]”. Jesús virðist ekki hafa neitt við þrælahald að athuga.
Sigurvin er hugsanlega líka ósamkvæmur sjálfum sér að öðru leyti. Þegar kemur að þeim textum biblíunnar sem virðast fordæma samkynhneigð, eða að minnsta kosti kynlíf milli einstaklinga af sama kyni, þá er algengt að heyra þau rök að það sé ekki um alvöru samkynhneigð að ræða. Rökin eru eitthvað á þá leið að á þessum tíma hafi fólk ekki ímyndað sér að eitthvað eins og ástríkt jafningjasamband einstaklinga af sama kyni gæti verið til. Sem dæmi þá er bent á að líklega sé Páll ekki að fordæma þannig samband í fyrra Kórintubréfinu, heldur samband eldri manns við strák.
En þegar kemur að þessari sögu, þar sem að Jesús hrósar hundraðshöfðingjanum, þá virðist meint kynferðislegt samband “fullorðins karlmanns” við “yngri ástmann” allt í einu vera dæmi um viðhorf Jesú til “alvöru samkynhneigðar”.
Ef að pais þýðir í sögunni “yngri ástmaður fullorðins karlmanns”, eins og Sigurvin heldur fram og að hrós Jesú eigi að túlka sem jákvætt viðhorf til samband hundraðshöfðingjans við þennan pais. Þá held ég að það sé miklu eðlilegra að túlka þetta, ekki sem jákvætt viðhorf til "alvöru samkynhneigðrar", heldur sem jákvætt viðhorf til þess að eldri maður sé með unglingspilti, samband sem hefur verið þýtt með réttu eða röngu sem “barnaníðingsháttur”. [1]
Ef Jesús var í raun og veru sáttur við kynfeðislegt samband hundraðshöfðingjans við “svein” sinn (eins og það er þýtt í íslensku þýðingunni), þá er erfitt að sjá hvers vegna við ættum ekki að nota sömu rök hér og við notum þegar við skoðum texta í Nýja testamentinu sem fordæma samkynhneigð: Þetta er ekki “alvöru samkynhneigð”, heldur eitthvað allt annað, jafnvel samband sem samkvæmt okkar siðferði myndi flokkast sem barnaníð.
Önnur forsenda fyrir því að þessi saga geti verið “mikilvæg vísbending um það hvernig Jesús mætir samkynhneigðum” er auðvitað sú forsenda að þetta hafi í raun og veru gerst. Sigurvin samþykkir það eflaust að guðspjöllin séu full af frásögum sem gerðust ekki og ummælum sem voru ranglega eignuð Jesú. Eitt umdeilanlegt orð í einni ótrúlegri kraftaverkasögu nægir ekki til þess að ætla að fullyrða eitthvað um viðhorf Jesú til samkynhneigðar. Það nægir að bera þessa sögu saman við sambærilegu sögurnar í Lúkasar- og Jóhannesarguðspjalli til að sjá hvað þetta er ótraustur grunnur. Sögurnar þar eru nefnilega öðruvísi þegar kemur að lykilatriðinu, þar er nefniega meinti elskuhuginn orðinn annars vegar að þræli og hins vegar að syni.
Kannski var Jesús voða "líbó" og fannst allt í lagi að fullorðnir karlmenn hefðu “yngri ástmenn”, eða kannski var Jesús það strangur að hann taldi það jafnvel synd að horfa á konu í girndarhug. Ég veit það ekki, og Sigurvin veit það ekki heldur, en persónulega finnst mér það mjög grunsamlegt að einmitt nú þegar samkynhneigð hefur verið tekin í sátt í samfélaginu skuli frjálslyndir prestar allt í einu finna staði í guðspjöllunum þar sem Jesús á víst að vera jákvæður í garð samkynhneigðra.
Maður hlýtur loks að spyrja sig að því hvers vegna þetta fólk reynir svona mikið að finna sínar eigin skoðanir hjá Jesú. Ég held að ástæðan hljóti að vera sú að þetta fólk telur það að einhverju leyti réttlæta skoðanir að finna þær hjá Jesú. Þau telja Jesús enn vera hinn óskeikula leiðtoga.
