Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Yfirburðir heimskunnar

Kind

Séra Bára Friðriksdóttir sóknarprestur á Kjalarnesi messaði nýlega um yfirburði elskunnar og sagði þar m.a.:

Hinn óguðlegi sem Davíð talaði um er sá eða sú sem ekki vill hafa Guð sem leiðsögumann í lífinu. Það er sá einstaklingur sem ekki er tilbúinn til að horfast í augu við hugsanir sínar og gjörðir, iðrast þess sem illt er, biðjast fyrirgefningar og styrkjast síðan í hinu góða.

Ég get alveg fallist á að kalla megi mann óguðlegan sem ekki vill hafa Guð sem leiðsögumann í lífinu en sé ekki að það hafi nokkra tengingu við síðari málsgrein séra Báru.

Við þekkjum ófáa siðleysingja sem hafa barið sér á brjóst í tíma og ótíma og básúnað fylgispekt sína við "Guð", jafnvel verið í fararbroddi kristinna safnaða. Hvort sem við lítum til horfinna alda eða bara í kringum okkur í nútímanum er enginn hörgull á dæmum um sérlega ógeðfellda guðsmenn sem neituðu að horfast í augu við afbrot sín, iðruðust einskis og hafa aldrei beðist fyrirgefningar.

Séra Bára hlýtur að vita þetta jafnvel og við hin en samt gerir hún sig seka um þessa vitleysu, og á kostnað skattborgaranna. Hvernig stendur á þessu? Og hún er ekki sú eina sem syngur þennan söng í prestastétt. Eru margir prestar svona illa gefnir eða er þetta einhver hugsanaleti? Ég geri ráð fyrir að séra Bára hafi ekki nokkurn grun um hversu alvarleg rökvilla hennar er eða hversu mikla leið við óguðlegu erum búnir að fá á þessum eintóna og falska söng.

Það vill hins vegar svo til að Jesús gagnrýndi fyrir löngu starfsbróður séra Báru fyrir nákvæmlega sama söng, nánar tiltekið í 11. versi 18. kafla Lúkasarguðspjalls. Prestar virðast oftar en ekki vera ákaflega illa að sér í rökfræði en þeir ættu þó a.m.k. að þekkja eitthvað til gagnrýni leiðtoga lífs síns á prestastéttina. Jesús sagði:

Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: "Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður."

Ég geri fastlega ráð fyrir að séra Bára líti ekki á sig sem "óguðlega" og gæti vel trúað að hún "þakkaði Guði" fyrir það. Hver er þá munurinn á henni og faríseanum í dæmisögu Jesú?

En er Guð virkilega leiðsögumaður séra Báru í lífinu, þ.e.a.s. þessi Jesús (1/3 af guðdóminum samkvæmt nýjustu útreikningum)? Jesús sagði nefnilega fleira í þessum 18. kafla Lúkasarguðspjalls. Ef við gerum ráð fyrir að sérann hafi leitast við að halda boðorðin segir leiðsögumaður hennar orðrétt:

"Enn er þér eins vant: Sel allt, sem þú átt, og skipt meðal fátækra, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan og fylg mér."

Hvers vegna þora forystusauðir ríkiskirkjunnar ekki að fara eftir þessari einföldu en skýru leiðarlýsingu leiðsögumannsins? Sennilega vegna þess að það væri heimskulegt að sleppa ríkisspenanum. Prestar eru ekki svo heimskir. En hversu gáfulegt er að fylgja sauðum sem eru bersýnilega sjálfir á villigötum, ef eitthvað er að marka þennan leiðsögumann?


E.s.
Sé 18. kafli lesinn sjá glöggir menn að Jesús leit alls ekki á sig sem guð: "Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn." Af þessu leiðir að Jesús er ekki Guð, klárlega, eða hann er lyginn Guð. Óheiðarleiki virðist líka vera grunnforsenda guðfræðinnar.

Reynir Harðarson 24.05.2011
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Birgir Hrafn Sigurðsson - 24/05/11 09:48 #

Mér sárnar við svona ummælum.

Finnst henni allt í lagi að segja svona um annað fólk ?

Ég tek þetta beint til mín og hugsa svo "Finnst henni allt í lagi að segja að ég sé einstaklingur sem ekki er tilbúinn til að horfast í augu við hugsanir sínar og gjörðir, iðrast þess sem illt er, biðjast fyrirgefningar og styrkjast síðan í hinu góða.".

