Allar færslur Allir flokkar Sos Um félagið Úrskráning Lógó Spjallid@Vantru Póstfang Vantru@Facebook Vantru@Youtube Vantru@Twitter

Krossinn, Ekron, ríkiskirkjan, Hvítasunnusöfnuðurinn, Byrgið og Bjarg

Barn

Þegar þetta er skrifað herma fréttir að Gunnar í Krossinum hafi verið í yfirheyrslu hjá lögreglu vegna ásakana um kynferðisbrot og reyndar að hann sé „mjög bjartsýnn á góða niðurstöðu“. Skammt er síðan að forstöðumaður kristilegu samtakanna Ekron var kærður fyrir kynferðisbrot. Í haust kom líka í ljós að framkvæmdastjóri Hvítasunnusafnaðarins dró sér tugi milljóna króna.

Á sama tíma er Guðmundur í Byrginu nú Guðmundur í grjótinu en sveitungi hans Gunnar sóknarprestur á Selfossi var verðlaunaður fyrir sína framgöngu með sérverkefni á biskupsstofu. Barnaníðingurinn séra Helgi Hróbjartsson sólar sig hins vegar líklega í Noregi – ef hann er þá ekki aftur farinn til „starfa“ í Afríku.

Hin heilaga, almenna kirkja... ríkiskirkjan, er enn að vandræðast með mál fyrrum biskups og fyrsta æskulýðsfulltrúa kirkjunnar, Ólafs Skúlasonar, en nú er ár liðið frá því að kirkjan lýsti yfir að hún ætlaði að koma á fót „rannsóknarnefnd“ til að takast á við ósómann og hversu kauðslega var á honumí tekið.

Er það ekki kostulegt að einmitt á þessum tímum tali biskup Íslands um „andlegt skipbrot guðleysisins, mannhyggjunnar, vísindalegrar efnishyggju, eins og það hét, í helju Gúlagsins, illskunnar, mannfyrirlitningarinnar“? Vantar okkur fleiri guðsmenn eða stærri skammt af kristnu siðgæði?

Það skal viðurkennt að þessi grein má teljast högg undir beltisstað – en sumum veitti einmitt ekki af höggi... einmitt þar. Við erum ekki að fordæma skóginn út frá einu fölnuðu laufblaði heldur að benda á fjölda brostinna krosstrjáa í veikri von um lækkandi rosta sumra.

Ef allt þetta fólk fær í gullsölum himnanna gist
sem gerir sér mat úr að nugga sér utan í Krist,
þá hlýtur sú spurning að vakna hvort mikils sé misst
ef maður að síðustu lendir í annarri vist.

-Jón Helgason

Reynir Harðarson 28.04.2011
Flokkað undir: ( Siðferði og trú )

Viðbrögð


Sólveig Guðnadóttir - 28/04/11 20:11 #

Rosalega er gaman að lesa greinar eftir þig Reynir, þú ert snillingur


Arnar Guðlaugsson - 29/04/11 16:08 #

Hvorki fallin lauf eða brotin krosstré. Skógurinn er ræktaður í sandi og kaffærist.


Guðmundur - 30/04/11 17:46 #

Mann grunar óneitanlega að margir þeir sem teljast afar trúaðir finnist þeir geta notað trú sína sem skálkaskjól og hagað sér sjálfir eins og bestíur. Og svo ætti háttvirtur biskup að lesa þessa grein: Why do Americans still dislike atheists?


Hörður Halldórsson. - 01/05/11 21:03 #

Það eru til heilbrigðar kristilegar trúarvakningar sem hafa leitt til endurbóta og bætts hugarfars fólks og hvatt fólk til betra lífs. Dæmin hér fyrir ofan særa trúað fólk.


Katla Björg Kristjánsdóttir - 03/05/11 03:43 #

Oft sækja perrar í sakleysislega titla, því miður. Kirkjur eru kjaftæði!


Steingrímur - 04/05/11 14:40 #

"Barnaníðingurinn séra Helgi Hróbjartsson sólar sig hins vegar líklega í Noregi – ef hann er þá ekki aftur farinn til „starfa“ í Afríku".

Helgi Hróbjartsson fer aldrei aftur til starfa fyrir nein kristniboðssamtök nokkurntíma. Aldrei. Það var tekið fram í fréttum á sínum tíma og ætti að vera öllum fullkomlega ljóst. Því er alger óþarfi að ýja að því að hann hafi farið aftur til Afríku til kristniboðsstarfa.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 04/05/11 18:12 #

Því er velt upp hvort hann hafi farið aftur til "starfa" í Afríku, ekkert minnst á bölvað kristniboðið.

Satt best að segja gæti ég vel ímyndað mér að hann langi þangað og þangað getur hann vissulega farið óháð öllum fréttaflutningi. Aldrei að segja aldrei.

Þeir sem "hrasa" þykja oft flottastir í þessari kreðsu, þegar þeir þykjast hafa séð ljósið - enn einu sinni. Sumir læra af sögunni, aðrir ekki.


Jón Ferdínand - 05/05/11 00:59 #

Særa þau trúað fólk? Æ æ, mikið þykir mér það leitt. Það særir allt skynsamlegt fólk að þessir menn skuli fá að ganga lausir.


Reynir (meðlimur í Vantrú) - 02/07/11 14:47 #

Hvað sagði ég?

Níðingsprestur aftur til Eþíópíu

Presturinn Helgi Hróbjartsson hefur dvalið í Eþíópíu í að minnsta kosti þrjá mánuði það sem af er árinu. Hann hefur um árabil stundað þar trúboð en hann viðurkenndi nýlega að hafa misnotað þrjá íslenska drengi fyrir um 25 árum síðan. Málið var vinum og kunningjum Helga mikið áfall en Helgi hafði fram að því verið þekktur fyrir óeigingjarnt starf og hafði ósérhlífni hans vakið eftirtekt út fyrir landsteinana.

Samkvæmt heimildum DV hefur Helga verið úthýst úr kristniboðafélaginu sem hann vann áður fyrir og hefur prestum og öðrum starfsmönnum kirkna á svæðinu verið gert viðvart um kynferðisbrot Helga. Þá hafa forsvarsmenn kirkjunnar á svæðinu þar sem Helgi hefur dvalið áhyggjur af veru hans í bænum.

Lokað hefur verið fyrir athugasemdir við þessa færslu. Við bendum á spjallið ef þið viljið halda umræðum áfram.