[1] Sem dæmi má benda á skrif Clarence Glad um texta í Nýja testamentinu sem tengjast samkynhneigð: "Í því ljósi hefðu Grikkir hugsanlega geta varið samband fólks af sama kyni sem náttúrulegt því það var ekki á skjön við siðferði margra. Samband eldra karls og drengs (pederastía; barnaníðingsháttur) var „náttúruleg” þar sem það hvíldi á aldagamalli hefð." Rómverjabréfið 1.24-27, bls. 5
Fín grein og kannski gott dæmi um hvernig hugmyndin að "fylgja Jesú" er smám saman að snúast yfir í að láta "Jesú fylgja tíðarandanum". Sem er að mörgu leyti gott.
Takk fyrir viðbrögð þín Hjalti Rúnar.
Þau eru vönduð og málefnaleg og bera vott um aðdáunarverða þekkingu á nýjatestamentisfræði m.v. að þú sért ekki guðfræðimenntaður.
Ég vil svara þér á eftirfarandi hátt.
Ritskýring mín er ekki endilega til að sýna fram á að Jesús hafi viðurkennt samkynhneigð, heldur er henni beint gegn þeim sem beita Biblíunni til að fordæma samkynhneigð. Það er t.d. hæpið að segja að Jesús hafi verið feministi en það er jafn hæpið að nota Biblíuna í andstöðu við jafnrétti. Í mínum huga mætir Jesús fólki óháð stöðu og stétt, sé eitthvað að marka frásagnirnar, og barðist gegn þessum endalausu félagslegu landamærum sem að samtímamenn hans (og okkar) vilja draga til að sýna fram á eigið ágæti.
Ritskýring mín á orðinu pais byggir á skýringum Kenneth Dover í bók hans Greek Homosexuality. Það er rétt að þá skýringu er ekki að finna í flestum orðabókum en höfum í huga að orðabækur endurspegla skýringarhefð jafn mikið og textar ... Dover bendir á næg dæmi því til stuðnings að orðið hafi verið notað í þeirri merkingu sem ég bendi á. Orðið er hinvegar viljandi tvírætt líkt og mörg dæmi eru um í okkar menningu t.d. hýr.
Það að Lúkas og Jóhannes hafi ólíkar hefðir eru líklega til stuðnings þessari kenningu að orðið pais hafi einmitt merkt ástmögur, það að þeir noti ólík merkingarhugtök segir til um að hefðin hafi þarfnast ritskýringar. Nú er það umdeilt hvaða guðspjall (Mt, LK, eða Jh) er elst en við sjáum í meðförum Matteusar og Lúkasar á Markúsarguðspjalli að Matteus virðist halda textunum tt óbreyttum en fer frjálslega með uppröðun þeirra og Lúkas virðist breyta uppröðun minna en breytir textum Markúsarguðspjalls í takt við eigin áherslur.
Varðandi samkynhneigð þá byggi ég fyrst og fremst á bók Martti Nissinen Homoeroticism in the Biblical world. Hann færir rök fyrir (sem reyndar eru ekki komin frá honum) að sú samkynhneigð sem þekktist meðal karlmanna opinberlega hafi verið á milli yngri karlmanns og eldri manns. Það er ekki það sama og barnaníð þar sem þessir ungu menn hafa verið kynþroska og fullveðja. Það þótti líklega óhugsandi grikkjum að ástarsamband karlmanna gæti verið jafningjasamband en það á reyndar við um gagnkynhneigð sambönd líka.