Þetta er alveg fáránlegt og hún ætti að skammast sín.


Einar - 24/05/11 12:48 #

"Það er sá einstaklingur sem ekki er tilbúinn til að horfast í augu við hugsanir sínar og gjörðir, iðrast þess sem illt er, biðjast fyrirgefningar og styrkjast síðan í hinu góða."

Þetta er varla svaravert.

Trú er að mínu mati flótti frá veruleikanum. Og ef fólk vill lifa í sjálfsblekkingu það er þá þeirra mál, en ítrekaðar árásir presta og guðsfólks á trúleysingja og húmanista er orðið vægast sagt þreytandi.

Þetta ríkisstyrkta bákn sem er með allt niðrum sig virðist telja það skyldu sína að reyna að niðurlægja og "berja á" trúlausum og þar fer fremstur í flokki biskup Íslands. Sá sami og reyndi mikið að þagga niður kynferðisofbeldi fyrrverandi biskups.

Og þessi maður sér ekki sóma sinn í því að segja af sér embættinu vegna þess.

Segir mikið um kirkjuna á Íslandi.


Þór Melsteð - 24/05/11 17:04 #

Þetta eru ljót orð og hver hugsandi maður sér það í hendi sér hversu heimskuleg þau eru.

Séra Bára ætti að biðjast opinberlega afsökunar á ummælum sínum og hreinlega að segja af sér embætti.

Það er að segja ef hún er tilbúin að horfast í augu við hugsanir sínar og gjörðir, iðrast þess sem illt er, biðjast fyrirgefningar og styrkjast síðan í hinu góða.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 24/05/11 17:18 #

Ég sendi séra Báru póst og vakti athygli hennar á þessari grein, okkur týndu sonunum og sjúkum en þar sem þau vers eru líka í Lúkasi má vera að hún kveiki ekki.

Þar er líka að finna sögu um flís og bjálka sem oft er við hæfi.


Bára Friðriksdóttir - 26/05/11 15:57 #

Ágæti Reynir, Fyrst vil ég þakka þér áhuga þinn á predikuninni. Ég ætla að svara þér þar sem þú hnýtir í tilvitnun í predikun minni sunnudaginn 22. maí 2011 sem ber yfirskriftina „Yfirburðir elskunnar“: „Hinn óguðlegi sem Davíð talaði um er sá eða sú sem ekki vill hafa Guð sem leiðsögumann í lífinu. Það er sá einstaklingur sem ekki er tilbúinn til að horfast í augu við hugsanir sínar og gjörðir, iðrast þess sem illt er, biðjast fyrirgefningar og styrkjast síðan í hinu góða.“ Sjá nánar á tru.is undir mínu nafni.

Til að skoða málið í samhengi hlutanna þá reyni ég að hafa predikun ekki lengri en 12-15 mín. Viðfangsefni þessa sunnudags var hvatning Jesú til fylgjenda sinna: „Elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ Jóh.15.12. Ég nálgaðist efnið frá nokkrum áttum og þar á meðal vitnaði ég í Davíðssálm 32 þar sem Davíð konungur lýsir syndauppgjöri sínu við Guð. Þessi sálmur ásamt nr. 51 eru sterkustu dæmin um Davíðssálma sem fjalla um synd, sekt og syndaaflausn hjá iðrandi manneskju. Áhersluatriði mitt í predikuninni var ekki á þessu eða hinum óguðlega, heldur á seinni hluta 10. versins sem fjallar um að sá eða sú sem hvílir í trausti til Guðs með líf sitt er umvafin/n elsku. En versið er svona: „10Miklar eru þjáningar óguðlegs manns, en þann sem treystir Drottni umlykur hann elsku.“ Sálm.32.10 Mér fannst eðlilegra að láta allt versið koma með frekar en að taka það úr samhengi andstæðunnar sem það er skrifað í. Það mætti gagnrýna mig fyrir að útskýra ekki meira og betur hvert er viðhorf í Biblíunni til hins óguðlega og þess réttlætta. En þetta var ekki meginefni predikunarinnar. Hún hefði orðið allt of löng ef ég hefði leyft því að fljóta með og var hún orðin í það lengsta fyrir. En mér fannst ég ekki alveg getað sett þennan fyrri hluta með án þess að víkja nokkru orði að honum. Þannig að þetta var samanþjöppuð niðurstaða án aðleiðslu. Ég hefði getað gert þetta betur og þakka ábendinguna.

