Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Ég trúi ekki

Mynd af Jesú

Hver getur farið með þessa trúarjátningu kinnroðalaust? "Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf."

Þessi yfirlýsing hugsanaleti og trúgirni kallast Postullega trúarjátningin og hefur verið þulin í kirkjum frá 8. öld og börn sem fermast eru látin tyggja þetta. Að vísu var talað um "upprisu holdsins" en ekki "upprisu mannsins" þar til fyrir stuttu - en það þótti ekki lengur við hæfi.

"Holy ghost"

Heilagur andi er þriðjungurinn af guði, sem er þríeinn (einn en þó þrír!). Heilagur andi hefur barnað nokkrar konur og stundað tungumálakennslu meðal útvaldra (að vísu skilur enginn tungumálið sem hann kennir mönnum). Heilagur andi er svo agalega spes að eina "syndin" sem ekki verður fyrirgefin og kostar helvítisdóm er að lastmæla gegn heilögum anda. Trúir þú á heilagan draug?

Heilög kirkja

Heilög almenn kirkja er í hugum flestra steinrunnin stofnun og reðurtákn út um allar koppagrundir en "þjónar hennar" halda þó fram að hún sé frekar samfélag trúaðra - þegar það hentar betur. Ekki veit ég hvað "almenn" þýðir en skilst að það sé sama merking og kaþólsk. Kaþólska kirkjan er því hin almenna kirkja - sem er auðvitað allt annað en lútherska kirkjan - en þó það sama og sú lútherska sem er almenn, þ.e.a.s. kaþólsk. Ef þú þekkir sögu kirkjunnar eða hefur fylgst með fréttum undanfarin ár og daga væri lýsingarorðið "heilög" líklega það síðasta sem þú veldir kirkjunni (skulum við vona).

Samfélag heilagra

Hverjir eru heilagir? Eru það leiðtogar kirkjunnar? Eða eru það allir sauðirnir í "almennu kirkjunni" sem leiðtogarnir eru alltaf að minna á hvað þeir eru ófullkomnir og syndugir, líkt og þeir sjálfir? Eða er þetta kannski einhver dýrðlingaklúbbur - kannski uppi í loftinu, þarna á himnum? Af hverju að trúa á samfélag heilagra?

Fyrirgefning syndanna

Kristnir kenna að "allir menn, sem getnir eru á eðlilegan hátt, fæðist "með synd, en það merkir án guðsótta, án guðstrausts og með girnd. Þessi upprunasjúkdómur eða spilling er raunveruleg synd, sem dæmir seka og steypir í eilífa glötun þeim sem ekki endurfæðast fyrir skírn og heilagan anda." Þess vegna eru börn skírð, því þau eru fæðast helsek og brennandi af girnd, sjúk og spillt. Flott að hafa aðgang að mönnum sem geta reddað þessu með vatnsgusu. Ef menn skírast og trúa geta þeir stólað á fyrirgefningu allra sinna óhæfuverka því stóri pabbi í himninum er svo réttlátur.

Upprisa holdsins og eilíft líf

Upprisa holdsins er hversdagslegur viðburður en kirkjan hefur löngum haft horn í síðu mannlegs eðlis og holdlegra lystisemda, a.m.k. svona út á við, og því trúa menn nú á "upprisu mannsins". Þarna er átt við að menn rísi upp frá dauðum, í sínum jarðneska líkama og skjótist síðan "með skít og öllu saman" upp í loft - ef þeir eru í náðinni auðvitað. Og þar sem þessi "heppnu" eru svo merkileg og ómissandi fá þau að tóra í geimnum um aldir alda, alla eilífð. Þetta mikilmennskubrjálæði kennir sig svo við hógværð og lítillæti en ætlar þeim sem kaupa ekki kredduna hroka og stærilæti.

Er guðfræðin ekki dásamleg?

Reynir Harðarson 01.07.2011
Flokkað undir: ( Kristindómurinn )

Viðbrögð


Jón Ferdínand - 03/07/11 15:33 #

Snilld!

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.