Varðandi Pál vakir sannarlega ekki fyrir mér að hvítþvo pálsbréfin - þau eru sannarlega neikvæð í garð samlífis karla og kvenna. Ég bendi hinsvegar á að tilgangur hans er ekki að fordæma samkynhneigð (eða pederastíu) heldur er hann að fjalla um menningu rómverska heimsveldisins (og fleiri) til að sýna fram á yfirburði gyðingdóms og upprisu krists. Clarence hefur fjallað um þetta ítarlega. Galatabréfið er eitt af þeim bréfum sem fræðimenn eru sammála um að sé komið frá Páli sjálfum og að það sé tt lítið ritstýrt ólíkt korintubréfi sem líklega samanstendur af mörgum bréfum hans. Páll er flókinn veruleiki en Gl 3.28 inniheldur sýn hans á guðsríkið sem ég leyfi mér að útvíkka (sem nútímamaður) til HLB&T. Ég bendi sérstaklega á bók J.D. Crossan og J.L. Reed In search of Paul: How Jesus's Apostle opposed Rome's empire with God's kingdom.
Siðferðisviðmið breytast og lestur og ritskýring Biblíunnar með. Biblían er ekki fastur siðferðilegur punktur en það er ekki þar með sagt að lestur hennar sé gagnslaus. Sagan af Jesú er epísk mýta í okkar samfélagi og mótar viðhorf trúaðra sem vantrúaðra hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ég sé í Jesú fyrirmynd sem ég vil líkjast og það gerir mig ekki sekann um rjómatertuguðfræði eða afneitun á því að Nýja testamentið er forn texti sem þarf að lesa með nútímaaugum fyrir nútímasamfélag. Bókstaflegur lestur er aldrei af hinu góða, hvorki til stuðnings eða gegn kristinni trú. Kirkjan þarf að horfast í augu við synd sína gagnvart hommum og lesbíum, jafnt á við samfélagið, og viðurkenna að lestur á textum getur fjötrað ... og frelsað.
Bestu kveðjur, Sigurvin Jónsson
Og takk fyrir viðbrögð þín Sigurvin:
En allt í lagi, Jesús mætti öllu fólki, hvort sem það átti í kynferðislegu sambandi við unglingsstrák eða átti þræl. Þú varst eflaust að ganga styttra í ályktunum þínum en ég geri ráð fyrir í grein þinni, t.d. getur þá kannski vel verið að Jesús hafi viljað verða að ósk þessa manns, en síðan fordæmt hegðun hans ef hann væri spurður út í álit sitt á því.
2. Ég hef ekkert við þetta að athuga, enda sagði ég að orðið þýddi eflaust líka það sem þú stingur upp á.
3. Mér finnst þetta ganga of langt. Við höfum orð sem er hægt að skilja á amk tvo vegu og í tveimur af sögunum er komið í staðinn skýrt orð fyrir sitt hvora merkinguna.
4. Það var kannski ekki um "börn" að ræða, en við erum að tala um að eldri maður sé með unglingastrákum, kannski alveg niður að fermingaraldri.
5. Ég get alveg tekið undir það að Páll er að taka samkynja kynlíf sem dæmi um siðferðishnign heiðingjanna. Ef þú notar eitthvað dæmi um siðferðilega yfirburði þína, þá ertu augljóslega að fordæma það.
Svo er alveg afskaplega auðvelt að leika sér með textann og segja að textinn í Gl 3.28 "trompi" einhvern veginn því neikvæða sem stendur annars staðar í bréfunum. Og það getur vel verið að þú sem nútímamaður viljir útvíkka þetta, en miðað við önnur skrif höfundarins, þá hefði hann alls ekki verið sáttur við þessa útvíkkun.
6.
Siðferðisviðmið breytast og lestur og ritskýring Biblíunnar með.
Sem er mjög undarlegt. Breytist ritskýring lagabálks Hammúrabí með siðferðisviðmiðum? Ég held ekki. Og ég held að ástæðan sé einmitt sú að það tíðkast ekki að fólk sé (ranglega) að vísa í þann ævaforna texta sem einhvers konar réttlætingu fyrir skoðunum þeirra.
Ég sé í Jesú fyrirmynd sem ég vil líkjast og það gerir mig ekki sekann um rjómatertuguðfræði eða afneitun á því að Nýja testamentið er forn texti sem þarf að lesa með nútímaaugum fyrir nútímasamfélag.