Fyrst vil ég minna á að nálgun okkar á Biblíunni er alltaf túlkun. Það er hægt að taka hluti úr samhengi og fá út vondar og rangar ályktanir eða góðar. Það er líka hægt að skoða textann í samhengi við söguna sem hann er skrifaður á, vitandi um brotakennda þekkingu sem við höfum á því efni eins og öðru og taka það með í reikninginn. M.ö.o. það er vandasamt að leggja út af Biblíunni sem eru 66 bækur skrifaðar á meira en þúsund árum og fjalla um efni sem nær yfir enn lengri tíma. Sumsstaðar hefur efni í Gamla testamentinu (hér eftir Gt) verið ritstýrt þannig að það liggja ekki endilega saman textar sem hafa verið skrifaðir í samfellu. Það getur haft áhrif á túlkun textanna.

Víkjum okkur aftur að efninu um guðlausa og „ekki guðlausa“ en þeir eru nefndir réttlátir í Gt. Þetta eru tækniorð til að útskýra stöðu manna út frá þeirra eigin vali. Óguðlegir eru þeir sem snúa sér frá Guði, vilja ekkert með Guð hafa. Réttlátir eða réttlættir eins og meira er talað um í Nýja testamentinu (Nt hér eftir) eru þeir sem snúa sér til Guðs og fá viðurkennda rétta stöðu gagnvart Guði af því þeir snúa sér til hans og biðja sér ásjár. Þeir vilja vera með Guði í liði á meðan hinir guðlausu vilja ekki vera með honum í liði. Það þýðir ekki að við það að snúa sér til Guðs séu þeir orðnir lýtalausir eða fullkomnir, þ.e. réttlátir eins og íslenskan er notuð. Sem að mínum skilningi hefur verið að réttlátur sé sá sem er með allt sitt á hreinu, lýtalaus og svolítið yfir okkur hin hafinn. Ef ég nota líkingu til útskýringar réttlætis orðinu þá má segja að Guð breiði hitateppi yfir þann sem snýr sér til hans og teppið er þá tákn um að Guð hefur gefið viðkomandi stöðu réttláts manns. Sami maður er þarna undir en ef hann heldur sig undir þessu teppi þá fer honum að hlýna af því teppið hefur í sér hita. Hitinn smitast til hans á sama hátt og ef við segjum að réttlæti Guðs hafi áhrif á þann sem snýr sér til hans og breytir honum smám saman í átt til réttlætis. En lögmálið kom til að sýna okkur að við getum aldrei náð þessu með eigin rammleik. Þess vegna kom Kristur til að vera brúin á milli Guðs og manns. Hann er þetta réttlæti sem með elskufullu lífi sínu, dauða og upprisu breiðir réttlæti sitt yfir okkur þegar við komum til hans og biðjum um sátt við Guð og leiðsögn í lífinu. Mikilvægt er að hafa í huga að orðin óguðlegur og réttlátur hafa tvöfalda skírskotun í Biblíunni. Það er bæði verið að tala um þessar andstæður en það er líka verið að tala um að Maðurinn getur verið að flökta á milli þessarra andstæðna. Hann hefur bæði elementin í sér. Hvert sinn er hann snýr baki í Guð er hann tæknilega í hlutskipti hins óguðlega. Davíð var því að tala um sjálfan sig sem óguðlegan í sálminum og síðar í 11. versi um sig sem réttlátann. Hann var í þeirri stöðu þegar hann var búinn að játa sekt sína fyrir Guði og biðja í einlægni um syndaaflausn. Og af því að þú Reynir talaðir um tollheimtumanninn og faríseann þá vil ég játa að ég get verið faríseinn en ég er líka tollheimtumaðurinn. Það sama á við um þig því við erum öll í hlutverkunum að hreykja okkur upp á stundum, snúa bakinu í Guð, vera yfir hann hafin og neita tilvist hans en við getum líka verið í því hlutverki að skilja smæð okkar gagnvart náttúruöflunum, gagnvart skaparanum, gagnvart náunganum og við fyllumst auðmýkt, þakklæti og virðingu gagnvart hvert öðru, sköpuninni og höfundinum. Hlutskipti tollheimtumannsins er það rétta en það er ekki þar með sagt að við séum alltaf í þeim anda. Þau sem telja sig alltaf vera í hugarfari tollheimtumannsins eru hreinræktaðir farísear. Vegna þess að okkur reynist oft svo örðugt að vera auðmjúk og segja: Drottinn, vertu mér syndugri miskunnsamur! þá þurfum við sérstaklega á miskunn og fyrirgefningu Guðs að halda.

Davíð konungur sem skrifaði sálminn sem ég vitnaði í fór illa að ráði sínu. Þegar hann sá Batsebu eiginkonu Úría Hetíta baða sig um nótt í næsta nágrenni hallarinnar lét hann senda eftir henni. Hann girntist þessa undurfögru konu. Það þarf ekki að fjölyrða um eftirleikinn. Þau elskuðust og Batseba varð ófrísk. Á sama tíma var Úría að vinna lönd fyrir Davíð. Þegar Davíð sá að hann var kominn í klípu reyndi hann að klóra sig út úr vandanum með því að kalla Úría heim svo að það liti út sem hann hefði barnað konu sína. Úría var svo hliðhollur konungi að hann sagðist ekki ætla að hafa það huggulegt hjá konu sinni á meðan félagar hans væru að berjast fyrir konung svo að hann svaf við hallardyrnar. Í stað þess að játa stöðuna eins og hún var og reyna að greiða úr henni setti Davíð Úría fremst í bardagann svo að hann félli örugglega. Allt gekk það eftir og Davíð tók Batsebu til sín í höllina. Hann bætti aðeins við rangindi sín þegar hann ætlaði að snúa sig út úr þeim með klækjum. Með athöfnum sínum var hann að flýja Guð sem ekki samþykkti athæfi hans. Þegar barnið fæddist dó það nokkurra daga gamalt. Það er sagt frá því að á þeim tíma hafi Davíð verið dag og nótt frammi fyrir Guði í bæn. Líklega hefur sálmur 32 orðið til undir þeim kringumstæðum. Upplifun Davíðs var: 3Meðan ég þagði tærðust bein mín, allan daginn stundi ég 4því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsþróttur minn þvarr sem í sumarbreyskju. 5Þá játaði ég synd mína fyrir þér og duldi ekki sekt mína en sagði: „Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni.“ Og þú afmáðir syndasekt mína. 6Biðji þig þess vegna sérhver trúaður meðan þig er að finna. Sálm. 32.3-6 Í upphafi sálmsins kom hann með niðurstöðuna: „Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin.“ v.1 Hann hafði ekki getað hulið syndaslóð sína. Hún æpti á hann og hann flúði sjálfan sig, eigin gjörðir og auglit Guðs. Hann sneri baki í Guð í skömm sinni, á þeim tímapunkti var hann óguðlegur. Þetta er formálinn að versinu sem ég notaði um óguðlegan sem upplifir miklar þjáningar. Þjáningin Davíðs fólst í því að vilja ekki horfast í augu við eigin verk sem voru röng. Hann vildi njóta sætleika eigin girndar og reyndi að fela slóð sína með blóði drifinni slóð. Innst inni vissi hann að hann var ekki á réttri braut en hann réði ekki við sig. Sjálfselskan, girndin og sjálfsvörnin gegn álitshnekki o.s.frv. leiddi hann áfram á asnaeyrunum. Davíð kenndi til undan þessu á meðan hann þagði, það var ekki fyrr en hann viðurkenndi stöðuna fyrir sjálfum sér og Guði og grátbað um fyrirgefningu sem honum fór að létta. Hann var þarna í ferli 12-sporanna. Þau eru dýrmæt leið um það hvernig við getum náð þroska og farsæld í glímu við lífið. Hugsun 12-sporanna fellur algjörlega að hugsun Biblíunnar. Þar er gert ráð fyrir þessari sífelldu endurskoðun, játningu, fyrirgefningu og yfirbót. Þegar ég tala um í predikuninni að hinn óguðlegi sé ekki tilbúinn að horfast í augu við sjálfan sig o.s.frv. eins og stendur að ofan þá er ég með Davíð og sjálfa mig í huga alveg eins og hvern annan. Davíð var óguðlegur vegna þess að hann leit undan Guðs ráði um rétt og rangt. Það má segja að það hafi verið óvarlegt hjá mér að skilgreina ekki betur hugtakið óguðlegur í þessu samhengi því það hefur greinilega misskilist hjá einhverjum vantrúuðum. Þakka þér Reynir fyrir að benda mér á það og biðst ég velvirðingar á því.