Málið er auðvitað að Jesús er ekki bara "fyrirmynd" þín, heldur líka helling af öðru kristnu fólki. Þannig að ef að þér tekst að sannfæra fólk um að Jesús hafi ekki verið á móti samkynhneigð, þá ertu í raun að sannfæra fólkið um að það ætti ekki að vera á móti samkynhneigð.
Vegna þessarar sérstöðu, þá lestu ekki þennan forna texta eins og aðra forna texta. Það þarf ekki að lesa Odysseifskviðu "með nútímaaugum fyrir nútímasamfélag". Við sjáum hvað fornaldartextar eru framandi og að mestu leyti algjörlega "irrelevant" og við sættum okkur alveg við það. Þegar kemur að þessari sérstöðu NT, þá er hins vegar gert allt mögulegt til að þröngva upp á þessi rit nútíma siðferði. Maður "þarf" ekki að gera það, maður getur bara viðurkennt að þetta voru ekki 21. aldar fólk.
Kirkjan þarf að horfast í augu við synd sína gagnvart hommum og lesbíum, jafnt á við samfélagið, og viðurkenna að lestur á textum getur fjötrað ... og frelsað.
Þetta er einmitt vandamálið. Prestar vilja ekki horfast í augu við ljótu staðina af því að það "fjötrar", af því að fólk lætur eins og þessi rit séu einhvers konar kennivald. Ef þið eruð hrædd við að textar fjötri fólk, segið því þá að það skipti engu máli hvað standi í einhverjum fornaldarritum, í staðinn fyrir að rembast við að reyna að fegra þá.
Eins væri gott að vita hvort dæmi eru til úr koine-grísku sem styðja túlkunina "pais = elskhugi".
Dover fjallar bara um eldri heimildir, ekki satt?
Mig grunar, án þess að hafa mikið fyrir mér í þvi, að þessi túlkun standist ekki skoðun.
Rétt hjá Eiríki, Dover fjallar bara um eldri heimildir eins og hann útskýrir í inngangi bókarinnar, þ.e. (í nokkurn veginn réttri tímaröð): snemmgrískan kveðskap, attískar kómedíur (aðallega Aristófanes), Platon, "Gegn Tímarkosi" eftir Æskínes og hellenískan kveðskap (saminn um 300-100 f.o.t.). Hann fjallar ekki um neina texta frá 1. öld. Hann bendir líka á að orðið "pais" í þessum skilningi er mun algengara í kveðskap.
"Pais" getur, eins og Eiríkur bendir líka á, merkt "þræll" (= doulos). En LSJ (stærsta gríska orðabókin á ensku og standard upplettirit í enskumælandi löndum) hefur engin dæmi um að "pais" sé notað um elskhuga (= eromenos).
Enn fremur ætti að fara varlega í að yfirfæra grísk samfélagsviðmið á rómverska hermenn á keisaratímanum. Ekki að rómverskir karlmenn hafi ekki líka átt vingott við drengi. En hjá Rómverjum vantar allt samhengið sem var til hjá Grikkjum. Þar að auki er ekki víst að hundraðshöfðinginn hafi verið "Rómverji", hann hefði geta verið frá sveit í Gallíu eða einhvers staðar. Það er alla vega ekki sjálfgefið að það megi taka grísk samfélagsviðmið úr grísku samhengi og heimfæra upp á rómverskan hermann mörgum öldum síðar.
Ég verð að taka undir með Hjalta Rúnari og Eiríki, þetta er býsna hæpin túlkun.
Takk fyrir góðar ahugasemdir Kristján og G. LSJ er einmitt ein af þessum orðabókum sem ég kíkti í.
Ef maður ætlar að vera gjafmildur á þessa túlkun, þá held ég að hún sé í besta lagi ein af þremur góðum möguleikum (mér finnst hinir betri).
Þrátt fyrir að þessar grískupælingar séu áhugaverðar, þá verð ég samt að segja að mér finnst áhugaverðara að skoða hvað er í gangi þegar prestar eru að koma með svona frumlegar túlkanir.