Í þessu felst ekki að óguðlegir/þau sem trúa ekki á Guð iðrist ekki synda sinna. Þau geta séð eftir því ranga sem þau finna til undan að þau hafa gert og vilja bæta fyrir það og það er gott. En vantrúaðir eru væntanlega svipaðir trúuðum með það. Sumir eru heiðarlegir, ærlegir og vandaðir einstaklingar hvort sem þeir eru trúaðir eða vantrúaðir. Aðrir eru það ekki í báðum hópum. Því miður eru til ömurleg dæmi um að trúaðir einstaklilngar hafi komið illa fram og það er ekki gott. Jafnvel hefur það gerst að einhverjir nota trúna sem tæki til að breiða yfir illvirki sín og það er virkilega sorglegt. Ekki afsaka ég það. En taki einstaklingur trúnna alvarlega og af heilindum fer hún bæði að græða dýpstu sár, leysa fólk undan ýmsum skekkjum og móta það til góðra siða.

Það er fleira í 18. kafla Lúkasar en faríseinn og tollheimtumaðurinn eða ríki höfðinginn sem þú vitnar í. Jesús tók á auði mannsins af því hann var hjartfólgnastur honum. Hann hefði alveg eins getað talað um fjölskyldu, starf eða annað ef það hefði átt allan hug mannsins. Jesús var að benda á að ef við viljum tilheyra honum þá getur aðeins verið einn konungur í hjarta okkar og það er Jesús. Þetta reynist hverjum manni erfitt á öllum öldum.

Í upphafi kaflans hvetur Jesús fólk til að biðja án afláts. Samkvæmt hvatningu minni í predikuninni segir Guðs orðið að við sem erum kristin eigum að elska alla menn. Það er ekki létt krafa. Ekki get ég uppfyllt hana en reyni að gera mitt. Þess vegna bið ég fyrir þér og öðrum vantrúarvinum um stund. Ekki stöðugt eins og ég ætti að gera því mig skortir meiri kærleika til þess. En ég ætla að dvelja í bæn fyrir vantrúuðum eins og ég get.

Með von um að við virðum hvort annað þrátt fyrir ósamrýmanlegar skoðanir.


G2 (meðlimur í Vantrú) - 26/05/11 16:51 #

Ja, mikið helvíti! Ég held að Bára hafi með þessum langhundi sýnt býsna nákvæmlega hvað er að því að reyna að heimfæra biblíuna upp á nútímann.


Hjalti Rúnar Ómarsson (meðlimur í Vantrú) - 26/05/11 16:53 #

Þegar barnið fæddist dó það nokkurra daga gamalt.

hóst

Drottinn sló barnið, sem kona Úría hafði fætt Davíð, svo að það varð sjúkt. ... En á sjöunda degi dó barnið. (2Sam 12.15,18)


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 26/05/11 17:00 #

Kærar þakkir fyrir svarið, Bára. Ég virði þig fyrir þessa útskýringu.

Það er vissulega athyglisvert að fá að skyggnast svona inn í hugarheim prests.

Ég veit að bænakvakið, hvort sem það er stöðugt eða aðeins um stund, er vel meint en yfirlýsingar um efni þess eða lengd fara oft illa í trúleysingja. Í fyrsta lagi ætti að vera óþarfi að segja Guði fyrir verkum eða blíðka hann (hvað þá fyrir annarra hönd). Svona yfirlýsingar lykta líka dálítið af yfirlæti (en ég er ekki að saka þig um það). Það ætti að vera augljóst að trúleysingja er engin þægð fólgin í því að vita af bænakvaki trúmanna. Þér væri eflaust jafnlítil þægð í því ef ég segðist ætla að þurrka iður hænu fyrir þig og grafa undir torfu svo vættir Kjalarness tækju þig í náðina.

Ég skal hugsa hlýtt til þín, Bára.

"Fyrst þú ætlar að biðja fyrir mér skal ég hugsa fyrir þig." :)


Bára Friðriksdóttir - 26/05/11 23:42 #

Ég hélt þú værir að meina að þú ætlaðir að hugsa fallega til mín. :)

Njóttu dagsins Reynir og þið öll önnur sem lesið.


caramba - 31/05/11 22:34 #

Áhugaverð predikun séra Báru, ekki síst orð hennar um túlkanir á biblíunni. Tek það fram strax að ég virði þennan prest sem einstakling en hef enga samúð með málstað hans og enn síður "málstað" vantrúaðra.

Kristindómurinn leið að miklu leyti undir lok með Jesú Kristi. Þá tóku við túlkanir karismatískra leiðtoga sem byggðu upp innbyrðis stríðandi valdastrúktúra sem ekkert eiga skylt við kærleiks- og jafnréttisboðskap meistarans frá Nasaret - og höfðu þann tilgang einan að festa sig í sessi og framlengja sjálfa sig. Kæmi Kristur aftur yrðu þessir prelátar kristindómsins fyrstir til að krossfesta hann á nýjan leik eins og Dostojevski rekur í frægri sögu um rannsóknardómarann í Karamazov-bræðrunum.

Tökum t.d. saklausan íslenskan þjóðkirkjumann/konu. Aðspurður kveðst hann vera Lútherstrúar. Hvaða trú er það? Lúther var eitt af verstu illmennum sögunnar. Hann hvatti til blóðugra gyðingaofsókna og lagði á ráðin um morð og pyndingar á tugþúsundum í bændauppreisninni á þriðja tug 16. aldar. Þúsundir sértrúarflokka hafa sprottið upp af ritum hans og útleggingum, hver með sína eigin esóterísku, bókstafsþrælkandi biblíutúlkun. Mannvonsku Lúthers, Kalvíns og annarra karismatíkera, trúboða og ofstækismanna er síðan snúið upp á Krist, einn göfugasta einstakling mannkynssögunnar. Í mörgum ritum gamla testamentisins eru kröftugar og blóðidrifnar lýsingar á hirðingjaguði sem valdsmenn, klerkar og höfðingjar ættkvíslanna höfðu skapað í sinni eigin mynd til að halda undirsátunum í skefjum. Vantrúaðir þreytast ekki á að útmála illsku hans og bellibrögð. Þeir telja hana, þessa ævafornu ímynd hins grimma og duttlungafulla ættarhöfðingja, helsta vopnið í baráttu sinni við trúarbrögð í nútímanum. Sorglegt. Þetta eiga að heita upplýstir tímar en jafnvel vænsta fólk kýsa að eyða tíma sínum í baráttu við drauga sögunnar


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 01/06/11 08:11 #

Caramba, ég fæ ekki betur séð en að þú takir heilshugar undir málstað vantrúaðra.

Við gerum okkar besta til að kveða niður þessar draugasögur og furðutúlkanir á kristninni og teljum það eðlileg viðbrögð þegar svo mikið púður fer í boðun þeirra.


Hanna Lára (meðlimur í Vantrú) - 01/06/11 12:05 #

Elskurnar mínar. Þetta er allt í lagi. Skv. bréfi Báru erum við bara 'tæknilega' óréttlát, siðlaus og í alla staði ómerkilegar manneskjur.

'Tækniorð' er eiginlega alveg frábært tæki fyrir þá sem eðlilega vilja ekki missa af feitu bitunum úr okkar sameiginlega aski.

Þannig er það 'tæknilegt' hvernig biblían er túlkuð hverju sinni; hvaða sögur eru notaðar til að predika yfir lýðnum og hvaða lærdóm megi draga af hverju orði biblíunnar.
Mér finnst raunar stórmerkilegt að fólk telji biblíuna 'guðs orð' en sætti sig einnig við að þrátt fyrir að 'guð sé óskeikull, alvitur og algóður' þá hafi honum samt mistekist herfilega að gera sig skiljanlegan. Það er enga ritstjórn af hans hálfu að sjá á 'hans eigin orði'.

En þetta eru góðar fréttir. Samkvæmt orðum Báru getum við alltaf borið fyrir okkur að hvað svosem við segjum, þá sé það einfaldlega ´tækniorð'. Þegar háttsettir (les: háttlaunaðir) einstaklingar á opinberum vettvangi senda okkur trúlausum tóninn og lýsa okkur heimsk, siðlaus, ofbeldishneigð og sneydd kærleika þá er það í lagi: þetta eru tækniorð.

Ég vildi svo gjarnan nota einhver 'tækniorð' yfir það sem ég er að hugsa einmitt núna, en ég er, þrátt fyrir allt, of vönd að virðingu minni til að láta það flakka.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.