Annað svona dæmi er þegar Þórhallur Heimisson reynir að draga þá ályktun að Jesús hafi verið "slétt sama" um samkynhneigð af því að það er ekki fjallað beinlínis fjallað um hana í guðspjöllunum.
Halda prestarnir í alvöru að þetta séu eðlilegar ályktanir? Trúir þetta fólk því virkilega að þessi maður sem hljómar eins og ofsatrúarmaður, "púrítani" og heimsendapámaður í guðspjöllunum hafi í raun og veru verið fylgjandi jafnrétti kynjanna og talið að það væri ekkert rangt við það að fólk af sama kyni stundaði kynlíf saman?
Mér finnst það svo augljóst að þetta fólk er að rembast við að klína sínum eigin skoðunum á Jesú að þau hljóta að vita að þau eru að reyna að "plata" sínum skoðunum upp á fólk sem hefur þá undarlegu skoðun að fyrstu aldar heimsendaspámaður og/eða trúarrrit sumra fylgjenda hans séu einhvers konar kennivald.
Hjalti
Þetta er hugsanlega angi af þeirri tilhneigingu að eigna fólki skoðanir eftir því hvað manni finnst um það, þ.e. að gera ráð fyrir að fólk sem manni finnst bera af sér góðan þokka sé sammála manni (þetta ætti auðvitað að vera öfugt hjá skynsömu fólki en tilhneigingin er sterk).
Þess vegna heldur örugglega fullt af fólki að stjórnmálamenn hafi þessa og hina skoðunina af því þeir eru svo viðkunnanlegir.
Ef hugarfarið er rétt og heimildirnar nógu fáar og teygjanlegar er hægt að nota Jesús sem rök með og á móti flestu sem manni dettur í hug, eins og vantrú hefur vafalaust drepið á oftar en einu sinni.
Allavega, punkturinn er að þetta er auðveld gryfja að falla í og erfitt að vera meðvitaður um. Sennilega gerir maður þetta í sífellu án þess að taka eftir því. Nýlegt dæmi úr öðrum geira er meintur stuðningur eða andstaða Jóns Sigurðssonar við Evrópusambandið eða Icesave, eða hvað það nú var.
Sigurvin endurtekur þennan málflutning í predikun frá því í dag.
Hann virðist þó hafa tekið eitthvað af efni þessarar greinar til sín, segir t.d. þetta:
Í hinu forna samhengi voru slík sambönd viðurkennd og opinber en þó ekki fyllilega sambærileg samkynhneigð að nútímaskilningi því þau voru ekki jafningjasambönd, þó þau hafi verið stunduð af samkynhneigðum karlmönnum.
Sem sagt, ef það á að nota þessa túlkun á sögunni sem dæmi um jákvætt viðhorf til "samkynhneigðar að nútímaskilningi", þá getur Sigurvin ekki mótmælt því að textarnir í Pálsbréfunum séu notaðir sem dæmi um neikvæðs viðhorfs til "samkynhneigðar að nútímaskilningi". En sem betur fer viðurkennir hann að það er ekki hægt að nota textann svona:
Það er ekki hægt að draga af þessari sögu beina ályktun um afstöðu Jesú til samkynhneigðar en hún er þó vonarglæta í baráttunni við þá hópa sem taka sér vald til að fordæma aðra á grundvelli kynhneigðar í hans nafni.
Svo má auðvitað bæta því við að ef maður vill draga ályktanir um afstöðu Jesú út frá þessari sögu, þá verður hann að trúa því að eitthvað líkt þessu hafi gerst.
Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.
Eiríkur - 09/08/11 10:40 #
Fleira má athuga við þetta:
1) "pais" getur líka merkt "þræll" eða "þjónn". Myndi Jesús ekki líka hafa skilið það þannig? Ef einhver kæmi til mín og segði "drottningin er veik!" myndi ég ekki endilega hugsa um að aflýsa þyrfti gleðigöngunni.
2) ástmögur beygist -mög í þolfalli
3) ástmögur merkir "ástkær sonur", en ekki "elskhugi"